Ritstjórn∙10. janúar 2022
EIN Í HEIMI KARLA eftir Kristrúnu Guðmundsdóttur
Erindi Kristrúnar Guðmundsdóttur af Arnheiðarþingi
16. október á 2021 var haldið málþing í þjóðarbókhlöðu til heiðurs Arnheiði Sigurðardóttur þýðanda í tilefni af því að öld var liðin frá fæðingu hennar á árinu. Hér birtist erindi sem Kristrún Guðmundsdóttir ljóðskáld flutti á málþinginu þar sem hún beinir athyglinni sérstaklega að ljóðaþýðingum Arnheiðar. Áður hefur erindi Soffíu Auður Birgisdóttur verið birt á Skáld.is og má lesa hér. Við þökkum Kristrúnu kærlega fyrir að leyfa okkur að birta erindi sitt.
EIN Í HEIMI KARLA
Við eigum öfluga hefð í ljóðaþýðingum. Nægir að nefna Jón Þorláksson, Jónas Hallgrímsson, Steingrím Thorsteinsson, Matthías Jochumsson, Hannes Hafstein, Einar Benediktsson, Magnús Ásgeirsson, Helga Hálfdánarson. Þessir þýðendur eru einnig margir hverjir skáld. Það gildir einnig um þá sem síðar koma eins og til dæmis Jóhannes úr Kötlum, Halldóru B. Björnsson, Einar Braga, Jón Óskar, Hannes Sigfússon og Jóhann Hjálmarsson.
Ástráður Eysteinsson segir í bók sinni Orðaskil:
það er athyglisvert að við hneigjumst til að „eigna“ þessum íslenskum skáldum hin þýddu ljóð, jafnvel ekki síður en hinum upprunalegu höfundum. Og þeir menn úr þessum hópi sem lögðu megináherslu á þýðingar eins og Jón Þorláksson, Magnús Ásgeirsson og Helgi Hálfdánarson, hafa öðlast fulla „skáldaviðurkenningu“ fyrir verk sín. Af þessu má ráða að ljóðaþýðingar hafa notið virðingar á Íslandi. Þótt slík þýðing spretti af öðrum texta er viðurkennt að með henni er hægt að hasla sér listrænan völl. (Orðaskil, 2017 bls. 19).
Já – slík voru þau orð. Ég dreg þetta hér fram til að varpa ljósi á þann veruleika sem Arnheiður Sigurðardóttir lifir og hrærist í – hvað varðar þýðingar á ljóðum. Hún hins vegar lifir í heimi ljóða að mörgu leyti– hún sagði „Völuspá“ vera stórfenglegt ljóð. Tjáði Halldóri Laxness að þegar hún læsi eitthvað ljóðakyns sem hrifi hana, þá bara lærði hún það. Hún skrifaði ritgerð á háskólaárunum um Jónas Hallgrímsson og náttúruljóð hans. Skrifaði einnig um „Guðrúnarkviðu aðra“. Það var leikur einn fyrir hana að gera grein fyrir „Höfuðlausn“ á lokaprófi til meistaragráðu við HÍ.
Arnheiður birti grein í Eimreiðinni árið 1962 þar sem hún greinir söguljóðið „Halldór Snorrason“ eftir Grím Thomsen. Þar telur hún m. a. að ekki sé ólíklegt að kynni Gríms af erlendum kveðskap hafi leitt athygli hans að því hversu fastskorðað íslenskt ljóðform er og veitir skáldunum oft þröngt svigrúm um orðaval og líkingar - en þetta tvennt segir hún sé Grími höfuðatriði.
Þýska skáldið Rainer Maria Rilke var yndislegt skáld að mati Arnheiðar. Hún þýddi ummæli Rilkes er birtust í Heimsbókmenntasögu eftir Just Birg- um það hvað þyrfti til þess að verða skáld. Þýðing Arnheiðar hljóðar svona:
Það kostar langa ævi að yrkja eitt ljóð, það kostar reynslu. Sá sem ætlar að skapa ljóð, verður að hafa séð margar borgir, orðið fyrir margvíslegum áhrifum. Hann verður að hafa margs að minnast:- æskuáranna, gleði þeirra og vonbrigða, hina stöðugu en undrandi eftirvæntingu þeirra. Hann verður að eiga minningar um ástina og dauðann í öllum myndum þeirra – og það er ekki nóg að eiga minningarnar, þær verða líka að gleymast – þær verða að sökkva í sálina, inn í blóðið, og síðar ef maður bíður með þolinmæði, stígur ef til vill allt í einu fyrsta ljóðlínan fram og svo brjótast hinar fram við hlið hennar.
Já, kröfurnar eru miklar. Og Arnheiður meðvituð um þær!
