SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir20. maí 2023

LÍFSVON Í DEYJANDI SKÖPUNARVERKI. Um GUNNLAÐAR SÖGU eftir Svövu Jakobsdóttur

Í greininni „Gunnlöð og hinn dýri mjöður“ gerir Svava Jakobsdóttir vandlega grein fyrir þeim rannsóknum sem renndu stoðum undir hina róttæku endurtúlkun hennar á 104.-110. erindum Hávamála sem liggur til grundvallar Gunnlaðar sögu. Eins og kunnugt er byggir túlkun Svövu fyrst og fremst á því að skilja það sem erindin segja um samskipti Gunnlaðar og Óðins og skilja þau frá túlkun Snorra Sturlusonar í Snorra-Eddu. Hún rýnir í texta Hávamála og neitar að taka gilda túlkunarhefð sem trúað hefur skýringum Snorra að því er virðist oft án mikillar íhugunar. Niðurstaða textagreiningar Svövu er á þá leið að erindi 104-110 í Hávamálum lýsi konungsvígslu þar sem hofgyðja (Gunnlöð) vígir nýjan konung (Óðinn) til embættis. Með það „veganesti“ – eins og hún sjálf orðar það - „liggur leiðin í keltneskan sagnaarf um fornar konungsvígslur“1 og þar finnur Svava sagnir sem lýsa gyðju sem er valdhafi (eða persónugervingi hennar) og veitir konungi umboð til að ríkja með helgu brúðkaupi. Svava bendir síðan á að þessara keltnesku sagna sjái víða stað í evrópskum miðaldabókmenntum og að þær hafi orðið uppistaðan í sögum sem fjalla um leitina að hinu heilaga Graali,2 um Eyðilandið og Fiskikónginn sem fræðimenn hafa sýnt fram á að er alþjóðlegt sagnaminni sem sé mjög útbreitt með indóevrópskum þjóðum og megi rekja allt „aftur í gráa forneskju Austurlanda“.3

Eins og lesendur Gunnlaðar sögu vita gerist sagan á tveimur tímasviðum. Saga Gunnlaðar hofgyðju og konungsefnisins Óðins gerist á forsögulega tíma en saga Dísar og móður hennar – sem jafnframt er sögumaður - gerist hins vegar í samtímanum. Eins og eðlilegt má teljast hefur úrvinnsla Svövu á hinu norræna fornkvæða- og goðsagnaefni vakið mikla athygli og hafa nokkrir fræðimenn fjallað um Gunnlaðar sögu í því samhengi.4 Fáir hafa hins vegar fjallað um það hvernig Svava veitir áhrifum frá rannsóknum sínum inn í alla þætti sögunnar, ekki bara þann hluta skáldsögunnar sem gerist á forsögulegum tíma. Hér á eftir ætla ég að beina sjónum að samtímasviði sögunnar sérstaklega og fjalla um það hvernig Svava Jakobsdóttir vinnur með keltnesk sagnaminni og tákn á því frásagnarsviði ekki síður en á hinu forsögulega. Einnig mun ég á nokkrum stöðum tæpa á því hvernig Svava vefur kristin minni saman við frásögn sína í þessari sögu, líkt og í svo mörgum öðrum, enda eru kristin áhrif á þær mýtur sem Svava vinnur með í sögunni mjög sterk og margflókin.

Eins og áður er vitnað til nefnir Svava Jakobsdóttur sögnina um hið heilaga Graal, Eyðilandið og Fiskikónginn í fræðigreininni um Gunnlöðu en hún ræðir hins vegar ekki nánar hvernig hún notar þessa sögn í Gunnlaðar sögu og þá sérstaklega á nútímasviði skáldsögunnar. Segja má að Svava sæki innblástur til sagnarinnar um Graalið og veiti þeim innblæstri inn í Gunnlaðar sögu á ýmiss konar hátt eins og rætt verður hér á eftir. Minna má á að fleiri merk nútímaskáld hafa áður sótt til þessarar miðaldasagnar og unnið með hana í skáldskap sínum. Fremstur meðal jafningja telst þar líklegast T. S. Eliot, en ljóðabálkur hans The Waste Land frá 1922 er að nokkru leyti grundvallaður á Graalsögninni og sækir titil sinn til hennar.5 Annað þekkt dæmi um listræna úrvinnslu á sögninni er ópera Richard Wagners Parcifal frá 1882. Þá hafa margar kvikmyndir verið gerðar um Graalleitina og sumir kvikmyndagerðamenn hafa – líkt og Svava – unnið á skapandi hátt með þessa sögn og sett hana inn í nútímasamhengi og má í því sambandi benda á kvikmyndina The Fisher King frá 1991.6

 

Graalið

Fræðimenn virðast almennt á einu máli um það að sögnin um Graalið kom fyrst fram í bókmenntaformi undir lok tólftu aldar7 en sumir fræðimenn vilja rekja hana allt aftur til fornrar frjósemisdýrkunar.8 Samkvæmt því má finna tilbrigði við sögnina í keltneskum mýtum en einnig má rekja þræði hennar til Mið-Austurlanda. Þrátt fyrir að sögnin eigi sér þannig langa og flókna sögu er tugur grundvallarverka sem um hana fjalla frá tiltölulega stuttum tíma, eða fimmtíu ára tímabili: 1180-1230.9 Margs konar tilgátur og kenningar eru um táknmerkingu Graalsins og er jafnvel nokkuð á reiki hvert form þess er. Algengast mun þó að líta á Graalið sem bikar eða ker en einnig eru uppi tilgátur um að það sé í formi disks eða fats eða steins og jafnvel bókar. Álfrún Gunnlaugsdóttir setur fram þá tilgátu að í Parcevals sögu Chrétien de Troyes sé um oblátubuðk að ræða.10 Þá hafa einnig komið fram tilgátur um að um ranga skiptingu orðanna san greal sé að ræða og eigi þá að vera sang real eða heilagt blóð og vísi til blóðs Krists.11

