SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir23. apríl 2023

„FLÝTTU ÞÉR UPP Á MIÐJAN VATNAJÖKUL, ÞÁ GETURÐU ORÐIÐ SKÁLD.“ Um Þórunni Elfu Magnúsdóttur

 

Einn afkastamesti íslenski kvenrithöfundurinn um miðbik tuttugustu aldar var Þórunn Elfa Magnúsdóttir. Hún var aðeins 23 ára þegar fyrsta bók hennar, smásagnasafnið Dætur Reykjavíkur I, kom út og í kjölfarið sigldu fleiri smásögur, skáldsögur, barnasögur, ljóð og endurminningar, alls á þriðja tug bóka. Í verkum sínum leitaðist Þórunn Elfa við að lýsa samtíma sínum, að skrifa nútímabókmenntir á nútímamáli. Skáldverk hennar gefa því góða innsýn í líf Íslendinga á miklum umbrotatímum. Sá vandi sem blasti við konum sem ætluðu sér að verða rithöfundar á fyrri hluta tuttugustu aldar er einnig viðfangsefni sem Þórunn Elfa gerir góð skil í verkum sínum.

Þórunn Elfa fæddist þann 20. júlí, árið 1910 í Reykjavík. Foreldrar hennar voru Margrét Magnúsdóttir húsmóðir og Magnús Magnússon sjómaður og verkamaður. Þau bjuggu við fremur lítil efni og áttu oft erfiða tíma af þeim sökum eins og títt var um verkafólk í Reykjavík á fyrri hluta aldarinnar.

 

Þórunn Elfa lýsir foreldrum sínum, systkinum og æskuárum í bernskuminningum sínum Frá Skólavörðustíg að Skógum í Öxarfirði og má greina þar sáran undirtón. Á barnmörgu fátæku heimili var það eflaust þegið með þökkum þegar einhverju barnanna bauðst vist á góðu sveitaheimili um stundarsakir. Þórunn Elfa var ekki nema á þriðja árinu þegar hún fór í sumarvist til móðursystur sinnar að Stóra-Lambhaga í Skilmannahreppi. Það var sumarið sem móðir hennar átti von á fimmta barninu. Tvö næstu ár dvaldi Þórunn Elfa einnig sumarlangt á Stóra-Lambhaga en það varð hins vegar úr þegar hún var sjö ára gömul að hún fluttist alfarin til móðursystur sinnar Marenu Magnúsdóttur og eiginmanns hennar, Einars Sigurðssonar, að Klifshaga í Öxarfirði í Norður Þingeyjarsýslu. Maren og Einar höfðu misst barn og sóttu það fast að fá Þórunni í fóstur til sín, ekki síst til að létta á erfiðu heimilinu í Reykjavík en einnig vegna þess að Þórunn Elfa var hænd að þessari frænku sinni.

Þótt Þórunn Elfa hafi notið ástríkis frænku sinnar og frænda er fullvíst að aðskilnaðurinn við móðurina var henni sár. Á hófstilltan hátt lýsir hún því í bernskuminningum sínum hvernig það bar til að hún var send norður, sem og ferðalaginu sjálfu. En það má svo einnig sjá þessa reynslu hennar endurspeglast í átakameiri lýsingum á aðskilnaði móður og dóttur í skáldsögu hennar Frostnótt í maí sem fjallað verður um hér á eftir.  

Sigmund Freud og margir sporgöngumenn hans hafa haldið því fram að aðskilnaður barns við móður sína geti verið afdrifaríkasti atburðurinn á öllum lífsferli þess. Öll þurfum við einhvern tíma að skiljast frá móðurinni, öðlast okkar eigin sjálfsvitund og sjálfstætt líf. En hjá flestum okkar gerist þetta með eðlilegum hætti á löngum tíma, svo aðlögunin að móðurleysinu er auðveld. Hjá þeim börnum þar sem þennan aðskilnað ber of brátt að, kannski vegna andláts móður eða annarra orsaka, geta afleiðingarnar verið meðal annars þær að barnið upplifir neikvæðar tilfinningar, höfnunarkennd eða skort af einhverju tagi. Ýmsir sálgreinendur telja að listþörfin sé sprottin upp af einhverjum slíkum skorti; að viðleitnin til listsköpunar, sköpunarþráin sjálf, sé tilraun til að fylla upp í þennan skort. Bent er á hversu margir listamenn hafi verið móðurlausir strax á bernskuárum.

