SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir25. mars 2022

EITT ÞÚSUND FERHENDUR OG MORGUNLJÓÐ - Um Birnu G. Friðriksdóttur

Ljóðabókin Grýtt var gönguleiðin eftir Birnu G. Friðriksdóttur kom út 1995 og er það afar óvenjuleg bók. Einskonar skáldsaga í bundnu máli um ævi förukonu.
 
 
„Fyrir skömmu kom út bók sem mörgum Svarfdælingum og fleirum mun eflaust þykja býsna áhugaverð. Bókin nefnist Grýtt var gönguleiðin og er höfundur hennar Birna Friðriksdóttir fyrrum húsfreyja á Melum sem búið hefur á Akureyri hin síðari ár. Bókin er öll í bundnu máli en þó er hér ekki um venjulega ljóðabók að ræða. Hún er 160 blaðsíður að lengd og eru í henni rúmlega eittþúsund ferhendur sem mynda samfellda frásögn. Það kallast víst epísk frásögn á máli bókmenntafræðinnar. A bókarkápu segir að bálkurinn sé skáldverk, reynslusaga alþýðukonu sem fædd er á síðari hluta 19. aldar og lauk lífsstarfi sínu „á sauðskinnsskóm með sigg í lófum". Bókin er gefin út á reikning höfundar og í takmörkuðu upplagi. Verður hún væntanlega til sölu í versluninni Sogni á Dalvík en einnig er hægt að nálgast hana hjá höfundi sjálfum og dætrum hennar. ... Birna hefur að sögn kunnugra haft þennan kvæðabálk í smíðum um nokkurn tíma og er eins víst að hún lumi á fleira efni sem bíður birtingar.“
 
 
Hér má lesa nokkur ljóða Birnu. Eitt nefnist Morgunljóð:
 
Liggur leynt á stráum
léttur daggarúði,
fyllir fjölda garða
fagur blómaskrúði.
 
Leggur skin um loftið l
éttist margra sinni,
fagnaðsalda fyllir
flest í tilverunni.
(1975)
 
 
 
 
 
 
 

 

Tengt efni