SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir 8. nóvember 2022

AFBRAGÐ ANNARRA KVENNA. Þríleikurinn um Auði djúpúðgu

Um þríleik Vilborgar Davíðsdóttur um Auði djúpúðgu

Greinin birtist fyrst í Tímariti Máls og menningar, 2. hefti 2019, og síðan í greinasafninu Maddama, kerling, fröken, frú (2019)

 

 

Haustið 2017 kom út skáldsagan Blóðug jörð eftir Vilborgu Davíðsdóttur og mun vera lokabindið í þríleik hennar um Auði djúpúðgu Ketilsdóttur (sem einnig er nefnd Unnur í miðaldaritum). Áður höfðu komið út í þessum sagnaflokki bækurnar Auður (2009) og Vígroði (2012). Reyndar er ekki loku fyrir það skotið að Vilborg haldi áfram að segja sögu Auðar, síðustu bókinni lýkur ári eftir að hún hefur numið land á Íslandi og hið sögulega efni sem hér er unnið með því hreint ekki þrotið. Þessi 800 síðna sagnabálkur um fyrstu landsnámskonu Íslands er merkilegt verk í sögu íslenskra bókmennta og hefur hlotið afar góðar viðtökur. Af því tilefni verður hér á eftir rýnt í bækurnar þrjár, skoðað hvað einkennir þær og hvernig mynd þær draga upp af forfeðrum og formæðrum okkar Íslendinga, en fyrst verður stiklað á stóru um fyrri skáldsögur höfundarins og frásagnaraðferð.

 

Sögulegar skáldsögur

Höfundarferill Vilborgar Davíðsdóttur spannar nú rúman aldarfjórðung. Þegar þetta er skrifað hefur hún sent frá sér átta skáldsögur auk sannsögunnar Ástin, drekinn og dauðinn (2015). Fyrstu skáldsögur Vilborgar voru gjarnan flokkaðar sem unglingabækur (væru ef til vill kallaðar ungmennabækur í dag) þótt jafnframt hafi verið bent á „hversu erfitt það getur verið að flokka bækur eftir því til hvaða aldurs þær eigi að höfða“ því „góð bók eigi að höfða til allra aldurshópa“.1 Vilborg skrifar bækur sínar þó ekki sérstaklega með ungmenni í huga, þótt viðtökurnar hafi stýrt sumum þeirra í þá átt.

Allar skáldsögur Vilborgar gerast fyrr á öldum, fyrstu tvær – Við Urðarbrunn og Nornadómur á Víkingaöld, líkt og þríleikurinn um Auði djúpúðgu, en þær þrjár sem hún sendi frá sér þar á milli – Eldfórnin, Galdur og Hrafninn – gerast á 14. og 15. öld. Skáldsögur hennar má því skilgreina sem sögulegar skáldsögur en vert að taka fram að ekki er alltaf byggt á sögulegum persónum þótt tilvera persóna sé spunnin inn í sögulegan tíma.

Allt frá sautjándu öld hefur sögulega skáldsagan verið með vinsælustu bókmenntagreinum, enda fortíðin forvitnileg land fyrir þá sem síðar koma. Þó er talað um hnignunarskeið greinarinnar á miðri nítjándu öld. Þá var hin mikla raunsæja skáldsaga komin fram á sjónarsviðið og var á miklu skriði, enda tók það bókmenntaform svo til öll völd á síðari hluta aldarinnar.2 Sögulega skáldsagan var þó mikilvægur undanfari almennrar skáldsagnaritunar, enda leitast skáldsagnahöfundar gjarnan við að rótfesta sögur sínar í þekkjanlegum tíma og umhverfi þótt söguefnið sé spunnið af fingrum fram. Á síðari hluta tuttugustu aldar og ekki síst á undanförnum áratugum hafa vinsældir sögulegra skáldsagna vaxið á ný og ýmiss konar tilraunir verið gerðar með formið í endurnýjunarskyni. Í kjölfar póstmódernisma varð sannleikshugtakið miðlægt í fræðilegri umræðu og stórsögum hafnað, og sáust þess einnig merki í skáldsagnagerð. Fram komu verk þar sem leikið var með hin óljósu mörk sannleika og skáldskapar og einstaklingurinn (gjarnan af lægri stéttum) settur í brennidepil fremur en stór söguleg átök og ‚stórmenni‘. Hið síðarnefnda á einnig við strauma innan akademískrar sagnfræði, sem kenndir eru við einsögu (e. micro history).