Ekki veit ég hvort sú staðreynd að Þórunn Elfa var á barnsaldri send í fóstur langt norður í land, burtu frá foreldrum sínum og systkinum, hafi vakið sköpunarþrá hennar eða ráðið úrslitum hvað varðar þann draum hennar að gerast rithöfundur. Hitt er víst að örla tók á þeim draumi snemma á ævi hennar. Það voru sjö ár sem Þórunn Elfa bjó hjá móðursystur sinni í Öxarfirðinum. Á fimmtánda ári flutti hún til baka til Reykjavíkur og hóf nám í gagnfræðaskóla, en námi varð hún að hætta aðeins sextán ára gömul vegna veikinda. Eflaust hefur það verið erfitt fyrir unga, metnaðargjarna og bókelska stúlku að þurfa að hætta námi sökum bágrar heilsu; sterk menntunarþrá er eitt aðaleinkennið á þeim sögupersónum hennar sem dreymir um að gerast listamenn eða rithöfundar. En þótt Þórunn Elfa gæti ekki lagt stund á langskólanám sótti hún bæði einkatíma og ýmis námskeið, til dæmis í bókmenntum, tungumálum, sögu og sálfræði, gagngert til að búa sig undir starf sem rithöfundur. Tvo vetur var hún við nám í lýðskóla Ásgríms Magnússonar í Reykjavík og einn vetur dvaldist hún við nám í Noregi.

Eins og áður segir, var Þórunn Elfa harðákveðin í því að verða rithöfundur. Það hefur vafalaust þurft bæði kjark og óvenjulegan persónuleika fyrir unga stúlku að taka slíka ákvörðun á fyrri hluta aldarinnar. Dæmin um kvenrithöfunda voru ekki mörg en víða má sjá af bókum Þórunnar Elfu að þau fáu fordæmi sem hún hafði voru henni mikilvæg. Þegar minnst er á eldri skáldkonur og verk þeirra í bókum Þórunnar er fjallað um þær af aðdáun og virðingu.

Ekki er heldur ólíklegt að hjá Þórunni Elfu hafi verið togstreita á milli sköpunarþrárinnar og skyldu hverrar konu á þessum tíma að giftast og eignast heimili og börn. Í verkum hennar má sjá þetta tvennt togast á, skylduna og listþörfina, eins og það gerir reyndar í mestum hluta íslenskra kvennabókmennta fram á okkar daga. Þórunn gekk reyndar ekki í hjónaband fyrr en hún var 31 árs gömul sem hefur eflaust þótt heldur seint í þá tíð. Eiginmaður hennar var Jón Þórðarson, kennari og rithöfundur, og áttu þau saman þrjú börn, tvo syni og eina dóttur. Hjónaband Þórunnar Elfu og Jóns stóð í aldarfjórðung en þau skildu árið 1966.

En hvernig skyldi viðhorf gagnvart skáldkonum hafa verið á þessum árum? Í bókinni Sól í Norðurmýri. Píslarsaga úr Austurbæ eftir Þórunni Valdimarsdóttur og Magnús Þór Jónsson (Megas) lýsir Megas – sem er yngri sonur Þórunnar Elfu – æsku sinni í Norðurmýrinni í Reykjavík.

 

Í húsi garðyrkjumannsins býr kerling. Hún er hafin yfir umhverfið eins og prófastsfrú, norn í turni í hugum tvístraðra kríla sem nema vilja lönd og stytta sér leiðir. Engin börn eru á hennar vegum - píslin kannast við alla sem eru á stjái - því er hún svo fjarlæg falin stærð.

Strákarnir eiga leið um garðinn hennar. Þurfa að komast yfir í þann næsta. Eins og slanga smjúga þeir hlykk eftir hlykk yfir girðinguna, gjóa augunum upp í gluggann hennar meðan þeir fara hljóðlega yfir grænan flosvöllinn. Þeir rjúfa helgi garðsins. Nornin gætir dætra sinna, Veggfjólu og Garðabrúðu, dag og nótt svo enginn komi að spilla þeim. Fnykur finnst henni af fótsporum drengja í moldinni. Nýslegin stráin eru dagstund að jafna sig eftir traðk gúmmí- og strigaskóa, og kannski munu þær aldrei ná sér.

