SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Svava Jakobsdóttir

Svava Jakobsdóttir fæddist 4. október 1930 í Neskaupstað.

Á barnsaldri flutti Svava til Íslendingabyggða í Saskatchewan í Kanada þar sem faðir hennar þjónaði sem prestur um árabil. Þegar fjölskyldan flutti aftur til Íslands árið 1940 fannst Svövu hún vera utanveltu í tungumálinu og kann að vera að sú reynsla sé grunnur að þeim sérstöku smásögum sem hún sendi síðar frá sér og hafa á sér blæ fantasíunnar.

Svava lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1949 og BA prófi í enskum og amerískum bókmenntum frá Smith College í Northampton í Massachusetts, Bandaríkjunum 1952. Svava lagði stund á framhaldsnám í forníslenskum bókmenntum við Somerville College í Oxford á Englandi frá 1952 til 1953 en varð frá að hverfa vegna augnsjúkóms. Síðar stundaði hún einnig nám í sænskum nútímabókmenntum við Uppsalaháskóla í Svíþjóð, veturinn 1965 til 1966.

Svava starfaði í Utanríkisráðuneytinu og í Sendiráðinu í Stokkhólmi 1955 til 1960. Hún kenndi við Barna- og unglingaskólann á Eskifirði 1963 til 1964, var blaðamaður við Lesbók Morgunblaðsins 1966 til 1969 og starfsmaður við dagskrárdeild RÚV 1969 til 1970. Hún var sat á þingi fyrir Alþýðubandalagið í átta ár; 1971 til 1979.

Svava sat í stjórn Rithöfundafélags Íslands 1968 til 1971. Hún gegndi ýmsum nefndarstörfum og var meðal annars í nefnd til að semja frumvarp um hlutdeild ríkisins í byggingu og rekstri dagvistarheimila 1971 og í nefnd til að semja frumvarp til laga um Launasjóð rithöfunda 1973. Þá sat hún í Rannsóknaráði ríkisins 1971 til 1974 og var varamaður 1978 til 1979. Hún var ennfremur varamaður í Norðurlandaráði 1971 til 1974 og aðalmaður þess 1978 til 1979. Svava var fulltrúi á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árin 1972, 1974, 1977 og 1982. Hún var í stjórn Máls og menningar 1976 til 1979 og átti einnig sæti í fulltrúaráði þess. Hún var í Rithöfundaráði 1978 til 1980. Svava var fulltrúi Íslands í samráðshóp sem gerði úttekt á menningarsamstarfi Norðurlandanna á grundvelli norræna menningarmálasamningsins 1972 til 1978. Hún var varamaður í stjórn Norræna hússins í Reykjavík 1979 til 1984 og í safnráði Listasafns Íslands 1979 til 1983. Hún var fulltrúi Íslands í jafnréttisnefnd Norðurlanda 1980 til 1983. Svava sat í stjórn Leikskáldafélags Íslands 1986 til 1990 og var fulltrúi Íslands í listkynningu Scandinavia Today í Japan 1987.

Fyrsta bók Svövu var smásagnasafnið Tólf konur sem kom út árið 1965. Síðar sendi hún frá sér fleiri smásagnasöfn, skáldsögur og ritgerðasafn. Þá skrifaði Svava leikrit fyrir bæði leiksvið og ljósvakamiðla. Hún skrifaði ennfremur fjölda ritgerða og blaðagreina og gerði þætti fyrir útvarp.

Verk Svövu Jakobsdóttur hafa verið þýdd á fjölmörg tungumál og leikrit hennar hafa verið sett upp víða um heim. Svava flutti fyrirlestra og kynnti verk sín á vegum félagasamtaka erlendis og í boði bókmenntadeilda háskólanna í Björgvin 1979, Osló 1979 og 1988, London 1984, Freiburg 1987 og Amsterdam 1988.

Svava er talin einn af brautryðjendum í módernískum bókmenntum á Íslandi og með smásögum hennar var vakin athygli á hlutskipti kvenna á nýstárlegan og frumlegan máta. 

Svava var gift Jóni Hnefli Aðalsteinssyni og áttu þau einn son.

Svava Jakobsdóttir lést í Reykjavík 21. febrúar 2004.


