SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn10. október 2021

BARNALEIKUR. Grein eftir Dagnýju Kristjánsdóttur

 
 
Barnaleikur
Um tráma, minni og gleymsku í Jójó eftir Steinunni Sigurðardóttur
Eftirfarandi grein birtist fyrst í Skírni árið 2013
 
 
 
Martin Montag í Jójó eftir Steinunni Sigurðardóttur (2011) er ungur, þýskur krabbameinslæknir og til hans kemur sjúklingur sem virkar kunnuglegur og þó ekki. [1] Þegar sjúklingurinn fer líður Martin illa en tekst að ljúka vinnudeginum með erfiðismunum, hjartað hamast svo að honum finnst hann vera að deyja og þó ekki. Líkaminn er að segja þessum góða lækni að nú sé kominn tími til að gera upp við sálrænt áfall eða „tráma“ úr bernsku sem hefur stjórnað lífi hans of lengi — ella muni það drepa hann. Næsta sólarhring er saga hans kölluð fram og samhliða henni opnast lesanda innsýn í sambönd hans við ástvinina, Petru, konu hans og besta vininn, Martin Martinetti. En sá sem kallar söguna fram og er upphaf hennar er sjúklingur með eldrautt, kringlótt krabbameinsæxli sem minnir á jójó.
 
 
 
 
Læknirinn
René Descartes braut blað í heimspeki- og hugmyndasögu og boðaði nútímann svo eftir var tekið þegar hann skildi á milli líkama og sálar og talaði um líkamann sem vél eða gangvirki, þar sem öll tannhjól gætu snúist og hverfst um ása og kúluliði og dælurnar gengið hvort sem maðurinn vildi það eða ekki. Það opnaði nýjar víddir í hugsun manna um heilsu og heilbrigði þegar farið var að skoða líkamann sem kerfi sem lyti þekkjanlegum og skiljanlegum lögmálum (Bondevik og Stene-Johansen 2011: 10-11). Hins vegar hefur það aldrei gengið að lýsa líkama nokkurs manns öðruvísi en með tilstilli hugans og hjálp orða og myndhverfinga sem leika stórt hlutverk í því hvernig við reynum að lýsa líkamlegri tilvist okkar í heiminum. Að líkja líkamanum við úrverk er myndhverfing sem skýrist af mikilli hrifningu manna á nýrri tækni og vísindum á 17. öld. Í stað þess að skoða sig sem eina af birtingarmyndum sköpunarverks guðs og hliðstæðan annarri náttúru fer maðurinn að skoða umhverfið í sinni mynd og varpa sjálfsmynd sinni yfir á hvað sem er. Þetta er einkenni nútímamannsins sem notar myndhverfingar eins og að vera „upptrekktur“, „á yfirsnúningi“, í „mikilli spennu“ eða „orkulaus“, að vera „í stuði“, „í losti“, „kveikja á einhverju“ eða „kveikja ekki á því“, „vera í sambandi“ eða „ekki í sambandi“ eða „í hægagangi“, „útbrunninn“, „ganga of hratt“ eða verða að „hlaða batteríin“ — svo að nokkuð sé nefnt (Scheper-Hughes og Lock 1987: 22-23).
 
Martin Montag í Jójó eftir Steinunni Sigurðardóttur er mjög sérhæfður og afburðagóður læknir og á myndhverfðan hátt sér hann sjálfan sig í hlutverki hershöfðingja eða bardagamanns í persónulegu útrýmingarstríði við krabbameinsæxlin:
 
 
Geislalækningar eru flottasta aðferðin gegn krabbameini. Sú sem skaðar sjúklinginn minnst. Þess vegna lagði ég þær fyrir mig. Ég fagna hverju tilfelli þar sem geislarnir einir eiga leikinn, og sjúklingur er læknaður og lítið skaddaður eftir meðferð. Ég á aldrei eftir að venjast hrossalækningum glundrara og bartskera, og ég vonast til þess að lifa nógu lengi til að sjá stöðugildum í þeim starfsstéttum fækka verulega, meðan mér og minni geislabyssu fleygir stöðugt fram og möguleikunum til að hnitmiða geislann hárnákvæmlega þangað sem hann á að fara til að gera út af við morðingjann í líkamanum og þyrma líkamanum sjálfum. (44)
 
 
Eins og sjá má er tungutakið eilítið barnslegt („flottasta aðferðin“) og myndhverfingar læknisins minna á dreng í tölvuleik þar sem barist er með geislabyssum við hin illu öfl.
 
Martin er ekki hógvær maður enda telur hann sig vera í framvarðarsveit heilbrigðisstéttahersins og þar með hluta af eins konar hátæknilegri yfirstétt sem þýðir meðal annars að hann þarf aldrei að snerta sjúklinginn eða „slabbið“ sem inni í honum er:
 
Æxlin eru persónulegir óvinir mínir og ég geri allt sem ég get til að halda styrk og einurð í bardaganum við þau. Á hverjum degi, áður en ég fer í vinnuna, herði ég mig upp eins og stríðsmaður. [...] Í hjarta mínu lít ég niður á skurðlækningar, nema þá helst nýjasta nýtt, leysitækni og örfín inngrip. Hefðbundnar skurðlækningar eru gróf og miðaldaleg aðferð, útfærð með nútímatækni. (41-43)
 
Martin Montag segist hafa þá „aðferðafræði“ að skilja sundur „sjúkling og mein“ (43) og þegar hann hugsar um sjúklinginn sem manneskju er hún eins og hún er „áður en óvinurinn tók sér bólfestu í henni, og ég hugsa mér manneskjuna eins og hún verður þegar ég er búinn að gera út af við æxlið í henni“ (43). Sú hugsun sem hér er lýst þýðir í raun að læknirinn getur ekki eða vill ekki skoða sjúkling sem manneskju, eftir að hann hefur veikst er hann ekki lengur hann sjálfur heldur eitthvað annað. Hann er sjúkdómurinn, æxlið, og þetta sést vel á ummælum eins og þessum: „Ég fer í sloppinn, fæ mér vatn, sest við skjáinn og hvessi augun á æxli dagsins.“ (42). Í staðinn fyrir að horfa á sjúklinginn getur Martin horft á röntgenmyndina, persónugert hana, greint eðli æxlisins og ráðist á það án þess að setja sig inn í sögu eða aðstæður „hýsilsins“. Þetta er viðhorf hans þegar við kynnumst honum fyrst í upphafi sögunnar og margir læknar hafa svipað viðhorf, þeir líta á þröngt skilgreinda líffræði líkamans sem hið eina, réttmæta fræðasvið og viðfangsefni læknisfræðinnar.
 