Skrækjandi rífur hún eldsnöggt opinn gluggann svo barnshjartað missir úr takt. Hún atyrðir píslina - aðeins hann - lætur hina vera. Út úr henni stendur roka af útfjólubláum tvískinnungi í átt til móður hans. Já, sumir ættu að vita hvernig englabörnin hennar eru í raun og veru. Það er vont sem hún segir, það er svo ógeðslega kalt. Norninni er svo kalt. Dætrum sínum hefur hún breytt í blóm. Þær áttu að vera að holdi og blóði, sætar með hár niður úr turninum, en nornin er svo vond að, og af því, hún gat ekki eignast börn. Og hún hatar allt nema lög og reglur, sérstaklega skáldkonur og syni þeirra. Kuldinn sest inn við rifin á drengnum. Nýr skilningur læðist milli rifjanna, kaldur efi. Hann sér að ekki er allt sem sýnist. Þekkir hún bara skáldkonuna, ekki móður hinna drengjanna? Mega konur ekki skrifa bækur og greinar í blöð? Þessi nornarárás er í anda kaldastríðs. Móðirin skrifar bækur sem eru í náðinni hjá bókmenntapáfanum. Af hverju skammaði kerlingin hina strákana ekki? Er hugsanlegt að menn séu ekki á einu máli um ágæti þeirra foreldra sem forsjónin hefur úthlutað honum? (Sól í Norðurmýri, bls. 17-18)

 

„Mega konur ekki skrifa bækur og greinar í blöð?“ spyr píslin litla sjálfan sig, undrandi á látunum í nágrannakonunni í Norðurmýrinni. Þórunn Elfa skrifaði reyndar heila skáldsögu sem hafði nágrannaerjur að aðalefni, skáldsöguna Sambýlisfólk sem kom út árið 1954 og var beint framhald af skáldsögunni Snorrabraut 7 sem hafði komið út árið 1947 og fjallaði um fyrstu sambúðarár og húsbyggingarbasl heiðarlegra en fátækra hjóna á árum kreppu og fólksfjölgunar í Reykjavík. Ekki þori ég að fullyrða að nágrannerjur þær sem Þórunn Elfa lýsir í Sambýlisfólki séu sprottnar af hennar eigin reynslu, hvað þá að hún hafi átt í nokkrum útistöðum við nágrannakonuna munnhvössu sem brýndi sig yfir strákpjökkunum sem voru að stelast inn í garðinn hennar. Hitt er fróðlegt að sjá hvernig fordómafullt viðhorf til kvenna sem fengust við skriftir á þessum tíma kemur fram í þessari stuttu frásögn. Þetta var viðhorf sem Þórunn Elfa þurfti oft að glíma við á ferli sínum sem rithöfundur. Til slíks vísar hún oftar en einu sinni í skrifum sínum.

Fyrsta bók Þórunnar Elfu var smásagnasafnið Dætur Reykjavíkur I sem kom út árið 1933. Ári síðar kom út fyrri hluti skáldsögu sem hún kallaði Dætur Reykjavíkur II og kom síðara bindið, Dætur Reykjavíkur III, út fjórum árum síðar árið 1938. Ekki er ólíklegt að Þórunn Elfa byggi á eigin reynslu í þessari fyrstu skáldsögu sinni. Sagan lýsir lífi og leik nokkurra ungra Reykjavíkurstúlkna á fjórða áratugnum. Sagan er athyglisverð að mörgu leyti. Hún er með fyrstu hreinræktuðu Reykjavíkursögunum þar sem reynt er markvisst að lýsa líðandi stund með orðfæri sem þá tíðkaðist. Stíllinn er léttur og gáskafullur og víða bregður fyrir slanguryrðum úr Reykjarvíkurmáli þessa tíma. Reyndar bregður fyrir í sögunni nokkurs konar varnarræðu fyrir slíka málnotkun í skáldskap. Aðalpersónan, Svala Egilsson, sem er ung stúlka sem ætlar sér að verða rithöfundur er að ræða um skáldskap sinn við móður sína:

 

Þegar ég var búin að borða töluðum við mamma um söguna mína.

- Þú hefur skrifað margt betra en þetta. Hérna á árunum sýndirðu mér svo fallegar sögur, þær höfðu tilgang, voru svo göfgandi, siðbætandi væri kannski réttara orð, mér fannst það hreint einstakt, jafnmikill unglingur og þú varst þá.

Herra minn trúr! Hreinn barnaskapur, enda á eld kastað, hugsaði ég.

- Þú ættir að halda áfram að skrifa í sama anda og þá. Ekkert skil ég í þér, barn, hvað þú ert orðin hirðulaus með málið, einkum talmálið, í því hefur þér stórlega hrakað. Í rituðu máli á auðvitað að kappkosta, að skrifa móðurmál sitt hreint og lýtalaust. En það er rétt eins og þú sért að seilast eftir þessum slangyrðum, sem sumir láta flakka í daglegu tali, í stað þess að gera þér far um að bæta smekk manna, auka virðinguna fyrir hreinu og fögru málfari.