Ritaskrá

  • 2001  Sögur handa öllum (safnrit)
  • 1999  Skyggnst á bak við ský (greinasafn)
  • 1994  Stórbók með sögum Svövu Jakobsdóttur
  • 1989  Undir eldfjalli (smásögur)
  • 1989  Næturganga (sjónvarpsmynd)
  • 1987  Smásögur
  • 1987  Gunnlaðar saga
  • 1983  Lokaæfing (leikrit)
  • 1982  Gefið hvort öðru (smásögur)
  • 1980  Í takt við tímana (óútg. útvarpsleikrit)
  • 1979  Sögur
  • 1976  Húsráðandinn (óútg. leikrit)
  • 1974  Friðsæl veröld
  • 1970  Hvað er í blýhólknum? (leikrit)
  • 1969  Leigjandinn
  • 1967  Veizla undir grjótvegg (smásögur)
  • 1965  Tólf konur (smásögur)

 

Verðlaun og viðurkenningar

(í vinnslu)

  • 2001  Heiðursviðurkenning Bókasafnssjóðs höfunda fyrir framlag til íslenskra bókmennta
  • 2000  Jafnréttisviðurkenning frá Jafnréttisráði sem brautryðjandi í jafnréttismálum
  • 1997  Henrik Steffens verðlaunin. Veitt fyrir listferil sem hefur gildi fyrir evrópska menningu í heild
  • 1996  Heiðursfélagi í Rithöfundasambandi Íslands
  • 1983  Verðlaun Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins
  • 1982  Viðurkenning Rithöfundasjóðs Íslands
  • 1968  Viðurkenning Rithöfundasjóðs Íslands
  • 1950  Fyrstu verðlaun í smásagnasamkeppni Líf og list fyrir söguna Konan í kjallaranum

 

Tilnefningar

  • 2000  Til Menningarverðlauna DV í bókmenntum fyrir Skyggnst á bak við ský
  • 1990  Til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir Gunnlaðar sögu
  • 1989  Til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Undir eldfjalli
  • 1988  Til Menningarverðlauna DV í bókmenntum fyrir Gunnlaðar sögu
  • 1984  Til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir Gefið hvort öðru
  • 1972  Til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir Leigjandann
  • 1971  Til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir Leigjandann

 

Þýðingar

(í vinnslu)

  • 2019  L'affittuario (Silvia Cosimimi þýddi á ítölsku)
  • 2017  General'naja repeticija (Olga A. Markelova þýddi á rússnesku)
  • 2013  Un locatarie (Chaterine Eyjólfsson þýddi á frönsku)
  • 2011  Gunnlöth's Tale (Oliver Watts þýddi á ensku)
  • 2010  Kraéúgol´nyj kamenj (Olga A. Markelova þýddi á rússnesku)
  • 2002  La saga de Gunnlöd (Régis Boyer þýddi á frönsku)
  • 2002  "Gunnlöð and the precious mead.” (Scholarly article, translated by Katrina Attwood. 
    The Poetic Edda: essays on Old Norse mythology; ed. Paul Acker & Carolyne 
    Larrington.)
  • 2000  The lodger and other stories ( Julian Meldon D´Arcy, Dennis Auburn, 
    og Alan Boucher þýddu á ensku)
  • 1999  Tutto in ordino (Silvia Cosimi þýddi á ítölsku)
  • 1998  Gunlodos saga (Rasa Ruseckiene þýddi á litháísku)
  • 1990  Historien om Gunlød (Preben Meulengracht Sørensen þýddi á dönsku)
  • 1990  Fortellingen om Gunnlod (Jon Gunnar Jörgensen þýddi á norsku)
  • 1990  Gunnlöds saga (Inge Knutson þýddi á sænsku)
  • 1990  Kultainen malja (Tuuva Tuula þýddi á finnsku)
  • 1990  "Frau mit Spiegel" (Axel Winzer þýddi á þýsku)
  • 1986  Pidu ilumüüri ääres (Arvo Alas þýddi á eistnesku)
  • 1986  Kvinde med spejl. Noveller (Erik Skyum-Nielsen þýddi á dönsku)
  • 1986  "Reich euch..." (Günter Wigand þýddi á þýsku)
  • 1982  Giv hinanden. Noveller (Erik Skyum-Nielsen þýddi á dönsku)
  • 1980  Virkelighet og erfaring : en kvinnelig forfatters refleksjoner (Helga Kress og Gunhild Stefánsson þýddi á norsku)
  • 1976  Leigebueren (Ivar Eskeland þýddi á norku)
  • 1974 "Krabbentierchen, Hochzeit, Tod" (Heinz Barüske þýddi á þýsku)
  • 1971  Den inneboende (Ingegerd Frie þýddi á sænsku)

Tengt efni