Einn helsti fulltrúi slíkra tilrauna í íslenskum bókmenntum er Þórunn Jarla Valdimarsdóttir sem í sagnfræðiritum sínum leyfir skáldlegu hugarflugi að njóta sín, sækir gjarnan efnivið í skáldsögur sínar til sögulegs tíma og fer eigin leiðir í formi og stíl. Vilborg Davíðsdóttir fer aðra leið í sínum sögulegu verkum. Hún iðkar ekki leik með form og stíl, hefur nokkuð hefðbundinn frásagnarhátt og tvinnar saman sögu einstaklinga og samfélags sem hún staðsetur tryggilega á vel útfærðu sögusviði í línulegri frásögn. Engu að síður eru höfundareinkenni Vilborgar sterk og felast ekki hvað síst í því hversu góð tök hún hefur á því að flétta saman grundvallarþræði frásagnar sinnar – svo sem lýsingar á persónum, umhverfi og náttúru – og hversu vandaður og fallegur ritstíll hennar er. Þá eykur það verulega gildi bóka Vilborgar hversu vandað er til forvinnu þeirra, þ.e. heimildavinnu sem felst í margs konar rannsóknum.

Vilborg er menntuð þjóðfræðingur og setur það svip sinn á sögur hennar. Hún vefur gjarnan þjóðfræðilegu efni inn í skáldskapinn og gefur það frásögninni yfirbragð fantasíu á stöku stað. Hér má til dæmis nefna fyrsta kafla Blóðugrar jarðar sem endar á lýsingum á valkyrjum sem fara á stökki um himininn og fylgja föllnum bardagamönnum úr valnum. Slíkri fantasíu beitir Vilborg þó sparlega og alltaf í órjúfanlegum tengslum við þann hugmyndaheim sem persónur sagnanna hrærast í og eykur með því áhrifamátt frásagnarinnar.

Segja má að Vilborg hafi hitt á gjöfula æð þegar hún hóf að sækja sér söguefni til víkingaaldar og tíma landsnáms á Íslandi. Mörg frábær bókmenntaverk hafa litið dagsins ljós á undanförnum áratugum þar sem efnið er sótt í íslenskan fornsagnaarf. Það á ekki síst um verk þar sem unnið er með arfinn á skapandi hátt og hann endurtúlkaður.3 Slík endurtúlkun hefur gjarnan tengst femínískum lestri á gömlum textum, líkt og í Gunnlaðar sögu (1987) Svövu Jakobsdóttur og Blóðhófni (2010) Gerðar Kristnýjar og tengist þríleikur Vilborgar Davíðsdóttur vitaskuld þeim straumi framar öðrum.4

Því má einnig halda fram að í sögulegum skáldsögum fari fram áhugaverðar rannsóknir og settar séu fram sagnfræðilegar tilgátur; oftast liggur gríðarleg rannsóknarvinna að baki slíkum bókum, eins og áður var minnst á. Í þríleik Vilborgar eru settar fram tilgátur um fjölbreyttari og flóknari landnámssögu Íslands en gjarnan hefur verið haldið á lofti í sagnfræðiritum. Þær tilgátur hafa svo fengið stuðning í nýlegum rannsóknum, meðal annars á sviði fornleifafræði og erfðafræði. Hér njóta skáldsagnahöfundar meira frelsis en til að mynda sagnfræðingar geta leyft sér í fræðiritum.5 Enda segir Vilborg: „Það má segja að þessar bækur séu afraksturinn af leit minni að svörum við því hvers konar fólk það var sem lagði upp í þessa óvissuferð yfir hafið að leita óþekkts lands á hjara veraldar, hvernig lífi það lifði, hverju það trúði um veröldina og ekki síst hvers vegna í ósköpunum það var tilbúið til að leggja allt í sölurnar og yfirgefa heimahaga sína.“6

 

