SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir21. mars 2022

LJÓÐ TIL STYRKTAR SKÁLHOLTI

Skáldkonan Bára Bjargs (1886-1973) skrifaði augljóslega undir dulnefni. Árið 1950 sendi hún frá sér bók sem hún nefndi Vor að Skálholtsstað. Það er ljóðakver, helgað minningu Þórðar, sonar Ragnheiðar biskupsdóttur og Daða.
 
Um tildrög útgáfunnar segir höfundur:
 
Nokkru fyrir 1950 var ásamt vinafólki mínu stödd í Skálholti að sumarlagi. Hinn tigni, sögufrægi staður hafði mjög sterk áhrif á huga minn og ekki síður niðurníðsla staðarins. Þá gerði ég áheit, ef ég hefði aðstöðu til að semja ljóð eða því um líkt og koma því í verð, að Skálholt skyldi njóta ágóðans.
 
Séra Sigurbjörn
Nokkrum árum síðar ritar sr. Sigurbjörn Einarsson í Morgunblaðið og segir að frú Bryndís (Bára Bjargs) hafi nú afhent sér ágóða af sölu ljóðabókar. „Sölu bókarinnar hefur höfundur að öllu leyti annazt sjálf með hjálp manns síns og skylduliðs og lagt í það mikla vinnu. Sú vinna og persónulegar vinsældir valda því, hvað þetta göfuga áheit hefur orðið ábatasamt fyrir Skálholt. Auk þess talar efni ljóðakversins máli staðarins við hvern þann sem fær það í hendur. Ef svona drengileg liðveizla við beztu málefni væri algeng með þjóðinni, þá væri vorið góða komið, ekki aðeins yfir Skálholtsstað, heldur Ísland allt.“ (Morgunblaðið, 29. október 1959)
 
Ritdómur í Mogganum
Aðalbjörg Sigurðardóttir sem einna fyrst kvenna til að skrifa ritdóma í íslensk blöð, fór lofsamlegum orðum um kverið í Morgunblaðinu, 27. nóvember 1951:
 
„...Höfundinum birtast sýnir frá fortíðinni, eins og í leiðslu sjer hún atvik úr lífi sumra þeirra, er hjer hafa lifað og dáið, þjáðst og glaðst, elskað og harmað. Sjerstaklega birtist henni svipur Þórðar Daðasonar hins unga og elskulega drengs , misskilið rjettlæti og mannasetningar meinuðu að njóta ástríkis göfugrar móður. Saman við sýnirnar fljettast og að sjálfsögðu djúp hryggð yfir niðurníðslu hins fornfræga Skálholtsstaðar, þar sem fátt eitt minnir á forna frægðartíð.
...
Litla ljóðakverið hennar er fallegt að frágangi og myndum prýtt og hugnæmt að innihaldi. Það er s(k)apað af sterkum tilfinningum og djúpum áhrifum ósýnilegra afla, sem tengd eru sál lands og þjóðar og ættu því að ná til hjarta þeirra sem íslenskir vilja vera. Höfundurinn hefur sjálf kostað útgáfuna og ágóðinn á að renna í viðreisnarsjóð Skálholtsstaðar. Kverið ætti að geta verið lítil, snotur jólagjöf, sem skilur meira eftir í hug og hjarta en margur fánýtur hjegóminn, sem notaður er til þeirra hluta.“
 
 
 
 
 
 
Skálholt á góðum degi. Ljósmynd: Guide to Iceland

 

Tengt efni