Hinar mismunandi tilgátur um formið taka mið af því hvert menn rekja uppruna sagnarinnar um Graalið. Þannig hefur því til að mynda verið haldið fram að Graalið eigi rætur að rekja til suðupotts hins írska guðs Dagda eða til auga egypska guðsins Thoth. Fræðimaðurinn Roger Sherman Loomis telur víst að uppruna Graalsins megi rekja til gnægtahornsins (the horn of plenty) sem sagt er frá í keltneskum sögnum. Aðrir fræðimenn sjá í því kventákn (þ.e. tilvísun til kynfæra kvenna og tengist þá frjósemisdýrkun) og enn aðrir eru þess fullvissir að hér sé um að ræða kaleik þann sem í var látið drjúpa blóð úr síðusári Krists. Tengdar því eru þær kenningar sem ganga út frá því að Graalið sé bikarinn sem drukkið var úr við hina heilögu kvöldmáltíð eða diskurinn sem Kristur mataðist af við sama tækifæri.12 Í sjálfu sér skipta hinar mismunandi tilgátur ekki sköpum þegar fjallað er um hið heilaga Graal. Meginmáli skiptir hins vegar að Graalið sem tákn verður ekki skilið frá leitinni (the quest); leitin að hinu heilaga Graali er leit mannsins að endanlegum verðmætum. Graalið er tákn lífsins; tákn andlegrar fullnægju eða fullkomnunar; tákn guðs eða gyðjunnar (eða hvaða nöfnum menn vilja nefna hið æðsta); tákn sannleikans.

Af ofansögðu má vera ljóst að gullkerið í Gunnlaðar sögu hefur táknlegt gildi sem er hliðstætt hinu heilaga Graali.13 Eins og ég orðaði það í inngangskafla greinasafnsins Kona með spegil er gullkerið tákn gyðjunnar æðstu og það er „í samhengi sögunnar sjálft lífstáknið og velferð jarðarinnar og alls mannkyns er undir því komið að“14 endurheimta það svo mannkynið fái snúið frá villu síns vegar og lífið á jörðinni fái þrifist í samræmi við náttúruna. „Kerið er lífsvon“ segir í skáldsögunni (174) og ljóst má vera að tákngildi kersins er virkt á báðum tímasviðum skáldsögunnar.

 

En víkjum nánar að sögninni um Graalið. Hún fyrirfinnst, eins og áður var getið, í ýmsum afbrigðum en ákveðinn kjarni er þó ætíð til staðar. Lýsingin sem hér fer á eftir er í meginatriðum grundvölluð á Parcevals sögu Chrétien de Troyes.15 Kjarnasagan um Graalleitina hefur að geyma eftirfarandi grundvallaratriði: Aðalhetjan, ungur og einfaldur maður, fer að heiman til að gerast riddari. Hann kemur að híbýlum Fiskikóngsins sem er veikur/lamaður og veikindi hans endurspeglast í ástandi ríkis hans og náttúrunnar sem er ófrjósöm og dauð: Eyðiland. Söguhetjunni er boðið að matast hjá Fiskikónginum og meðan á borðhaldinu stendur verður hann vitni að því þegar skrúðganga fer fram hjá. Í skrúðgöngunni ber meðal annars fyrir augu Graalið sem ung kona heldur á16 og lensu sem borin er af ungum manni og blóð drýpur af. Söguhetjuna langar til að spyrja nánar út í það sem fyrir augu ber en hann ákveður að bíða með spurningarnar (í Perceval sögu Chrétien de Troyes er það vegna þess að hann hefur verið áminntur um að sýna ætíð kurteisi og ekki vera of spurull/forvitinn). Þegar hann vaknar um morguninn eru híbýlin mannlaus og í ljós kemur að veikindi Fiskikóngsins og ófrjósemi jarðarinnar eru álög sem söguhetjan hefði getað aflétt ef hann hefði ekki setið á sér heldur spurt þeirra spurninga sem á honum brunnu.

Tengsl þessarar sagnar við Gunnlaðar sögu liggja kannski ekki í augum uppi við fyrstu sýn en ég tel engu að síður að Svava nýti sér grundvallaratriði þessarar frásagnar og skal nú vikið nánar að því. Ég tel að í Gunnlaðar sögu sé sögukonan, móðirin, í hlutverki hliðstæðu hlutverki unga mannsins sem ferðast að heiman, stendur frammi fyrir furðum sem hún skilur ekki, hittir fyrir persónu sem er hliðstæð Fiskikóngnum og ferðast með honum um hluta Eyðilandsins, sem er reyndar allt í kringum hana. Móðirin fær að sjá Graalið, líkt og ungi maðurinn, en skilur ekki frekar en hann merkingu þess og mikilvægi í byrjun og veit ekki hvaða spurninga hún á að spyrja. En smám saman, með því að hlusta og meðtaka sannleika dóttur sinnar, gerir hún sér ljóst hvers konar tákn hér er á ferðinni; að kerið (eða Graalið) er lífsvon, sannleikurinn – og bregst við samkvæmt því. Ég hef dregið upp hliðstæður með sögninni um Graalleitina og sögu móðurinnar í Gunnlaðar sögu í grófum dráttum en hér á eftir ætla ég að fara nánar í saumana á því hvernig sjá má samsvaranir milli Gunnlaðar sögu og sagnarinnar um Graalið með því að beina sjónum að öðrum meginþáttum sagnarinnar.

