SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Guðrún Steinþórsdóttir17. desember 2021

LJÓÐAVIÐTÖL Eyrúnar Óskar

Eyrún Ósk Jónsdóttir hefur getið sér gott orð sem ljóðskáld en á dögunum sendi hún frá sér sína fjórtándu ljóðabók; Í svartnættinu miðju skín ljós. Bókin er óvenjuleg fyrir þær sakir að ljóðin byggjast á viðtölum sem skáldkonan tók við fjölda einstaklinga en hvert ljóð er merkt manneskjunni sem á frásögnina. Eyrún Ósk var nýlega í viðtali við Víðsjá þar sem hún ræddi tilurð bókarinnar en þar sagði hún meðal annars:
 
Hugmyndin kviknaði upprunalega þannig að ég var á kvennafundi og þar var kona að deila mjög persónulegri reynslu. Ég fer heim af þessum fundi og saga hennar lætur mig ekki í friði svo allt í einu hefur þetta ljóð um hennar sögu orðið til. [...] Og þá fékk ég þessa hugmynd, hvað ef maður myndi bara hlusta á sögur fólks og láta það vera kveikjan að einhverju. Þannig að þá tók ég þessa ákvörðun og hafði samband við fólk í mínum nánasta hring sem ég vissi að hafði ákveðnar sögur en svo fór ég að verða djarfari og fór að hafa samband við fólk og [spyrja það] „heyrðu má ég taka viðtal við þig?“ án þess að vita nokkuð hvaða sögu maður væri að fá út úr því.
 
Ljóðin í bókinni eru einkar áhrifarík en þau vitna bæði um jákvæðar minningar og erfiðar; líf og dauða; gleði og sorg og allt þar á milli. Að sögn Eyrúnar mynduðust oft sterkar tilfinningar í viðtölunum bæði hjá henni og viðmælendum og var henni því mikið í mun að þeir sem hún talaði við væru samþykkir öllu því sem kæmi fram í ljóðunum. Viðmælendur fengu þess vegna að lesa skáldskapinn yfir og komu þá stundum með tillögur að breytingum; til dæmis að taka eitthvað út eða bæta einhverju við.
 
Eitt ljóðið í bókinni nefnist „Sóttkví – Chistine“ en það tekur á erfiðleikum þess að vera í sóttkví þegar náinn ástvinur fellur frá. Ljóðið hljómar á þessa leið:
 
 
         Fimm daga sóttkví
í húsi ömmu
beðið eftir seinni sýnatöku
 
það er stutt eftir
segja þeir
lífið hennar að fjara út
 
vona og bið þess að hún þrauki
þangað til niðurstöður liggja fyrir
þangað til að ég slepp úr prísundinni
og get faðmað hana að mér
sagt henni að ég elski hana
hvíslað að henni öllu því
sem ég á eftir að segja
 
nota tímann til að ganga frá
henda rusli
fara í gegnum gömul bréf
og ljósmyndir
 
þau geymdu bókstaflega allt
 
kemst að því að amma var þrígift
finn skilnaðarpappíra
tveir menn sem skiptu hana einu sinni öllu máli
sem ég þekki ekki
veit engin skil á
finn handskrifað bréf í náttborðsskúffunni
frá mömmu
þar sem hún segir afa og ömmu
frá því að fyrsta barnabarn þeirra sé fætt
í Suður-Afríku
að fæðingin hafi verið löng og ströng
finn 40 ára bréf frá bróður afa
sem hvetur þau til að greiða gamla skuld
finn bréf frá gamalli frænku sem skammar þau fyrir að
hringja of sjaldan
finn fermingarboðskort og fermingarservéttur
allra barnabarnanna,
allt föndrið sem við gáfum þeim sem krakkar
minjagripi frá öllum heimshornum
eldspýtubréf og sápur frá ótal herbergjum um allan heim
finn kort með heillaóskum til ömmu á fæðingadeildina
og ártalið passar ekki
 
skrýtið að gægjast
svona inn í líf þeirra
 
vona svo innilega að ég nái að hitta ömmu
 
en ég næ því ekki
mamma hringir
segir mér að hún sé farin
 
og nú er ég
í sóttkví
í dánarbúi
 
og enginn að taka utan um mig
enginn fær að hugga mig
 
blinduð af tárum geng ég þessa stuttu leið frá húsinu og
út í kirkjugarð
að leiðinu hans afa
mér er heimilt að fara í einn göngutúr á dag
ef ég held mig fjarri fólki
 
ég kveiki á kerti á leiðinu
og segi honum
að amma sé á leiðinni til hans
að hún hafi dáið í fanginu á dóttur hans
að nú geti hann tekið á móti henni
nú verði þau aftur saman
 
þau eru þung skrefin til baka
ég þarf að klára sóttkvína
 
nota tímann til að pakka saman
restinni af dótinu
heil mannsævi
lífstíð af minningum.