SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir22. mars 2022

NORÐLENSK SKÁLDKONA

Guðbjörg Hermannsdóttir (1917–1997) skáldkona var búsett norðan heiða. Hún skrifaði fimm bækur á jafnmörgum árum og voru þær gefnar út hjá Skjaldborg á Akureyri. Sögur hennar eru aðgengilegar á Storytel.
 
Á hinum stórskemmtilega vef Bókarkápan.com segir um kápu bókar einnar eftir Guðbjörgu:
  
Bókin „Víða liggja leiðir“ er þriðja skáldsaga Guðbjargar Hermannsdóttur. Bókin kom út árið 1980 og var gefin út af Bókaútgáfu Skjaldborgar en DELFI sá um hönnun bókarkápunnar.
 
Það er lítil sem engin umfjöllun um bókina á bakhlið hennar, annað en að þetta sé ástarsaga. Sagan fjallar um Sigmar sem nýlega hefur misst eiginkonu sína og stendur einn eftir með tvö ung börn.
 
Bókarkápan er rjómahvít á litinn, en titill bókarinnar er með þykkum grænum stöfum og nafn rithöfundar fyrir ofan titilinn með svörtum þykkum hástöfum. Undir titli bókarinnar er stór vatnslitamynd sem tekur megnið af plássinu á kápunni. Bakhliðin er einnig hvít en þar áðurnefnd mynd teiknuð aftur, en bara í tveimur litum; rauðum og hvítum. Titill bókarinnar er einnig með grænu letri á bakhliðinni og nafn höfundar með rauðu. Undir nafni rithöfundar er umfjöllun um rithöfundinn og hennar feril.
Þrátt fyrir að bókarkápan sé barn síns tíma er hægt að sjá að mikið hefur verið lagt í hönnun hennar, og er hún vel gerð. Framan á bókarkápunni eru aðalpersónur sögunnar, þrjár konur, tvö börn og einn karlmaður. Ein kvennanna er stærri en hinar. Hún er blá og gegnsæ; e.t.v. hin látna eiginkona Sigmars. Í hinum persónunum má greinilega sjá tískustrauma 9. áratugarins í hárgreiðslu, förðun og fatnaði og einnig í teiknistíl myndarinnar. Svipbrigði fólksins gefa sterklega í skyn að hér sé um dramatíska ástarsögu að ræða og textinn í vinstra horninu styrkir þá getgátu; „Saga um ógnþrungin örlög og ólgandi ástir“. Vörubíll og krambúleraður fólksbíll gefa í skyn að eitthvað hafi gerst, en ung móðir deyr einmitt frá börnum sínum og eiginmanni í bílslysi. Þetta ætti ekki að koma lesandanum á óvart þar sem bókarkápan segir hálfa söguna.
 

Tengt efni