Lækna- og hugvísindi
Til er fræðigrein sem kölluð hefur verið læknisfræðileg hugvísindi (e. medical humanities eða e. narrative medicine) og hefur fest sig í sessi um hinn vestræna heim síðustu þrjá áratugi. Ástæðan fyrir því að fræðigreinin varð til er sú að mörgum læknum fannst hátækniþróun og vaxandi sérhæfing innan læknisfræði síðustu áratugi hefði orðið á kostnað mannhyggju og sambandsins við sjúklinginn. Sjúklingarnir staðfesta þetta og kvarta yfir því að læknarnir hlusti ekki á þá og heyri ekki hvað þeir segi. Nýlegar kannanir sýna að í viðtölum við sjúklinga grípa læknar fram í fyrir þeim eftir tólf sekúndur að meðaltali (Bernhardsson 2010: 45). Frá þessu eru margar undantekningar og sannarlega eru til læknar sem gefa sjúklingum allan þann tíma sem þeir geta. Umræðan um vaxandi firringu í heilbrigðisvísindum hefur þó orðið til þess að sérstök bókmenntanámskeið hafa verið tekin upp í læknanámi á þeim forsendum að bókmenntir bjóði lesendum þau forréttindi að geta rætt og greint tilbúið fólk, líkama og sál, líðan og vandamál út frá fjölmörgum sjónarhornum og dýpkað þar með mannhyggju, samkennd með fólki og skilning á því hve mikilvægt það er að hlusta á sögur annarra til að geta túlkað þær, greint og brugðist við þeim. Nokkrar áhugaverðar skáldsögur hafa verið skrifaðar af læknum sem hafa veikst hættulega og kynnst heilbrigðiskerfinu hinum megin frá. [2] Það hefur líka verið bent á að bókmenntafræðingar hafi gott af því að kynnast „líkamleika“ læknastarfsins auk þess sjónarhorns á mannlífið sem læknar búa yfir og gætu deilt með öðrum í bókmenntum og listskilningi. Annar hefur þannig nokkuð til hins að sækja og Martyn Evans lýsir verkefni læknisfræðilegra hugvísinda þannig að þar séu bæði hug- og læknavísindi að „horfa á læknisfræðina, þau séu líka að horfa á sjúklinga, og — síðast en ekki síst — horfa á læknisfræðina horfa á sjúklinga.“ [3] Frásögnum hefur fjölgað þar sem sjúklingar segja sögu sína og lýsa upplifun sinni af sjúkdómum og stundum yfirvofandi dauða og þessar sjúklingasögur (pathographies) eru taldar ein af undirgreinum sjálfsævisagna samtímans. [4] Þessar sögur eru mjög ólíkar sjúkraskrám sem eru frásagnir læknis af sögu sjúklings og geta hafist einhvern veginn svona:
 

79 ára karlmaður, með langa sögu um kransæðasjúkdóm. Síðastliðna viku verið með vaxandi mæði. Hröð versnun síðasta sólarhring, getur nú lítið hreyft sig og varla talað fyrir mæði. Hefur þurft að sofa uppisitjandi. Ekki haft neina brjóstverki. Er sendur á bráðamóttöku Lsp., Hringbraut af lækni á Læknavaktinni. Fékk kransæðastíflu fyrir 10 árum og var gerð kransæðahjáveituaðgerð (CABG) skömmu eftir það. … Hefur haft mæði við göngu utan dyra en hefur getað gengið upp á 1. hæð, þar sem hann býr án mikilla vandræða. [5]

 
Sjúkraskrárnar eru ekki ætlaðar sjúklingunum þó að þeir eigi rétt á að lesa þær, heldur öðrum læknum og fagfólki sem þurfa að fá upplýsingar um ástand hans. Sumar sjúkraskrár eru þannig að leikmenn geta átt í vandræðum með að skilja þær. Aðrar sjúkraskrár er hægt að greina eins og bókmenntatexta (Aaslestad 2007) og þar má sjá ákaflega áhugaverða frásagnartækni, stílbrögð og afstöður, stundum samúð, stundum andúð og stundum vanhugsaðar lýsingar eða einkunnir sem geta fylgt sjúklingnum innan heilbrigðiskerfisins og mótað afstöðu starfsfólksins til hans beint og óbeint.
 
Sjúkraskrár leika nokkurt hlutverk í Jójó. Martin finnur heimilisfang sjúklingsins með jójó-æxlið og sér dóttur hans bregða fyrir á svölum hússins. Hann þekkir hana, þetta er stúlkan Lísa sem hann hafði kynnst þegar hann var læknanemi á geðdeild sjúkrahússins forðum tíð. Þvert á allar siðareglur fer hann aftur á sjúkrahúsið, sækir sjúkraskrá hennar og fer með heim til sín. Lesturinn kemur illa við hann. Bæði Martin og lesanda bókarinnar er ljóst að saga stúlkunnar er gerð tortryggileg með skipulögðum hætti í sjúkraskránni og dregin í efa um leið og hún er sögð. Sjúklingurinn er sagður „maníó-depressívur“ og sagður þjást af „ranghugmyndum“ um kynferðislega misnotkun föðurins á henni og bróður hennar (122–124). Sagt er að sjúklingurinn haldi „því fram að móðirin hafi vitað af misnotkuninni … Sjúklingur lýsir móður sinni sem dauðri manneskju og föður sínum sem ófreskju“ (125). Vitnisburður föðurins sem er „vel metinn embættismaður“ er tíundaður í sjúkraskránni og stefnt gegn því sem sjúklingurinn heldur fram. Við þetta hefur ungur geðlæknir og afleysingamaður á sjúkrahúsinu gert athugasemd eða fyrirvara sem yfirlæknirinn ber undir Martin. Yfirlæknirinn undirstrikar að að hann sé
 
