SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir16. maí 2023

MINNING UM ÞÓRUNNI ELFU MAGNÚSDÓTTUR eftir Dagnýju Kristjánsdóttir

 

Ég var samskipa Þórunni Elfu Magnúsdóttur á strandferðaskipinu Esju fyrir meira en þrjátíu árum [snemma á sjötta áratugnum]. Ég var smástelpa á skemmtisiglingu með foreldrum mínum. Hún var sennilega að skrifa. Þórunn Elfa var mér afskaplega góð og sinnti mér mikið í þessari siglingu. Hún umgekkst mig aldrei öðruvísi en ein heimskona umgengst aðra. Ég leit mjög upp til hennar og hefði gjarna viljað sigla með henni annan hring kringum landið sem fyrst.

Siglingin er mikilvægt þema í bestu bók Þórunnar Elfu Frostnótt í maí (1958). Þar segir frá Völvu litlu sem send er sex ára gömul og alein með skipi frá Danmörku til Íslands af því að mamma hennar getur ekki haft hana hjá sér. Við tekur önnur sigling frá Reykjavík til Norðurlands, til ömmu og afa. Þar elst Valva upp við það sem henni finnst vera stöðug höfnun, ástleysi og andúð ömmunnar. Siglingamar tvær verða litlu telpunni ógleymanlegar, þær verða áfall sem aldrei verður komist yfir. Í Frostnótt í maí kafar Þórunn Elfa djúpt ofan í þversagnarkennt sálarlíf, Völvu litlu, textinn er sá ljóðrænasti sem hún skrifaði, tákn eru fínlega notuð og haldið er aftur af tilfinningasemi og orðskrúði.

Ef Frostnótt í maí er borin saman við það brot af sjálfsævisögu Þórunnar Elfu sem kom út árið 1977 undir titlinum Frá Skólavörðustíg að Skógum í Öxarfirði má sjá að lýsingin á siglingunni sem skilur litlar telpur frá mæðrum sínum byggir á reynslu Þórunnar sjálfrar. Aðskilnaðaróttinn einkennir flestar aðalpersónur í skáldsögum hennar. Sömuleiðis býsna flókið samband mæðra og dætra og kvenna yfirleitt.

Fyrsta bók Þórunnar Elfu Magnúsdóttur var smásagnasafn sem gefið var út undir yfirtitlinum Dætur Reykjavíkur I (1933). Smásögurnar eru ungæðislegar enda höfundurinn ekki nema rúmlega tvítugur. Næstu bækur Dætur Reykjavíkur II og III (1934) eru athyglisverðar fyrir margra hluta sakir. Þetta er skáldsaga í tveimur hlutum um borgarstúlkuna Svölu og vini hennar. Svala ætlar að verða rithöfundur, hún er nútímakona og mjög „svöl“. Í sögu hennar gerir hin unga Þórunn Elfa alvarlega tilraun til að skrifa skáldsögu sem á að endurspegla hraða og eirðarleysi hins splunkunýja borgarlífs í frásagnaraðferðinni sjálfri. Sagan skiptist í stutta kafla, sjónarhornaskipti eru tíð, slangur unga fólksins í Reykjavík er óspart notað og undirstrikað að hin nýja kynslóð eigi ekkert vantalað við gildi eða hefðir eldra fólksins úr bændasamfélaginu. Inn í þessa bók er byggð umræða um bókmenntir og bókmenntamat. Svala fer með handrit til útgefanda sem sallar það niður, ráðleggur henni að hætta að skrifa og gifta sig í staðinn eins og eðlileg ung stúlka. Svala reynir að taka þessari höfnun með stæl og er ákveðin í að hafa föðurleg ráð mannsins að engu, en ... hvað á maður að hugsa þegar allir aðrir taka í sama streng.

Það þarf mikið sjálfstraust, óttaleysi og stuðning frá félögum til að búa til ný og frumleg listform. Þórunn Elfa hélt áfram að skrifa en hætti „óábyrgri“ tilraunastefnu og hallaði sér þess í stað að hinni breiðu raunsæisfrásögn sem einkennir bækur hennar um nýbyggjendur í Reykjavík á fimmta áratugnum: Snorrabraut 7 (1947) og Sambýlisfólk (1954).

Þegar leið á eftirstríðsárin varð lengra á milli skáldsagna Þórunnar og þær byrja að endurspegla æ meira þá tvíhyggju sem einkenndi þessa tíma, tvíhyggju sem fæddi af sér óhemju staðlaðar kven- og karlmannsímyndir. Allar skáldsögur Þórunnar Elfu eru „meló-dramatískar“ í þeim skilningi að þær birta siðferðileg átök hins góða og illa, stækkuð eins og í ævintýrunum. Bókmenntasagan sýnir að þessi bókmenntagrein á mestum vinsældum að fagna meðal höfunda og lesenda þegar siðferðileg gildi eru mjög á reiki í samfélaginu.

Í bestu bókum Þórunnar fer barátta góðs og ills hins vegar ekki bara fram á milli einstaklinga heldur í einstaklingum og þar eru kvenlýsingar hennar sérstaklega athyglisverðar. Á árum hins kalda stríðs höfðu menn tilhneigingu til að skilgreina allar listakonur sem illar konur af því að húsmóður- og móðurhlutverkið var ekki þeirra lífsköllun. Þetta var nokkuð óaðgengilegt fyrir listakonurnar og kemur ekki á óvart að það eru hinar stórhættulegu og illu kvensniftir sem eru samsettustu og athyglisverðustu persónumar í bókum Þórunnar Elfu, ekki minnst sögunni af myndlistarkonunni Dísu Mjöll (1953).

Í kringum 1980 gerði ég bókmenntaþátt um Ragnheiði Jónsdóttur. Nokkra eftir að honum hafði verið útvarpað fékk ég mjög langt bréf frá fornvinkonu minni Þórunni Elfu Magnúsdóttur. Hún var glöð yfir að Ragnheiði væri sómi sýndur en skammaði mig fyrir að tala illa um viðhorf eftirstríðsáranna til kvenrithöfunda yfirleitt. Bréfið var afar mótsagnakennt, en ég las það þannig að Þórunni Elfu væri það listræn og persónuleg nauðsyn að frábiðja sér píslarvættishlutverk af nokkru tagi. Þetta var stoltaralegt bréf og víst er að lesendur tóku Þórunni Elvu vel og ástúðlega. Tölur um útlán bókasafnanna frá árunum 1958-1960 sýna að bækur hennar voru mikið lesnar. Ég efast heldur ekki um að bókmenntafræðingar eigi eftir að veita bestu bókum Þórunnar Elfu þá virðingu sem þær eiga rétt á í bókmenntasögunni.

 

Dagný Kristjánsdóttir

Minningargreinin birtist í Morgunblaðinu 3. mars 1995

 

 

 

Tengt efni