Sterkar konur

Fyrstu skáldsögur Vilborgar, Við Urðarbrunn (1993) og Nornadómur (1994), segja sögu sem gerist á víkingaöld og aðalpersóna þeirra er Korka, dóttir norska landnemans Þórólfs og írsku ambáttarinnar Mýrúnar. Korka er fædd í ánauð um aldamótin 900 en öðlast í rás sögunnar frelsi fyrir eigin verðleika og áræði. Sögu Korku mætti lýsa sem þroskasögu sjálfstæðrar og sterkrar konu en slíkar persónur áttu einnig eftir að einkenna síðari verk Vilborgar og segja má að persónulýsing Auðar djúpúðgu sé nokkurs konar hápunktur hvað það snertir. Korku saga7 hlaut mjög góðar viðtökur og hvað efni og efnistök snertir braut hún blað í íslenskum ungmennabókmenntum, eins og Silja Aðalsteinsdóttir benti á í grein um bækurnar tvær árið 1995:

 

Þá á ég bæði við fróðleikinn um samfélag manna hér á landi og í grannlöndunum á víkingaöld en þó einkum raunsæislegar lýsingar á ofbeldi og ástarlífi, án yfirbreiðslu og mærðar.  Hvörfin í Við Urðarbrunn, þegar Korku er nauðgað og hún myrðir kvalara sinn, eru líka hvörf í íslenskum unglingabókum. Viðmið þeirra hafa breyst óafturkallanlega.8


Þótt Silja sé hrifin af bókunum um Korku gagnrýnir hún höfundinn fyrir ‚einræðar‘ persónulýsingar og einfalda rás atburða (með undantekningum þó).9 Óhætt er að fullyrða að þar hafi reynsluleysi höfundarins sagt til sín, því í síðari verkum Vilborgar styrkjast þessir þættir og í þríleiknum um Auði eru persónulýsingar alls ekki einræðar og rás atburða oft og tíðum flókin og marglaga. Reyndar hafði Sigrún Klara Hannesdóttir orð á því strax um fyrstu bók Vilborgar  hversu leikin hún er að skapa sannfærandi sögusvið og tefla saman fjölda fólks í spennandi atburðalýsingum: „Höfundi tekst að draga upp svo skýra og trúverðuga mynd af umhverfi og lifnaðarháttum, hugsanahætti og viðhorfum að snilld má teljast.“10

Í öllum skáldsögum Vilborgar eru konur í aðalhlutverkum. Í Eldfórninni (1997) er það hin unga, Katrín Pálsdóttir, sem var nunna í Kirkjubæjarklaustri og heimildir herma að hafi verið brennd á báli árið 1343. Þetta söguefni verður Vilborgu tilefni til að skrifa tilfinningarríka frásögn þar sem ástríður og fórn leika stærstu hlutverkin. Í næstu bók, Galdur (2000), er sögutíminn árið 1420 og í sögumiðju er ung skagfirsk bóndadóttir, Ragnfríður, sem verður barnshafandi 15 ára gömul eftir enskan skipbrotsmann. Inn í söguna fléttast frásagnir af átökum Íslendinga og Breta vegna fiskveiða og verslunar og valdapot íslenskrar yfirstéttar kemur einnig við sögu. Þetta er sá tími Íslandssögunnar sem gjarnan er kallaður „enska öldin“ vegna þeirra ítaka sem Bretar höfðu hér í trássi við boð og bönn Noregskonungs. En þetta er í baksviði frásagnarinnar sem er í grunninn ástarsaga.

Í Hrafninum (2005) er sögutími Vilborgar enn 15. öldin en sögusviðið er Grænland og aðalpersónan munaðarlaus Inúítastúlka, Naaja, sem stendur á mörkum tveggja menningarheima og tilheyrir í raun hvorugum. Inn í líf hennar kemur Íslendingurinn Mikjáll en samband þeirra er dauðadæmt frá upphafi; uppruni þeirra og menning er of ólík til að þau geti skilið hvort annað. Öðrum þræði er sagan stúdía á fordómum, ótta og fáfræði, sem og árekstrum á milli menningarheima. Líkt og í öllum bókum Vilborgar liggur mikil heimildavinna að baki Hrafninum sem hún hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir – og reyndar einnig fyrir næstu bók sína, Auði, sem kom út fjórum árum síðar.

