SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir10. júlí 2023

CAMILLE CLAUDEL OG SUSAN LUDVIGSON

 

Vert er að benda á áhugaverða útvarpsþáttaröð sem Arndís Hrönn Egilsdóttir gerði og frumflutti árið 2010 á rás 1 og eru endurfluttir þessar vikurnar. Þættirnir fjalla um Helstu listgyðjur 20. aldarinnar og í 9. júlí var á dagskrá þáttur með yfirskriftina List og losti og fjallaði um franska myndhöggvarann Camille Claudel og samband hennar við kollega sinn og ástmann Auguste Rodin. 

Saga Camille Claudel (1864-1973) er mikil harmsaga og því miður kunnugleg: Þetta er sagan af hæfileikaríku listakonunni sem þrátt fyrir ótvíræða snilligáfu var forsmáð og niðurlægð - þótt hún nyti vinsælda og hylli á tímabili (á meðan hún var ástkona Rodins). Þetta er sagan af listakonunni sem tapaði sjálfi sínu, varð ofsóknaræði og geðveiki að bráð, var læst inni á geðveikrahæli í blóma lífsins þar sem hún dó eftir þrjátíu ára innilokun.

 

Camille varð nemandi og aðstoðarmaður Rodins og þrátt fyrir að hann væri 20 árum eldri en hún (og byggi með annarri konu) tókust með þeim ástir sem áttu að reynast afdrifaríkar fyrir þau bæði. Fræg er setning sem Rodin sagði um Camille og list hennar: Ég sýndi henni hvar gullið er að finna, en gullið sem hún finnur er sannarlega hennar eigið.

Um ævi og örlög Camille Claudel hafa verið gerðar bíómyndir og bækur. En hún hefur einnig verið öðrum listamönnum og skáldum innblástur og þannig var því farið með bandaríska ljóðskáldið Susan Ludvigson (f. 1942) sem árið 1990 gaf út ljóðabókina Að finna gullið (To Find the Gold) þar sem hún yrkir ljóð í orðastað Camille en titilinn er að sjálfsögðu vísun í ofangreind orð Rodins.

 

Susan Ludvigson kynntist verkum Camille Claudel árið 1984 þegar hún af tilviljun rakst inn á sýningu á verkum hennar í París. Verkin vöktu svo sterkar tilfinningar hjá Susan að hún gat ekki mælt orð af munni í margar klukkustundir eftir að hún yfirgaf sýningarsalinn. Susan þekkti ekkert til listakonunnar áður en hún sá umrædda sýningu en til að kynna sér hana nánar keypti hún sér ævisögu Camille eftir Reine-Marie Paris sem í enskri þýðingu hlaut titilinn Camille Claudel: Rodin's Muse and Mistress (1988). Reine-Marie Paris var frænka Camille, afadóttir bróður hennar, skáldsins Paul Claudel. Hún er listfræðingur að mennt og hefur helgað sig rannsóknum á ævi og verkum Camille og gefið út nokkrar bækur um hvort tveggja.

 

 

 

 

Ljóðabók Susan Ludvigson, To Find the Gold, hlaut mikið lof en hún hefst á ljóðabálki í nítján hlutum sem nefnist: ,,The Gold she Finds: On the Life of Camille Claudel, Sculptor". Ljóðabálkurinn snýst um ævi Camille og ástríðufullt en erfitt og afdrifaríkt samband hennar við Rodin. 

Í ágúst 1991 birtist grein eftir undirritaða um Camille Claudel og Susan Ludvigson, ásamt þýðingu á hluta þessa ljóðabálks, í tímaritinu Hendingu. Hér á eftir eru ljóðaþýðingarnar endurbirtar, myndskreyttar með verkum Camille Claudel.

