Guðrún Steinþórsdóttir∙22. júlí 2021
HVAÐ EF...? - UM AÐDÁENDASPUNA
Þegar fólk les sögu sem því líkar á það oft erfitt með að segja skilið við persónur og söguheim þeirra og er því með hugann við söguna mun lengur en það tekur að lesa hana. Sumir lesenda upplifa sterk tilfinningaleg viðbrögð við textum sem þeir lesa og eiga auðvelt með að lifa sig inn í frásagnir. Þeir kunna í kjölfarið að velta fyrir sér jafnt fortíð persóna, nútíð þeirra og framtíð og eins hvað gæti hafa gerst ef þær hefðu tekið aðrar ákvarðanir eða hefðu verið uppi á öðrum tíma. Aðrir lesendur ganga skrefinu lengra því að þeim nægir ekki að bræða slíka þanka með sjálfum sér heldur kjósa að fella þá á blað og deila með öðrum. Skáldskapur af því tagi hefur verið settur undir hatt aðdáendaspuna (e. Fanfiction).
Í stuttu máli er aðdáendaspuni hugtak sem vísar „til sagna sem skrifaðar eru af aðdáendum en þær byggjast á fléttu og persónum annað hvort úr einni ákveðinni sögu eða bókaflokki; oft sýnir aðdáendaspuni fyrrum söguheim í nýju, og stundum undarlegu, ljósi.“1 Skáldskapur af þessu tagi er oftast kenndur við óþekkta höfunda en sé hann skoðaður í víðri merkingu er þó ljóst að margir atvinnurithöfundar hafa skrifað slíkar bókmenntir. Það skyldi engan undra því að höfundar eru að sjálfsögðu einnig lesendur sem eiga það til að hrífast af skáldskap, sökkva sér ofan í söguheima, samsama sig persónum og vilja kynnast þeim nánar.
Vilborg Dagbjartsdóttir er gott dæmi um höfund sem hefur unnið á skapandi hátt með menningararfinn eins og sést til dæmis í ljóðinu „Skassið á háskastund“. Þar gengur hún lengra en margur í endurtúlkun á einni frægustu Íslendingasögunni, Njálu en hægt er að túlka ljóð hennar sem aðdáendaspuna. Í ljóðinu yrkir Vilborg í orðastað Hallgerðar Langbrókar:
Löðrungar og köpuryrði
allt er gleymt
ó kæri
hérna er fléttan
snúðu þér bogastreng
ég skal brýna búrhnífinn
og berjast líka
bæinn minn
skulu þeir aldrei brenna
bölvaðir. 2
Ljóðið reynir á þekkingu lesandans því Hallgerður er aldrei nefnd á nafn heldur eru vísanir í Njálu látnar duga. Og þó er það ekki kórrétt því vísanirnar eru ekki í fullkomnu samræmi við upprunalegu söguna heldur hefur hún verið endurskrifuð. Ólíkt því sem áður var fyrirgefur Hallgerður Gunnari, eiginmanni sínum, löðrunginn sem hann gaf henni og hjálpar honum á ögurstundu. Þá býr hún sig undir að berjast fyrir sér og sínum því eins og kemur fram í lokaerindinu ætlar hún ekki að feta í spor Bergþóru, konu Njáls, leggjast undir uxahúð og bíða dauða síns á meðan heimili hennar brennur til kaldra kola.
Ljóðið er gott dæmi um „hvað ef-aðdáendaspuna“ en í slíkum spunum breytir nýi höfundurinn atburðarás fyrri sögu til dæmis með því að láta persónur hegða sér á annan hátt en áður.3 Hinn íróníski umsnúningur á persónu Hallgerðar kemur skemmtilega á óvart; hún breytist úr því að vera „skass“ í hetju, er enn stolt og ákveðin en þó ekki hefnigjörn gagnvart sínum nánasta. Persónan er önnur en (sumir) lesendur þekkja úr Njálu; „skassið“ hefur verið tamið. Þessi þægari útgáfa af Hallgerði kann að gera mynd hennar margræðari og hver veit nema afstaða sumra lesenda í hennar garð kunni að mildast. Írónían sem blasir við er þó margbrotin enda er skotspónninn í allar áttir. Þótt Hallgerður, í ljóði Vilborgar, standi að baki manni sínum – eins og ,góðri eiginkonu‘ sæmir – er hún ekki öll þar sem hún er séð. Sjálfstæði hennar er enn til staðar eins og ljóðlínan „bæinn minn“ vitnar um en í Njálu er Hlíðarendi kenndur við Gunnar og bærinn því ekki eign Hallgerðar. Í sömu mund og skopast er að hugmyndinni um að konan eigi að styðja eiginmann sinn er gert upp við konuna sem það gerir; þ.e. Bergþóru konu Njáls.
Að lestri loknum vekur ljóðið óhjákvæmilega upp ýmsar spurningar um hvað gerist næst í þessari nýju gerð af Njálssögu. Tekst Hallgerði að bjarga Gunnari frá dauða sínum? Og ef svo er, lifa þau þá hamingjusöm til æviloka í sátt og samlyndi? Svarið liggur hjá hverjum og einum lesanda sem þarf að gera upp við sig hvernig hann fyllir inn í eyður ljóðsins og heldur sögunni áfram með hjálp ímyndunaraflsins.