 

Sögulegar heimildir og skáldlegt hugarflug

Vilborg skrifar eftirmála að bókunum þremur um Auði þar sem hún ítrekar að um sé að ræða skáldsögur sem sprottnar eru „úr hugarheimi höfundar“ þótt ýmislegt sem þar beri fyrir eigi sér „þó stoð í heimildum“.11 Vilborg leitast við að endurskapa sögulegan tíma á trúverðugan máta, flestar persónur eru kunnar úr heimildum og meginþráður sagnanna fellur að ‚sögulegum veruleika‘ eða að minnsta kosti þekktum ritum sem staðsetja má á hinum óljósu mörkum sannfræði og skáldskapar. Vilborg getur þess að meginheimildir um Auði djúpúðgu sé að finna „í Landnámabók, Eyrbyggja sögu og Laxdæla sögu, en auk þess er hennar stuttlega getið víðar í Íslendingasögum.“12 Nefndar heimildir eru þó aðeins upphafspunktur höfundarins sem hefur leitað heimilda víða, í miðaldaritum, sagnfræðiritum og írskum annálum. Það má því ljóst vera, eins og áður var nefnt, að Vilborg styðst við ítarlegar rannsóknir á sögusviði, atburðum og tíma þótt að sönnu vinni hún fyrst og fremst með sitt skáldlega hugarflug í persónusköpun, samtölum, umhverfis- og atburðalýsingum. Og það er í þeim þáttum sem aðall bókanna liggur og óhætt er að taka undir með gagnrýnanda fyrstu bókarinnar sem segir Vilborgu leggja „sig fram um að skapa líf og segja spennandi sögu – og það gerir hún vel.“13 Þá er það einkar athyglisvert hvernig Vilborg vefur efni úr norrænum goðsögum og eddukvæðum inn í frásögnina. Lesandinn fær hugmynd um hversu mikilvægu hlutverki hinn forni sagna- og kvæðaarfur (sem síðar varð bókmennta-arfur) hafði að gegna í því mannlífi sem lýst er, hvort sem um er að ræða sagnaskemmtun til að hafa ofan af fyrir börnum eða flutningur kvæða á borð við Oddrúnargrát þegar barnsfæðing er yfirvofandi.

Vilborg hefur sagt frá því að kveikjan að skáldsögunum sé eftirfarandi málsgrein úr Laxdæla sögu:

 

Unnur djúpúðga var á Katanesi er Þorsteinn féll, son hennar. Og er hún frá það að Þorsteinn var látinn en faðir hennar andaður þá þóttist hún þar enga uppreist fá mundu. Eftir það lætur hún gera knörr í skógi á laun, og er skipið var algert þá bjó hún skipið og hafði auð fjár. Hún hafði í brott með sér allt frændlið sitt þar er á lífi var og þykjast menn varla dæmi til finna að einn kvenmaður hafi komist í brott úr þvílíkum ófriði með jafnmiklu fé og föruneyti. Má af því marka að hún var afbragð annarra kvenna.14

 

Það er hin sterka og sjálfstæða kona sem heillar Vilborgu og hún tekur sér fyrir hendur að skrifa sögu Auðar frá því að hún er á unglingsaldri og býr í foreldrahúsum og allt þar til hún hefur numið land í Hvammsfirði í Dölum.

Heildarfrásögn bókanna þriggja spannar rúmlega aldarfjórðung, eða árin 853–875. Bækurnar skiptast í kafla sem hafa staðarheiti að yfirskrift og lesandinn fær góða tilfinningu fyrir því hvernig sögunni vindur fram á Suðureyjum (Hebrides-eyjaklasanum við vesturströnd Skotlands), Péttlandi (Skotlandi), eyjunni Mön og á Írlandi og í síðustu bókinni nær sögusviðið til Færeyja og Íslands. Fyrsta bókin hefst á eyjunni Tyrvist á Suðureyjum í sólmánuði árið 853 og fjallar aðeins um rúmt ár í lífi Auðar Ketilsdóttur. Auður er þá löngu komin á giftingaraldur,15 enda snýst annar meginþráður bókarinnar um giftingu hennar og Ólafs hvíta, sonar Guðröðar konungs á eyjunni Mön, en með honum flytur hún til Dyflinnarvirkis. Hinn meginsöguþráður fyrstu bókarinnar snýst um trúskipti og skírn Auðar til kristinnar trúar sem hún þiggur af hendi munksins Gilla Kalmanssonar. Hjónaband Auðar verður ekki langt og endar bókin á burtför hennar frá Dyflinni með nýfæddan son sinn, Þorstein.

