SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir 4. apríl 2022

Í LÍMKENNDU MINNI ALDANNA. Um Stóra skjálfta

SKJÁLFTI er mynd eftir Tinnu Hrafnsdóttur, byggð á skáldsögu Auðar Jónsdóttur, Stóri skjálfti, frá 2015 . Vert er að rifja upp hvað gagnrýnandi hafði um þá bók að segja á sínum tíma.
 
Titill bókarinnar gefur til kynna eitthvað afdrifaríkt. Hann er lokahrinan, þegar uppsafnaðir kraftar brjótast út, eftir hann er allt breytt, kannski horfið eða hrunið. Eins og í tilfelli Sögu en hún rankar við sér eftir heiftarlegt flogakast og man sáralítið út lífi sínu. Hún fetar sig hikandi í gegnum óminnið og kemst brátt að því að hún er nýskilin við rithöfundinn Berg og þau eiga einn son, Ívar. Hún hefur alist upp við drykkju og ofbeldi föður síns sem steyptu fjölskyldunni í ógæfu. Síðan þá grúfir sorgin yfir og aldrei grær um heilt; ótti, meðvirkni og bæling hvíla á öllum eins og mara.
 
Sjúk sambönd
Í slíkum fjölskyldum verða til sjúk sambönd milli fólks. Duldar reglur verða til um hlutverk hvers og eins, hvað má segja og hvað ekki í brengluðu samskiptamynstri sem allir mótast af. Auður hefur áður fjallað um þetta efni af raunsæi, innsæi og list, s.s. í Fólkinu í kjallaranum (2004) og Ósjálfrátt (2012).
 
Þegar Saga kemur til baka úr floginu og hefur glutrað niður reglunum og mynstrinu sem hafa stjórnað samskiptum í fjölskyldunni fer allt á hvolf. Viðbrögð hennar t.d. við hvarfi móðu sinnar sem Saga upplifði sem barn eru önnur en hinir eiga að venjast sem veldur tortryggni en skapar um leið mögulegt svigrúm fyrir lausnir og uppgjör.
 
Saga hefur alltaf upplifað sjálfa sig sem fyndna og klára konu sem hristir af sér vandamálin (110) og krækir framhjá öllu því óþægilega en eftir skjálftann er hún vanmáttug og ráðalaus og líður eins og líf hennar hafi verið fáránlegt. Hún hefur algjörlega misst fótanna og finnst hún vera að sligast undan þunga eigin tilveru (226). Sjálf vill hún ekki brjótast úr hlutverki sínu og raska venjum fjölskyldunnar, hún reynir að leyna minnisleysinu fyrir sínum nánustu og breiða yfir misfellurnar af gömlum vana, sem skapar skrautlega atburðarás.
 
Syndir feðranna
Sagt er að syndir feðranna komi niður á börnunum og það gera þær svo sannarlega hér. Pabbi Sögu var yfirgefinn, ástlaus og vanræktur í æsku og bar þess aldrei bætur. Mamma hennar átti þunglyndan og fálátan föður og móður sem drekkti sér í vinnu og stjórnaði með augnaráðinu einu saman. Marvaðinn er troðinn endalaust í límkenndu minni aldanna og spurt er hvort nokkurrar undankomu sé auðið (177). Saga sjálf á í flóknu ástar-/haturssambandi við foreldra sína sem eru sligaðir af áralangri þöggun og bælingu og hvað bíður Ívars litla ef vítahringurinn er ekki rofinn? Hún þurfti svo sannaralega á því að halda að missa minnið til þess að muna (225).
 
Drekinn
Í bókinni eru margir þræðir spunnir. Einn þeirra er hlutverk mannsheilans við varðveislu minninga. Svokallaður dreki (hippocampus) er talinn sjá um að flokka minningar í eins konar gagnabanka en þegar Saga reynir að sækja upplýsingar þangað og púsla tilverunni saman á ný valda erfiðu minningarnar hræðilegum höfuðverk, fortíðin bankar upp á og sýnir enga miskunn enda löngu komið að skuldadögum.
 