- Góða mamma, það skrifar enginn nútíma sögu úr Reykjavík á þúsund ára gamalli norsku. Við skrifum þá íslensku, sem er í deiglunni, og ef þörf krefur á reykvísku máli. Skáldsögur eiga ekki að vera draumórar um það, hvernig líf og hættir eigi helst að vera, heldur sannar myndir af lífinu eins og það er í raun og veru. Þess vegna eigum við rithöfundar, (mér brá sjálfri við orðið en hélt þó hiklaust áfram): að leggja persónum okkar lifandi orð á tungu, jafnvel þó að þau standist ekki dóm þeirra, sem eru orðnir starblindir af gullaldardýrkun. (Vorið hlær, bls. 49)

 

Skáldsagan Dætur Reykjavíkur var endurútgefin undir nafninu Vorið hlær árið 1979. Aðalþráður sögunnar fjallar um þann draum Svölu að verða rithöfundur og þá þröskulda sem helst standa í vegi fyrir að það geti orðið. Þar má nefna lokkandi tilboð um hjónasæng og börn, svo og andstöðu útgefandans sem hún leitar til með fyrstu ritverk sín. Sagan hefst á því að Svala sver þess dýran eið, á 21. afmælisdegi sínum, að hún ætli sér að verða rithöfundur „og heiti ég á allar hollar vættir þeim ásetningi mínum til heilla!“, segir í sögunni. Eftir áheit sitt ákveður Svala að taka til í skriftarskúffunni sinni og hefst hún handa við að brenna gömlum handritum því hún ætlar að byrja upp á nýjan leik. Hún rifjar upp þegar hún, aðeins átján ára gömul, fór fyrst á fund útgefanda með ritverk sín: „Ég var ekkert að klípa við neglur mér, heldur arkaði til hans með allstóran handritabunka . . . Ja, vonbrigði verða nú ekki umflúin, en ég meina að yður veitist ekki erfitt að taka þeim.“ (Vorið hlær, bls. 6-7)

Ef Þórunn Elfa lýsir þarna eigin reynslu að ferð til úgefanda þá lét hún slíkt ekki buga sig eða letja í þeim ásetningi að skrifa. Hún hafði sent frá sér tíu skáldsögur, eitt smásagnasafn og tvær barnabækur, áður en hún varð fimmtug - og enn átti eftir að bætast við.

Skáldsögur Þórunnar Elfu er margar hverjar miklar að vöxtum og efni þeirra er fjölbreytt. Ætíð eru konur í miðju frásagnarinnar og efnið tengist oft hlutskipti þeirra í samfélagi þar sem draumar þeirra og þrár stangast á við það hlutverk sem þeim er ætlað að uppfylla og aðstæður þeirra skapa þeim. Kvenlýsingar Þórunnar Elfu eru margs konar, hún lýsir góðum konum og illum, heiðarlegum konum, eigingjörnum tildurrófum, eiginkonum, ástkonum, mæðrum, ömmum, listakonum, og svo mætti lengi telja. Hægt er að tala um bæði stíllega og efnislega þróun í skáldsögum hennar. Sögur hennar þróast frá gáskafullum lýsingum á Reykjavíkurlífi, til breiðra skáldsagna sem flokka mætti undir félagslegt raunsæ, og yfir í það sem kalla mætti sálfræðilegt raunsæi.

 

Árið 1938 sendi Þórunn Elfa frá sér athyglisvert smásagnasafn sem hún nefndi Líf annara. Það sem einna helst gerir þetta smásagnasafn athyglisvert er að formið er nýstárlegt, á þessum tíma, þótt við þekkjum það vel úr samtímabókmenntum. Í safninu eru sögur sem fjalla hver um sína aðalpersónu, og segir sína sögu. En þræðir liggja á milli allra sagnanna, á einn eða annan hátt tengjast þær og mynda ákveðna heildarsögu. Fyrsta sagan segir frá ungri stúlku sem er stödd í kvennaboði heima hjá frænku sinni. Í boðinu er, eins og gengur og gerist, verið að ræða um náungann, um „líf annara”, og falla ýmsir áfellisdómar af vörum kvennanna, nema ungu stúlkunnar, hún vill sjá það góða í manneskjunni og reynir að verja þá sem fyrir illu umtali verða. Í næstu sögum bókarinnar er síðan sagt af þeim persónum sem fyrir umtalinu urðu í kaffiboði fyrstu sögunnar. Og þá koma að sjálfsögðu fram nýir fletir á umræðuefni kvennanna, og í sundur greinist sannleikur og gróusögur. Þessi skemmtilega frásagnaraðferð gengur einkar vel upp hjá Þórunni Elfu, enda hlaut bókin ágæta dóma. Einn ritdómarinn, Pétur Magnússon, sem skrifaði um bókina í bókmenntatímaritið Skírni, komst þannig að orði að “sumir kaflar bókarinnar bæru með sér að þessi unga stúlka, sem skrifar hana, er gædd innsæi og athugunargáfu, sem er fremur óalgeng hjá höfundum á hennar aldri.”