Vígroði hefst rúmum áratug síðar. Auður býr með syni sínum og hjúum á Þórsá á Katanesi, en þá jörð hafði hún þegið í línfé af Ólafi hvíta og kosið að halda þangað og hefja búskap á eigin vegum eftir skilnaðinn við Ólaf í stað þess að fara aftur í föðurhús og hætta á að vera gefin öðrum manni án þess að fá þar nokkru ráðið sjálf. Býli Auðar á Katanesi hefur þrifist vel, hún hefur leyst þræla úr ánauð eins og krafist er af kristnu fólki og er vel liðin hjá hjúum sínum. Auður hefur ekki hitt foreldra sína og systkini síðan hún giftist en fyrsti hluti bókarinnar segir frá för hennar til Tyrvist til að vera viðstödd brúðkaup Helga bjólan bróður síns og Þórnýjar Ingólfsdóttur (Arnarssonar). Þorsteinn sonur hennar, sem hefur viðurnefnið Rauður, kemur mikið við sögu í þessu bindi; öðrum þræði er bókin þroskasaga hans. Á unglingsárum kemst Þorsteinn af eigin frumkvæði til föður síns á svæði sem hann hefur hernumið í Péttlandi og þangað heldur Auður að leita hans. Bókin endar á endurfundum þeirra Ólafs hvíta, fyrrverandi eiginmanns hennar.

Blóðug jörð hefst á magnaðri lýsingu á orrustu víkinga í Dalriada, héraðsríki Skota, árið 874 en þar fellur herkonungurinn Ólafur hvíti. Í næsta hluta er liðinn tæpur áratugur og Þorsteinn sonur Auðar er einnig fallinn. Sjálf er hún á leið til Íslands ásamt sex börnum Þorsteins og fleira fólki í þeim tilgangi að nema þar land líkt og bræður hennar og fleiri ættmenni hafa þegar gert. Þessi hluti er stuttur og lesandinn skilur við Auði og fylgdarlið hennar í sjávarháska undan suðurströnd Íslands. Þá vindur frásögninni aftur um fimm vikur í tíma og stærsti hluti þessa lokabindis snýst um aðdragandann að því að Auður lætur „gera knörr í skógi á laun“ og siglir  í brott með miklu „fé og föruneyti“. Sá hluti sögunnar er verulega spennandi, enda aðalpersónan á flótta undan ófriði og þráir það eitt að koma sjálfri sér og afkomendum sínum í skjól. Þá víkur sögu aftur að sjávarháska Auðar og föruneytis og því lýst hvernig þau bjargast og lenda skipi sínu við ósa Ölfusár. Við sögu koma nýjar persónur og ný átök en bókinni lýkur ári síðar í Hvammsfirði þar sem Auður hefur numið land og framtíðin er björt.

En þótt söguþræðir bókanna þriggja séu þannig raktir er aðeins hálf sagan sögð. Það sem einkennir bækurnar öðru fremur – og markar þeim um leið sérstöðu – er að í þeim ríkir sterkt kvennasjónarmið; það er heimur kvenna sem birtist lesendum þríleiksins ljóslifandi og sá heimur er sjaldnast fyrirferðamikill í íslenskum miðaldaritum.

