SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Theodóra Thoroddsen

Theodóra Guðmundsdóttir, síðar Thoroddsen, er fædd 1. júlí 1863 á Kvennabrekku í Dölum, þar sem faðir hennar var prestur og alþingismaður. Hún ólst upp á efnuðu menningarheimili og lauk prófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík. Árið 1884 giftist hún Skúla Thoroddsen, sýslumanni og alþingismanni. Þau bjuggu fyrst á Ísafirði en síðan í nokkur ár á Bessastöðum á Álftanesi, þar til þau fluttust til Reykjavíkur árið 1908, en þar átti Theodóra heima upp frá því. Þau Theodóra og Skúli eignuðust þrettán börn. Af þeim náðu tólf fullorðins aldri. Skúli lést árið 1916 og nokkrum árum síðar tveir synir þeirra með stuttu millibili. 

Theodóra Thoroddsen var virk í bókmennta- og menningarlífi Reykjavíkur og hafði mikinn áhuga á þjóðmálum, einkum þeim sem lutu að kvenréttindum. Hún var í Lestrarfélagi kvenna Reykjavíkur og las upp ljóð og frásagnir eftir sig á fundum. Fyrstu verk hennar birtust í Mánaðarritinu, sem var handritað og gekk á milli félagskvenna. Hún samdi merka vísnaþætti um hlut kvenna í íslenskum bókmenntum og birtist sá fyrsti í  Skírni árið 1913. Þar fjallaði hún m.a. um aðstöðu kvenna til ritstarfa. Sjálf fór Theodóra ekki að sinna ritstörfum að marki fyrr en um miðjan aldur. Hún var vel menntuð á sviði þjóðfræða, skrásetti þjóðsögur og safnaði lausavísum, samdi ritgerð um íslenska þjóðtrú og þýddi á íslensku norskar og færeyskar þjóðsögur. Hún skrifaði smásögur og sagnaþætti, orti kvæði og stökur, en þekktust er hún fyrir þulur sínar. Þær fyrstu birtust í Skírni árið 1914 ásamt formála eftir Theodóru um þulur sem skáldskapartegund. Þulur komu út árið 1916 og í annarri útgáfu með viðbótum árið 1938. Sú útgáfa hefur verið endurprentuð nokkrum sinnum. Ritsafn Theodóru kom út árið 1960 í útgáfu Sigurðar Nordals.

Theodóra lést í Reykjavík 12. febrúar 1954, rúmlega níræð að aldri.

 

Heimild:

Helga Kress. 2001. „Theodóra Thoroddsen“ Stúlka. Ljóð eftir íslenskar konur. Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, Reykjavík.


Ritaskrá

  • 1960 Ritsafn: Theodora Thoroddsen
  • 1938 Þulur, með viðbótum
  • 1916 Þulur

Tengt efni