 

Þótt skáldsagnagerðin væri það sem Þórunn Elfa fékkst mest við gegnum árin, fékkst hún þó alltaf eitthvað við smásagnagerð. Margar smásögur hennar birtust í blöðum og tímaritum eða voru lesnar upp í útvarpið. Smásögurnar fjalla flestar um konur, um dætur Reykjavíkur og aðrar Evudætur, en það er titill á smásagnasafni sem kom út 1944. Eins og ég nefndi hér að ofan eru kvenlýsingar Þórunnar Evu fjölbreyttar. Það sem einna helst skilur konur að í sögum hennar er stéttarleg staða þeirra. Ótvíræð samúð er með konum lægri stétta, verka- og vinnukonum, og oft frá hástéttarkonur háðuglega útreið hjá henni, sérstaklega þær sem hafa mikil peningaráð og láta stjórnast af hóglífi, græðgi og sérgæsku. Þórunn Elfa hafði lengi orð á sér fyrir að vera „rauð“, hún taldist til hóps vinstri sinnaðra rithöfunda og oft skrifaði hún greinar í blöð um stjórnmál og önnur þjóðmál, meðal annars skrifaði hún greinar á móti hersetunni.

 

Áhuga Þórunnar Elfu á þjóðmálum og kjörum lágstéttarfólks má vafalaust rekja til hennar eigin uppruna. Eins og fram hefur komið voru foreldrar hennar fátæk, faðirinn vann ýmsa verkamannavinnu í lausamennsku og móðir hennar tók að sér saumaskap heima, auk þess að sinna barnmörgu heimilinu. Þessi kjör má sjá endurspeglast í skáldsögunni Snorrabraut 7, sem kom út árið 1947. Sagan segir frá ungum, efnalitlum hjónum sem ráðast í það að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Kreppa ríkir í Reykjavík, byggingarefni er af skornum skammti, og verða hjónin fyrir barðinu á óprúttnum, óheiðarlegum vertökum, og lenda í miklu basli með húsbyggingu sína. Þau leggja bæði hart að sér, svo hart að nærri heilsu þeirra gengur, og þegar við bætast barneignir (þau eignast tvíbura í fyrsta skiptið), er útlitið ekki bjart. Enda fer svo að lokum að þau neyðast til að selja hálft húsið - og eru þar heldur hlunnfarin í viðskiptum.

Snorrabraut 7 er heldur nöturleg saga. En sem samtíðarlýsing er hún eflaust raunsönn að mörgu leyti. Þórunn Elfa skrifaði framhald á þessari sögu, sem kom út sjö árum síðar, árið 1954, og nefnist Sambýlisfólk. Þar er því lýst þegar hjónin ungu eru flutt í nýja húsið sitt, og snýst frásögnin um sambýlið við hina ríku ekkju sem keypti af þeim neðri hæðina. Sú frú er ein af hinum spilltu, sérgóðu kvenpersónum sem finna má víða í verkum Þórunnar Elfu. Í krafti auðs síns og yfirgangs, tekst ekkjunni að gera lífið næstum því óbærileg fyrir ungu hjónin. Sambýlisfólk er ekki síður nöturleg saga en Snorrabraut 7. Í sögulok neyðast hjónin að flytja úr íbúð sinni, leigja hana, og búa sjálf í kjallaranum, þar sem fjármálin eru að sliga þau. Þó eru ýmis teikn á lofti um batnandi tíð - kannski hefur Þórunn Elfa ætlað sér að skrifa meira um þessar persónur sínar, en svo varð þó ekki.

 

 

1953 kom út skáldsagan Dísa Mjöll. Þættir úr sögu listakonu. Eins og titillinn bendir til er aðalpersóna bókarinnar listakona sem einnig er húsmóðir og fjallar sagan um þá togstreitu sem af þessari tvískiptu stöðu hennar hlýst. Sagan gerist í sjúkrahúsi eftir misheppnaða sjálfsmorðstilraun Dísu Mjallar, þannig að strax verður lesanda ljóst að ekki hefur sögupersónunni gengið farsællega að samræma köllun sína þeim skyldum sem hjónabandið og samfélagið leggja henni á herðar. Stærsti hluti frásagnarinnar er upprifjun á ýmsum atburðum úr fortíð Dísu Mjallar. Lokakaflinn er síðan greining geðlæknis á sálarlífi hennar, sem hann gerir í samtali við eiginmann hennar (og þá lesandann um leið), sem kominn er til að sækja hana heim af sjúkrahúsinu.