 

Íslendingasögur frá sjónarhóli kvenna

Í viðtali sem tekið var við Vilborgu í tilefni af útkomu fyrstu bókarinnar lýsir hún sögulegum bakgrunni skáldsögunnar og þeim ófriðartímum sem ríktu á Írlandi, Skotlandi og Suðureyjum á 9. öld og norskir víkingar blönduðust inn í; þetta voru tímar mikilla stríðsátaka karlanna. Síðan bætir hún við: „En á meðan karlarnir slógust voru konurnar heima á eyjunum og sáu um allt hitt. Um það fjallar bókin mín að miklu leyti.“16 Konur eru í aðalhlutverki allra bókanna. Ekki aðeins Auður sjálf, heldur einnig konur tengdar henni fjölskylduböndum, svo sem móðir hennar, amma og systur, en einnig konur úr hópi hjúa og ambátta. Eftir þessu var að sjálfsögðu tekið og í ritdómi um bókina lætur Sigrún Klara Hannesdóttir þau orð falla að lýsa mætti bókinni sem Íslendingasögu sem skrifuð er „frá sjónarhóli kvenna“.17 Í ofannefndu viðtali var Vilborg spurð hvort hún væri „að reyna að nálgast uppruna íslensku konunnar“ og játaði hún því:

 

Ég er alltaf að horfa á konur, enda kona sjálf. En sagan sem birtist okkur í fornritum er skrifuð af karlmönnum um karlmenn fyrir karlmenn. Konur eru til hliðar og birtast aðeins til að egna karlmenn eða svíkja þá. Dyggðirnar og skyldurnar eru karlmannlegar, hefnd, vopnaburður. Ég vil hins vegar reyna að ná utan um það líf sem konurnar lifðu.18

 

Og það gerir Vilborg með því að leggja áherslu á þrennt. Í fyrsta lagi lýsir hún ítarlega fjölbreyttri vinnu kvenna, svo sem matseld, vefnaði og umönnun barna, svo fátt eitt sé talið. Í öðru lagi lýsir hún á áhrifaríkan hátt hinu líkamlega hlutskipti kvenna, þeirra hlutverk er fyrst og fremst að fæða af sér börn, helst syni sem geta viðhaldið því ofbeldisfulla feðraveldi sem þær lifa og hrærast í. Þá er líkami kvenna oft vettvangur ofbeldis og Vilborg lýsir afleiðingum nauðgana og annars líkamlegs ofbeldis og hikar ekki við að láta blóðið renna; tíðablóð, blóðlát í kjölfar fæðingar eða ofbeldis. Í þriðja lagi lýsir Vilborg á næman hátt tilfinningalífi kvenpersóna sinna. Lesandinn fær glögga innsýn í hversu ofurseldar valdi karlmanna konurnar eru, sem og ofbeldið og kúgunina sem þær verða að láta yfir sig ganga. Hér er notuð aðferð hins alvitra höfundar sem sér inn í hug allra persóna og sjónarhornið færist gjarnan á milli persóna, kvenna og barna – og reyndar karla líka, ef því er að skipta.

Þjóðfræðiþekking Vilborgar kemur bæði fram í lýsingum á ytri gerð samfélagsins sem og hinum innri hugmyndaheimi heiðninnar, þar sem hjátrú og forneskja er ríkjandi. Vandlegar lýsingar eru á húsbúnaði og háttum, sem og ýmsum siðum og athöfnum, svo sem brúðkaupum, blótum og greftrunum. Sérstök áhersla er á viðburði í lífi kvenna, eins og barnsfæðingar og brjóstagjöf. En allar slíkar lýsingar eru vandlega fléttaðar inn í sjálfan söguþráðinn svo upp teiknast breið og trúverðug mynd af heiðnu samfélagi á víkingaöld.

Það er einnig augljóst að Vilborg þekkir vel til sögusviðsins hvað landafræði og náttúru snertir. Mikið er um magnaðar náttúrulýsingar í bókunum þremur þar sem haf, klettar og fuglar eru í aðalhlutverki. Segja má að stíll höfundar rísi einna hæst í myndrænum náttúrulýsingum sem lifna auðveldlega fyrir hugskotssjónum lesenda.