 

Eyðilandið

Þegar sögusvið Gunnlaðar sögu eru skoðuð kemur í ljós að bæði nútímasviðið og fortíðarsviðið eru í raun eyðilönd. Hið fagra og frjósama land fortíðarsviðsins umbreytist í eyðiland eftir svik Óðins og eru lýsingar á því víða mjög magnaðar. Tvö af grundvallartáknum sögunnar eru tré og brunnur. Hér er að sjálfsögðu um að ræða sjálft lífstréð, askinn, og þann brunn sem á „hvílir mest helgi allra brunna“, enda er hann uppspretta alls lífs á himni sem á jörðu. Það er ein af höfuðskyldum Gunnlaðar hofgyðju að ausa askinn vatni úr brunninum á hverjum degi en askurinn stendur við brunninn og er þar helgasta vé gyðjunnar.

 

Efst á hæðinni í miðju þessa helgistaðar vex askurinn sem tengir himin og jörð og dreifast limar hans yfir heim allan. Þrjár eru ræturnar sem halda honum upp og hefur Urður sagt mér að ein sé með goðum, önnur þar sem áður var Ginnungagap og hin þriðja yfir Niflheimi. Undir baðminum er brunnurinn. Á honum hvílir mest helgi allra brunna. Úr vatni hans er askurinn vökvaður. Þorni sá brunnur munu farast jörð og himinn. Það var helg skylda mín sem hofgyðju að stökkva lífsvatni úr brunninum á tréð. Það gerði ég á hverju kvöldi á mörkum dags og nýrrar nætur til þess að tryggja framrás lífsins. Svo að máni rísi og sól. Í árdaga, hafði Urður sagt mér, var tréð allt ausið svo að limar þess skyldu hvorki tréna né fúna. Nú stökktum við á bol þess.

Ég kraup við brunninn, jós í lófa mína af hinu tæra og hreina vatni og bar sem í keri að trénu. Þegar vatn döggvar askinn nærist allur heimur manna og goða og þegar ég legg lófa mína á döggvaðan trjábolinn og læt húð mína hlusta skynja ég samruna minn við alla sköpun (52).

 

Ef lífstréð fær ekki næringu hefur það áhrif á allt sköpunarverkið og þegar Dís sogast í gegnum tíma og rúm, frá nútíðarsviði sögunnar yfir á fortíðarsviðið, mætir henni napurt landslag:

 

Hún var stödd í hausti. Skrælnuðu hausti sem hafði lagt undir sig skógarrjóður rétt við opið á jarðgöngunum. Í skógarrjóðrinu miðju reis voldugur baðmur upp úr skorpinni jörð. Hálfnaktar greinarnar teygðust yfir rjóðrið allt og hurfu inn í kræklóttar berar skógargreinarnar á bak við og fléttuðust saman við þær svo margslungið að líktist helst gisnu hvolfþaki sem breiddi sig út yfir óendanleikann. Þetta volduga tré var ekki bert en laufin sem enn tolldu voru brúnflekkótt og skorpin líkt og þau fengju ekki lengur lífssafa úr gildum bolnum, börkurinn var þurr og sprunginn og hrúðrið gamalt yfir sárunum. Við rætur trésins var gróp með stórum og aflíðandi börmum klæddum gráum þurrum auri og í miðri grópinni svartur fúinn trjábolur holur að innan líkt og klæðning fyrir hruninn brunn, uppsprettulindin þornuð að mestu og ekki lengur lifandi því að vatnið neðst í þessum brunni var staðið og lyktin af því eins og af skolpi. Einhvern tíma hafði vatn úr þessari uppsprettu flætt yfir landið en nú var farvegurinn þurr og skrælnaður, svo grár og tilgangslaus að hlykkir hans hurfu inn í skorpinn jarðveginn niður í hlíðina – (50).

 

Þessi lýsing á lífstrénu og brunninum kallast á við lýsingu á stóru eikartré og tjörn sem standa í garði sem móðirin finnur þegar hún er á leið til að hitta geðlæknirinn sem á að meta geðheilsu Dísar. Hún er að niðurlotum komin þegar hún kemur að garðinum: „Mig verkjaði í allan líkamann. Fæturnir báru mig varla lengur. Og einmitt þegar ég ætlaði að fara að svipast um eftir bekk opnaðist trjástígurinn inn í hringlaga grasflöt umkringda trjám en í miðjunni stóð stórt eikartré. Og undir trénu var bekkur“ (74). Nálægt trénu stendur tjörn sem móðirin lýtur niður að og gerir ker úr lófum sér í þeim tilgangi að frá sér vatn úr tjörninni að drekka:

 

Það var ekki fyrr en ég bar það upp að vörunum að ég kom til sjálfrar mín. Það var eins og fýlu af stöðnuðu skolpi bæri fyrir vit mín. Vatnið var auðvitað svart af gruggi. Ég ætti þó ekki annað eftir en fara að drepa mig hér á þrælmenguðu vatni! Það er lífshættulegt að vera utan við sig. Ekki að undra þótt svanir væru fjarri. Og ekki sá ég til botns í þessarri tjörn. Hér var ekkert kvikt. Í þessu feni gæti enginn fiskur haldið ratvísi sinni. Hvernig í ósköpunum gat mér dottið í hug að kalla þetta tjörn? Það var sem sagt ekki allt sem sýndist í þessari paradís sjúkrahússins. Reis á fætur og hélt áleiðis. Sá við nánari kynni að brúnu skellurnar í trjágöngunum voru ekki eðlilegar. Þetta voru ekki ólaufguð tré eins og ég hafði haldið. Þetta voru barrtré. Áttu að vera veturgræn en voru brún og dauðaleg. Líkt og vökvuð eiturdropum (76).