Hún þýddi grein um Finnlands-sænsku skáldkonuna Edith Södergran sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins vorið 1970. Edith var meðal brautryðjanda í ljóðagerð 20. aldar og í greininni voru brot, sum löng, úr ljóðum eftir hana. Þarna komst Arnheiður ekki hjá því að þýða ljóð „á nútímavísu – án ríms og ljóðstafa“. Enginn minntist á þessa grein við Arnheiði. Hún tók það nærri sér augljóslega. Hún var viðkvæm fyrir áliti annarra. Seinna fékk hún ef til vill skýringuna er hún las þýðingar eftir Jóhannes úr Kötlum á ljóðum eftir Södergran og hún segir sjálf: „það fór hrollur um mig þegar ég minntist frumraunar minnar í nútímaljóðagerð, ljóðabrotanna eftir Edith Södergran“.
Arnheiður var sannarlega ljóðaunnandi. Og hún er að fást við ljóð á öðrum tungumálum. Þó svo opinberlega hafi ekkert birst á þessum árum. Hún kynntist ýmsum norrænum skáldum gegnum tímarit. Og hún er sjálfri sér trú. Hún þýðir eftir konur. Í sama riti og greinin um Edith Södergran var, birtist ljóð eftir norsku skáldkonuna og þýðandann Halldis Moren Vesaas og Arnheiður þýðir kvæðið „Regn“ eftir hana. Hún sýndi móður sinni kvæðið. Mamma hennar var vandlát að sögn Arnheiðar en henni fannst þýðingin góð – gefum Arnheiði orðið: „því miður týndi ég þessari frumraun minni“. Hún talar um frumraun sína. Hugur hennar virðist hafa stefnt í þessa átt. Móðir hennar var hvetjandi og álit hennar skipti Arnheiði máli.
Já, vissulega eru þýðingar skapandi ferli þar sem tungumálið og virkni þess er aðalatriðið, sbr. orð Rilkes hér á undan - langaði hana líka ef til vill að semja ljóð? Eða þýða ljóð? Hvað kom þá í veg fyrir það? Arnheiður – eins og áður sagði - hefur verið meðvituð um viðhorf til ljóðaþýðinga sem skapandi ferli – það er ég viss um. Hún vanmat held ég eigið ágæti sbr viðmiðun hennar á þýðingu sinni á ljóðum Södergran. Þýðingafræðingurinn Georg Steiner segir þýðingar vera nákvæma list. Var það þýðing hennar á Södergran sem kom í veg fyrir áframhaldandi ljóðaþýðingar? Áhuginn virðist sannarlega vera fyrir hendi. Eða voru það orð Rilkes?
Arnheiður gerði miklar kröfur til sjálfrar sín – allt að því óraunhæfar kröfur. Er vert að minnast í þessu samhengi orða Stefáns Zweigs:
Að þýða skáldverk eftir eitthvert ágætt skáld er besti undirbúningur fyrir þann sem vill verða skáld.[1]Hana hafði dreymt um: að semja sögu: helst frá miðöldum, og minnug á þessa ráðleggingu hins mikla vitra skálds, Stephans Zweigs, réðst ég annan veturinn á Reykjum í það vandaverk að þýða Den afrikanske Farm (Jörð í Afríku) og var um vorið búin að þýða meiri hlutann af því mikla ritverki, en lauk því svo um sumarið.[2]
Hún sýnir bókaútgáfunni Norðra á Akureyri þýðinguna og líst mönnum þar vel á verkið. En þá koma persónueinkenni Arnheiðar í ljós ─ einkenni sem oftar en ekki hefta hana í verki ─ hún þorir ekki að láta verkið á prent af ótta við rangþýðingar og ekki síst vegna þess að þýðingin væri ekki samboðin Karen Blixen. Og svo fór sem oftar að annar þýðir verkið og gefur út.
Hvað varðar „Regn“ eftir Halldisi Vesaas sem ég minntist á þá hafði mamma hennar lagt blessun sína yfir þýðinguna. En það dugði ekki til. Arnheiður ákvað sjálf að Jóhannes úr Kötlum hefði þýtt mun betur en hún, ljóð eftir Södergran (væri gaman að bera þessar þýðingar saman).
Arnheiður segir frá því í endurminningum sínum (Mærin á menntabraut) er hún og vinur hennar ræða skáldskap:
þetta (þýðing hennar á orðum Rilkes hér að framan) var einmitt það sem Zier var að segja mér meðan við vorum að reika heimleiðis meðfram Laxá og undir lokin fór hann með hið stórfenglega ljóð Rilkes um Orðið og mátt þess og skýrði jafnharðan. Ég hlustaði á allt þetta hrifin, en með mikilli minnimáttarkennd, því ég var sannfærð um að ég væri ekki efni í skáld …
Hvað fór fram í huga hennar? Faðir hennar var ljóðskáld - langaði hana einnig að semja ljóð? Sjálfsgagnrýni hennar var þvílík að hún stóð sköpun hennar fyrir þrifum. Hún sjálf sem var bergmálið úr röðum íslenskrar æsku skv. vini hennar og hún sem var körlum innan þess feðraveldis svölun í þeirra skapandi athöfnum hvort sem um var að ræða skáldrit eða myndlist. Sköpunargáfa hennar jafnvel ljóðrænni en svo að henni yrði skorinn stakkur eftir blæbrigðum hugsunarinnar. Ef til vill ein skýring þess að hún hélt ekki áfram?
