„FRÁ FJÓSAVERKUM TIL SIGNUBAKKA.“
Í áramótablaði Morgunblaðsins 1952 birtist viðtal við Önnu frá Moldnúpi sem þá hafði sent frá sér tvær ferðabækur. Við endurbirtum viðtalið hér og bætum við myndum.
FRÁ FJÓSAVERKUM TIL SIGNUBAKKA: SAMTAL VIÐ ÖNNU FRÁ MOLDNÚPI
Áður hirti hún kýr og heyjaði undir Eyjafjöllum, reri á svið og las latínu. Hún hefur síðan gist kóngsins Kaupinhöfn, Eyjuna hvítu og reikað um í lundum Boulogneskógar og á bökkum Signufljóts, þar sem gleði og sorgir Parísarborgar búa saman í örlagaríku sambýli og „léttúðin liggur í loftinu“. — Nú vefur hún glitofna dregla og skrifar bækur.
Um hverja ég er að tala? Hún heitir Anna Jónsdóttir og er frá Moldnúpi undir Eyjafjöllum. Já, það er hún Anna frá Moldnúpi, sem hefur skrifað Fjósakona fer út i heim og Förukona í París.
Ég hitti Önnu að máli fyrir nokkrum dögum og rabbaði við hana stundarkorn um ýmislegt, sem á daga hennar hefur drifið.
BEZTA FÓLKIÐ Á ÍSLANDI
— Hvað getið þér sagt mér um ætt yðar og uppruna?
— Ég er Skaftfellingur að ætt, komin af séra Jóni Steingrímssyni, ólst hins vegar upp á Moldnúpi í Vestur-Eyjafjallahreppi. Þaðan á ég alls hins bezta að minnast. Undir Eyjafjöllum býr bezta fólkið á Íslandi, því að hvergi skín sólin bjartara en þar. Þar unnu allir fyrir alla án þess að spyrja um borgun og fátæklingar liðu þar aldrei skort, á meðan nokkur átti björg. Á unglingsárum mínum gerði ég mikið af því að vefa fyrir fólk í sveitinni. Ég hafði verið á fimm vikna námskeiði í vefnaði hjá frú Sigrúnu Blöndal, og hefur sú kennsla komið mér að góðu gagni siðar meir.
Á LAUGAVATNSSKÓLA
— Hvenær fóruð þér svo að heiman?
— Í fyrsta skipti árið 1929, er ég fór á alþýðuskólann á Laugavatni. Ég settist þar í efri deildina, en sem undirbúningsmenntun hafði ég hlotið átta vikna farkennslu í 4 vetur, frá 10—14 ára aldurs. Ég kunni ágætlega við mig á Laugavatni. Þetta var annað starfsár skólans og nemendur 80 talsins. Ég kynntist þar mörgu prýðisfólki og betri húsbónda hefði ég ekki getað hugsað mér heldur en Bjarna Bjarnason, skólastjóra.
— Hvert lá svo leiðin frá Laugavatni?
— Þegar skólavist minni þar var lokið, datt mér í hug að reyna að læra eitthvað meira. Dreif ég mig til Reykjavikur sem ég þá sá í fyrsta skipti á ævinni, árið 1930, til að sjá til, hvort hægt væri að koma sér þar áfram á einhvern hátt. Ekki átti ég vísa neina skólavist og félaus var ég með öllu, svo að útlitið var ekki sérlega glæsilegt.
FÓR í FISKIRÓÐRA
— Þá reri ég að gamni mínu út á svið til fiskjar og hafði ekki minna en 23 krónur upp úr róðrinum. Fannst mér ég hafa gert heldur góðan túr. Fór ég í þennan róður með vesfirzkum formanni, sem ég þekkti og lofaði hann mér oft með sér á sjóinn síðar meir, þegar ég þurfti á peningum að halda, en aldrei hafði ég samt eins gott upp úr aflanum eins og i fyrsta 23 krónu róðrinum.
— Fannst yður ekki sjósóknin full erfið?
— Nei, þá var ég svo ung og sterk, að mér fannst ekkert vera mér ofraun. Auk þess átti sjórinn ágætlega við mig, enda er í mér ósvikið sjávarblóð. Faðir minn og afi voru báðir formenn.
LAS TIL STÚDENTSPRÓFS
— En hvað um námið?
— Ég las og las, ýmist í herbergiskytrunni minni ofnlausri og ískaldri eða niðri á Landsbókasafni. Þar voru góðir menn og gott að vera í þá daga, enda voru þær mitt líf, stundirnar sem ég fékk að sitja þar. Ég náði gagnfræðaprófi og hafði mikinn hug á að halda áfram til stúdentsprófs. En féleysið var mér löngum erfiður þrándur i götu.