 

Margar fleiri lýsingar á ófrjósömu eyðilandslagi er að finna á báðum tímasviðum skáldsögunnar en skýringuna á því hvernig komið er fyrir landinu er sem áður sagði að finna í svikum Óðins. Það má kallast dramatískur hápunktur fortíðarsögunnar þegar hinn nývígði konungur svíkur gyðjuna og stelur kerinu með járnsverð í hönd, óhreinan málm sem hann hefur laumað inn í hinn helga bústað gyðjunnar:

 

Í hönd hans var eitthvað svart og þungt sem sló svo umsvifalausum fölskva á salarkynni að svo var sem slökktar hefðu verið ótal sólir með krafti svo bölvi hlöðnum að magnleysi læstist henni um alla liði. Þennan galdur réð hún ekki við. Í sömu andrá heyrði hún jörðina bresta og rymja af sársauka og skildi um leið að þetta var ójarðneskur gripur sem hann hafði laumað inn í sjálfan bústað gyðjunnar. Þetta var járnið, málmur úr ófullburða grjóti, rifinn úr kviði jarðar og ægileg hefnd gyðjunnar gerð úr heift og kvöl varð ekki umflúin. Jörð umdi og drundi. Björg klofnuðu. Með bölvasmíðinni svörtu hjó hann grindur hnitbjarga. Hvín í Hræsvelgi. Himinn er myrkva sleginn. Flúinn út um göngin er hann. Og hefur tekið hið gullna ker (182).

 

Svik Óðins, sem tengjast járni (í yfirfærðri merkingu stríði og dauða) auk stuldarins á gullkerinu (sem táknar gyðjuna og varðar farsæld lífsins á jörðinni), koma í Gunnlaðar sögu í kjölfar þess að geislavirkt ský hefur borist yfir Skandinavíu vegna Tsjernóbílslyssins (172). „Þungur hrammur gyðjuleysis lá yfir landinu öllu“ (181) segir í sögunni og vísar til beggja sviða skáldsögunnar. Glæp Óðins má skilja sem samsvarandi Tsjernóbílslysinu: Á fortíðarsviðinu hefur járnið tákngildi sem samsvarar tákngildi kjarnorkunnar á nútíðarsviðnu. Hvoru tveggja markar aldarskipti í mannheimi; annars vegar frá eiröld yfir til járnaldar og hins vegar frá járnöld yfir til kjarnorkualdar. Misnotkun á hvoru tveggja (járninu og kjarnorkunni) kallar eymd yfir mannkynið, stríð og dauða og breytir frjósamri jörð í eyðiland. Dís/Gunnlöð sem er tákngervingur gyðjunnar ber merki eyðingarinnar á líkama sínum:

 

Ég sá sektina færast yfir Dís: ég sá gullnu slikjuna á hárinu blikna og lokkana missa óstýrilætið og hanga líflausa og matta um leið og krónan á hinum helga aski gisnaði og laufin féllu, eitt og eitt, en þau sem enn tolldu urðu brúnflekkótt og skorpin, ég sá líkamann missa þróttinn um leið og börkurinn á askinum sprakk því að lífssafinn þornaði í brunninum helga, vatnið úr þeirri uppsprettu flæddi ekki lengur yfir landið en farvegurinn var auður og þurr, ég sá blikið hverfa úr augum hennar um leið og skin sólar dofnaði og varð sem sjóndapurt auga og himintunglin skjögruðu um festinguna eins og drukknir menn, ég sá feigðarfölva færast á hörundið um leið og gróandinn var sviptur krafti sínum og landslagið allt varð brunnin auð . . . (184).

 

Enn er ótalin ein áhrifamesta eyðilandslýsingin á nútíðarsviði Gunnlaðar sögu en það er lýsingin á ferð móðurinnar um undirheima Kaupmannahafnar. Fylgdarmaður hennar í þeirri ferð er nokkuð undarlega persóna sem kölluð er Fiskurinn. Nokkuð erfitt getur verið að átta sig á hlutverki þessarar óræðu persónu í skáldsögunni en ég tel að það skýrist nokkuð sé hún skoðuð í ljósi þeirrar persónu Graalsagnarinnar sem nafnið vísar til, það er að segja Fiskikóngsins.

