SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn11. nóvember 2022

SAMEIGINLEG REYNSLA ÁSTU SIGURÐARDÓTTUR OG VIRGINIU WOOLF?

Í nýútkominn þýðingu Soffíu Auðar Birgisdóttur á æviminningum Virginiu Woof, Útlínum liðins tíma, lýsir Virginia atviki úr bernsku sinni þegar stjúpbróðir hennar beitti hana kynferðislegu ofbeldi. Hún lýsir á áhrifaríkan hátt hvernig atvikið markar hana fyrir lífstíð og fyllir hana skömm og hræðslu við líkama sinn:

 

Ég hlýt að hafa skammast mín fyrir eða verið hrædd við minn eigin líkama. Önnur minning, einnig úr forstofunni, gæti útskýrt betur hvað ég á við. Fyrir utan borðstofudyrnar var borðplata þar sem matarílátum var komið fyrir. Einu sinni, þegar ég var mjög lítil, lyfti George Duckworth mér upp á hana og þar sem ég sat þarna byrjaði hann að rannsaka líkama minn. Ég man eftir tilfinningunni þegar hönd hans fór undir fötin mín, fór stöðugt og ákveðið neðar og neðar. Ég man að ég vonaði að hann myndi hætta, hvernig ég stífnaði upp og spriklaði þegar hönd hans nálgaðist mína leyndustu kima. En hann hætti ekki. Hönd hans rannsakaði einnig mína leyndustu kima. Ég man gremjuna, óbeitina– hvernig á að orða svo ósegjanlega og margþætta tilfinningu? Hún hlýtur að hafa verið sterk fyrst ég man hana ennþá. Þetta virðist leiða í ljós að hugmynd um ákveðna líkamshluta, að ekki eigi að snerta þá, að rangt sé að leyfa að þeir séu snertir, hlýtur að vera eðlishvöt. Þetta færir heim sanninn um að Virginia Stephen fæddist ekki 25. janúar 1882 heldur fæddist hún fyrir mörg þúsund árum og varð frá upphafi að taka við eðlishvötum frá þúsundum ættmæðra fortíðarinnar.

 

Skömmin sem Virginia Woolf finnur fyrir tengist einnig speglum og því að spegla sig, það var nokkuð sem hún segist aldrei hafa getað gert í viðurvist annarra og hún útskýrir þetta að hluta til með draumi - og kemur lýsingin á honum í kjölfar lýsingarinnar á því þegar George hálfbróðir hennar "rannsakaði" hennar "leyndustu kima":

 

Leyfið mér að bæta við draumi því hann gæti vísað til atviksins með spegilinn. Mig dreymdi að ég væri að horfa í spegil þegar hræðilegt andlit – andlit á dýri – birtist skyndilega við öxl mér. Ég er ekki viss um hvort þetta var draumur eða hvort þetta gerðist í raun og veru. Hafði ég verið að horfa í spegilinn einn daginn þegar eitthvað sem mér virtist lifandi hreyfðist í bakgrunninum? Ég get ekki vitað það fyrir víst. En ég man alltaf eftir hinu andlitinu í speglinum, hvort sem um draum eða vöku var að ræða, og að það vakti mér ótta.

 

Þessi lýsing kallar strax fram hugrenningartengsl við Dýrasögu Ástu Sigurðardóttir, en í sögunni lýsir hún því þegar fullorðinn karlmaður hræðir líftóruna úr lítilli stúlku með því að lesa fyrir hana sögu af stóru dýri sem hundeltir lítið dýr. Sagan hefst svona:

— — — og svo hleypur stóra, stóra dýrið á eftir litla dýrinu, svona hart hart, — en það er ekkert hrætt og ekkert þreytt eins og litla dýrið — því þykir bara gaman voða gaman, þetta er leikurinn þess — eins og kisu þykir svo gaman að kvelja litlu músina áður en hún drepur hana — voða, voða gaman!

 

Maðurinn virðist njóta þess að kvelja litlu stúlkuna og Dagný Kristjánsdóttir hefur greint þessa sögu sem frásögn af kynferðilegu ofbeldi og má lesa greinina Myndir hér.

Það er merkilegt að rekast á tvær svona svipaðar lýsingar hjá þessum tveimur merku skáldkonum sem eru af ólíkri kynslóð með ólíkan bakgrunn - en búa kannski yfir svipaðri reynslu?

 

 

 

 

 

Tengt efni