Bergþóra Snæbjörnsdóttir
Bergþóra Snæbjörnsdóttir er fædd árið 1985 og ólst upp við Úlfljótsvatn í Grafningi.
Bergþóra lauk BA prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands 2010 og ári síðar lauk hún námi í ritlist og 2018 lauk hún MA námi í hagnýtri menningarmiðlun frá sama skóla.
Fyrsta bók Bergþóru var ljóðabókin Daloon dagar sem kom út árið 2011 og tveimur árum síðar sendi hún frá sér prósasafnið Dagar undrabarnsins eru á enda.
Árið 2017 gaf hún út ljóðsöguna Flórída þar sem sögð er saga af af tveimur konum sem hittast í Berlín, ungri íslenskri konu og fyrrverandi pönksöngkonunni Flórída. Í verkinu er tekist á við ýmis þemu svo sem frjósemi, dauða og áföll. Verkið var tilnefnt til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, Fjöruverðlaunanna og Maístjörnunnar.
Fyrsta skáldsaga Bergþóru, Svínshöfuð, sem kom út árið 2017, hreppti Fjöruverðlaunin og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, auk þess sem hún var valin besta skáldsaga ársins af bóksölum. Í bókinni er sögð áhugaverð fjölskyldusaga út frá þremur ólíkum sjónarhornum.
Bergþóra myndar gjörningatvíeykið Wunderkind Collective ásamt Rakel McMahon, myndlistarkonu. Þær setja upp textamiðuð sviðsverk og innsetningar, þar sem fengist er við hið hlægilega og súrrealíska í mannlegri tilvist.
Bergþóra hefur einnig komið að handritun kvikmynda, bókaútgáfu og sinnt verkefnastjórn á sviðum lista og menningar. Hún hefur hlotið styrki frá Kvikmyndasjóði Íslands, Myndlistarsjóði, Rithöfundasambandi Íslands og menningarsjóðum Norðurlandaráðs.
Bergþóra er gift Braga Páli Sigurðarsyni rithöfundi og þau eiga tvö börn.
Ritaskrá
- 2023 Duft
- 2022 Allt sem rennur
- 2019 Svínshöfuð
- 2017 Flórída
- 2013 Dagar undrabarnsins eru á enda
- 2011 Daloon dagar
Verðlaun og viðurkenningar
- 2023 Verðlaun bóksala fyrir Duft
- 2023 Maístjarnan fyrir Allt sem rennur
- 2017 Fjöruverðlaunin fyrir Svínshöfuð
- 2017 Verðlaun bóksala fyrir Svínshöfuð
Tilnefningar
- 2019 Til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Svínshöfuð
- 2018 Til Maístjörnunnar fyrir Flórída
- 2018 Til Fjöruverðlaunanna fyrir Flórída
- 2018 Til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Flórída