 

 

Gerður Steinþórsdóttir skrifaði kandítatsritgerð í íslenskum bókmenntum sem hún kallaði Kvenlýsingar í sex Reykjavíkurskáldsögum eftir seinni heimsstyrjöld og kom út í fræðiritaröð Rannsóknarstofnunar í bókmenntafræði við Háskóla Íslands árið 1979. Í ritinu fjallar Gerður meðal annars um Dísu Mjöll. Gerður fjallar á gagnrýninn hátt um skáldsöguna og skoðar allar kvenlýsingar hennar, um aðalpersónuna Dísu Mjöll skrifar hún:

 

Dísa Mjöll er athyglisverð kvenlýsing. Hér er kona sem fellur ekki að mynstri karlveldissamfélagsins og á því í baráttu við umhverfi sitt. Sektarkenndin einkennir vitund hennar. Bókin lýsir hvernig það sterka og veika í Dísu Mjöll togast á og er í raun ágæt kennslubók í hugmyndum karlveldis og kúgun kvenna. Kjarni verksins er þessi: „Í okkar samfélagi er alloftast örðugt að vera listamaður, þó enn örðugra að vera listakona, til konunnar eru gerðar grimmdarlegar kröfur, hún á að afneita einstaklingseðli sínu, bæla niður hæfileika sína og þrár, hvenær sem það er talið best henta umhverfi hennar. Hvenær er eftirspurn eftir afburðakonum?

Höfundur gerir enga tilraun til að gera Dísu Mjöll „karllega“ þrátt fyrir andlegt atgervi hennar. Baráttu Dísu má útfæra. Hún getur verið tákn fyrir allar konur sem setja sig gegn hefðbundnu hlutverki konunnar og vilja þroska sig sem manneskjur, þ.e. barátta einstaklings við kerfið en ekki hóps eða stéttar.

 

 

Árið 1958 sendi Þórunn Elfa frá sér skáldsöguna Frostnótt í maí og segja má að með þeirri sögu nái ferill Þórunnar Elfu listrænum hápunkti. Frostnótt í maí er átakanleg saga lítillar stúlku, Völvu Valtýsdóttur, sem er dóttir einstæðrar móður og kvænts manns, Valtýs Jóhannessonar, sem er frægur prófessor í norrænum fræðum við Kaupmannahafnarháskóla. Mæðgurnar búa í Kaupmannahöfn, líklega býr móðirin þar til að geta verið nálægt manninum sem hún elskar, þrátt fyrir að hann sé giftur annarri konu. Þessari ástarsögu er þó ekki gerð nein viðhlítandi skil í sögunni, frásögnin snýst um annað, nefnilega aðskilnað Völvu litlu við móður sína, sem neyðist til að senda hana frá sér þar sem hún getur ekki sinnt henni nægjanlega, og er of fátæk til að borga fyrir barnagæslu meðan hún vinnur. Móðirin velur sem sagt á milli elskhugans og barnsins, og sendir dóttur sína frá sér með skipi til Íslands, þar sem hún fer í fóstur til móðurömmu sinnar og afa.

 

Lítil stúlka sat uppi í hárekkju og þrástarði gegnum sædrifið kýraugað á úfið, ísgrátt hafið . . . Það er mikið að gera hjá sólinni og hún er alltaf á ferðinni, þó að hún sjáist ekki alltaf á daginn, það gera skýin, þau troðast fram fyrir hana og byrgja hana. (Frostnótt í maí, bls. 5)

 

Enginn vafi er á því að Þórunn Elfa byggir á eigin reynslu í þessari lýsingu, þótt ástæður aðskilnaðarins við móðurina hafi verið önnur hjá henni en sögupersónu hennar. Þegar Þórunn Elfa var send norður í fóstur til móðursystur sinnar, fór hún einnig sjóleiðina og í bernskuminningum hennar segir hún á einum stað: „Ég var yngri en hún dóttir mín, sem sefur á hvítum svæfli gegnt mér, þegar ég lagði upp í langa ferð með svæfilinn minn sem huggara og vin við vanga mér í gnötrandi skipskoju og aleiguna í rauðum kistli til fóta. Ég bægi frá mér minningunni um þessa för - og það sem síðar gerðist.“

Á öðrum stað segir Þórunn Elfa í bernskuminningunum að „engin brúða gæti vegið upp á móti því að fá að vera hjá mömmu.“ Rétt áður en mamma Völvu litlu sendir hana eina með skipi til Íslands færir hún henni gjöf:

 

Kvöldið áður en hún skyldi leggja af stað til Ísland kom mamma heim með ílangan kassa, sem hún var mjög leyndardómsfull yfir og fór svo undur gætilega með. . .“Ég vil hana ekki,” hvíslaði telpan grátandi: “Ég vil bara þig, mamma.”

