SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir17. apríl 2022

„SVÍFA HAUSTLAUF TIL JARÐAR.“ Spjallað við Áslaugu á Heygum

Áslaug á Heygum sem var bæði myndlistar- og skáldkona, sendi frá sér eina ljóðabók árið 1970 og var tekið viðtal við hana í Morgunblaðinu af því tilefni:

Spjallað við Áslaugu á Heygum Viðtal í Mbl. 23. mars 1971

„Tveimur dögum fyrir jól kom út lítil ljóðabók, Við hvítan sand, eftir listakonuna Áslaugu á Heygum. Að vonum náði bókin engum auglýsingum eða umsögnum, sem hún átti þó sannarlega skilið, og hún má ekki falla í gleymsku, svo að við lögðum leið okkar heim til listakonunnar á dögunum, í Granaskjólið, og fengum að spjalla við hana stundarkorn um bókina.

 

Áslaug á Heygum, nafnið bendir til þess, að þú sért ættuð frá Færeyjum?

„Rétt er það. Faðir minn var færeyskur, frá Heygum á Straumey, en móðir mín var dönsk, og sjálf er ég fædd í Danmörku, þótt ég sé fyrir löngu orðin íslendingur, því að hér hef ég alizt upp. Við móðir mín fluttumst frá Danmörku, þegar faðir minn dó, en þá var ég 5 ára, og fluttumst við fyrst til Vestmannaeyja.“

 

Hefur þú áður gefið út ljóðin þín?

„Nei, þetta er í fyrsta skipti: ég hef aðallega fengizt við grafíklist, en datt svo í hug að tengja saman myndir og ljóð, enda sérðu, að grafikmynd fylgir hverju ljóði, en þetta eru 25 ljóð.“

 
 Hvort verður þá fyrr til, ljóðið eða myndin?

„Ljóðið verður til fyrst, og síðan teikna ég myndina í anda ljóðsins.“

Hvar lærðir þú grafík, Áslaug?

„Ég var fyrst hér í Handíðaskólanum. Þá var Lúðvík Guðmundsson skólastjóri, en Kurt Zier aðalkennari. Síðan lá leið min til Zürich, og þar lærði ég málun og teikningu í eitt ár, en síðan hélt ég til akademíunnar í München, og lærði þar grafík hjá prófessor Tierman, og var ég þar í 2 ár, og við hjónin bæði þar við nám, því maðurinn minn, Magnús Magnússon skólastjóri við Höfðaskóla stundaði þar samtímis nám í uppeldisfræðum. Við fórum utan 1953, og árið 1957 komum við svo aftur til Íslands. Nei, ég skíri ekki ljóðin mín, finnst það óþarfi, þar eð myndir afmarka þau öll. Bókin er gefin út hjá Heimskringilu og prentuð hjá Eymundi Magnússyni."

 
Nú eru ljóðin þín órímuð, Áslaug. Falla þér rímuð ljóð síður í geð?
 

„Nei, alls ekki, en mér finnst órímuð ljóð falla betur að myndunum, eiga betur við mig, en ég kann vel að meta hin rímuðu. Þó fínnst mér eins og rímið trufli stundum, en þó ekki hjá stórskáldunum.

Er það ekki rétt, að þú hafir stuðlað að grafíksýningu perúíska grafíklistamannsins Moll hér í Handíðaskólanum í fyrra?

„Jú, Edurado Moll frá Perú er skólafélagi minn, við numum bæði samtímis grafík hjá prófessor Tierman. Moll er vel þekktur listamaður, sem býr nú í München.

Hvaða ljóð þitt tekur þú fram yfir önnur í bókinni Við hvítan sand, Áslaug á Heygum? Listakonan hugsar sig nokkuð um, en segist svo halda, að það sé á bls. 25 í bókinni.

 

Það ljóð er á þessa leið:

 
 

„Fellur regn

 

í svartan svörð

 

gljúpan

 

þyrstan svörð

 

hvar ertu ástin mín

 

sem brostir

 

til mín í vor 

 

svífa nú lauf til jarðar

 

svífa

 

haustlauf til jarðar

 

Og með það kveðjum við Áslaugu á Heygum á vinalegu heimili hennar við Granaskjólið, i grænmáluðu húsi, klæddu bárujárni, og trén í húsagörðunum voru rúin laufum, haustlaufin voru fallin, höfðu svifið til jarðar.

Fr. S.“

 

Áslaug á Heygum er í skáldatalinu.

 

Tengt efni