Ritstjórn∙24. apríl 2022
UM ANDARDRÁTT OG LÍFFRÆÐI LJÓÐA eftir Soffíu Bjarnadóttur
Hér á eftir birtist hugleiðing sem Soffía Bjarnadóttir flutti á málþinginu: Afturgöngur og nýburarar í ljóðheimum, um stöðu ljóðsins. sem haldið var af óðfræðifélaginu Boðn, á Dögum ljóðsins í Salnum Kópavogi, 26. febrúar 2022.
Um andardrátt og líffræði ljóða
Ég hugsa um ljóð eins og andardráttinn. Áþreifanlegur og óáþreifanlegur, hluti af líkamanum en einnig utan hans, eins og röddin. Taktur, flæði, súrefni - heldur vélinni gangandi. Kemur að utan, kemur að innan. Ég er þakklát fyrir andardráttinn þó svo ég sé ekki að hugsa um hann allan sólarhringinn, en ég veit af honum og að ég væri ekkert án hans.
Ef við hugsum út í það þá hefur allt takt, allt er rythmi, hljómfall, hrynjandi eins og andardrátturinn. Meira að segja þögnin. Hún getur verið ofsafengnari en glamrið í hjartslættinum.
Því getur verið gott að spyrja sig, hvernig andar þetta ljóð? Augljóslega er það til fyrir einhverja tilstilli, ef það andar þá er það á lífi, en svo getur það auðvitað hætt að anda, allt hefur sinn tíma, eða hvað, það getur jafnvel risið upp frá dauðum, ef það þá einhvern tíman andaði - já og sum ljóð eru vissulega andavana fædd, en við ætlum kannski ekki að ræða um dauðann.
Eða jú, kannski ættum við einmitt að ræða um dauðann.
Hvort sem ljóð er afturganga eða nýburi þá er alltaf gott að huga að lífsmarkinu, púlsinum. Sum blóðrík, vilja hrátt kjöt, önnur virðast lifa á loftinu, sum þurfa guð, önnur nærast á tengslum, sögu, nostalgíu, sárum, styrjöldum, jafnvel á holdi, orðum, tárum. Enn önnur borða mömmu sína og jafnvel ömmu og æla þeim svo upp.
Þegar við tölum um ljóð og ljóðlist finnst mér mikilvægast að hugsa um nálgun - nálgunarleið. Hvernig nálgast ég listaverk? Hvernig nálgast ég ljóð? Hvernig nálgumst við skrif og ef við viljum gjörsamlega drukkna í spurningum: Hvað er skáldskapur?
Öll fagurfræðileg reynsla er tilraun sem er ákvörðuð af óvissu. Skrif geta stundum verið tilraun um sannleika, leit að kjarna. Á sama tíma krefst skáldskapur alltaf ákveðinna efasemda um sannleika og ekki síst þá krefst skáldskapur útvíkkun skilningarvita.
Og hver verður fararmátinn og hver flóttaleiðin? spyr Plótínos fyrir langa löngu og hann gefur þau fyrirmæli, þegar fegurðin er annars vegar, að leggja aftur augun og breyta um sjóngáfu, vekja þá sem allir hafa en fáir nota.
Hann er kannski að tala um innra lífið og stórkostlega möguleika sem búa einmitt þar. Hann er jú að tala um útvíkkun skilningarvita. Þetta er einmitt hugarástand sem súrrealisminn síðar arfleiddi okkur að: innra lífið.
Sem barn reyndi ég að fanga ljóð hvar sem er, innra sem ytra. Eins og engill sem þú finnur í snjó og þú bíður eftir að hann tali við þig, hlustar og bíður, horfir, sérð hann takast á loft, þyrlast upp. Þá var ég barn. Ég er ennþá barn. Miðaldra barn.
Og það fer dálítið í taugarnar á mér þegar talað er um ljóð og ljóðlist sem dútl og dundur, prjónaskap, eldamennsku, logsuðu. Afsakið mig. En það er ekkert bannað að dútla og dunda í matargerð og logsuðu og svo sem ljóðum ef út í það er farið þó að taugakerfi miðaldra barns hrökkvi í varnarhátt. Dundur er vissulega ákveðin nálgun í lífinu.
Andstæða þess - sem ég kalla dundur - er að stíga inn. Alveg inn. Verða bergnumin. Falla í yfirlið eða hreinlega af bjargbrún. Kannski mætti kalla þessa nálgunarleið: blóðtöku. Kannski er það eina nálgunarleiðin sem ég kann. En besta nálgunin er barnslega leiðin sem ég lýsti: að bíða, heyra, sjá, skynja.
Með hverju ljóði sem verður til í höfði og á hvítu blaði getur auðvitað skapast eitthvað alveg óvænt, alveg sama hver nálgunarleiðin er; dundur, blóðtaka, bylting, barn, trú - eða eitthvað allt annað. En það er sjaldgæft, að það skapist eitthvað alveg nýtt og óvænt. Þegar og ef það gerist þá er mikilvægt að finna fyrir því að þú hefur orðið fyrir einhverju sem breytir, - jafnvel áttavitanum.
En erum við almennt að biðja um eitthvað nýtt, eða eitthvað gamalt? Það sem er nýtt er endursköpun af þessu gamla. Nú-tími stendur alltaf á herðum hefðar og eldri forma.
Myndlistarmaður spurði retórískrar spurningar: Hvernig á ég að nálgast listaverkið? Og hann svaraði sjálfum sér: Með því að elska þau. Hrein og bein nálgunarleið. Og svo sannarlega það sem heimurinn þarf á að halda í dag (sem áður). Nálgunarleiðin: að elska.