 

Þroskasaga sjálfstæðrar konu

Í fyrstu bók þríleiksins leggur Vilborg grunn að persónulýsingu Auðar. Hún sýnir óvenju sterkan og sjálfstæðan persónuleika; er óstýrilát, „fer eins og henni sjálfri sýnist“ (7), er „sjálfráð og þrjóskufull“ (8), „flækist um alla eyju að geðþótta sínum“ (9) og veldur Yngveldi móður sinni áhyggjum. „Það er kominn tími til þess að þú áttir þig á því að þú ræður þér ekki sjálf, unga kona“ (71), segir móðir Auðar við hana þegar henni, einu sinni sem oftar, blöskrar þvermóðska og uppreisnargirni dóttur sinnar og skömmu síðar vandar faðir hennar um fyrir henni: „Það er ekki þitt að velja þér guð til átrúnaðar eins og þér líst sjálfri; dóttir lýtur föður sínum á meðan hún er ógefin og síðan manni sínum (124). En Auður neitar að lúta valdi karla og hefur, þegar þarna er komið sögu, þegar skírst til kristinnar trúar. En þótt hún sé kristin og hafni ýmsum siðum úr heiðni, eins og til að mynda að taka þátt í blótum, er hún engu að síður tengd sterkum böndum við heiðinn hugmyndaheim. Það má telja raunsætt bragð af hendi höfundar því vafalaust þarf dágóðan tíma til að aðlagast nýjum siðum og hugsunarhætti. Segja má að persónan standi með annan fótinn í kristnum hugmyndheimi en hinn í þeim heiðna og sú staða helst í gegnum allan bókaflokkinn. Til að mynda verður Auði oft hugsað til örlaganornanna sem spinna sinn vef og véla um líf manna19 og aðrar slíkar tilvísanir til hins heiðna arfs eru mýmargar í allri frásögninni.

Að sama skapi kemst Auður að sjálfsögðu ekki undan valdi karlmanna þótt hún sé sjálfstæð og fylgin sér. Hún hefur ekki val um hverjum hún giftist en með kænsku tekst henni að koma í veg fyrir að vera gift aftur að fyrsta hjónabandinu loknu. Þá hafa sonardætur Auðar ekki meira frelsi í þeim efnum en hún sjálf og eftir lát föður þeirra ræður Auður í þeim efnum. Elstu dætur Þorsteins, Gróa og Ólöf, eru gefnar í hjónaband á leiðinni til Íslands, sú fyrrnefnda í Orkneyjum og hin síðarnefnda í Færeyjum. Eins og fram kemur í ritdómi Heimis Pálssonar um Auði er hefðbundin túlkun á þessu að „Auður hafi ætlað sér með því að gifta sonardætur sínar á strategískum stöðum að skapa Norður-Atlantshafs stórveldi.“20 Það er sem sagt gengið út frá því að – líkt og hjá karlmönnum – ráði hagsmunagæsla Auðar hér ferðinni, að hún sé að tryggja stöðu sína með því að ráðstafa sonardætrunum í hjónaband. Vilborg leysir þetta hins vegar með því að láta systurnar tvær vera samþykkar ráðahagnum og býr til tvær ástarsögur í stað nauðungargiftinga.

Sú mynd sem dregin er upp af Auði í þann rúma aldarfjórðung sem bækurnar spanna er í flesta staði trúverðug og við sjáum persónuna þroskast í gegnum mismunandi kvenhlutverk sín, sem dóttir, móðir og amma. Hún er sterkur karakter og lætur ekki beygja sig og kannski mætti álykta að Vilborg sé helst til jákvæð í garð Auðar; auk þeirra mannkosta sem upp hafa verið taldir gerir Auður sjaldan mistök og er ætíð góðhjörtuð og ráðagóð. En fyrir því að Auður hafi verið „afbragð annarra kvenna“ hefur höfundur að sjálfsögðu ágætar heimildir.

 

Samtal við samtímann

Í dómi um þriðju skáldsögu Vilborgar, Eldfórnina (1997), skrifar Ragna Garðarsdóttir að sagan lýsi leit aðalpersónu bókarinnar, Katrínar, „að samastað í yfirgengilegu karlasamfélagi“.21 Að breyttu breytanda má segja að sama gildi um þríleikinn um Auði djúpúðgu. Hvort Auður hafi fundið slíkan samanstað á Íslandi á landnámsöld er spurning sem hér verður látið ósvarað. Hitt er víst að enn þurfa íslenskar konur að fást við yfirgengilegt karlasamfélag á ýmsum sviðum. Þannig getur þríleikurinn um Auði átt í merkingarríku samtali við samtímann. Slíkt er reyndar aðall hinna bestu sögulegu skáldsagna og við lesturinn á þessum þremur bókum kom endurtekið upp í hugann hlutskipti almennings, ekki síst kvenna og barna, í stríðshrjáðum löndum í samtíma okkar og flóttamannastraumurinn sem er bein afleiðing stríðsrekstrar. Auður djúpúðga Ketilsdóttir var ef til vill fyrst og fremst stríðsflóttamaður sem tókst að forða sér og sínum og skapa sér líf í nýju landi.

