STÓRHÆTTULEG BÓK? Um Tímavillt eftir Berglindi Gunnarsdóttur
Berglind Gunnarsdóttir hefur ort ljóð, þýtt ljóð, skrifað eina ævisögu og tvær skáldsögur. Önnur þeirra er Tímavillt frá 2007, um Áróru sem eftir traumatíska bernsku og meðvirkt uppeldi lifir kyrrlátu lífi innan um bækur. Einmanaleg tilvera hennar fer á hvolf þegar hún byrjar í ástarsambandi með miklu yngri manni (nafnlaus í sögunni). Sambandið er sjóðheitt, tilfinningarnar djúpar, ástriðurnar ólga en margt er mótdrægt, ekki síst áfengissýki hans og ótti hennar um að ástarsælan muni ekki endast.
Bókin skiptist í fimm kafla: Búðin, Bókasafnið, Ástin, Fallið og Vegurinn. Textinn minnir um margt á ljóð líkt og í fyrri skáldsögu Berglindar, Flugfiski (1992). Innan um eru tilvitnanir í gamlan skáldskap og bréf enda ástin tímalaus/tímavillt fyrirbæri sem setur allt á annan endann.
Tíminn er stef sem birtist af og til í sögunni. Endalok æsku og ungdóms, eilífðin, samtíminn, skammvinn ástin. „(Áróra) er líka rugluð í tímanum af því með honum lifir hún annan tíma en sinn eigin; tími hans verður líka tími hennar. Þannig stækkkar tímavídd hennar“ (54).
Og hún veltir fyrir sér tíðarandanum sem er líklega um 2007 þegar bókin kom út, bullandi uppgangur, djamm og velferð sem endaði illa eins og við vitum nú: „Hún fæddist inn í nútíma sem var að komast á legg og finnst hún núna lifa endalok hans. Það fór saman við hennar eigið líf sem var gengið henni úr greipum. Hvaða tími tók þá við?"
Að veslast upp í eigin skugga
Persónum sögunnar og þróun ástarsambandsins, risi þess og falli, er lýst af innsæi og á ljóðrænan, merkingarþrunginn hátt.
„Undanhald hans verður biturra eftir því sem lengra líður. Hún veit það, hann hefur sagt henni frá því hvernig birta glersins verður að veröld skuggamynda þar sem sérhvert ljósbrot smýgur langt inn í vitund hans, heggur hann snöggu, sársaukafullu lagi. Meðan hann var nógu ungur var það leikur einn og hann leikinn í að komast undan. Síðan harðnaði leikurinn og svik hans við sjálfan sig urðu svo margslungin að á endanum var hann farinn að veslast upp í eigin skugga (73).“
Stórhættuleg bók?
Gaman er að glugga í nokkra ritdóma um bókina frá því hún kom út, í Fréttablaðinu sáluga, Mogganum og TMM. Viðtökurnar eru ólíkar. Tvær konur og einn karl skrifa um bókina.
Elísabet Brekkan segir í ritdómi í Fréttablaðinu 18. nóvember 2007:
„Þetta er kannski stórhættuleg bók sem getur ruglað allar miðaldra „spikk og span“ konur í ríminu þannig að þær fara að leita sér að ungum ástmönnum? Gæti virkað eins og dulítil uppskriftarbók fyrir konur á gráum dröktum.“
Hrund Ólafsdóttir fjallaði um bókina í Mbl, 22. nóvember 2007:
„Tilfinningar aðalpersónunnar sem Berglind lýsir eru djúpar, einlægar, fallegar, gleðilegar og sorglegar en umfram allt er þeim lýst mjög ljóðrænt og næstum alltaf er ókomin sorg yfirvofandi: ,,… eins og ekkert sé til nema heitir og yfirkomnir líkamar þeirra fléttaðir saman í þrá sem blandast kvöl yfir að verða aftur aðskildir. (59) Ástin er vonin og lífsneistinn sem lesandi vonar að bjargi aðalpersónunni frá depurðinni en heildarmyndin, sagan öll, með sálfræðilegri leit að skýringum veldur því að ekkert er eðlilegra en að svo verði ekki. Tímavillt er dapurleg, falleg saga höfundar sem óttast ekki að snerta lesendur.“
Vantar upp á gredduna
Í TMM 1. nóvember 2008 fjallar Ólafur Guðsteinn Kristjánsson um Tímavillt og aðra bók í sama ritdómi undir fyrirsögninni Ófullnægja hvunndagsins og finnst talsvert vanta upp á gredduna í báðum bókum.
„Flestir lifa sínu lífi án þess að eftir því sé tekið. Sé tekið eftir því er það út af því að viðkomandi hefur brugðið út af vananaum, líkt og í tilfelli Áróru. Það þýðir þó ekki að ekkert gerist bakvið tjöldin … Líkt og lesandi þessarar greinar hefur tekið eftir er hún fremur þurr og litlaus, e.t.v. líkt og hvunndagurinn sjálfur og endurspeglar um margt bækurnar sjálfar. En þótt hvorug bókin gefi ballfróartilefni eru þær um margt áhugaverðar og varpa ljósi á hvað getur gerst í ófullnægju hvunndagsins ásamt því að veita okkur innsýn í hvunndag sem stendur okkur ef til vill of nærri til að við nemum hann almennilega. Þó kemst maður ekki hjá því að hugsa með sér að vel hefði mátt gera sér meiri mat úr efniviðnum, þá sérstaklega í Hliðarspori; sú saga býður upp á nokkuð óvænt plott sem hnýtir haganlega saman þræði bókarinnar. En þó að allt sé vel úr garði gert, bæði í henni og Tímavillt, vantar talsvert upp á gredduna, sem er auðvitað bagalegt í ljósi innihaldsins. Því þótt ófullnægju sé vissulega fyrir að fara í hvunndeginum er hann svo sannarlega graður.“
Austurstræti helgarnæturinnar
Undir lok sögunnar er rómantíkin búin og kaldur raunveruleikinn tekinn við. Áróra gengur um miðbæinn, „í risavöxnum draumi ölvunarinnar í Austurstræti helgarnæturinnar.“ (105) Hún gengur fram hjá porti þar sem konu var nauðgað, fram hjá götuhorni þar sem ungmenni var barið og skilið örkumla eftir í blóði sínu. Hún veltir fyrir sér hvatalífinu, upphafningu efnisins, trúlausum timanum. Hvernig fíknin étur upp góðvildina, hvernig þorstinn í ölvun og gleymsku er allsráðandi. En hjartahlýjan, sem er alls staðar ef að er gáð, lífsgleðin og kröftugt hljómfall tónlistar verða samt til þess að hún finnur sátt og von, þegar þau fyrrum kærustuparið rekast saman í bænum halda þau orðalaust hvort í sína áttina.