… málkunnugur föður sjúklingsins til langs tíma. Ákaflega sjarmerandi og nákvæmur maður. Að honum þætti þetta misnotkunartal óhugsandi, eftir því sem nokkur hlutur um manneskjuna væri yfirleitt óhugsandi. En það að faðirinn ætti að hafa leyft kunningjum að prófa líka sannaði nánast að þetta gæti ekki verið. Útilokað mál, það var hans viðkvæði. Útilokað mál. (127)
 
Það er erfitt fyrir læknanema að ganga gegn augljósum vilja yfirlæknis sem verður ekki heldur misskilinn í sjúkraskránni þar sem allan málflutning ber að sama brunni. Martin hjálpar stúlkunni ekki þótt hann trúi henni og ákæru hennar um hryllilegan glæp. Honum ber sem verðandi lækni að fylgja siðareglum eða Hyppokratesareiðnum en hann breytir gegn betri vitund og getur þar af leiðandi aldrei gleymt henni enda sér hann meira af sér í henni en honum gott þykir á þeim tíma. Aðstoðarlæknirinn Betti fylgir málinu heldur ekki eftir og getur heldur aldrei gleymt Lísu.
 
Samhygð Martin með öðrum sjúklingi, nafna hans Martin Martinetti, er hins vegar svo sterk frá upphafi að allt verður undan að láta til að sá maður verði heilbrigður og bjargist frá dauða. Martin Martinetti kallar bjargvætt sinn Sigurð æxlisbana, hann er greindur, fyndinn og afskaplega handgenginn mannlegri þjáningu í margvíslegum myndum. Þessi franski, krabbameinssjúki róni heillar Martin frá fyrsta fundi og verður hans besti vinur og í raun annað sjálf frá því fyrsta. Á einhvern hátt þekkir Martin þennan mann frá upphafi og „velur hann“ án þess að vita hvers vegna.
 
Bandaríski félagsfræðingurinn Kai Erikson bendir á að fólk sem verður fyrir miklum hörmungum eða tráma sæki gjarnan hvert til annars í leit að skjóli og styrk. Því finnst að þrátt fyrir allt sem brýtur það niður og ekki er hægt að miðla neinum, geti enginn utan hópsins skilið hvílík eftirköst áfallsins eru, hvers vegna martraðirnar vilja ekki gefa sig og óttinn situr í líkamanum. Þannig er eitthvað við trámað sem sameinar og þjappar fólki saman um hina skelfilegu reynslu þó að hún sé í eðli sínu persónubundin og handan þess sem hægt er að skilja eða deila (Erikson 1995: 186–187). Kai Erikson er sérfræðingur í afleiðingum náttúruhamfara og stórslysa á afmörkuð samfélög og við Íslendingar þekkjum slíkar aðstæður ekki síst eftir eldgos og snjóflóð.
 
Ef að er gáð eru allir vinir Martins skaddaðir á einhvern hátt; Martin Martinetti hefur oft reynt að farga sér eins og Martin Montag sjálfur og á sér líka leyndarmál. Petra, kona Martins, er alin upp hjá geðveikri móður og ber þess merki á sálinni og þetta fólk leitar styrks hvert hjá öðru. En jafnvægið er brothætt.
 
Trámað
Fyrirbærinu „tráma“ hefur verið lýst eins og höggi og áverka (Laplanche og J.-B. Pontalis 1985: 465). [6] Það brýtur niður varnir og sjúklingnum finnst hann holur að innan, tómur, jafnvel lifandi dauður. Þeir sem hafa upplifað tráma geta sveiflast á milli þess að vera eirðarlausir og ofvirkir eða tómlátir og dofnir í samskiptum við aðra (Erikson 1995:183–184). Fólk með slíka reynslu notar alla sína orku í að muna ekki það sem gerðist og þó vitjar áfallið þess aftur og aftur og það endurlifir hryllinginn í martröðum og snöggum endurlitum. Þetta er ferlið sem Steinunn Sigurðardóttir lýsir fyrir okkur af skáldlegu innsæi í persónu læknisins Martins Montag í Jójó. Í upphafskafla bókarinnar hittir hann næstsíðasta sjúkling dagsins og veit í raun hver maðurinn er en getur hvorki né vill hleypa því inn í vitundina.
 
Það eru til tvær meginskýringar á tráma, kenningar sálgreiningarinnar um fyrirbærið og kenningar hugrænna fræða, og sálfræðingarnir Bessel A. van der Kolk og Onno van der Hart (1995) gera grein fyrir þeim báðum í greininni „The Intrusive Past: The Flexibility of Memory and the Engraving of Trauma". Höfundarnir vilja hefja kenningar franska geðlæknisins Pierre Marie Félix Janet (1859-1947) til vegs og virðingar en rannsóknir hans beindust sérstaklega að trámafyrirbærinu. Janet var nemandi franska geðlæknisins og dáleiðslufrömuðarins Jean-Martin Charcot og eftirmaður hans við Pitié-Salpetriére Hospital í París. Sigmund Freud sótti tíma hjá Charcot árið 1885-1886 og varð fyrir miklum áhrifum af honum og franska skólanum, meðal annars af hugmyndum Janet um hið dulvitaða. Janet og Freud hittust þó aldrei. [7]
 