Og sverð tregans nísti hjarta hennar. (Frostnótt í maí, bls. 11-12)

 

Völvu litlu bíður engin sæluvist í sveitinni hjá ömmu og afa. Amma hennar er bitur út í örlög dóttur sinnar, sem hún telur að hafi verið táldregin og svikin af giftum manni, og hún lætur litlu dótturdóttur sína gjalda faðernisins, þar sem hún sver sig meira í föðurættina en henni líkar. Lýsingin á ömmunni er líklega ein af fáum neikvæðum ömmulýsingum í íslenskum bókmenntum. Yfirleitt eru ömmurnar yndislegar og góðar manneskjur sem baða barnabörn sín í ást og umhyggju, og segja þeim sögur. Þessu er hreint ekki svo farið með ömmu Völvu. Hún er eigingjörn og hörð kona, sem lætur barnið gjalda fyrir “syndir” foreldranna, og brýtur hana smám saman niður. Valva litla er sem viðkvæmur gróður sem kular í maífrostinu. Sagan endar á hrikalegri lýsingu sem á sér stað við gröf móður Völvu, sem lést af veikindum eftir að hún hafði komið heim til dóttur sinnar. Amma talaði af slíkri heift, að orð hennar hrundu yfir sál telpunnar sem væru þau gneistar af ógurlegu báli, hún kipptist við eins og af raunverulegum sviða, hrökk undan. . .„Ég sver,“ sagði amma hægt og sefjandi, orð hennar náðu telpunni eins og kall langt að, hún var brotin undir vald, sem hún megnaði ekki að rísa gegn og bergmálaði veikum rómi: „Ég sver,“ um leið og hún hné niður á frerann við fætur ömmu. - (Frostnótt í maí, bls. 282-3)

Þótt þessi lokaorð Frostnætur í maí, gætu allt eins bent til þess að Valva litla hafi látið líf sitt þarna við gröf móður sinnar, svipt nafni sínu og þar með sjálfsvitund sinni, urðu þetta þó ekki endalok hennar. Þórunn Elfa skrifaði framhald á sögu Völvu, skáldsöguna Kóngur vill sigla, sem kom út árið 1968, eða tæpum áratug eftir útkomu Frostnætur í maí. Það verður að segjast að Kóngur vill sigla er mun lakari saga en Frostnótt í maí. Hún nær aldrei því listræna flugi og sálræna innsæi sem er aðall fyrri bókarinnar. En eflaust hefur Þórunn Elfa viljað fylgja betur eftir þessari sögupersónu sinni, sem vafalaust hefur verið henni kær, jafnvel kærari en flestar aðrar þar sem hún átti margt sameiginleg með skapara sínum.

 

Síðasta bókin sem Þórunn Elfa sendi frá sér var smásagnasafnið Hver var frú Bergson? sem kom út árið 1981. Í titilsögu þeirrar bókar segir af ungri stúlku sem fer í heimsókn til aldraðrar konu, frú Bergson, og spjallar við hana um margt. Meðal annars spjalla þær um bókmenntir, og er þar að finna nokkuð skemmtilega umræðu um skáldskap íslenskra kvenna. Frú Bergson fer með ljóð eftir Ólöfu á Hlöðum og lýsir því hversu djúpt ljóðin snertu hana. Upp úr því sprettur eftirfarandi samtal:

 

- Ætlið þér að gefa Ólöfu frá Hlöðum alla dýrðina?

- Alla dýrðina. Það var mikið.

Mér hafði orðið hugsað til annarra skáldkvenna, ekki Torfhildar Hólm með sína stóru, sögulegu rómana, að öllu samanlögðu sín miklu og margháttuðu ritverk, heldur hinna - þeirra ljóðrænu. Og frú Bergson, sem hafði svo undravert næmi fyrir annarra hugsunum var undir eins með á nótunum.

