SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 9. janúar 2022

BÖRN BIÐJA EKKI UM AÐ FÆÐAST

Í fyrsta tölublaði Tímarits Máls og menningar frá árinu 1940 er birt frásögn eftir Theodóru Thoroddsen sem ber yfirskriftina Skuldin (1940: 1, bls. 36-39). Þar segir hún frá kennslubók sem ber titilinn Samtíningur og geymir m.a. söguna Skuldina sem boðaði að börn ættu svo mikið foreldrum sínum að þakka fyrir allt það sem þeir væru búnir að gera fyrir þau. Þetta las sonur Theodóru og kom til hennar sakbitinn en hún var „alldrjúg yfir inneigninni hjá börnunum.“
 
Theodóra rifjar þessa minningu upp löngu síðar, orðin 76 ára gömul og viðhorf hennar gjörbreytt. Hún boðar nú að það séu ekki börnin sem skuldi foreldrum sínum heldur sé það alveg á hinn veginn, það séu foreldrarnir sem „standa í óbættum sökum við börnin.“ Theodóra bendir á að börnin biðji ekki um að fæðast heldur taki foreldrarnir sér það bessaleyfi að eignast þau og það sé því þeirra að annast þau og gera þeim fært að standa á eigin fótum, án þess að heimta þökk eða laun fyrir.
 

Theodóra segist þekkja mörg dæmi þess að foreldrar hafi litið á börn sín sem „eign, sem sjálfsagt væri að hagnýta sér“ en með aukinni fræðslu sé það vonandi að breytast. Hún bendir á að það sé „fyrst og fremst æskan, sem þarf að hlynna, því á hennar herðum hvíli framtíð þjóðarinnar.“ Þá telur Theodóra ranglátt að börn eigi að annast foreldra sína í ellinni því það eigi ríkið að gera, með sómasamlegum lífeyri. Fólk eigi ekki að þurfa að leita á náðir barna sinna sem oftar en ekki eigi fullt í fangi með að sinna sér og sínum börnum.
 
Theodóra klykkir út með að líklega fagni fáir fæðingardegi sínum og láti sér fátt um finnast „um dvölina í hinni veröld, og kysi helzt að hafa aldrei í þá veiðistöð komið." Þrátt fyrir að börnin hafi aldrei ásakað Theodóru fyrir þann þátt sem hún á í tilveru þeirra segir hún að „sú syndasekt" sé sú eina sem sem sé ógoldin.
 
Við þetta má bæta að fyrrnefnd kennslubók heitir fullum fetum Samtíningur handa börnum og kom út í fjórum litlum heftum á árunum 1890-1903. Þau geyma bæði smásögur og ljóð úr ýmsum áttum. Fyrrnefnd saga, Skuldin, er í öðru hefti á bls. 16-19. Jóhannes Sigfússon er skrifaður fyrir heftunum og segir, í formála, tilgang þeirra að „innræta [börnum] nytsama lærdóma.“
 
 

Tengt efni