SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Berglind Gunnarsdóttir

Berglind Gunnarsdóttir er fædd í Reykjavík 1953. Foreldrar hennar voru Þórunn Eva Eiðsdóttir og Gunnar Aðalsteinn Magnússon og er Berglind yngst fimm systkina.

Berglind tók stúdentspróf frá Verslunarskóla Íslands. Hún lagði stund á spænsku og málvísindi við Háskóla Íslands og Universidad de Complutense í Madrid.

Berglind hefur birt frumort ljóð og ljóðaþýðingar, einkum úr spænsku, bæði í eigin bókum og ýmsum tímaritum og safnverkum. Þá hefur hún einnig birt greinar um bókmenntir í blöðum og tímaritum og unnið við þáttagerð fyrir útvarp.

Berglind gaf út fyrstu ljóðabók sína 1983 og hefur alls sent frá sér sjö ljóðabækur og tvær skáldsögur. Þá hefur hún ritað ævisögu Sveinbjörns Beinteinssonar allsherjargoða og skrifað sagnfræðirit um arabíska menningu á miðöldum.

Berglind er ötull ljóðaþýðandi og hefur birt ljóð og ljóðaþýðingar í tímaritum á borð við Tímarit Máls og menningar, Són, Tening, Ljóðorm, Ský og Andvara, sem og í tímariti Nýlistasafnsins, The End. Þýðingar á ljóðum hennar hafa birst í þýska tímaritinu Horen: Wortlaut Island (2000) og í ljóðasafninu Am Meer und anderswo, 2015. Einnig á frönsku í ritinu 25 poetes islandais d‘aujourd‘ui (2004). Það ljóðasafn hefur líka verið gefið út á arabísku (2018).

Ljóð Berglindar hafa birst á sýningum, hún átti ljóð á sýningunni Íslands þúsund ljóð í Safnahúsinu 2000; árið 2006 sýndi hún ljóð á sýningu þriggja listforma í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar, undir yfirskriftinni Út á skýjateppið: draumsæi og náttúrufar þriggja  forma. Þar voru til sýnis tré- og koparverk Sigurjóns og textílverk Helgu Pálínu Brynjólfsdóttur, auk ljóða Berglindar. Ljóð eftir hana birtist einnig á ljóðavef Jónasar Hallgrímssonar, náttúruljóð, 2007.

Minningarljóð Berglindar,  „Rúnar Gunnarsson (in memoriam),“ við lag Bubba Morthens var flutt af GCD, 1991. Ljóðið samdi hún í minningu bróður síns, Rúnars Gunnarssonar (1947-1972), lagasmiðs og söngvara. Á 20 ára afmæli Örlagsins, 2006, var gefinn út geisladiskur Kjartans Árnasonar, Allt sem var gleymt er munað á ný og þar var ljóð eftir Berglindi.  Þá átti hún ljóð í kvikmynd Nýja bíós, Brotabrot (1999) og í afmælisritið Safnahúsið 1909-2009. Þjóðmenningarhúsið (2009), skrifaði hún kaflann „Salurinn“.

Berglind sat í ritnefnd Ljóðaárbókar (1988 og 1989), sem og tímaritsins Hendingar (1991).

Auk ritstarfanna hefur Berglind starfað við ýmis önnur störf, lengst af á Landsbókasafni Íslands, á árunum 1993-2014. Berglind býr í Reykjavík.

 


Ritaskrá

  • 2022  Í mynd Gyðjunnar. Saga hennar í skáldskap, náttúru og trú
  • 2014  Arabísk menning á miðöldum og áhrif hennar á Vesturlönd
  • 2013  Ekki einhöm
  • 2008  Ljóðleg
  • 2007  Tímavillt (skáldsaga)
  • 1999  Ljóðvissa
  • 1994  Smásaga í Tundur dufl. Erótískar smásögur
  • 1992  Allsherjargoðinn (ævisaga)
  • 1992  Flugfiskur (skáldsaga)
  • 1990  Ljósbrot í skuggann
  • 1986  Ljóðsótt
  • 1983  Ljóð fyrir lífi

 

Verðlaun og viðurkenningar

  • 2000  Viðurkenning úr Bókasafnssjóði
  • 1997  Viðurkenning úr Fjölíssjóði, Rithöfundasamband Íslands

 

Þýðingar

(í vinnslu)

  • 2018  Nokkur ljóð í Pablo Neruda: Hafið starfar í þögn minni. Þýðingar á ljóðum eftir Neruda.
  • 2007  Nokkur ljóð í Federico García Lorca: Gustur úr djúpi nætur. Ljóðsaga Lorca á Íslandi.
  • 1995  Bragð af eilífð (ljóð)
  • 1991  Mario Vargas Llosa: Hvolparnir (leikrit). RUV
  • 1991  Manuel Scorza: Þrautagangan frá Yanacocha til framtíðar (leikrit). RUV
  • 1989  „Hnúturinn óleysanlegi“ eftir Rosu Chacel, TMM, 1. hefti.
  • 1988  Ást og skuggar eftir Isabel Allende  

 

Tengt efni