Trámakenningar sálgreiningarinnar standa að nokkru leyti í þakkarskuld við kenningar Pierre Janet um trámatíska móðursýki en þeir Freud og Breuer, félagi hans, þróuðu þær í aðra átt. Breuer var að vísu ávallt hallur undir kenningu Janet um að áfallið klyfi sjálfsveruna en Freud taldi að hún brygðist við áfallinu með bælingu. Hann taldi að móðursýkin ætti sér rætur í orðlausu og ómiðluðu áfalli sem fyndi sér farveg í eins konar líkamlegum gjörningi, lömun, kækjum og stjórnleysi sem væri leið sálarinnar til að ljóstra upp um glæpinn með hjálp líkamans. Glæpurinn væri af kynferðislegum toga sem hefði ekki þá merkingu fyrir ungu barni þó að allt í kringum það vekti því óhug og gerði það ráðvillt. Árásin/innrásin fær hina raunverulegu merkingu síðar með auknum þroska og þá aftur á bak eða „nachtráglich“ og hún er þá bæld umsvifalaust (Laplanche og Pontalis 1985: 465–169). Bælingin er einn af varnarháttum sjálfsins sem staðsettur er í forvitundinni í fyrra líkani Freuds yfir sálarlífið. Hún er á mörkum dulvitundar og meðvitundar og vinnur sína dyravarðarvinnu án meðvitaðs vilja eða ákvörðunar sjálfsverunnar sem hleypir minningunni ekki inn í vitundina (Freud 1978: 334–338). Það er ekki laust við að í greininni „The Intrusive Past felist hálfgerður útúrsnúningur þegar segir:
 
Hvað varðar tráma, vekur hugtakið „bæling“ upp myndina af sjálfsveru sem ýtir hinni óvelkomnu minningu brott af afli. Það er vafasamt að þetta sé það sem gerist í raun. Samtímarannsóknir hafa sýnt að klofnun verður um leið og trámað á sér stað … Margir þeirra sem lifað hafa tráma segja frá því að þeir hafi sjálfkrafa verið fjarlægðir af vettvangi; þeir hafi horft á atburðinn úr fjarlægð eða horfið algjörlega og skilið hinn hlutann af persónuleika sínum eftir til að þjást og geyma hina yfirþyrmandi reynslu. [8]
 
Ef vitundin gæti ýtt minningum burtu af afli væru þær orðnar hluti af henni og ekki lengur bældar. Bælingin klýfur sjálfsveruna á sama hátt og lýst er hér og á þessu er síðan hnykkt í kenningunni um dauðahvötina (1920) en þar afskrifaði Freud fyrri hugmyndir sínar um að draumar bæru alltaf í sér kynferðislegt innihald og þar með lífsvilja. Hinir áfallaröskuðu sjúklingar sem sögðu honum frá martröðum sínum eftir heimsstyrjöldina fyrri voru ekki á valdi neins konar vellíðunarlögmáls. Freud setti fram þá kenningu að þarna væri á ferðinni fyrirbæri sem hann kallaði „endurtekningarhvöt“ og sjúklingarnir væru fastir í ósjálfráðri endurtekningu orðlausrar skelfingar sem héldi áfram að koma aftan að þeim þar til hægt væri að muna það sem gerðist, endurtaka það, vinna úr því og breyta því þar með í frásögn sem hægt er að lifa með. Þangað til hvolfist trámað yfir sjúklinginn og heltekur hann. Í kenningu sálgreiningarinnar er sjúklingurinn „fastur“ (e. fixed) við áfallið (Freud 2002: 113–115). Munurinn á skilningi sálgreiningarinnar og hugrænna fræða á hinu sálræna áfalli eða tráma sýnist mér felast í því hvar það er vistað í sálarlífinu og hvernig það vitjar manna.
 
Víkur nú sögunni að hugrænum fræðum. Sérhver reynsla, og tilfinningarnar sem tengjast henni, er skráð í hugræn mynstur sem Bergljót Kristjánsdóttir hefur kallað „mót“ (schema) en þessi mót „koma skikk á reynslu manna áður en hugtök koma til sögunnar“ (Bergljót Kristjánsdóttir 2006: 22). Bergljót skilgreinir hugtakið þannig:
 
Mótafræðin (schema theory) gerir ráð fyrir að menn skilji sérhverja nýja reynslu sem þeir verða fyrir með því að bera hana að líkönum staðalmynda sem þeir geyma í minni sér að fenginni fyrri reynslu. (Bergljót Kristjánsdóttir 2010a: 442)
 
Skilgreining J.M. Mandler á sama fyrirbæri er á ívið myndrænni nótum:
 
… mót er byggt á nokkrum (venjulega dulvituðum) væntingum um það hvernig hlutirnir koma fyrir og/eða raðast niður þegar þeir koma upp. Hlutar eða einingar í móti samanstanda af breytum eða hólfum sem hægt er að fylla eða nota sem dæmi við öll tækifæri ef meiri eða minni líkur eru á að gildi muni tengjast þeim.“ [9]
 
Við trámatískar aðstæður verður reynslan tengslalaus og án hugtaka og þekkir því engin mót til að festa sig við. Þess vegna klofnar vitundin. Þetta sá Pierre Janet strax á níunda áratug 19. aldar og þetta er lykilatriði í hugrænum skilningi á tráma. Það er ekki hægt að flokka það sem gerist eða raða því eða tengja við merkingarsvið eða táknræna tjáningu móta sem fyrir eru. Það er því skráð utan þeirra, beint í sjálfsveruna sem líkamleg reynsla og skynjun án orða (van der Kolk og van der Hart 1995: 172).
 
Þessi reynsla er ekki aðeins bundin tíma heldur stað: „Öfugt við annað minni er áfallaminni, að minnsta kosti í upphafi, brotakennt – bundið stökum hugsýnum, lykt eða hljóði af tiltekinni gerð, ákveðnum skynjunum, hugarástandi o.s.frv. — og umhverfið vekur upp minningar um áfallið þegar það tengist þessum afmörkuðu atriðum“ (Bergljót Kristjánsdóttir 2010b: 43). Mótin og tilfinningarnar sem eru tengdar þeim eru stöðugt virk í flokkunarkerfi heila og huga og aðgengileg en hin trámatíska reynsla lýtur ekki sömu lögmálum.
 