- Það er nú svona með skáldskap, að dálætið á honum fer mikið eftir því, hvort manni finnst til sín talað. Hún kom við hjartataugar okkar kvenna, hún Ólöf, en það gerði Hulda líka með æskuástum sínum, ljóðum og þulum.

- og svo kom Theodóra með þulurnar sínar, sem urðu þjóðardýrgripir.

Já, þar var leikandi létt kveðið og allt glitraði og skein af gullkornum liðinna alda og lífsvizku hennar sjálfrar - og persónan á bak við, ekki spillti að þekkja hana, blessaða Theodóru, hún var alveg eins og hún orti til einnar af dætrum sínum:

„með geisla í auga, gleði í sál

og gullið skírt í hjarta.“

- Því fylgdi alltaf tilhlökkun og eftirvænting að eiga von á einhverju eftir konur, og mér þótti undur vænt um, þegar þeim tókst verulega vel upp. En þó held ég að fátt hafi hrært mig meira en ljóðmælin hennar Ólafar, sem komu út rétt fyrir stríðið. Og þar var Sólstöðuþulan, þessi yndislega ljóðperla, máltöfrar og munarmál samanslungið.

 

Í samtalinu um skáldskap íslenskra kvenna setur Frú Bergson fram eins konar kenningu um konur og skáldskap:

 

- Mér hefur alltaf þótt vænt um skáldskap kvenna. Það stækkar okkur hinar, ef ykkur tekst vel.

- Kannski kapp með, frá tímum kvenréttindabaráttunnar, ósk um að konum takist eitthvað betur en körlum?

- Ekki endilega betur. Og þó, sumt eiga þær að vita og kunna betur. Um fram allt finnst mér, að konur eigi að vera kveneðli sínu trúar.

- Ekki flekka skjöld sinn með eftiröpun?

- Einmitt, ekki apa eftir karlmönnum þeirra eftiröpun.

Glettnisbros frú Bergsson gægðist fram.

- Ef konur eru sjálfum sér trúar hljóta þær að slá á þá strengi, sem okkur konum hljóma kunnuglegast, við erum löngum við það heygarðshornið að hallast að því, sem frá hjartanu kemur, það hlýjar best - og lengst. (Hver var frú Bergsson?, bls. 45)

 

Ekki er ólíklegt að þessi skoðun frú Bergson hafi einnig verið skoðun frú Þórunnar Elfu Magnúsdóttur; hennar skáldskaparfræði.

 

Í fyrstu skáldsögu Þórunnar Elfu dreymir aðalpersónuna, Svölu, draum sem hefur spásagnagildi fyrir hana:

 

Mig dreymdi, að ég væri á gangi um götur Reykjavíkur ásamt kunningja mínum, ritdómaranum. Það var steikjandi hiti, göturnar þurrar og rykugar. Bílarnir, sem framhjá fóru þyrluðu upp ryki, það hvirflaðist yfir mig, en kom hvergi við förunaut minn. Undarlegt, hugsaði ég, hversvegna kaffærist ég öðrum fremur? Það sá ekki í lit á fötunum mínum fyrir ryki, það fyllti vit mín og gerði mér örðugt fyrir með öndun.

- Ég er að kafna.

- Flýttu þér upp á miðjan Vatnajökul, þá geturðu orðið skáld, sagði förunautur minn og hvarf. (Vorið hlær, bls. 198)

 

Hvers vegna á stúlkan að fara upp á miðjan Vatnajökul til að gera orðið skáld? Líklega til þess að umhverfið nái ekki að þyrla upp ryki sem sest á hana, að ata hana auri. Ryk og aur umhverfisins sest oft á þá sem skara fram úr, eða setja sig undir dóm almennings á einhvern hátt.

 

Hvernig sem nútíminn kann að meta skáldverk Þórunnar Elfu Magnúsdóttur, verður því ekki á móti mælt að í verkum sínum skapaði hún sér persónulegan stíl. Hún leitaðist við að lýsa samtíma sínum, á því tungumáli sem samtímamenn hennar töluðu; hún „apaði ekki eftir karlmönnum þeirra eftiröpun“, svo notað sé orðalag frú Bergsson. Þórunn Elfa mætti ýmis konar mótlæti á rithöfundarferli sínum; oft fannst henni á seinni árum að hún væri vanmetin sem höfundur. Ekki veit ég hvort Þórunn Elfa komst einhvern tíma upp á miðjan Vatnajökul, en henni tókst ætlunarverk sitt, hún varð skáld - afkastamikið skáld - og með því að lesa verk hennar getum við orðið fróðari um lífið á Íslandi á tuttugustu öld.

 

 

 

 

 

 

Tengt efni