 

Fiskikóngurinn

Eins og ljóst er af Graalsögninni eru órofa tengsl á milli veikinda Fiskikóngsins og ófrjósemi og bágs ástands jarða hans. Í sumum gerðum sagnanna um Fiskikónginn eru nánari útskýringar á veikindum hans. Hann er ýmist lamaður, sjúkur eða þjáist mjög vegna sára á líkamanum. Í nokkrum gerðum má lesa nánar um sár hans og oftast eru þau tengd lendunum, lærunum eða kynfærum hans beint.17 Sár hans eru þannig tengd við frjósemi, hann er getulaus og getuleysið/ófrjósemin yfirfærist á land hans. Eins og rakið var hér að ofan má sjá ástand jarðarinnar endurspeglast í líkama Dísar/Gunnlaðar; feigðarfölvi landsins færist yfir hörund hennar. Það má því segja að í Gunnlaðar sögu sé það að nokkru leyti Dís/Gunnlöð sjálf sem ber þau einkenni sem Fiskikóngurinn gerir í Graalsögninni. En ég tel að það sé engin tilviljun að persóna sem kölluð er Fiskurinn sé einnig til staðar í Gunnlaðar sögu og að sú persóna gegni hlutverki sem nokkurs konar aðstoðarmaður móðurinnar í leit hennar eftir svörum – eða ef til vill ætti ég heldur að segja í leit hennar að réttum spurningum sem geti leitt til þess að hún fái skilið merkingu  og boðskap þeirrar sögu sem dóttir hennar hefur fram að færa.

Fiskurinn er einn af fastagestunum á kránni hjá Önnu þar sem móðirin leitar skjóls þegar örvæntingin er að buga hana. Þegar lesandi hittir hann fyrst fyrir situr hann ásamt öðrum gestum við borð á kránni:

 

Þau brostu vingjarnlega og jafnvel uppörvandi til mín, einn hvapholda karl hristi jafnvel höfuðið af umburðarlyndi eins og til að gefa til kynna að margt væri það nú sem við yrðum að þola. Það var eins og þau hefðu tekið mig inn í eitthvert samfélag. Það fór hrollur um mig því að yfir þessu fólki hvíldi fátækt og auðnuleysi og ekki bara það heldur líka eitthvert tímaleysi, [...] (44).

 

Sögukona fær sér pylsur og bjór og þegar hún reynir að koma matnum ofan í sig grípur hana „sú furðulega tilfinning“ að hún „væri að háma í [sig] leifarnar af sakramenti sem væri fleygt fyrir útskúfaða“ (45). Hvapholda maðurinn horfir á hana meðan hún borðar og augum hans er lýst sem „rökum“ og „gljáandi“ (45). Sögukona á erfitt með að þola hið opinskáa og nærgöngula augnaráð mannsins og flýr af hólmi. Næst þegar hún kemur á krána verður augnaráð hans ekki umflúið og í þetta sinn eru líkindi mannsins og fiska sett fram enn skýrar í lýsingunni: „Hann horfði á mig þessu opinskáa tilliti líkt og hann þyrfti aldrei að depla augunum og mér sýndust þau fljóta í vatni. Á þessari stundu vissi ég ekki hvort hann var af ætt manna eða fiska og ég starði á hann dáleidd. Máttvana“ (58). Þegar hún ákveður nokkru síðar að reyna að leita uppi eiturlyfjaneytandann Óla, vin Dísar, ákveður Anna að senda Fiskinn með henni. Móðurinni er það þvert um geð að þiggja fylgd Fisksins því hún hefur „einhverja andúð á þeim manni...“ (120). En hún fær engu um ráðið:

 

Þú þarft leiðsögn, sagði Anna.

Þannig tók hún til orða. Eins og ég væri að fara í undirheima. Ég átti ekki annars úrkosti en beygja mig án frekari mótþróa. Og þóttist skilja að sá sem heldur í undirheima eiturlyfjanna velur ekki fylgdarmann sinn. Því síður á hann skilið fylgd engla (120).

 

Fyrir textagreinanda er það mjög áhugavert að lesa lýsinguna á ferð sögukonu og Fisksins um undirheima Kaupmannahafnar. Myndmálið tekur allt mið af Fiskinum og ferðinni er lýst eins og um neðansjávargöngu sé að ræða. Fiskurinn er á „skóm með mjúkum sólum“ og fótatak hans „minnir á sporð sem slengist við stein“; „straumarnir af fólki ýmist bera okkur áfram eða brotna á okkur og Fiskurinn smýgur undan boðum og stýrir mér upp úr hringiðunum“ (121); hann lítur til hennar „votum augunum og kyrr sjáöldrin syntu í vatninu eins og dropar í hafi“; sögukona vísar ítrekað til þess að hún „syndi“ áfram og verði að varast að „sökkva“. Heimurinn sem þau „synda“ um er sögukonu framandi, þetta eru hverfi innflytjenda, fátæklinga og eiturlyfjaneytenda; heimur þar sem rusl og ryk fyllir vitin og þar sem húsin „híma hrörleg og ömurleg“ og á þeim er „feigðarsvipur“ (123). Þetta er heimur sem Fiskurinn þekkir, hann er „eins og fiskur í vatni“ (124). Með tilvísun til Graalsagnarinnar má segja að þetta sé hið lamaða ríki hins særða Fiskikóngs; þetta eru undirdjúpin þar sem sögukona er „nauðugur fylgifiskur“ (125). Ein áhrifamesta sýnin sem mætir sögukonu í þessari ferð er mynd af ungri móður og barni:

 

Ég snarstansaði því að sýnin laust mig eins og högg í bringspalirnar. Ung stúlka sat eins og þúst á jörðinni með kornabarn upp við bert magurt brjóstið. Barnið hvíldi hreyfingarlaust í faðmi hennar með lokuð augun og virtist sofa án þess að sleppa geirvörtunni en tottaði öðru hvoru máttleysislega líkt og það væri að sjúga í sig meiri svefn. Stúlkan hreyfði sig ekki þótt við birtumst. Ekkert hljóð gaf hún frá sér. Horfði á okkur svipbrigðalausu augnaráði undan ógreiddum hárflóka. Einhvern tíma verið ljóst. Þögul, kyrr eins og madonnumynd í kirkju. Töfrahringurinn (124).