Van der Kolk og van der Hart líkja hinum tveimur þekkingarfræðilegu líkönum Freuds og sálgreiningarinnar eða Janets og hugrænna fræða við lóðrétt og lárétt ferli. Líkan Freuds byggist á andstæðunum uppi (yfirsjálf) og niðri (dulvitund eða undirvitund) en líkan Janets byggist fremur á hliðskipuðum straumum (van der Kolk og van der Hart 1995: 168). Sá vitundarstraumur sem inniheldur trámað er hljóðlaus, óaðgengilegur eða á annarri bylgjulengd en hinir, [10] en samt til staðar allan tímann; hann verður allsráðandi þegar trámað ryðst inn í vitundina í martröðum eða minningabrotum. Ef það gerist er því miður líklegt að minningabrotin tengist mótum byggðum upp kringum ótta, örvæntingu og djúpa vanlíðan. Viðbrögð mannsins geta orðið sjálfsmorðshugleiðingar og nútíðin verður enn erfiðari fyrir vikið. Það verður að breyta hinni trámatísku, ómiðluðu reynslu í frásögn, fella það sem gerðist inn í mót reynslunnar og endurrita merkingu þeirra svo að hægt sé að lifa með þeim. Væri það auðvelt væri manneskjan með harðgerðara sálarlíf en raun ber vitni (van der Kolk og van der Hart 1995: 179). Hin hugræna nálgun á trámanu er afar áhugaverð og gagnast vel til að skilja þá þjáningu sem lýst er í bókinni Jójó.
 
Í lok dagsins horfir Martin á æxlið á röntgenmyndinni af næstsíðasta sjúklingnum og finnst það líkjast eldrauðu, kringlóttu jójó. Honum tekst alls ekki að víkja þessari tengingu frá sér og kemur að henni nokkrum sinnum. Samtímis líður honum æ verr og hefur sáran verk svo að hann heldur að hann sé að fá hjartaáfall. Allt í einu skellur trámað og fortíðin yfir hann, ómiðluð, hann er barn á leið heim úr skólanum. Ekkert meira — fortíðin lokast. Vanlíðan hans vex og svo klofnar textinn og sögumaðurinn Martin talar um sig í þriðju persónu eins og hann horfi á sig utan frá: „Ódauður að sinni. Martin Montag. Lokar augunum. Svo hann viti ekki hvort hann sér svart eða ekki svart. Hann reynir að anda hægt, telur upp að hundrað og áttatíu. Þegar ég opna augun aftur …“ (45) Hvert fór Martin? Var hann í fortíð eða er hann í nútíð? Tvö minningabrot hafa ruðst fram og það þriðja bætist við þegar Martin hugsar um þríhyrndan fæðingarblett á vísifingri hægri handar mannsins þegar hann bar höndina að höfðinu í viðtalinu og í þetta sinn vita bæði Martin og lesandi að hann þekkir manninn:
 
En það er ekki hjartað í mér. Það eru hendurnar á næstsíðasta sjúklingi dagsins. Loðin handarbök sem hann bar að sköllóttum hvirfli. Loðin handarbök og þríhyrndur fæðingarblettur á vísifingri hægri handar. Hann hefði betur látið fjarlægja þennan blett. (45)
 
Í textanum slær saman tveimur mótum, Martin er bæði læknirinn og sjúklingurinn, sá dauðamerkti, sá hluti af sjálfinu sem varð eftir forðum tíð og hinn sem þrátt fyrir allt vill lifa. Í tuttugu og sex ár hefur líf hans snúist um það sem gerðist og trámað, sem er allan tímann til staðar í sálarlífinu samsíða vitundarlífinu, kemur til hans í ótengdum minningabrotum sem verða meðvituð hvert fyrir sig en tengjast ekki hvert öðru og ekki tilfinningum Martins. Hann er aftengdur hluta af sjálfum sér og þeim hluta tilheyrir næmi sem ungur elskhugi má síst án vera. Sömuleiðis sá lífsvilji sem felst í því að vilja geta og eignast afkvæmi. Martin þolir ekki börn nálægt sér og fyndinn starfsfélagi hefur gefið honum vottorð upp á það að hann þjáist af sjaldgæfri fælni — barnafælni, pedófóbíu. Þeim geðsjúkdómi deilir hann, að sögn, með einum öðrum „manni“, kapteininum í StarTrek (111).
 
Ef Martin gæti sagt konu sinni hvers vegna hann vill ekki eignast barn væri hann búinn að taka áfallið inn í minnið og breyta því úr áfallaminni í frásagnarminni en það getur hann ekki. Hann getur ekki fundið næmið eða nautnina þegar hann sefur hjá konu sinni heldur líkir eftir henni og hann þjáist af sektarkennd yfir því að vera svikari, lifandi dauður, hálfur maður. Það síðasta er verst því að rannsóknir í hugrænum trámafræðum hafa leitt í ljós að þó að klofnun verði við áfall þurfa alvarlegar minnisraskanir ekki að fylgja eða verða varanlegar ef sá sem fyrir áfallinu verður fær tækifæri til að segja frá því og er trúað. Ef umönnunaraðili sem ekki hefur níðst á barninu svíkur það og afneitar misnotkuninni og trúir ekki eða styður barnið þegar brotið kemst upp eru jafn miklar líkur á alvarlegri minnisröskun og alvarlegum afleiðingum eins og ef þessi umönnunaraðili hefði sjálfur níðst á barninu. [11]
 
Maðurinn með jójóið hefur misnotað Martin, átta ára gamlan, og gefur honum rautt jójó á eftir. Barnið hleypur heim organdi og segir mömmu sinni frá því sem gerðist og sýnir henni jójóið sem „sönnunargagn“ (131). Atburðurinn er þá aðgengilegur, orðaður og skráður sem minning og frásögn þó að drengurinn skilji aðeins brot af raunverulegri merkingu þess sem gerðist. Móðirin neitar strax að trúa drengnum þótt hún hlusti á sögu hans og sjái blóðug nærfötin og þar virðist trámað staðfestast, sjálfið klofnar, frásögnin splundrast og minningin „hverfur“. Martin notar síðan mikla orku til að segja sér að ekkert hafi gerst. Svikin eru svo ofboðsleg að ólíkt börnunum sem gleyma því sem gerðist af því að þau eru háð umönnunaraðila sínum og verða því að ýta svikunum til hliðar þá hafnar Martin móður sinni og kemur sér upp ímynduðum og raunverulegum stjúpforeldrum í stað foreldra sinna. Tilviljun ræður því að hann fremur ekki sjálfsmorð sem barn og unglingur og lífi sínu lifir hann í skugga þessara atburða, klofið hálfmenni.
 
