SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn26. maí 2023

RÆÐA BERGÞÓRU SNÆBJÖRNSDÓTTUR við afhendingu MAÍSTJÖRNUNNAR 24. maí 2023

„Kæru gestir, dómnefnd og aðstandendur Maístjörnunnar – ég stend hér auðmjúk, glöð, hrærð fyrir hönd þessa verks sem hlýtur hér í dag þessa fallegu viðurkenningu.

Takk, takk, takk fyrir, vill bókin að ég skili til ykkar. Og takk segi ég sjálf.

Takk fyrir að varpa ljósi á ljóðið, þetta flókna, lifandi, brothætta fyrirbæri sem ég held alltaf að hafi yfirgefið mig eða ég það, að leiðir okkar munu aldrei liggja aftur saman, að nú sé ég hætt, hætt að eilífu, eigi ekki eitt ljóð eftir, ekki örðu, ekki einu sinni eitt orð, en svo gerist eitthvað og á þeirri stundu er ekkert annað sem getur tekið við mér en ljóðið.

 

Haustið 2022, rétt áður en þessi bók kom út, var ég stödd á viðburði í Iðnó þar sem úkraínski rithöfundurinn, Andrey Kurkov, var að lesa upp úr nýjustu bók sinni sem er í raun einskonar dagbók úr stríðinu. Hann hefur skrifað tugi skáldsagna og hefur lýst því að hann skrifi á hverjum degi, láti aldrei verk falla sér úr hendi, sama hvar hann er í heiminum.

En eftir að stríðið hófst í Úkraínu, hætti Kurkov að geta skrifað. Gat hann ekki horfið inn í heim skáldsögunnar af því að allt hans í ytri heim var farið að riða til falls. Var of aðkallandi, mikilvægt, plássfrekt til að hleypa honum burt. Svo hann varð að yfirgefa skáldsöguna til að skrifa um það sem var að gerast í kringum hann, til að skrifa um eigið líf.

Svona er komið fyrir öllum úkraínskum rithöfundum sem ég þekki, sagði Kurkov, þar sem hann stóð á sviðinu í Iðnó. Enginn getur skrifað. En öðru máli gegnir um úkraínsku ljóðskáldin. Þau skrifa meira en nokkru sinni!

Allt í einu kviknaði á peru hjá mér.

Ég hef sagt frá því áður að þessi bók, Allt sem rennur, hóf sitt ferðalag í byrjun síðasta árs í þyngsta og myrkasta skammdeginu þegar ég var að brasa við skáldsögu í mikilli uppgjöf og andleysi, allir í bókinni alltaf bara að hella upp á kaffi eða fara á kaffihús. En það sem fylgdi kannski ekki sögunni var að ég var sjálf vansvefta og töluvert tæp eftir að hafa eignast barn haustið 2019 sem glímdi við mikil og tíð veikindi, krafðist flókinnar umönnunar og svaf e k k i n e i t t. Þreytan og áhyggjurnar og að ganga í hringi á milli lækna og apóteka og barnaspítalans og heilsugæslunnar og einhverra fyrirtækja í úthverfum með nöfn sem byrja á pharma eða enda á pharma og taka myndir og googla og googla þar til blæðir úr augunum, þetta var allt, allt of frekt.

Og sama hvað ég barðist um reyndist mér ógjörningur að hverfa inn í skáldsöguna eins og ég þurfti að gera. Svo ég byrjaði á einhverju öðru. Einhverju sem rann.

Fyrsta ljóðabókin mín bar þann glæsilega titil: Litla bókin með nokkrum ómerkilegum ljóðum og kom út í einriti árið 1994, handskrifuð til móður minnar, en öll ljóðin mín voru til hennar á þeim tíma af því að hún var sú sem ég óttaðist ekkert meira en að missa, eins og flest börn kannski.

Nú er það ég sem er móðir og óttast ekkert meira en að bregðast, mistakast, skemma. Þess vegna er ég á einn eða annan hátt alltaf að skrifa til barnanna minna (þó svo að ég voni líka einlægt að þau lesi aldrei neitt eftir mig). Og þökk sé skáldskapnum er ég betri móðir, ég er sannfærð um það.

Af því að ég er búin að taka það hræðilegasta sem ég þori ekki að hugsa og er hræddust við og setja það inn í skáldskapinn þar sem það á heima. Af því að bók er á endanum alltaf bara bók. Henni má loka.

Og í staðinn fæ ég að vera þakklát og ég verð að nota tækifærið og þakka börnunum mínum líka. Ég er þakklát fyrir að vera alltaf með hor í fötunum mínum. Þakklát fyrir að fá að hlæja með þeim og að þeim. Þakklát fyrir fingurna sem teygja sig í átt að mér. Þakklát fyrir að geta tekið við og tekið við og tekið við. Þakklát fyrir föstu flétturnar sem ég brasa við í hvert einasta skipti og poppið á gólfinu eftir helgar. Ég er meira að segja þakklát fyrir barna gervineglurnar sem birtast einhvern veginn alltaf aftur og út um allt og ég hafði ekki hugmynd um að væri einu sinni eitthvað thing hér áður fyrr. Þakklát fyrir börnin sem breyttu lífi mínu og ljóðið sem bjargar lífi mínu.

 

Það voru 93 ljóðabækur sem komu út á síðasta ári. 93!

Ólíkar bækur. Einstakar bækur. Allt dýrmætar bækur. Það eina sem ég get fullyrt er að engin þeirra spratt upp úr löngun til þess að verða ríkur. Ljóðabækur spretta upp úr einhverju öðru.

Það væri verðugt verkefni að rannsaka hvort ljóðabókum fjölgi í heimsfaraldri? Í óðaverðbólgu? Þegar fleiri og fleiri öryrkjar þurfa að flytja á tjaldsvæði? Þegar flugvélar flytja flóttafólk úr landi á meðan flugvallastarfsmenn ruglast af sjálfsdáðum og beina kösturum að fréttafólki? Fjölgar ljóðabókum þegar ungt fólk deyr í hverri viku, margir í viku, úr sjúkdóm sem má ekki nefna? Þegar jöklarnir hverfa, lundarnir hverfa og laxarnir veikjast af peningasýki erlendra auðjöfra? Fjölgar ljóðabókum þegar ólétt hvalamóðir er skotin og ófætt fóstur hennar skorið út úr henni?

Eftir situr að það er ljóðið sem við notum til að reyna að ná utan um raunveruleikann. Það er ljóðið sem við flýjum til þegar hugur okkar er of ókyrr, heimurinn of óstöðugur. Hvort heldur sem lesendur eða rithöfundar.

 

Í dag er ytra lífið mildara við okkur fjölskylduna og þess vegna gat ég stungið mér á kaf í skáldsöguna. Og í dag af öllum dögum líður mér eins og nú sé ég hætt, hætt að eilífu, að ég muni aldrei nokkru sinni fá að skrifa ljóð framar, ekki örðu, ekki einu sinni eitt orð. Þangað til einn daginn. Þá kemur ljóðið til bjargar. Hver veit nema það verði í haust þegar vextirnir á óverðtryggða húsnæðisláninu mínu losna?“

 

 

Tengt efni