 

Þessi mynd minnir á tvennt. Í fyrsta lagi að Gunnlaðar saga fjallar einum þræði um samband móður og barns; um ástina og sársaukann sem fólginn er í hinum órjúfanlegu tengslum á milli móður og barns hennar og sem sögukona vísar til sem einnar birtingarmyndar þess sem hún kallar „mótsögn kærleikans“. Hins vegar minnir þessi mynd okkur á að kristin tákn eru aldrei langt undan í texta Svövu Jakobsdóttur og auka honum merkingu. Hvað varðar persónu Fisksins er vert að hafa í huga að fiskur er eitt af hefðbundnum táknum fyrir Krist og vísar meðal annars til hans sem fiskimanns eða sálnaveiðara. En vísar þessi undarlega persóna Fiskurinn í Gunnlaðar sögu þá til Krists? Því er ekki auðsvarað hvort um slíka vísun sé að ræða en ef til vill er Svava hér óbeint að vísa til útskúfunar Krists og kenninga hans í nútímanum, líkt og hún gerir á fínlegan hátt í lok skáldsögunnar Leigjandans. Má kannski skilja það sem svo að Kristur sé líkt og Fiskikóngurinn í Graalsögninni lamaður og mannkynið þurfi að spyrja réttu spurninganna til af aflétta því ófremdarástandi – eða þeim álögum sem mannlífið á jörðinni er í um þessar mundir?

Fisk sem tákn er reyndar að finna í fjölmörgum trúarbrögðum og þjóðsögum frá ólíkum heimshlutum og ólíkum tímaskeiðum. Fræðikonan Jessie L. Weston rekur nokkur dæmi um táknræna merkingu fisksins í gegnum tíðina en hún bendir á að yfirleitt er hann tengdur guðunum og lífskraftinum. Weston leggur áherslu á að til þess að skilja merkingu Fiskikóngsins í Graalsögnunum verði að taka tillit til táknmerkinga hans í fornum trúarbrögðum sem og þjóðsögnum; merkingarsvið hans verði ekki skilið án hins sögulega samhengis. Hún telur að Fiskikóngurinn sé nokkurs konar miðill á milli hins mannlega og hins guðlega, milli fólksins og landsins og þeirra ósýnilegu krafta sem stjórni örlögum manna. Fiskikóngurinn er því, samkvæmt Weston, grundvallartákn og kjarni sjálfrar Graalsagnarinnar.18

Bandaríski sálgreinandinn Robert A. Johnson, sem er hallur undir kenningar Jungs og vísar gjarnan til mýta og sagna í greiningu sinni, notar sögnina um Fiskikónginn til að ræða það sem hann kallar lamaða karlmennsku í vestrænu nútímasamfélagi. Í bókinni The Fisher King & The Handless Maiden fjallar Johnson um tilfinningalömun (wounded feeling function) sem hann telur vera algengasta vandamál sem nútímafólk á við að glíma. Tilfinningalömun er samkvæmt Johnson svo algengt vandamál í vestrænum samfélögum að flestum yfirsést að um raunverulegan vanda sé að ræða; almenn óhamingja og tilgangsleysi einkennir líf manna en fæstir skilja hver orsök þess er að mati Johnsons.19 Hann gerir síðan tilraun til að greina vandann og vísar til tveggja ólíkra sagna í greiningu sinni. Graalsögnina notar hann sem lýsingu á vanda karlmanna en sögu um stúlku sem misst hefur hendur sínar notar hann til að greina vandann út frá sjónarhóli kvenna. Sögurnar tvær sem Johnson notar eiga það sameiginlegt að lýsa manneskjum sem bera sár á líkama sínum sem eru myndbirting á andlegum sársauka og óhamingju. Færa má rök að því að í Gunnlaðar sögu sé Svava Jakobsdóttir öðrum þræði að lýsa mannkyni í sárum og myndbirting þess er ástand landsins, jarðarinnar. Það eina sem getur læknað hið særða mannkyn er að það fái bergt af lífsins vatni úr kerinu/Graalinu – og þá mun nýtt land rísa úr sæ, svo vísað sé til lokaorða Gunnlaðar sögu.

Nýtt land sem rís úr sæ hefur að sjálfsögðu tilvísun til Völuspár og eins og lesendur Gunnlaðar sögu vita eru fjölmargar beinar og óbeinar vísanir til þessa forna kvæðis í texta skáldsögunnar. Hið sokkna land er einnig á einum stað kallað land sektar og það er land sem er „eingöngu byggt konum og rödd þeirra er hljóðari en þögnin“ (97). Það er því erfitt að meðtaka skilaboð frá þessu sokkna landi en: „Einstaka kona heldur því samt fram að komið geti fyrir þegar svo stendur á um straumhvörf að fiskarnir greini niðinn af máli þeirra í djúpsoginu“ (97). Á lokasíðu Gunnlaðar sögu er svo aftur vísað til fisks: „Og fiskurinn ljái ykkur heyrn því að ég ætla að tala máli okkar. Sannfæra ykkur öll um að ég/Dís/Gunnlöð hafi verið að endurheimta kerið. Ekki stela því“ (196). Með öðrum orðum þá er það fiskurinn (og aðeins fiskurinn) sem getur greint mál kvennanna frá hinu sokkna landi og miðlað því til mannkyns (ljáð þeim heyrn sína) og minnir það hlutverk hans óneitanlega á skilgreiningu Jessie L. Weston á táknmerkingu Fiskikóngsins sem rædd var hér að ofan.

