NÆSTSÍÐASTI DAGUR ÁRSINS
Í dag er næstsíðasti dagur ársins og því tilvalið að rifja upp skáldsögu sem kom út árið 1979 með þessum titli: NÆSTSÍÐASTI DAGUR ÁRSINS: DAGBÓK HÚSMÓÐUR ÚR BREIÐHOLTINU.
Þetta var fyrsta skáldsaga Normu E. Samúelsdóttur og vakti bókin mikla athygli þegar hún kom út.
Eins og undirtitill skáldsögunnar gefur upp er skáldsagan í formi dagbókar og segir frá lífi Betu, húsmóður úr Breiðholtinu. Form bókarinnar var nýstárlegt í íslenskum bókmenntum á áttunda ártugnum, höfundur blandar saman svipmyndum úr daglegu lífi Betu, endurminningum hennar, samtalsbrotum, sendibréfum, hugleiðingum o.s.frv. Lýsa mætti byggingunni sem mósaíkmynd, brotum sem mynda heild þegar allt er komið saman. Í frásögninni birtist smám saman trúverðug persónulýsing og mynd af lífi lágstéttarfólks og húsmóður í Reykjavík. Slíkt viðfangsefni var nýjung þegar skáldsagan kom út og þótti mörgum sem um hrollvekjandi raunsæi væri að ræða.
Mjög lofsamlegur ritdómur eftir Pétur Gunnarsson rithöfund birtist í fyrsta hefti Tímarits Máls og menningar 1980. Hann tengdi bókina m.a. við píslarsögur fyrri alda og skrifar:
Ég ætla ekki að hálsbrjóta mig á því að endursegja þessa bók, hef aldrei lesið 156 bls. bók sem kemur jafn víða við og heldur samt kúrs. Bókin er ótæmandi en í örstuttu máli endurskapar hún og uppvekur hrollvekju venjulegrar fjölskyldu á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Aðferð bókarinnar er frumleg og dugir vel til að lýsa hversdagslífi hversdagsfólks: hringrás fæðunnar, leirtausins, innanstokksmunanna, lægðanna, tilkynninganna, árstíðanna, geðsveiflnanna, o. s. frv. Til aö undirstrika endurtekningar beitir Norma gjarnan upptalningu og nær merkilegum áhrifum. (Pétur Gunnarsson, Tímarit Máls og menningar, 1/1980, bls. 125)
Skemmtilegt er að í lok ritdómsins leggur Pétur til að alþingi Íslendinga kaupi eintök af bókinni fyrir alla þingmenn því með því að lesa hana gætu þeir komist í beint samband við kjör alþýðunnunar. Þetta væri "Fljótvirk leið til að stinga þingmönnum í
samband við það sem er að gerast", skrifar hann.
Norma E. Samúelsdóttir hefur send frá sér fjölda bóka síðan þessi fyrsta skáldsaga hennar kom út; fleiri skáldsögur, endurminningar, ljóð og fleira - eins og lesa má um í Skáldatalinu á Skáld.is.