
Ólöf Sigurðardóttir á Hlöðum
Ólöf Sigurðardóttir fæddist 9. apríl árið 1857 á Vatnsnesi í Húnavatnssýslu. Hún lýsir því sjálf í frásögninni Bernskuheimili mitt sem birtist í Eimreiðinni árið 1906 að foreldrar hennar bjuggu í ofurlitlu koti í litlu dalverpi. Húsakynnin voru eins og moldarkofarnir geta verstir verið. Þar var menningin lítil og þau voru mjög afskekkt. Móðir hennar hafði gifst tvisvar og eignast 16 börn. Ólöf var næst yngst. Þau bjuggu við mikla fátækt í uppvextinum en síðan batnaði efnahagur þeirra.
Árið 1876 fer Ólöf til Reykjavíkur til að læra ljósmóðurfræði. Í Reykjavík kynntist hún Þorsteini Erlingssyni skáldi og hafa þau kynni líklega haft áhrif á hennar eigin skáldhneigð. Að loknu námi hélt hún út til Kaupmannahafnar og dvaldi þar frá 1882-83 til að læra meira. Þegar hún sneri aftur heim starfaði hún sem ljósmóðir í Reykjavík. Hún giftist Halldóri Guðmundssyni trésmið árið 1887 en þegar hún þurfti að hætta vinnu vegna berklaveiki ári síðar hófu þau búskap á Hlöðum í Hörgárdal. Þeirra búskapur þótti nokkuð sérstakur því þau skiptu húsi sínu í tvennt; hvort hafði sér stofu og svefnherbergi og sömuleiðis höfðu þau aðskilinn fjárhag. Eftir lát Halldórs flutti Ólöf til Akureyrar og þaðan svo til Reykjavíkur, þar sem hún lést 23. mars árið 1933.
Árið 1888 kom út ljóðabókin Nokkur smákvæði og hét seinni ljóðabók Ólafar sem kom út 1913 einnig sama hógværa nafninu: Nokkur smákvæði. Auk þessa birti hún smásögur í tímaritum og fékk verðlaun fyrir söguna Móður snillingsins sem birtist árið 1910 í tímaritinu Dvöl sem Torfhildur Hólm gaf út.
Ástin er Ólöfu ofarlega í huga, og þá aðallega ófullnægð ást. Hún virðist hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með hana. Mögulega má tengja þessa líðan samskiptum Ólafar og Þorsteins Erlingssonar en þau áttu í bréfasamandi á árunum 1883-1914. Bréfasambandið var mjög persónulegt og geymdi táknmál tilfinninganna, ástarinnar, líkt og segir í umfjöllun um bókina Orð af eldi sem birtir þessi bréfaskrif. Þá kemur einnig fram sterk tilhneiging í ljóðum Ólafar til að búa við frelsi og vera öðrum óháð.
Heimildir og frekara lesefni:
- Helga Kress. 2001. „Ólöf Sigurðardóttir frá Hlöðum“ Stúlka. Ljóð eftir íslenskar konur, bls. 126. Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, Reykjavík.
- Ólöf Sigurðardóttir á Hlöðum. 2000. Orð af eldi. Bréfasamband Ólafar Sigurðardóttur á Hlöðum og Þorsteins Erlingssonar á árunum 1883-1914. Bindi 4 of Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar. Erna Sverrisdóttir tók saman. Háskólaútgáfan, Reykjavík.
- Silja Aðalsteinsdóttir. 2003. „Ólöf frá Hlöðum.“ Bók af bók. Bókmenntasaga og sýnisbók frá 1550-1918, bls. 289. Mál og menning, Reykjavík.
- Soffía Auður Birgisdóttir. 1987. Sögur íslenskra kvenna 1879-1960. Mál og menning, Reykjavík.
- Myndin af Ólöfu er sótt á vefsíðuna Lestu.is, sjá hér.
Ritaskrá
1945 Ritsafn
1913 Nokkur smákvæði
1888 Nokkur smákvæði