Harmleikur Martins er endurtekinn í sögu jarphærðu stúlkunnar Lísu sem var heldur ekki trúað. Sagan af því sem faðirinn gerði henni og Martin er sögð í bókinni Fyrir Lísu (Steinunn Sigurðardóttir 2012) þar sem þau taka höndum saman um að fletta ofan af manninum með jójó-æxlið, meðal annars með hjálp geðlæknisins Bettiar. Jójó er innhverf saga sem lýsir því hvernig hin rammgerða sjálfsmynd sem Martin hefur byggt kringum tómið hrynur og er rústir í bókarlok. Fyrir Lísu er úthverf saga þar sem því er lýst hvernig glæpurinn er afhjúpaður fyrir öllum heiminum og hin svívirtu börn ná rétti sínum. Á meðan sálarmorðið og tilfinning þolandans um að vera í raun dáinn er ekki orðuð og samþykkt getur hann ekki „risið upp frá dauðum“. Í því felst engin sátt við eða fyrirgefning á því sem gerðist heldur viðurkenning á þeim dauða sem það hafði í för með sér.
 
Afleiðingar
Barnaníðingurinn og næstsíðasti sjúklingur Martins Montag í upphafi bókar er með krabbamein í vélinda. Það er eldrautt, afmarkað og kringlótt eins og barnaleikfangið jójó. Martin horfir á æxlið í tölvunni og reynir að spá í hegðun þess, það er lítið en hraðvaxandi, engin meinvörp, en það:
 
… er eitthvað við þetta kringlótta mein sem segir mér að það gæti leynt á sér. Það hjálpar ekki heldur hvað sjúklingurinn er lítill fyrir sér. Nema hann leyni á sér líka … Æxli hefur stundum svipaðan persónuleika og sá sem það tekur sér bólfestu í. Og stundum er það alveg úr stíl við manneskjuna sem það ætlar að ganga frá … Lítið kringlótt hraðvaxandi mein. Lítur út eins og eldrautt jójó. Hvernig passar það við pempíulegan snyrtipinna sem vorkennir sjálfum sér? (12)
 
Þessar hugleiðingar Martins í upphafi bókarinnar sýna að sá hluti sem klofnaði frá honum í trámanu þrýstir á hann. Maðurinn er lítill fyrir sér og vælir og skælir. Hann spyr: Af hverju ég? og sýknar sjálfan sig jafnharðan af hvers kyns lífsstílssyndum, hann reykir ekki og hreyfir sig reglulega og skilur ekki fyrir hvað verið er að refsa honum. En Martin skilur það — þó að hann viti það ekki. Allt við lýsingu hans og skoðun á manninum er táknrænt. Allt við krabbann sem sjúkdóm hefur tilhneigingu til að vera táknrænt í menningu okkar sem leitar stöðugt að merkingu í því sem við skiljum ekki.
 
Eftir Susan Sontag liggur lítil en áhrifamikil bók um sjúkdóma og myndhverfingar, Illness as Metaphor (1978). Hún bendir á það hve ákaflega samtíminn óttast krabbameinið og hvernig myndhverfingarnar sem notaðar eru um það gera ekki annað en að magna óttann og umbreyta sjúkdómnum í eitthvað annað en hann er. Hún bendir sömuleiðis á hvernig þjóðfélagslegir og stéttbundnir fordómar lita orðræðuna um sjúkdóminn og hvernig ríkjandi hugmyndafræði mótar hana í allri grein. Þannig birtast hernaðarhyggja og hernaðarmyndhverfingar í hugsuninni um sjúkdóminn (Sontag 1991:67–72), trúarleg og siðfræðileg fordæming felst gjarnan í því þegar talað er um lífsstíl sjúklingsins til að varpa ábyrgðinni af sjúkdómnum yfir á hann eins og sjúkdómurinn sé honum að kenna og á hans ábyrgð (Bondevik og Stene-Johansen 2011: 20–24). [12] Þessar kenningar Sontag hafa verið gagnrýndar og bent á að myndhverfingar eru ein máttugasta leið okkar til að skipuleggja myndir hugans og tengja hugsanaform en fáir mótmæla því þó að flestum stendur ógn af sjúkdómnum (Bernhardsson 2010: 64–66).
 
Lýsingin á tæknitrúarmanninum Martin Montag í upphafi Jójó er talandi dæmi um nákvæmlega þann myndhverfða hugsunarhátt sem Sontag gagnrýnir og skoðar sem skort á gagnrýni og auðmýkt. Ótti Martins kemur hins vegar fram í þeim hugleiðingum hans að hver maður fái kannski þá tegund af krabbameini sem eigi við hann. Krabbamein næstsíðasta mannsins situr í vélindanu, líffærinu sem tengir munn og maga, höfuð og neðrihluta líkamans og þessi umferðaræð stíflast af æxlinu fái það að stækka. Þarna situr jójóið, leikfangið sem er tákn glataðrar bernsku og sakleysis Martins Montag sem nú á að fjarlægja það úr hálsinum á barnaníðingnum! Hann stokkar málin upp á myndhverfðan hátt frammi fyrir hinum nauðsynlegu verkum og segir:
 
„Ég á að lækna mann sem er æxli sjálfur og stráir meinvörpum. Drap son sinn og jafnaði dóttur sína við jörðu. Hvað hefur hann slegið marga aðra til jarðar með leikfanginu sínu? Ég er stríðsmaður. Mitt hlutverk í lífinu er að drepa æxli. Svo einfalt er það“ (156).
 
