SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir26. apríl 2021

„VERTU ALLTAF HRESS Í HUGA“ - Um Erlu

 
 
 
 
Guðfinna Þorsteinsdóttir, sem kallaði sig Erlu, var ómenntuð alþýðukona, öndvegis ljóðskáld og einnig þýðandi. Glataðu spælimenninir eftir Heinesen heitir í þýðingu Erlu Slagur vindhörpunnar (1956). Þessa bók þýddi einnig Þorgeir Þorgeirson árið 1984 en skáldsagan nefndist þá Glataðir snillingar. Einhver þarna úti sem hefur borið þýðingarnar saman? Af hverju valdi Þorgeir að endurþýða bókina? Er þýðing Erlu síðri?
 
„Þessi einstaka skáldkona þýddi líka mörg merkisverk úr ensku og Norðurlanda-málunum, og er hin undurfagra bók, Slagur Vindhörpunnar, eftir færeyska skáldið William Heinesen, eitt merkra þýðingarverka hennar og kom út hér á landi, árið 1956. Hvernig Erlu tókst að afkasta öllu þessu í erli daganna, ber glöggt vitni magnaðrar konu. Hún safnaði ljóðunum sínum árum saman og orðin vel fullorðin þegar fyrstu ljóðin tóku að birtast. En fallegt og glæsilegt ritsafn verka hennar, kom út árið 2013, útgefið af Félagi austfirskra ljóðaunnenda“ (Draumasetrið Skuggsjá).
 
Eitt af kvæðum hennar hljóðar svo:
 
Kvöld í sveit
 
Hofsá rennur hægt að sævi,
hvamminn fyllir nið.
Fuglakvak í kjarri rýfur
kvöldsins þögn og frið.
 
Kvæði eitt frá 1937 er mjög hressandi og flytur með sér baráttuanda:
 
Vertu alltaf hress í huga
hvað sem kann að mæta þér.
Lát ei sorg né böl þig buga.
Baggi margra þungur er.
Treystu því, að þér á herðar
þyngri byrði' ei varpað er
en þú hefir afl að bera.
Orka blundar næg í þér.
 
Móðir Erlu var skáldmælt og sjálf var hún móðir Þorsteins Valdimarssonar, skálds og kennara, sem kunnur var fyrir limrur sínar.
 
Allmikið af skemmtilegu og dýrmætu efni með rödd Erlu/Guðfinnu Þorsteinsdóttur
s.s. kvæði, rímur og þulur og frásagnir, er að finna á ísmús.

 

Tengt efni