— Jafnframt utanskólalestrinum varð ég að vinna mér fyrir brýnustu líísnauðsynjum með því að þvo þvotta og gera hreint fyrir fólk, auk þess, sem ég skrapp öðru hvoru í róður eins og ég gat um áðan. Ég komst samt yfir að lesa allt, sem tilskilið var til stúdentsprófs og fór ég þá þess á leit, að ég fengi að sitja einn vetur í skólanum til loka undirbúnings, en því var mér synjað og þótti mér ærið súrt í broti. Í þessu námsbasli mínu átti ég þó að tvo góða menn, sem reyndust mér einstaklega hjálplegir í ráðum og dáð, en það voru þeir Jón Ófeigsson, yfirkennari og dr. Ólafur Daníelsson. Minnist ég þeirra ætíð síðan með þakklátum hug. Svo fór að lokum, að heilsan bilaði vegna hins ónóga viðurværis, sem ég hafði búið við í langan tíma. Ég veiktist og treysti mér ekki til að leggja út í stúdentsprófið og þar við sat.
HEFDI VILJAÐ LÆRA TIL PRESTS
— Þér hafið haft unun af að læra?
— Mér hefur alltaf þótt meira gaman af að vinna heldur en að lesa, en ég vissi, að bókalærdómurinn gæti komið mér að gagni og stúdentsprófið setti ég mér sem mark til að hafa eitthvað ákveðið til að miða við. Seinna hefði ég haft hug á að læra til prests, en þær áætlanir fóru allar fyrir lítið.
— Hvað tók þá við fyrir yður?
— Ég varð að leggja allan lestur á hilluna í þrjú ár. Ég virtist öll vera af mér gengin. Höfuðið gerði verkfall og taugarnar sömuleiðis. Þegar ég hafði náð mér sæmilega, tók ég til við að barnakennslu og byrjendakennslu í ensku, en fannst lítið upp úr því að hafa, svo að ég sneri mér að því að vefa fyrir fólk og selja og hefði það getað gefið mér töluvert í aðra hönd, en þá þyrmdi yfir mig lömunarveikinni, árið 1945. Annar handleggurinn á mér lamaðist og ég hef ekki borið mitt barr síðan.
„FJÓSAKONA FER ÚT Í HEIM“ – „FÖRUKONA í PARÍS“
— En viljið þér nú ekki segja mér eitthvað um bækurnar yðar?
— Þær eru nú aðeins tvær. Sú fyrri þeirra, „Fjósakona fer út í heim“ kom út fyrir tveimur árum síðan, en hin síðari, „Förukona í París“ er rétt nýkomin út. Báðar eru þær frásagnir af ferðum mínum: kringum Ísland, til Danmerkur, Suður-Englands, um Belgíu og Þýzkaland til Frakklands. Ég hafði reynt að nurla mér saman aurum fyrir ferðakostnaðnum með vefnaði í nokkra vetur, þar sem mér fannst ég þurfa hressingar við, en útþráin er mér í blóðið borin.
HERTEKIN í ACHEN
— Og sjálfsagt hefur margt sögulegt borið við á ferðalögum yðar?
— Já, það ber ýmislegt við á langri ferð. T. d. varð ég einu sinni fyrir því, er ég var stödd í Achen, á landamærum Belgíu og Þýzkalands, að ég var þar hreinlega hertekin. Ég hafði daginn áður keypt farseðilinn í Kaupmannahöfn fyrir minn síðasta pening, svo að mér var hreint ekki um sel, er mér var sagt, að ég yrði send aftur til Brussel, vegna þess, að mér hafði líðst að fá vegabréf mitt áritað. Fólk hélt, að ég væri þýzkur njósnari eða eitthvað þaðan af verra og enginn vildi mér neitt liðsinni veita. Þetta var afleit íkoma, en í gegn komst ég samt sem áður um síðir.
TVISVAR Í PARÍS
— Hvernig leizt yður á lífið í París?
— Ég hef komið þar tvisvar, í fyrra skiptið árið 1950. Þá lifði ég á skrínukosti og hafði það yndislegt, reikaði um borgina, frá austri til vesturs og norðri til suðurs og gaf mér góðan tíma til að skoða það sem fyrir augun bar. Síðastliðið sumar lá svo leið mín þangað aftur og dvaldi ég þar í þetta skipti um fimm vikna tíma.
HRIFNUST AF KIRKJUNUM
— Af hverju voruð þér hrifnastar?
— Af kirkjunum. Ég var heilluð af fegurð þeirra og hátíðleik og minnisstæð er mér hátíðamessan er ég hlýddi á í „Sacre Cæur“ kirkjunni á Montmartrehæð hinn 22. júní, daginn eftir að ég kom til Parísar í sumar. Þetta var sameiginlegur kaþólskur kirkjudagur í Frakklandi og þúsundir pílagríma úr öllum áttum voru þarna samankomnir. Mér fannst andrúmsloftið þrungið af óumræðilegri helgi og trúareldmóði, sem snart mig á ógleymanlegan hátt.
ALLIR MEGA GERA ALLT
— En Signa?