 

Hvers skal spyrja?

Snemma í Gunnlaðar sögu spyr lögfræðingurinn móðurina spurningarinnar: „Hver var þessi Gunnlöð?“ (35) og síðan gefur hann henni eftirfarandi ráð: „Reyndu að komast að því hvernig það er með þessa sögu“ (37). Spurningin „Hver var þessi Gunnlöð?“ hljómar nokkrum sinnum í frásögninni og þrisvar sinnum svarar sögukona spurningunni ósjálfrátt: „Óðinn stal frá henni skáldskapnum“ (35, 81 og 94). Hið þrítekna ósjálfráða svar hefur mögulega tilvísun til þess að Pétur postuli afneitar Kristi þrisvar og þá felst í svari móðurinnar afneitun á Gunnlöðu/Dís, þ.e. svarið felur í sér rangtúlkun á atburðunum sem Hávamál lýsa og Gunnlaðar saga gengur einum þræði út á að leiðrétta. En spurningin „Hver var þessi Gunnlöð?“ er mikilvægasta spurning verksins því hið rétta svar felur í sér ekkert annað en nýja lífsvon fyrir heim á heljarþröm. Það er ekki tilviljun að Svava Jakobsdóttir dregur fram hliðstæður við Krist í lýsingu sinni á hofgyðjunni Gunnlöðu því boðskapur þeirra er af sömu rót runninn. Og líkt og Kristur er Gunnlöð/Dís „krossfest“; boðskapurinn ekki meðtekinn, boðandinn dæmdur geðveikur. Í þessu ljósi fær sögukona hlutverk lærisveins, enda ætlar hún að breiða út boðskapinn og „bjóða ykkur að bergja lífsins vatn úr gullinni uppsprettu sem aldrei þrýtur meðan ykkur þyrstir...“ (196). Þetta hlutverk sögukonu er ítrekað með vísunum í Biblíuna, til að mynda þegar hún þvær fætur veitingakonunnar Önnu. Sú athöfn myndar sterka andstæðu við reiði sögukonu yfir því að eiginmaður hennar varð fyrri til að „þvo hendur sínar“ af Dís, neita að taka ábyrgð á dóttur sinni og varpa ábyrgðinni þar með alfarið yfir á herðar móðurinnar (14). En móðirin hefur axlað ábyrgðina, tekið við því hlutverki sem henni var ráðstafað af dóttur sinni og felur í sér að reiða fram lífsvon í deyjandi sköpunarverki.

 

Heimildaskrá
Álfrún Gunnlaugsdóttir. 1984. „Um Parcevals sögu.“ Gripla VI. Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar, bls. 219-240.
Baldur Hafstað og Kolbrún Bergþórsdóttir (ritstj.). 1988. Með kurt og pí. Riddarasögur handa grunnskólum. Reykjavík: Mál og menning.
Dagný Kristjánsdóttir. 1988. „„Stabat Mater dolorosa.“ Um Gunnlaðar sögu eftir Svövu Jakobsdóttur.“ Andvari, 113. árg., bls. 99-112.
Dagný Kristjánsdóttir. 1991. Gunnlaðar saga. Kennarahandbók. Reykavík: Forlagið.
Frederick W. Locke. 1960. The Quest for The Holy Grail. Stanford, California: Stanford University Press.
Jessie L. Weston. 1957. From Ritual to Romance. New York: Doubleday & Anchor Books. (Fyrsta útgáfa 1920.)
Margaret Drabble (ed.). 1985. The Oxford Companion to English Literature. Fifth edition. Oxford, New York, Tokyo, Melbourne: Oxford University Press.
Margaret J. C. Reid. 1970. The Arthurian Legend. Comparison of Treatment in Modern and Mediæval Literature. New York: Methuen & Co. Ltd; London: Barnes & Noble, Inc. (Fyrsta útgáfa 1938).
Richard Barber. 2004. The Holy Grail. Imagination and Belief. London: Allen Lane.
Robert A. Johnson. 1993. The Fisher King & The Handless Maiden. San Francisco: Harper
Roger Sherman Loomis. 1963. The Grail. From Celtic Myth to Christian Symbol. Cardiff: University of Wales Press. New York: Columbia University Press.
Soffía Auður Birgisdóttir. 1995. „Lífið, leitin, listin.“ Kona með spegli. Um verk Svövu Jakobsdóttur. Ritstjóri Ármann Jakobsson. Reykjavík: JPV útgáfa, bls. 14-25.
Svava Jakobsdóttir. 1987. Gunnlaðar saga. Reykjavík: Forlagið.
Svava Jakobsdóttir. 1999. Skyggnst á bak við ský. Reykjavík: Forlagið.
T. S. Eliot. 1990. The Waste Land / Eyðilandið. Íslensk þýðing Sverrir Hólmarsson. Reykjavík: Iðunn. (Fyrsta útgáfa The Waste Landkom út 1940). Sjá skýringar Elitots auk skýringa íslenska þýðandans, Sverris Hólmarssonar.
Vésteinn Ólason. 1988. „Tvö ferðalög.“ Tímarit Máls og menningar, 49. árg., 2. hefti, bls. 242-247.
 