Vilborg hefur ort um fleiri þekktar kvenpersónur og í þeim tilgangi leitað út fyrir landsteinana. Ljóðið „Erfiðir tímar“, sem birtist í ljóðabókinni Kyndilmessa árið 1971, er gott dæmi um það. Í því er Nóra úr leikritinu Brúðuheimilið (1879) eftir Henrik Ibsen ávörpuð en Önnu Kareninu úr samnefndri skáldsögu, frá árinu 1877, eftir Leo Tolstoy bregður einnig fyrir. Ljóðið hljómar á þessa leið:
Nóra litla, hvert ætli þú hafir svo sem getað farið?Jafnvel þótt þú hefðir tiplað yfir þessi ársem eru á milli okkarbiðu þín engin sældarkjör í húsi mínu.Þér að segja, síst er það betra annars staðar.Það hefur harðnað á dalnumog samkvæmt heilagri venjubitnar atvinnuleysi ævinlega fyrst á konumen hafi ég skilið þig réttmuntu vilja sjá fyrir þér sjálfá heiðarlegan hátt – Drottinn minn!Kona með þitt uppeldiog þessar líka hugmyndir um karlmenn.Þú gætir kannski reynt að selja sorpritiævisögu þína og síðan, ef heppnin er með þérleikið sjálfa þig í stórmynd.Nei, góða mín, far þú aftur út í myrkrið.Fjörðurinn er spegilsléttur og djúpur.Bráðum kemur tunglið upp fyrir hvíta fjallsröndinaþá verður ratljóst.Stallsystir þín, Anna Karenina tekur á móti þérá brautarstöðinni.Hvílið ykkur stundarkorn yfir tebolla.Það eru ennþá erfiðir tímar.4
Í lok Brúðuheimilisins skellir Nóra hurðinni á heimili sínu og segir um leið skilið við eiginmann sinn og börn. Hún vill lifa lífinu sem sjálfstæð kona en stóra spurningin er: tekst henni það? Miðað við ljóð Vilborgar er framtíð Nóru eftir að leikritinu lýkur ekki ýkja björt. Í ljóðinu er teflt saman ólíkum tímaskeiðum – fortíðinni (tímabili Nóru) og nútímanum (samtíma höfundar) – til að sýna hve litlar breytingar hafa orðið á stöðu konunnar. Í nútímanum bitnar atvinnuleysi fyrr á konum en körlum og sú óskráða krafa gildir enn að þær eigi að sjá um börn og bú. Jafnrétti er hugsanlega náð í orði en ekki á borði. Tími Nóru er enn ekki kominn. Með tilliti til stöðu konunnar á yrkistíma ljóðsins er það óþægilega raunsætt en heimurinn sem blasir við er þó annar en við þekkjum því hér svífur sú hugmynd yfir vötnum að persónan Nóra geti ferðast í tíma og rúmi eins og ekkert sé. Ljóðið er því dæmi um aðdáendaspuna sem gerist í nokkuð undarlegum heimi. Vísi af „hvað ef-spuna“ bregður fyrir í ljóðinu þegar ljóðmælandi veltir fyrir sér hvað Nóra gæti tekið sér fyrir hendur ætti hún kost á að ferðast fram í tímann. Slíkar vangaveltur eru gott dæmi um hvernig reynt er að svara meginspurningunni sem upprunalega sagan skilur eftir sig.
Vísunin í verk Tolstoys, undir lok ljóðsins, ýtir undir að flokka má ljóðið sem blendings-aðdáendaspuna (e. crossover–fanfiction). Í slíkum spunum er ólíkum söguheimum blandað saman til dæmis með því að láta persónur úr ólíkum sögum hittast. [5] Bókmenntaverkin um Nóru og Önnu Kareninu komu út á svipuðum tíma en örlög kvenpersónanna eru þó ólík því sú síðarnefnda svipti sig lífi þegar hún kastaði sér fyrir lest í sögulok. Með því að spyrða saman þessar tvær persónur er hamrað á bágri stöðu konunnar. Lesendum er þó eftirlátið að túlka hvað fundur Nóru og Önnu hefur í för með sér: Verða örlög Nóru þau sömu og Önnu Kareninu? Er dauðinn betri valkostur en að reyna að komast af í heimi sem er stjórnað af körlum? Eða er ljóðmælandi að leggja áherslu á mikilvægi samstöðu kvenna; og er Nóru í því skyni ætlað að bjarga stallsystur sinni frá dauðanum með tebolla og samræðu? Ljóðið sver sig í ætt þeirra aðdáendaspuna sem skrifaðir eru sem samfélagsádeila en sem slíkt vekur það lesendur vonandi til umhugsunar um stöðu kynjanna í fortíð og nútíð.
Gaman væri ef einhver tæki upp þráðinn frá Vilborgu og myndi yrkja ljóð eða skrifa sögu um hvað gerist næst í þessum nýju útgáfum af sögunum um Hallgerði Langbrók, Önnu Kareninu og Nóru.
Heimildir
[1] Thomas Bronwen, „What Is Fanfiction and Why Are People Saying Such Nice Things about It?“, bls. 1.
[2] Vilborg Dagbjartsdóttir, „Skassið á háskastund“, Ljóðasafn, Reykjavík: JPV útgáfa, 2015, bls. 89.
[3] Thomas Bronwen, „What Is Fanfiction and Why Are People Saying Such Nice Things about It?“, bls. 8.
[4] Vilborg Dagbjartsdóttir, „Erfiðir tímar“, Ljóðasafn, bls. 87.
[5] Jennifer L. Barnes, „Fanfiction as imaginary play“, bls. 75.
Myndina af Hallgerði og Gunnari gerði Kristín Ragna Gunnarsdóttir, skáld og myndlistarmaður og var hún hluti af sýningunni Ertu alveg viss? Stutt innlit í Brennu-Njáls sögu sem var á Borgarbókasafninu í Grófinni í febrúar 2019.
Þessi texti birtist fyrst í aðeins annarri mynd í greininni „Mig langaði til að halda áfram með ljóðið“, Andvara 2021.