SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Áslaug á Heygum

Áslaug fæddist í Danmörku, 15. ágúst 1920, einkabarn Emmu og Ólafs á Heygum í Færeyjum. Kornung fluttist hún með foreldrum sínum til Færeyja, en er hún missti  föður sinn, brá frú Emma á það ráð að flytjast með hana til Vestmannaeyja, þangað sem systir hennar var komin og hafði stofnað baðhús. Báðar voru þær systur lærðar frá Skodsborg i greinum baða, nudds og líkamsræktar. Siðan ráku þær saman baðhúsið í Eyjum. Áslaug var á unglingsárum í skóla í Danmörku og dvaldi í Færeyjum, sem hún kenndi sig við.

Í Eyjum kynntust þau Áslaug og Magnús Magnússon, skólastjóri Höfðaskólans í Reykjavík, og festu brátt ráð sitt. Allan hjúskap sinn bjuggu þau í Reykjavik og áttu einn son, Orra Ólaf. Áslaug sendi frá sér eina ljóðabók sem hún myndskreytti sjálf. Fjögur ljóð úr bókinni voru birt í bókmenntatímaritinu Stínu, 2008. Á kvennaáratugnum var hún áberandi innan FÍM ásamt Nínu Tryggvadóttur, Barböru Árnason, Gerði Helgadóttur,  Eyborgu Guðmundsdóttur og Ragnheiði Ream.

Björn Th. Björnsson ritaði minningargrein um Áslaugu í Þjóðviljann:

„...stundaði Áslaug framhaldsnám í myndlistum i Zürich og München, en hneigðist jafnframt að ljóðaskáldskap. Upp úr því hvorutveggju spratt fögur bók með ljóðum hennar og teikningum, Við hyítan sand, sem Heimskringla gaf út árið 1970. Af ljóðum og myndum þeirrar bókar má glöggt sjá, hve fíngerðan vef sálarlíf hennar var slegið. Ljóðin eru eins og hún, innhverf og íhugul, fáguð og nákvæm. Í augum hennar var athöfnin hið ytra aðeins hluti raunverunnar; það sem undir bjó var henni löngum stærri veröld og margslungnari. Í þeim efnum hafði hún og gengið í langan skóla.

Engan veit ég í vinahópi mínum né kunningja sem las eins mikið af góðum bókmenntum og Áslaug. Klassísku höfundarnir rússnesku, nýju stefnurnar í þýskum bókmenntum, spænsk og frönsk heimspekirit og bækur um listir, það var hennar kjörlestur. Og sama var hvort það voru norðurlandamálin, enska, þýska eða franska sem hún bar sér fyrir augu.

Um langt árabil gekk Áslaug ekki heil til skógar. Þó hefði engan grunað það sem ekki þekkti nánar tíl, svo fallega sem hún var á sig komin, smágerð, hýr, mjúkrómuð, hláturmild og skapprúð með eindæmum.“

Sjá einnig viðtal við Áslaugu frá 1970 í Mbl.

Áslaug lést árið 1975, aðeins 55 ára að aldri. Hún hvílir í Fossvogskirkjugarði.


Ritaskrá

1970 Við hvítan sand

Tengt efni