 

 

X. BRÉF TIL RODINS FRÁ TOURAINE, 1893
 
Hvílík gleði, að vakna upp af draumi um þig
og þrá þig ekki! Allan þennan tíma,
hendur mínar iðnar í gifsinu, bjóstu í 
líkama mínum eins og leigjandi. Hvert
sem ég sneri sá ég konur með þínu auga,
hold þeirra roðna undan opinskáu augnaráði mínu.
Morgnar sem frjókornin fylltu gluggann,
og fallegur hnerri þinn vakti mér
hlátur - hvernig þú kastaðir höfðinu
aftur eins og hneggjandi gæðingur.
Í dag velti ég fyrir mér hvort þú sért að róa
á einhverri ánni í fylgd stúlku
sem hefur rauðbrúnt hár og er því dulítið eins og
ég. Mér stendur á sama. Ég er einstæð
núna, ég er Camille, sem drekkur
bjór ein á kaffihúsinu, kliður radda
umvefur hana líkt og vals,
vill aðeins mold milli fingranna,
mold undir fótum.
 
 

 

XI. GLÓSUR FYRIR GUÐINN HORFNA, EÐA HIN GRÁTBIÐJANDI, 1894

Loksins varstu „þú sjálf“, algjörlega frjáls undan áhrifum Rodins, ímyndunarafl þitt eins stórkostleg og list þín.
                                                                                                            Bréf frá Eugene Blot til Camille Claudel, 1932
 
 

 
Ég vil finna þungann af hnjám hennar
á steininum, og sársaukann
af því að krjúpa þar svo lengi, en hún
er komin yfir það líkamlega,
inn í heim þar sem hann er það eina
sem getur snert hana. Augu og armar munu lyftast
í þjáningu bænarinnar,
hún verður eitt ákall
og er kannski ólétt.
Það liggur í loftinu að hún veit
niðurstöðuna, á ekki von á
að guðinn mildist eða snúi aftur.
En hún á einskis úrkosta.
hana mun verkja eftir honum án sannfæringar,
án valkosts, í hreinni örvínglun.
 
 
 
 
XIV. QUAI BOURDON, 1900
 
 
Elsku Páll minn.
 
Í morgun vaknaði ég með bragð af honum
á tungunni. Ég hrækti og hrækti,
og köttunum fannst ég sniðug.
Of mikið að gera til að hugsa um hann.
Og slagbrandur fyrir dyrunum. Síðan nágranni minn,
hr. Pichard, braust inn með aukalykli
og tók skissur af Gulu konunni minni,
hef ég lært að vera gætin.
Gular konur hafa birst á tveimur sýningum
með áritun Rodins, auðvitað!
Ó, hann rakar saman – milljónum franka
á hugmyndum mínum. Hver ætli geri
fætur hans, hver sker út augun,
hver stillir sér upp fyrir kveðjur og svik?
Þú veist, Rósa var fyrirsætan hans einu sinni.
Ég sá hana þegar ræstingakonan setti
lyf í kaffið mitt, og ég var rænulaus í heila
tólf tíma. Hún var ung,
hringsnerist í bronsi, síðan gulli,
svífandi í loftinu –
síðan standandi kyrr, í steini.
Vissirðu að hún kemur á gluggann minn
á nóttunni, gægist inn á mig sofandi?
Ég heyri hana anda á glerið,
síðan köfnunarhrygluna.
 
 

XIX. MANNA, SEPTEMBER, 1943

 

Svo mikið skil ég að lokum –
hvernig andinn nærist
á rúsínum og mjólk, hvernig dagarnir
hverfa þegar þú ferð ekki á fætur,
og hvert vingjarnlegt andlit
öðru líkt
beygir sig yfir þitt eigið.
Með póstinum koma
kökur frá Páli.
Ég segi við Guð, bikar minn
er fullur. Ég veit
hvað það þýðir. Þeir segja mér
að ég sé grönn eins og spýta, en ég
borða þessar gjafir af sultu og smjöri,
ég læt sykurmola bráðna á tungu minni.
Ég man fögnuð,
hendur mínar blautar í gifsi. Ég horfi
á skrúðgöngu fara framhjá glugga mínum, röð
af styttum úr bronsi og marmara,
afskræmdir líkamar, upprisnir
og brosandi, lífi þeirra
næstum lokið. Núna eru þeir uppréttir,
verða yngri
og yngri, allt afturábak,
allt hvítt.

 

Þýðandi Soffía Auður Birgisdóttir

Tengt efni