SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Erla (Guðfinna Þorsteinsdóttir)

Guðfinna Þorsteinsdóttir, sem kallaði sig Erlu, er fædd 26. júní 1891 á Skjögrastöðum í Skógum, Suður-Múlasýslu. Hún var einn vetur við nám í unglingaskóla á Vopnafirði en var að öðru leyti sjálfmenntuð. Árið 1917 giftist hún Valdimar Jóhannessyni og bjuggu þau á ýmsum bæjum á Vopnafirði til ársins 1954, m.a. Brunahvammi, Felli og Teigi. Þau eignuðust níu börn. Síðustu æviár sín bjó Guðfinna á Selfossi, þar sem hún lést 23. nóvember 1972.

Guðfinna orti ljóð fyrir börn og fullorðna, þulur og stökur, en birti lítið fyrr en um miðjan aldur. Eftir hana eru ljóðabækurnar Hélublóm (1937), Fífulogar (1945) og barnaljóðin Ævintýri dagsins (1958). Hún hafði mikinn áhuga á þjóðlegum fróðleik og tók saman frásagnaþætti sem hún m.a. birti í söfnunum Völuskjóða (1957) og Vogrek (1959). Þýðing hennar á skáldsögu Williams Heinesens, De fortabte spillemænd, kom út árið 1956 undir nafninu Slagur vindhörpunnar.

Textinn er tekinn orðréttur frá Helgu Kress:

  • Helga Kress. 2001. „Erla 1891-1972“, bls. 222. Stúlka. Ljóð eftir íslenskar konur.  Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, Reykjavík.

 

Myndin er fengin af vefsíðu Mbl.is, sjá hér.


Ritaskrá

  • 1959 Vogrek
  • 1958 Ævintýri dagsins
  • 1957 Völuskjóða
  • 1945 Fífulogar
  • 1937 Hélublóm

Þýðingar

  • 1956 Slagur vindhörpunnar

Tengt efni