Ég tel mig hafa fundið frumtexta ljóðsins „Regn“ – eftir norska ljóðskáldið Halldis Moren Vesaas. Frumtextinn ber heitið „Mild regn“ og birtist í ljóðabókinni Lykkelege hender frá árinu 1936. Halldis lýsir hér sumarnóttinni þar sem ástin og náttúran allt um kring vakna til lífsins í meðförum skáldsins. Hefði verið gaman að sjá texta Arnheiðar við hlið þessa texta Halldisar og athuga t.d. hvernig hún fór með bragformið. (Ég tel ljóðasmekk Arnheiðar vera sprottinn upp af íslenskri braghefð en hefur síðan mótast undir erlendum áhrifum).
Eftir þessa frumraun Arnheiðar var sem sagt allt stopp - allavega opinberlega. Eitt er víst að ljóðaþýðingar fóru að birtast eftir hana í tímaritum á tíunda áratug síðustu aldar og það eitt sýnir að hún yfirgaf ekki ljóðin. Þau áttu sterk ítök í henni. Og hún réðst ekki á garðinn þar sem hann var lægstur. Í Andvara árið 1998 birtist ljóð í þýðingu Arnheiðar eftir Nóbelsverðlaunahafann Gabrielu Mistral Hún var frá Chile í Suður-Ameríku, fædd árið 1889 og deyr 1957. Árið 1945 fékk hún fyrst Suður-Amerískra höfunda bókmenntaverðlaun Nóbels fyrir ljóð sín. Miðlæg þemu hjá Gabrielu eru m.a. náttúran, svik og ást.
Arnheiður var trú Karen Blixen sem sagði einhvern tíma að það væru andstæðurnar sem fæddu af sér skáldskapinn. Í sama hefti birtist einnig þýðing Arnheiðar á ljóði eftir 16 ára georgískan prestaskólanema að nafni Jósef Djúgashvili. Arnheiður segir í athugasemd með kvæðinu að Harrison Salisbury hafi þýtt kvæðið úr georgísku en sá var m.a. ritstjóri tímaritsins Time, en kvæðið var tekið úr bók hans An American in Russia (Iberia er fylki í Georgiu) – þessi ungi Jósef reynist vera hinn sanni Stalín sem lýsir í kvæðinu landi sínu og náttúru:
FRÁ GEORGÍURósahnappurinn er að ljúkast uppog bláklukkurnar líka allt umhverfis hann.Hið fölva frisblóm einnig vaknað-öll kinka þau kolli í andvaranum.Lævirkinn þenur vængi sína hátt í heiðlofti-kvakar hann og syngur.Næturgalinn kveður kyrrum rómi-syngur heitu hjarta.„Megir þú blómgast ástkært föðurland,þú land mitt „Iberia“ í gleði og giftu,og einnig þér Georgíumenn,megi lærdómsiðkanirtengja yður einnig ættlandinu“.
Hér er á ferð mjúkur maður - hvað sem síðar varð!
Í Andvara árið 1999 birtast tvö ljóð í þýðingu Arnheiðar eftir skáldjöfurinn norska Knut Hamsun og konu hans Marie Hamsun. Ljóð danska skáldsins Nis Petersen birtist í þýðingu Arnheiðar í Andvara 1997. Og Heinrich Heine birtist ljóslifandi í Andvara 1996.
Þessi birta úr undirdjúpum Arnheiðar fær að njóta sín síðustu æviárin - þar fær ljóðablær hennar að hljóma á íslensku og framandleikablærinn sem ljóðin bera - á ekki rót í framandi tungu heldur er þetta blærinn sem angan skáldskapar seytlar í gegnum hvar og hvenær sem er. Skapandi þýðingar eru tímafrekar og hún hafði kannski loks tíma? Eða?
Markmið mitt var að kynna ljóðaþýðandann Arnheiði en ekki fara í samanburð á þýðingu og frumtexta né kynna einkenni þessara texta. Ég hefði viljað sjá meira! Meira af þýddum ljóðum - Til dæmis sjá Nóbelsverðlaunahafann og ljóðskáldið Nelly Sachs í höndum hennar- hún hlaut Nóbelinn 1966. En ævintýri Arnheiðar var á enda leikið og eftir sit ég þakklátur lesandi að öllu hennar verki.
Aftanmálsgreinar:
1 Stephan Zweig 2010:112
2 Arnheiður Sigurðardóttir 1997:108
3 Arnheiður Sigurðardóttir 1997:108
Kristrún Guðmundsdóttir er ljóðskáld sem sent hefur frá sér fjölda ljóðabóka. Nýjasta bók hennar Ráf í Reykjavík kom út 2020 og er skáldið þar meðal annars að hugsa til Ástu Sigurðardóttur og smásögu hennar Gatan í rigningu. Umsögn um ljóðabókina má lesa hér.