Í skáldsögu Stine Pilgaard sem heitir Mamma segir (2012) er fengist við höfnun, uppeldi og ástarsorg og meginuppistaða hennar er langir og ljóðrænir kaflar um drekann (í líki sæhests) og hlutverk hans í minningasafninu. Skemmtileg tilviljun. Það verður sífellt áleitnara í samtímaskáldskap að fjalla um minni og minningar, grafast fyrir um fortíðina, uppeldið og áhrif þess á sjálfsmynd og tilvist manneskjunnar.
 
Gömul reiði
Annar þráður verksins er flogaveikin sem er lýst sem árásarmanni og nauðgara, sem liggur í leyni og getur ruðst fram hvenær sem er til að taka stjórn og koma fram vilja sínum. Og ástin er enn eitt umfjöllunarefnið, en gengur hún ekki út á að safna góðum minningum og skapa nýjar? Eða gengur hún út á erfiðar minningar sem fólk á sameiginlegar og reynir að vinna úr? Gömul reiði er versti óvinur ástarinnar og það sannast í samskiptum Sögu og Bergs , sjúklegur ótti hennar um soninn á rætur að rekja til fjölskylduhörmunganna sem hún upplifði sem barn og hafa aldrei verið gerðar upp. Saga er stjórnsöm og bitur og pirrast endalaust á manninum sínum sem á endanum gefst upp á henni. Eftir stóra skjálftann man Saga aðeins góðu stundirnar með Bergi en það er sorglega augljóst að arfurinn úr uppeldinu hefur fylgt henni og eyðilagt sambandið.
 
Sagan kraumar af sárum tilfinningum sem umlykja orð og athafnir persónanna sem eru vanar að dylja það sem þeim býr í brjósti. Við vinarþel gjósa þær og streyma fram, það lætur engan ósnortinn:
 
...Það skiptir ekki máli héðan í frá. Þú gerðir það sem þú gast.
Hún horfir vantrúuð á mig.
Ég er viss um það, segi ég.
Þú getur ekki verið viss, segir hún og kæfir grát í fæðingu.
Þú passaðir mig alltaf, bæti ég við, sjálfri mér að óvörum og finn þakklæti leysa upp kökkinn í hálsinum. Ekki gleyma því!
Hún brosir feimnislega meyr en það þyrmir jafnóðum yfir hana.
(203)
 
Gjöf og gjald
Minnisleysi getur verið bæði gjöf og gjald, í gleymskunni er maður alltaf nýr og ferskur og eins og laus undan oki en um leið einhvern veginn úr samhengi og týndur. Það er ögrandi viðfangsefni í skáldskap að koma hlutlaus að málum og hafa annað sjónarhorn og minningar en aðrir og ekki síður að velta upp spurningum um hvernig mörkum minninga og ímyndunar er háttað.
 
„Nú veit ég að allt sem ég hef gleymt hefur gert mig að mér, ég er summan af eigin gleymsku. Og ég held áfram að gleyma, það styttist í að ég gleymi sjálfri mér. En óminnið getur aldrei eytt því sem gerðist, atburður lifir í eftiröldum sínum og ást sem eitt sinn var, hún var, og það sem var, það verður. Söknuðurinn er sönnun þess. Þá hlýtur veröld mín að vera eitthvað meira en skáldskapur...? (230)
 
Sagan stefnir að óumflýjanlegu uppgjöri sem sviðsett er með áhrifamiklum réttarhöldum. Sögulokin eru opin til túlkunar, eru kannksi einmitt Sögulok. Stóri skjálfti er vel skrifuð saga um áleitið efni, um raunverulegt vandamál, upplausn og lífsháska. Erum við ekki öll að burðast með okkar eigin sögu, áföll og fjölskyldudrama, í leit að merkingu og sátt í trylltum heimi?
 
(Á smekklegri bókarkápunni sem Lubbi hannar er heilalínurit höfundarins sem minnir helst á plötuumslag Joy Division, Unknown Pleasures, söngvari þeirrar hljómsveitar var flogaveikur...)
 
Birt fyrst í Kvennablaðinu sáluga.

 

 

 

Tengt efni