KONA SEM SKRIFAR UM SJÁLFA SIG - Um Önnu frá Moldnúpi
FJÓSAKONA fór út í heim er heiti á bók eftir Sigþrúði Gunnarsdóttur sem kom út 1998 hjá Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands. Titillinn vísar í fyrstu bók Önnu frá Moldnúpi, Fjósakona fer út í heim, sem er einn skemmtilegasti bókartitill íslenskra bókmennta.
Bók Sigþrúðar er byggð á BA-ritgerð hennar í íslensku við Háskóla Íslands sem fjallar um ferðasögur og undirtitill hennar er: Sjálfsmynd, skáldskapur og raunveruleiki í ferðasögum Önnu frá Moldnúpi og er fyrsta fræðilega umfjöllunin um sögur hennar. Bókin skiptist í 9 kafla, auk formála og heimildaskrár. Í tilefni af því að Anna frá Moldnúpi er komin í skáldatalið birtum við hér á eftir viðtal sem tekið var við Sigþrúði í tilefni af útgáfu bókarinnar og birt í Morgunblaðinu.
Hvernig fékkstu hugmyndina að því að skrifa um Önnu frá Moldnúpi ?
Ég var á námskeiði í Háskólanum sem fjallaði um ævisögur og þá lásum við bók eftir Önnu, sem heitir Förukona í París. Mér fannst bókin ofsalega spennandi og svo var svo gaman hvað hún kallaðist á við aðrar sjálfsævisögur kvenna sem standa á jaðri samfélagsins, eins og svartra kvenna í Bandaríkjunum. Það var það sem kveikti í mér.
Eru sögurnar hennar aðgengilegar almennum lesendum? Eru þær til?
Já, þær eru til á sumum bókasöfnum, en því miður ekki í búðum. Þær eru alla vega til á Háskólabókasafninu. Hún seldi bækurnar sínar sjálf. Ég hef heyrt að það séu bækur á Moldnúpi, en ég hef ekki kannað það nánar.
Hvers konar sjálfsmynd birtist í bókunum? Hver er þessi kona, Anna frá Moldnúpi?
Eins og kemur fram í bókum hennar er sjálfsmyndin ótrúlega tvískipt. Anna er fátæk, íslensk alþýðukona. Það er enginn sem hleður undir hana. Hún vinnur fyrir ferðum sínum sem verkakona, en hún óf líka listvefnað og það hangir eitt teppi uppi eftir hana á minjasafninu á Skógum. Alltaf þegar Anna segir frá sér í bókunum birtist allt önnur mynd af henni; mynd hins frjálsa ferðalangs. Hún skoðar söfn og kirkjur, en hún er einhvern veginn aldrei heil í þessari tjáningu sinni. Óæðri hlutinn af henni, verkakonan, kemur alltaf í gegn. Það myndast sífelld togstreita. Hún veit ekki hvað hún getur sagt um sig og kallar sig alls konar ónefnum, þetta gengur í gegnum allar bækurnar. Eins og hún gefi með því afsökun fyrir því að vera að skrifa þetta. Þetta gera bandarísku blökkukonurnar líka.
Fræðikonan Joan Rush hefur rannsakað ævisögur kvenna á jaðri samfélagsins og niðurstöður hennar koma heim og saman við þá litlu gagnrýni, sem Anna fékk. Gagnrýnin var mjög á léttu nótunum. Gagnrýnendur virðast hafa gaman af þessum bókum, en finnst óviðurkvæmilegt að segja það, af því bækurnar hennar Önnu eru einskis verðar samkvæmt öllum hefðum. Það kemur þeim svo á óvart að þeir skuli skemmta sér að þeir næstum skammast sín fyrir það.
Sjálfsævisögur Önnu frá Moldnúpi sverja sig ekki í ferðasagnahefðina nema að efninu til. Frásagnaraðferð þeirra minnir sterklega á sjálfsævisögur annarra kvenna, einkum þeirra sem staðsettar eru neðarlega í mannfélagsstiganum samkvæmt ríkjandi gildismati. Þessi líkindi vekja ýmsar spurningar.
Er virkilega hægt að lesa það úr texta hvers konar manneskja hefur skráð hann, eða réttara sagt, hvers konar lífi manneskjan sem skráði hefur lifað? Ef svo er gerir það fullyrðingar um dauða frumlagsins og höfundarins í bókmenntum æði flóknar, dregur þær jafnvel í efa. Um slíkar fullyrðingar segir Elizabeth Fox-Genovese að vel geti verið að hinn hvíti karlmaður sé ekki lengur til staðar í sætum frumlags og höfundar í bókmenntum en nógir aðrir hafi áhuga á að fylla þau sæti, hópar sem hafa of lengi hvorki átt sér rödd né farveg fyrir skoðanir sínar og tilfinningar.
Þegar Anna frá Moldnúpi braut sér leið inn í íslenskt bókmenntalíf á miðri tuttugustu öldinni var hún fulltrúi eins eða fleiri af þeim þögguðu þjóðfélagshópum sem standa á jaðri ríkjandi menningar. Hún er kona sem skrifar um sjálfa sig, fulltrúi hinna fátæku, ættlitlu og ómenntuðu. Um leið er hún hinn ferðaþyrsti eyjaskeggi, bæði reynd og skólagengin.
Hvorugt þarf að útiloka hitt, því tveir mótsagnakenndir hlutir geta báðir verið sannir, það sést best á Önnu frá Moldnúpi. Af mótsagnakenndri sjálfsmyndinni, tvístruðu sjálfinu, kjarkinum, hræðslunni og (fífl)dirfskunni reisir hún líka styttu og í þetta skiptið áþreifanlega; minnismerki í bókarformi um óþekkta ferðalanginn Önnu frá Moldnúpi svo dugnaður hans geti orðið hverjum manni kunnugur.
Morgunblaðið 1. des. 1998