Aftanmálsgreinar
1 Svava Jakobsdóttir, Gunnlaðar saga, 1999: 315.
2 Ég vel að nota hvorugkynsmynd orðsins og rita það með stóru G og tvöföldu a. Ýmiss háttur hefur verið hafður á rithætti orðsins í íslenskum ritum. Baldur Hafstað og Kolbrún Bergþórsdóttir rita orðið „gralið“ þ.e. með litlu g og einu a (1988); Álfrún Gunnlaugsdóttir skrifar „graalinn“, þ.e. með litlu g og tvöföldu a, auk þess sem hún notar karlkynsmynd orðsins (1984). Ég fylgi Svövu Jakobsdóttur í því að nota stórt G og tvöfalt a en ekki er ljóst af skrifum Svövu í hvaða kyni hún telur orðið vera, það kemur aðeins einu sinni fyrir hjá henni: „um Graal-leitina“. Skyggnst á bak við ský, 1999: 315.
3 Svava Jakobsdóttir, Gunnlaðar saga, 1999: 315.
4 Sjá t.d. Véstein Ólason. „Tvö ferðalög“, 1988: 242-247 og Dagnýju Kristjánsdóttur, „„Stabat Mater dolorosa.“ Um Gunnlaðar sögu eftir Svövu Jakobsdóttur“, 1988: 99-112 og Gunnlaðar saga. Kennarahandbók, 1991.
5 T. S. Eliot. 1990. The Waste Land / Eyðilandið. Íslensk þýðing Sverrir Hólmarsson, 1990. Sjá skýringar Elitots auk skýringa íslenska þýðandans, Sverris Hólmarssonar.
6 Leikstjóri: Terry Gilligan. Handritshöfundur: Richard LaGravenese.
7 Sjá t.d. Frederick W. Locke 1960, Roger Sherman Loomis 1963, Margaret J. C. Reid 1970 og Richard Barber 2004.
8 Jessie L. Weston 1957.
9 Sjá The Oxford Companion to English Literature 1985, bls. 408. Hér er m.a. um að ræða söguljóð Chrétien de Troyes (d. um 1185), Perceval eða Le Conte du Graal; rit Sir Thomas Malorey (d. 1471), Morte D´Arthur, sem byggt er á glötuðu handriti frá tólftu öld sem nefnt er Queste (höf. ókunnur); söguljóð Wolfram von Aeschenbach, Parzival (frá þrettándu öld), sem Wagner byggði á óperu sína; o.fl. Sjá lista yfir hin tíu bókmenntaverk í Roger Sherman Loomis 1963: 3-4.
10 Álfrún getur sér til um að um mislestur sé að ræða, þ.e. orðið textus (bók) eigi að vera pyxis, þ.e. „grískt-latneskt orð sem merkir oblátubuðkur (eða –hús).“ Álfrún Gunnlaugsdóttir, „Um Parcevals sögu“,  1984: 222.
11 Hér má nefna hinn fræga reyfara Dan Browns, Da Vinci lykilinn, þar sem þessari kenningu er einmitt gert hátt undir höfði.
12 Sjá t.d. Roger Sherman Loomis 1963: 2.
13 Dagný Kristjánsdóttir hefur einnig bent á þessa hliðstæðu gullkersins og Graalsins. Sjá Dagný Kristjánsdóttir, 1988: 110.
14 Sjá Soffía Auður Birgisdóttir. „Lífið, leitin, listin“, 1995:  14-25.
15 Fyrir áhugasama má geta þess að Álfrún Gunnlaugsdóttir rekur nokkuð ítarlega söguþráð Parcevals sögu Chrétien de Troyes í greininni „Um Parcevals sögu“, 1984: 219-240, sjá sérstaklega: 220-226.
16 Hér má geta þess að Roger Sherman Loomis tiltekur líkindi með Parcevals sögu og írskri sögn sem segir frá ungum manni, Conn, sem kemur í ókunnugt hús þar sem ung kona – Sovranty of Ireland - ber fram mjöð í gullnu keri. Loomis bendir á líkindi milli þessa atriðis (og fleiri atriða) í báðum frásögnum, sérstaklega eru honum hugleikin líkindin á milli stúlkunnar sem ber Graalið og (Sovranty of Ireland). Svava Jakobsdóttir bendir hins vegar á líkindi með írsku sögninni og Gunnlaðar þætti Hávamála og eru henni hugleikin líkindin við Gunnlöðu. Sjá R. S. Loomis 1963: 48 og Svava Jakobsdóttir 1999: 316-317.
17 Samkvæmt Robert A. Johnson segir ein frásögn af Fiskikónginum frá því að ör hafi verið skotið í gegnum bæði eistu hans; ör sem ekki er hægt að fjarlægja. Því miður nefnir Johnson ekki hvar þessa sögu er að finna. R. A. Johnson 1993: 16.
18 Jessie L. Weston 1957: 125-136.
19 Robert A. Johnson  1993: 3.
 
Greinin birtist fyrst í greinasafninu Kona með spegil. Reykjavík: JPV útgáfa 2005 og síðar í greinasafni höfundar: Maddama, kerling, fröken, frú. Konur í íslenskum nútímabókmenntum. Reykjavík: Háskólaútgáfan 2019. 

 

 

Tengt efni