SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Júlíana Jónsdóttir

Júlíana Jónsdóttir fæddist 27. mars 1838 á Búrfelli í Hálsasveit.

Júlíana ólst upp hjá föðurafa sínum og konu hans á Rauðsgili í Reykholtsdal. Eftir að hafa unnið víða á bæjum í Borgarfirði frá unga aldri flutti hún um tvítugt í Akureyjar á Breiðafirði og var þar vinnukona í 14 ár hjá sr. Friðrik Eggertz. Úr Akureyjum flutti hún í Stykkishólm, þar sem hún vann fyrir sér með ýmsum störfum.

Um 1885 fór Júlíana síðan til Vesturheims. Fyrst dvaldi hún í Norður-Dakóta og Winnipeg en flutti síðan í nágrenni Seattle. Þar vann hún fyrir sér með heimilishjálp og barnapössun.

Síðasta ár ævinnar bjó Júlíana á heimili íslenskra hjóna í Blaine. 

Eftir Júlíönu komu út tvær ljóðabækur. Sú fyrri hét einfaldlega Stúlka og gaf Júlíana hana út sjálf á Akureyri árið 1876 og var það fyrsta ljóðabókin sem kom út eftir konu á Íslandi.

Seinni bók sinni gaf Júlíana titilinn Hagalagðar og var hún gefin út í Winnipeg árið 1916.

Eftir Júlíönu liggur einnig leikritið Víg Kjartans Ólafssonar. Það var sviðsett í Stykkishólmi veturinn 1879 og lék Júlína sjálf aðalhlutverkið, Guðrúnu Ósvífursdóttur. Leikritið kom út á bók 2001 í ritstjórn Helgu Kress.

Júlíana lést 12. júní 1917, ógift og barnlaus.

Heimildir og frekari upplýsingar um Júlíönu má finna á eftirfarandi vefsíðum:

  • Vefsíða Héraðsskjalasafns Skagfirðinga, sjá hér.
  • Vefsíða Dalabyggðar, sjá hér
  • Vefsíðan Lestu.is, sjá hér.

Ritaskrá

  • 1916  Hagalagðar (ljóð)
  • 2001  Víg Kjartans Ólafssonar (leikrit, skrifað 1879)
  • 1876  Stúlka (ljóð)

 

Tengt efni