SKÁLDMÆÐGUR
Elísabet Jökulsdóttir (f. 1958) er afkastamikill höfundur. Hún hefur sent frá sér fjölda verka, ljóð, skáldsögur og leikrit, og er þessa dagana verið að sýna verk hennar Blóðugu kanínuna í Tjarnarbíó. Móðir hennar Jóhanna Kristjónsdóttir (1940-2017) skrifaði skáldsögur, ljóð og sjálfsævisögur og fékkst að auki við þýðingar. Hún sendi síðast frá sér Svarthvíta daga árið 2014.
Magnea Matthíasdóttir (f. 1953) hefur bæði sent frá sér bæði frumsamið efni og þýðingar. Hún sendi m.a. frá sér þríleikinn Hægara pælt en kýlt 1978, Göturæsiskandídatar 1979 og Sætir strákar 1981 sem vöktu mikla athygli. Móðir hennar Ingibjörg Jónsdóttir (1933-1986) var afkastamikill höfundur og þýðandi; hún þýddi t.d. fyrstu þrjátíu bækurnar í hinni sívinsælu ritröð um Ísfólkið eftir Margit Sandemo.
Salka Guðmundsdóttir (f. 1981) hefur skrifað tvö leikrit, hið fyrra kom út árið 2011 og nefnist Súldarsker og það síðara kom út árið 2013 og nefnist Hættuför í Huliðsdal. Móðir hennar Olga Guðrún Árnadóttir (f. 1953) hefur samið ljóð, leikrit og smásögur auk þess að frumsemja lög og texta ásamt því að flytja tónlist. Hún sendi m.a. frá sér bókina Búrið árið 1977 sem hefur verið kölluð fyrsta unglingabókin.
Sunna Dís Másdóttir (f. 1983) er ein af Svikaskáldum en þau gáfu út á íðasta ári skáldsöguna Olíu. Móðir hennar er Draumey Aradóttir (f. 1960) en hún hefur skrifað bæði sögur og ljóð auk þess að leggja stund á þýðingar. Hún sendi síðast frá sér þýðingu á verki eftir Jonas Gardell. Þerraðu aldrei tár án hanska - 2 Sjúkdómurinn, sem kom út árið 2013.
Þóra Elfa Björnsson (f. 1939) hefur skrifað bæði sögur og ljóð auk þess að fást talsvert við þýðingar. Nefna má að hún er fyrsti kvensetjarinn á landinu. Þóra Elfa sendi síðast frá sér verkið Þvílík eru orðabilin árið 2020. Móðir hennar Halldóra B. Björnsson (1907-1968) fékkst talsvert við ritstörf en síðasta verk hennar er Þyrill vakir og kom út árið 1986 og síðasta þýðingin sem hún sendi frá sér er Bjólfskviða sem kom út árið 1983.