— Signa er indæl, þó að hún sé skítug. Hvergi er hægara að bera saman veldi heimsins og vesöld en einmitt þarna um miðbik Parísar á bökkum Signu, þar sem fátækt og eymd, auður og íburður blasir við augum í sömu andránni. En þarna eru allir frjálsir, allir mega gera allt og það er einmitt þetta blessaða frelsi, sem gerir París svo eftirsóknarverða, jafnvel fyrir fátæklingana.
— Voruð þér ekki, hin framandi „fjósakona“ norðan frá Íslandi, oft furðu lostnar, er þér komuð fyrst út í hinn stóra heim?
— Jú, ég var það fyrst í stað. Ég gerði mér mat úr öllu, drakk í mig hvert orð og atvik.
ÆVINTÝRIÐ Í FJÓSHAUGNUM!
— Ég hef af guðs náð sérstaklega gott minni. Það fyrsta, sem mig rekur minni til á ævinni er raunar ekki geðfelldari en það, er ég tveggja ára gömul datt ofan í fjóshaug og bjargaði mér sjálf upp úr og hlaut fyrir það mikið hrós og aðdáun, eins og ég hefði leyst af hendi eitthvert þrekvirki. Ég man að mér leið svo sem mjög bærilega þarna niðri í haugnum og klóraði mig upp úr án þess að fara mér að neinu óðslega. Orgaði síðan hraustlega til að gera vart við mig, en gerði mér sízt vonir um, að gert yrði þvílíkt „stáss“ með mig fyrir að ata mig svo rækilega út.
HUGSAR FLJÓTAR EN PENNINN SKRIFAR
— Hafið þér yndi af að skrifa?
— Mig langar yfirleitt ekkert til að skrifa, en ég á mjög létt með það. Er langtum fijótari að hugsa en að skrifa, svo að ég er oft óafvitandi byrjuð á næsta orði, áður en ég hef lokið við
það fyrra. Nei, ég vil miklu heldur vinna ærlega líkamlega vinnu heldur en að skrifa. Ég er fædd með verk í hönd. Á meðan ég hafði fulla heilsu og krafta sagði ég stundum, að ég mundi líklega enda ævi mína sem rithöfundur, en það hefði áreiðanlega ekki gengið eftir, ef ég hefði ekki fengið lömunarveikina og misst við það mitt fyrra starfsþrek.
BÓKAÚTGÁFAN — HLAUP EN LÍTIL KAUP
— Og hvað hafið þér fyrir stafni um þessar mundir?
— Ekkert, annað en ég er að stússa við að gefa út þessa nýju bók mína, Förukona í París.
Hafi ég eitthvað upp úr henni, er mögulegt að ég ráðist í að skrifa þriðju bókina, um Suður-England, þar sem það hefur orðið út undan hjá mér enn sem komið er. En það er erfitt verk og erilsamt að standa í bókaútgáfu, skal ég halda eftir mína reynslu í þeim efnum. Ég hef verið á stöðugum þeytingi og þönum að undanförnu, en því miður er langt í frá að erindi hafi farið eftir erfiði, ég hef haft mikil hlaup en lítil kaup.
ENGIN SKÖMM AÐ FJÓSAKONUTITLINUM
— Þér hafið valið bókum yðar heldur hógvær heiti.
— O-jæja. Ef til vill hefur ætlun mín verið að grínast svolítið að samtíðinni með allt hennar skraut og prjál. Ég hugsaði vel um kýrnar á meðan ég var í sveitinni minni og þykir engin skömm að fjósakonutitlinum. Ég verð verkakona, hvar sem ég fer í heiminum, þó að ég eigi reyndar varla það nafn skilið lengur, eftir að heilsa mín bilaði, svo að ég er svo að segja ófær til allrar ærlegrar vinnu. Nóg er samt um „snobbið“ og hégómann, sem allt eru að fara með í hundana.
HEIM AÐ MOLDNÚPI UM JÓLIN
— Ætlið þér heim að Moldnúpi um jólin?
— Það vildi ég helzt af öllu. Hingað til hef ég alltaf verið þar heima á jólunum, hef farið 21 sinni á milli Reykjavíkur og Eyjafjalla, ýmist fótgangandi (hef aldrei verið lengur en tvo daga á leiðinni!) eða akandi. Þaðan á ég allar mínar ljúfustu endurminningar, undir Eyjafjöllum á ég heima a hverjum bæ.
KANN EKKI AÐ KVIÐA NÉ ÓTTAST
— Ég hef ekkert ákveðið fyrir augum. En ég kann ekki að kvíða né óttast, slík tilfinning veit ég ekki hvað er. Ég læt hverjum degi nægja sína þjáningu, eða eins og amma mín gamla sagði: Ef guð ætlar manni að lifa, þá veit hann, að hann verður að leggja manni eitthvað til, segir Anna að lokum. Það er eitthvað til í því. Svo þakka ég yður kærlega fyrir samtalið. Góða ferð austur undir Eyjafjöll.
Viðtalið birtist í Mbl. 31. des. 1955. Myndin af bókum Önnu er tekin af heimasíðu Hótels Önnu á Moldnúpi.