Honum er það efst í huga að drepa manninn. Í tuttugu og sex ár hafa reiði og heift ásamt nautn og lífsgleði verið óaðgengilegar tilfinningar fyrir Martin og gert hann að hálfmenni eða vélmenni. Aðeins eitt tilfinningasamband við bráðungan sjúkling sem honum tekst ekki að bjarga kallar eitthvað fram sem minnir hann á það þegar hann var sjö ára strákur „sem kunni að snerta og vera snertur eins og maður“ og henni tekst að breyta honum „í manninn sem ég átti að verða“ (135). Þegar honum tekst ekki að bjarga henni og hún deyr sér konan hans hann gráta í fyrsta sinn og þá verður slík sprenging af sorg og sekt að Petra verður dauðhrædd og biður hann að tengjast sjúklingi aldrei aftur svo sterkum böndum (137).
 
Brot úr fortíðinni þrýsta sér þannig inn í vitundina af afli og þá kallar Martin til nafna sinn Martin Martinetti sem hann hefur mögulega valið ósjálfrátt frá upphafi til þess að hjálpa sér að opna grafhvelfinguna í brjóstinu því að Martin Martinetti er tvíburasál hans sem var misnotaður af föður sínum í æsku. Hann segir að reynsla Martins Montag sé „barnaleikur“ miðað við sitt helvíti og vinur hans ætlar að ráðast á hann enda er þetta orð svo tvírætt og yfirskilyrt að það er eins og púðurtunna. Þar sem Martin Montag hefur brugðist við áfallinu af kulda og nákvæmni hefur Martin Martinetti brugðist við með misnotkun alls konar vímuefna, útigangi og sjálfseyðileggingu. Hvorugur getur fyrirgefið mæðrum sínum og öllum þeim sem létu sem þeir sæju ekki það sem fram fór heldur tóku sjálfsblekkingar sínar og borgaralega virðingu í samfélaginu fram yfir börnin sem þeim var trúað fyrir.
 
Barn sem hefur verið misnotað þegir oftast um það, bæði vegna hótana ofbeldismannsins og flókinnar blöndu af ástarhatri og sjálfsbjargarviðleitni af því að það er háð framfærslu ofbeldismannsins. Lögfræðingurinn Svala Ísfeld Ólafsdóttir hefur fjallað um þessi mál og ritstýrt stórbókinni Hinn launhelgi glæpur. Kynferðisbrot gegn börnum. (Svala Ísfeld Ólafsdóttir (ritstj). 2011) Þar kemur fram að flestir þeirra sem brjóta á börnum á þennan hátt koma úr þeirra nánasta umhverfi. Það er vafalaust ein af ástæðunum fyrir því að trúnaðarmaður barnsins, oftast móðirin, veigrar sér við að kæra glæpinn, málið er þaggað niður, börnin eru svikin aftur. Martin Montag og Lísa hafa bæði verið svikin þannig og þau fara gegnum þá sögu saman í bókinni Fyrir Lísu (Steinunn Sigurðardóttir 2012) sem segir frá því hvernig Martin Montag byrjar að endurskapa líf sitt, skref fyrir skref, en fyrir Lísu er það of seint.
 
Fáar skáldsögur skrifaðar á síðustu árum hafa borið jafn skýr skilaboð til samtíma síns um að virða barnið og þessar síðustu tvær skáldsögur Steinunnar Sigurðardóttur og fáar hafa verið brýnni — því miður.
 
Aftanmálsgreinar
[1] Allar tilvitnanir í söguna hér á eftir eru merktar blaðsíðutölum innan sviga.
[2] Um þetta hefur mikið verið rætt og ritað eins og nærri má geta um forsendur nýrrar fræðigreinar. Hér er látið nægja að benda á verk Ritu Charon sem er bæði læknir og bókmenntafræðingur, Rolfs Alzen, sem einnig er læknir og bókmenntafræðingur, og Arthurs W. Frank sem er félagsfræðingur og upphafsmaður umræðunnar um sjúkdóma sem frásögn. Frank hafði mikil áhrif með bók sinni, The Wounded Storyteller. Body, Illness, and Ethics (1995). Einnig má nefna sænska rithöfundinn og lækninn P.C. Jersild sem skrifaði skáldsöguna Babels hus (1978) um ómanneskjulegt viðmót nútíma sjúkrahúsa en sú bók vakti mikla athygli á sínum tíma.
[3] Bernhardsson 2010: 48, „humanities looking at medicine, looking at patients, and — crucially — looking at medicine looking at patients“.
[4] Af íslenskum bókmenntum sem fjalla um það hvernig sjúklingar upplifa heilbrigðiskerfið má nefna Sólina og skuggann eftir Fríðu Á Sigurðardóttur (1981) og Læknamafíuna eftir Auði Haralds (1980) sem dæmi. Dæmi um skáldverk sem lýsa baráttu við banvænan sjúkdóm eru Ótuktin eftir Önnu Pálínu Árnadóttur (2004) og Eitt vor enn? eftir Gylfa Gröndal (2005).
[5] Vert er að taka fram að þetta er ekki dæmigerð sjúkraskrá því að þær eru lokaðar öðrum en fagfólki og sjúklingnum sjálfum. Þetta er kennslu- og sýnidæmi um sjúkraskrá úr óútgefnu kennsluefni fyrir læknanema á Lyflækningasviði Landspítala - Háskólasjúkrahúss.
[6] Um íslenskar bókmenntir og tráma hafa skrifað: Alda Björk Valdimarsdóttir 2007, Bergljót Kristjánsdóttir 2010b, Dagný Kristjánsdóttir 2010, Gunnþórunn Guðmundsdóttir 2010, og Daisy Neijmann 2012.
[7] Í fyrstu talaði Freud um Janet og hugmyndir hans af virðingu en tilfinningarnar kólnuðu smám saman, einkum eftir að Janet sakaði hann (1925) um að hafa (rit)stolið frá sér öllum helstu hugmyndum sálgreiningarinnar! Sjá E.A.B. 1965: 52; sjá einnig Haule 1986: 86-94.
[8] van der Kolk og van der Hart 1995: 168. „With regard to trauma, the use of the term „repression“ evokes the image of a subject actively pushing the unwanted traumatic memory away. It is highly questionable whether this is actually the case. Contemporary research has shown that dissociation of traumatic experience occurs as the trauma is occurring. … Many trauma survivors report that they automatically are removed from the scene; they look at it from a distance or disappear altogether, leaving other parts of their personality to suffer and store the overwhelming experience.“
[9] Tilvitnun eftir van der Kolk og van der Hart 1995:170. „… a schema is formed on a set of (usually unconscious) expectations about what things look like and/or the order in which they occur. The parts or units of a schema consist of a set of variables or slots, which can be filled or instantiated in any given instance by values that have greater or lesser degrees of probability of occurance attached to them.“
[10] Svo að rafrænum myndhverfingum sé fram haldið …
[11] Fræðin um þetta eru kölluð BBT (Betrayal Traumatic Theory), sjá O’Rinn, Lishak, Muller og Classen 2012.
[12] Ágæta umfjöllun um myndhverfingar yfir sjúkdóma og kenningar Susan Sontag er að finna í grein Guðrúnar Láru Pétursdóttur (2006).
 