 

 

Tilvísanir

1 Sigrún Klara Hannesdóttir. „Urðarbrunnur.“ (Ritdómur). Morgunblaðið, 23. desember 1993, bls. 15.
2 Sjá t.d. Sandra Bermann. „Introduction“, inngangur að Alessandro Manzoni. On the Historical Novel. Ensk þýðing Sandra Bermann. Lincoln & London: University of Nebraska Press, 1984, bls. 43 o.áfr.
3 Dæmi um þetta eru bækur á borð við Gerplu (1952) eftir Halldór Laxness; Morgunþula í stráum (1998) og Sveigur (2002) eftir Thor Vilhjálmsson og bækur Einars Kárasonar, Óvinafagnaður (2001), Ofsi (2008), Skáld (2012) og Skálmöld (2014).
4 Hér má einnig nefna bækur Þórunnar Jörlu Valdimarsdóttur þar sem spunnið er í kringum plott og persónulýsingar úr Njálu, Kalt er annars blóð (2007) og Mörg eru ljónsins eyru (2010). Þar er farið frjálslega með sagnaarfinn og hann felldur að formi nútímaglæpasagna.
5 Bók Bergsveins Birgissonar, Leitin að svarta víkingnum (2016), er einnig verk sem hefur að geyma tilgátu um fjölbreyttari landnámssögu en við finnum í kennslubókum.
6 Kolbrún Bergþórsdóttir. „Bergmál frá liðnum tíma.“ [Viðtal við Vilborgu Davíðsdóttur.] Morgunblaðið, 18. nóvember 2012, bls. 56.
7 Við Urðarbrunn og Nornadómur voru endurútgefnar saman undir titlinum Korku saga 2001 og aftur 2013.
8 Silja Aðalsteinsdóttir. „Korku saga Þórhallsdóttur.“ Tímarit Máls og menningar, 3. hefti 1995, bls. 123–137.
9 Sama, bls. 127.
10 Sigrún Klara Hannesdóttir. „Íslenskar barnabækur og krepputal.“ Morgunblaðið, 21. maí 1994, bls. C 4.
11 Vilborg Davíðsdóttir, Auður, Reykjavík: Mál og menning, 2009, bls. 261, Vígroði, Reykjavík: Mál og menning, 2012, bls. 257 og Blóðug jörð, Reykjavík: Mál og menning, 2017, bls. 295.
12 Vilborg Davíðsdóttir, Auður, bls. 261.
13 Heimir Pálsson, „Auður,“ Tímarit Máls og menningar, 2. hefti 2010, bls. 122.
14 Laxdæla saga, Íslendingasögur og þættir, þriðja bindi, Reykjavík: Svart á hvítu, 1987, bls. 1538–1539.
15 Hvergi kemur beint fram hversu gömul Auður er í fyrstu bókinni en Vilborg hefur í viðtölum sagt hana vera 16–17 ára (t.d. í viðtali í morgunþætti rásar 1 á Ríkisútvarpinu, 1. febrúar 2019). Samkvæmt Íslendingabók er Auður djúpúðga talin fædd árið 830 og ætti samkvæmt því að vera 23 ára árið 853.
16 ÞH. „Tekist á við upprunann.“ Viðtal við Vilborgu Davíðsdóttur. Bændablaðið 17. desember 2009, bls. 13.
17 Sigrún Klara Hannesdóttir. „Íslenskar barnabækur og krepputal“, bls. 15.
18 ÞH. „Tekist á við upprunann,“ bls. 13.
19] Sjá t.d. Vígroði, bls. 22.
20 Heimir Pálsson. „Auður.“ Tímarit Máls og menningar, 2. hefti 2010, bls. 122.
21 Ragna Garðarsdóttir, „Hvað verður um mig?“ Tímarit Máls og menningar, 3. hefti 1998, bls. 150.

 

 

Tengt efni