SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir27. júlí 2021

EKKERT KANN ÉG FYRIR MÉR NEMA KROSSMARKIÐ

 
 
 
 
Þóra Jónsdóttir frá Laxamýri hefur sent frá sér samtals níu ljóðabækur auk ljóðaþýðinga og einnar ævisögu. Fyrsta ljóðabók Þóru kom út 1973, Leit að tjaldstæði, og fékk góða dóma gagnrýnenda og ljóðaunnenda. Ekki hefur samt mikið farið fyrir Þóru eða verkum hennar í bókmenntaumræðunni, hvernig sem á því stendur. Víst er og margtalað að skáldkonur njóta ekki allar sannmælis og athygli á við karlskáld burtséð frá hæfileikum og afköstum og á það örugglega við um Þóru.
 
Bók hennar, Hversdagsgæfa (2010), er allrar athygli verð. Henni er skipt upp í sex hluta sem kenndir eru við viðfangsefni hvers þeirra: Sveitin, Naflastrengurinn, Borgin, Hringferð, Manneskjur og Undur; kunnugleg yrkisefni úr fyrri bókum höfundar. Hér eru á ferð mislöng minningabrot eða ljóðrænar örsögur; beinar hversdagsmyndir og skýrt myndmál um náttúru, hlutskipti kvenna, tímann og tilveruna.
 
Í sveitaljóðum Þóru er ekki að greina beinlínis söknuð eftir horfnu samfélagi eða fornum búskaparháttum, heldur ber mest á stritinu. Þar segir m.a. af vinnukonu sem í 30 ár hafði m.a. „þann starfa að fela eldinn að kvöldi og taka hann upp fyrir allar aldir. Smávaxin, lotin kona með fortíð sem hún ræddi ekki og lést á bænum frá hlutskipti sínu“ (8). Sagt er frá dúntekju á mjög ljóðrænan hátt, ásamt veiðiskap og hröktu heyi á köldu sumri.
 
Í kaflanum Naflastrengur er fjallað um fjölskyldubönd, ungbörn og átthagafjötra með nokkrum trega. Ferð er áberandi þema úr fyrri bókum Þóru og hér eru einnig nokkrar stuttar ferðasögur sem tengjast „minningum sem eru styggar og láta sig hverfa jafn ótt og þær birtast“ (47). Sögurnar einkennast af óvæntum atburðum og frelsisþrá.
 
Í borgarmyndum Þóru er einsemd og reiðuleysi, stakur hanski fýkur á gangstétt, „helmingur af pari, báðir glataðir ef þeir skiljast að“ (31). Þar eru góðar konur sem hengja upp þvott, hjúkra eða keyra strætisvagna og afbrýðisamar konur sem gruna jafnvel hjálpsama vinkonu um græsku. Og hverfulleikinn gerir vart við sig, fólk kemur og fer og tíminn líður: „Ég tek að hugleiða bústaðaskipti. Það sem heldur fastast í mig er litla herbergið í kjallaranum sem birtan leikur um. Birta eitt sinn skilin eftir sem gjöf“ (38).
 
Í kaflanum Manneskjur gerast óvæntir atburðir, það er t.d. bankað upp á einn daginn og lífið verður aldrei samt aftur. Ástarsambönd, krossgötur og hlutskipti kvenna eru yrkisefni Þóru í þessum bókarhluta og á þeim er tekið af yfirvegun og æðruleysi. Síðasti hluti bókarinnar, Undur, er myndrænni og frjálslegri en hinir og þar er m.a. lausleg tenging við ævintýri og þjóðsögur. Í lokaljóði bókarinnar ríkir einsemd og sú tilfinning að eiga hvergi heima, álfkonan sem vildi búa meðal manna situr alein í eldhúsi sínu og tilheyrir hvorki mannheimi né náttúru álfa lengur (81).
 
Ágengt þema bókarinnar í heild er hlutskipti kvenna og rödd sögumanns einkennist einnig af samkennd með þeim sem minna mega sín, þeim sem draga ávallt stysta stráið (29). Í Hverdagsgæfu eru kvennasögur, um mæður, eiginkonur og vinkonur. Ekki baráttutextar eða brýningar heldur minningabrot og myndir þar sem konur eru aðalpersónur. Bestu sögurnar eru í bókarlok þar sem losað er um jarðtenginguna, þegar draumar og fantasía taka völdin af hversdagsleikanum:
 
Hús með meiru
Aldrei hefði leið mín legið á þessar slóðir ef í húsinu
byggi ekki fólk sem mér er hjartfólgið. Grimma
varðhundana þeirra hef ég vingast við. Þjakandi hitann,
svo og krákurnar sem hafa drauma manns í flimtingum
í morgunsárið, hlýt ég að sætta mig við. Sama gildir um
hrottafenginn hlátur þrumunnar og merkjamál
eldinganna fyrir skýfallið. Aðvörun um hvirfilvinda er
vert að taka mark á. Mýflugan suðar um leið og hún
stingur þar sem maður situr í forsælu af tré. Eitt finnst mér
ekki með felldu. Ég vaki allar nætur milli tvö og
fimm, hversu þreytt sem ég er. Í nótt dreymdi mig
nokkuð sem kom mér í uppnám. Mig grunar að
slæðingur sé í húsinu. Ekkert kann ég fyrir mér nema
krossmarkið.
(80)
 

Tengt efni