Heimildir
Aaslestad, Petter. 2007. Pasienten som tekst: Fortellerrollen i psykiatriske journaler Gaustad 1890-1990, 2. útg. Oslo: Universitetsforlaget.
Alda Björk Valdimarsdóttir. 2007. „Vera Hertzsch: Dæmisögur um siðferði skálds.“ Skírnir 181 (1): 36-60.
Bergljót Kristjánsdóttir. 2006. „Er dáðin dáð og örlátu mennirnir örlátir?“ Ritið 6 (2); 13-32.
Bergljót Kristjánsdóttir. 2010a. „Á kálfskinnsfrakka eða Arnaldur Indriðason og bókmenntarfleifðin.“ Skírnir 184 (2): 434-454.
Bergljót Kristjánsdóttir. 2010b. „Óvistlegar herbergiskytrur.“ Rúnir. Greinasafn um skáldskap og fræðastörf Álfrúnar Gunnlaugsdóttur. Ritstj. Guðni Elísson, 31-51. Reykjavík: Háskólaútgáfan.
Bernhardsson, Katarina. 2010. Litterára besvár: Skildringar av sjukdom i samtida svensk prosa. Stockholm: Ellerströms.
Bondvik, Hilde og Knut Stene-Johansen. 2011. Sykdom som litteratur: 13 utvalgte diagnoser. Oslo: Unipub.
Dagný Kristjánsdóttir. 2010. „Sár. Um stríð, trámu og salamöndrur.“ Rúnir. Greinasafn um skáldskap og fræðastörf Álfrúnar Gunnlaugsdóttur. Ritstj. Guðni Elísson, 17-30. Reykjavík: Bókmenntastofnun Háskóla Íslands.
E.A.B. 1965. „Medical History: Freud-Janet controversy.“ British Medical Journal, 1 (5426): 52-53.
Erikson, Kai. 1995. „Notes on Trauma and Community.“ Trauma. Explorations in Memory. Ritstj. Cathy Caruth, 183-200. Baltimore og London: The Johns Hopkins University Press.
Freud, Sigmund. 1978. Introductory Lectures on Psychoanalysis. The Pelican Freud Library, I. Middlesex: Penguin.
Freud, Sigmund. 2002. „Handan vellíðunarlögmálsins.“ Sigmund Freud, Ritgerðir. Sigurjón Björnsson þýddi, ritaði inngang og skýringar, 81-149.Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.
Guðrún Lára Pétursdóttir. 2006. „Myndir meina: Um læknavísindi, sjúkdóma og myndhvörf.“ Ritið 6 (2): 33-55.
Gunnþórunn Guðmundsdóttir. 2010. „Tregðan í frásögninni: Yfir Ebrófljótið.“ Rúnir: Greinasafn um skáldskap og fræðastörf Álfrúnar Gunnlaugsdóttur. Ritstj. Guðni Elísson, 129-141. Reykjavík: Bókmenntastofnun Háskóla Íslands.
Haule, John Ryan. 1986. „Pierre Janet and Dissociation: The First Transference Theory and its Origins in Hypnosis,“ American Journal of Clinical Hypnosis 29 (2): 86-94.
van der Kolk, Bessel A. og Onno van der Hart. 1995. „The Intrusive Past: The Flexibility of Memory and the Engraving of Trauma.“ Trauma: Explorations in Memory. Ritstj. Cathy Caruth, 158-183. Baltimore, ML, og London: The Johns Hopkins University Press.
Laplanche, J. Og J.B. Pontalis. 1985. The Language of Psycho-Analysis, London: The Hogarth Press.
Neijmann, Daisy. 2012. „Hringsól um dulinn kjarna: Minni og gleymska í þríleik Ólafs Jóhanns Sigurðssonar.“ Ritið 8 (1): 115-139.
O’Rinn, Susan, Victoria Lishak, Robert T. Muller og Catherine C. Classen. 2012. „A Preliminary Examination of Perceptions of Betrayal and its Association with Memory Disturbances among Survivors of Childhood Sexual Abuse.“ Psychological Trauma: Theory, Research, Practice, and Policy. Sótt 18. nóvember 2012 á http://psycnet.apa.org/index.cfm?fa=buy.optionToBuy&id=2012-l8552-001.
Scheper-Hughes, Nancy og Margaret M. Lock. 1987. „The Mindful Body: A Prolegomenon to Future Work in Medical Anthropology.“ Medical Anthropology Quarterly, New Series 1 (1): 6-41.
Sontag, Susan. 1991. Illness as Metaphor and AIDS and its metaphors. London: Penguin Books.
Steinunn Sigurðardóttir. 2011. Jójó. Reykjavík: Bjartur.
Steinunn Sigurðardóttir. 2012. Fyrir Lísu. Reykjavík: Bjartur.
Svala Ísfeld Ólafsdóttir (ritstj). 2011. Hinn launhelgi glæpur. Kynferðisbrot gegn börnum. Reykjavík: Háskólaútgáfan.
 
Greinin er birt með leyfi Dagnýjar og þökkum við henni kærlega fyrir.

Tengt efni