Oft veit fólk ekki hvernig það á að nálgast ljóðlist. Ljóðið er marglaga form sem er að miðla Uppsprettu, sama hvernig líkami ljóðsins er. Kannski er ljóðið að miðla kyrrð í óróleika, vissu á óvissutíma. Ljóðið er farartæki fyrir rödd og jafnvel sjálf að endurfæðast.
Farðu ekki of nálægt draumum þínum, segir í ljóð eftir Edith Södergran (1892-1923). Það er gott að minnast á Södergran þegar sjálfsköpun í skáldskap er annars vegar. Finnsk skáldkona, módernískt skáld sem skrifaði á finnlandssænsku. Hún var brautryðjandi sem skapaði sjálfan sig og heiminn, eða drauminn um þetta tvennt, sjálfið og heiminn, í skáldskap sínum. Edith Södergran fæddist í Sankti Pétursborg 1892, flutti fljótlega með fjölskyldu sinni til Raivola í Finnlandi og lifði þar í litlu þorpi alla sína tíð. Lifði umbrotatíma í töluverðri einveru. Hún fékk berkla og var um tíma á heilsuhæli í Davos sem varð síðar þekkt sviðsetning í Töfrafjalli Thomasar Mann. Södergran lést úr berklum 31s árs gömul árið 1923. Skáldskapur hennar er innhverfur, en rís út fyrir sinn innhverfa heim og sprengir af sér tímann. Hún segir: Ég yrki ekki ljóð, heldur skapa ég sjálfa mig og ljóðin eru leiðin til sjálfrar mín. Þetta er hefð sem rekja má aftur til upphaf rómantíkur á 18. öld. Líkt og bláa blómið hans Novalis. Sem er táknmynd rómantíkurinnar að leita sjálfs og þráin sem beinist að óendanleika, sem kallast að sumu leyti á við portúgalska hugtakið um söknuð til þess sem er í órafjarlægð, saudade. Í skáldskap Södergran er leitað upphafs í orðum, í öðrum heimi, draumnum sem er kannski á tíðum gerður úr sterkara efni en sjálfur efnisheimurinn.
Södergran skrifar inngang í ljóðabók sinni Septemberlyran sem kom út á því umbrotaári 1918, og segir þar að enginn geti neitað skáldskapargildi ljóða hennar, þótt ekki fylgi þau bragreglum - hún segist hafa vald á orðum og myndmáli í fullkomnu frelsi. Hún segist hafa uppgötvað þær víddir sem hún búi yfir. Þessi nálgun að skapa, og endurskapa sjálfan sig með orðum, finna sig upp á nýjan leik, að yrkja sig eins og Södergran gerði fyrir meira en hundrað árum þekkjum við vel í ljóðlist dagsins í dag. Þar mætti nefna Elísabetu Jökulsdóttur sem skrifar um skáldskap sinn: Ég er að skrifa um myndina af mér til að öðlast sjálfstæði. Sjálfleitandi og sjálfskapandi nálgun skálda er rótgróið bergmál. Sá fagurfræðilegi vilji - að leita upphafs og framhaldslífs í heimi sem er skapaður úr skáldskaparmáli, og úr því sem býr bakvið orðin.
Mig langar til landsins sem ekki er til, skrifar Södergran í ljóði. Ljóðmælandi er þar orðinn þreyttur á að þrá það sem er til. Og í lok erindis segir: En eitt hef ég fundið og eitt er mér sannlega gefið - / leiðin til landsins sem ekki er til.
Nálgun og leið er mikilvæg, bæði þegar við lesum og skrifum skáldskap.
Og ég endurtek frá Plótínosi Um fegurðina:
Hver verður nú fararmátinn og hver flóttaleiðin? Ekki komumst við fótgangandi: fæturnir bera okkur hvarvetna frá landi til lands. Þú skalt ekki útvega hestvagn eða fley. Láttu allt þetta lönd og leið og horfðu ekki, heldur leggðu aftur augun og breyttu um sjóngáfu og vektu þá sem allir hafa, en fáir nota.
Uppspretta sköpunar kemur á undan forminu, er eitthvað allt annað en ljóð.
Uppsprettan líkamnast löngu síðar í ljóði. Ljóði sem kannski bergnemur einhvern eða gleymist og deyr. Eða þá að Uppsprettan líkamnast í peysu sem raknar upp eða í Maríu líkneski sem er tilbeðið, skál sem brotnar.
Ljóð er rödd og röddin er innan og utan líkama.
Það var spurning um stöðu ljóðsins. Staða ljóðs er staða manneskju og mannkyns. Hver er staða mannkyns? Ég ætla ekki að svara því.
En segi í staðinn: Varðveittu rödd þína.
Ljóð er farskjóti, upptrekkt leikfangalest á leið til hvaða lands sem er og sem ekki er. Býr utan við hagkerfi heimsins. Ljóðið er jafn þröngsýnt og tíminn en það getur einnig sprengt tímann utan af sér. Ljóð er vissulega andardráttur; ör, stóískur, slitróttur, leið til að deyja, leið til lifa.
Soffía Bjarnadóttir
Notast var við ljóðasöfn eftir Edith Södergran á dönsku og íslensku, Samlede digte, þýtt af Peer Sibast, útgefið af Rhodos Klassikere 1979, eftirmáli eftir Mark Hebsgaard. Landið sem ekki er til, formáli og þýðing eftir Njörð P. Njarðvík, útgefandi Urta, 1992. Brot úr verki Plótínosar Um fegurðina I.6 í þýðingu Eyjólfs Kjalars Emilssonar, gefið út með Samdrykkjunni eftir Plató. Hið íslenska bókmenntafélag, 1999.