Soffía Auður Birgisdóttir∙24. febrúar 2023
TÍMARITIÐ HENDING
Árið 1991 réðust nokkrar skáldkonur í að gefa út tímarit sem hafði að markmiði að lyfta undir skáldskap kvenna. Ef til vill grunaði þær að ekki yrði framhald á útgáfunni því þær gáfu tímaritinu nafnið HENDING. Og sú varð raunin að aðeins eitt tölublað kom út, því miður. Þær sem stóðu að útgáfunni voru skáldkonurnar Berglind Gunnarsdóttir, Elísabet Jökulsdóttir, Margrét Lóa Jónsdóttir og Valgerður Benediktsdóttir.
Í „Orðsendingu til lesenda“ sem stendur fremst í blaðinu segir:
Á seiðandi kvöldi þegar haustið þaut í trjánum hittumst við fyrst. Það var kominn tími til að óska eftir skáldskap eftir konur sem áttu margar dragkistur.Eru huldukonur bara til í ævintýrum?Þannig sátum við allan veturinn, drukkum kaffi og átum kökur og ljóðin og sögurnar flugu inn um gluggana og sumt barst alla leið yfir hafið.Það þurfti að finna gott nafn á þennan bunka. Hending. Dingdong. Það er ekki alltaf gott að vita hvað er tilviljun og hvað ekki. Allt getur gerst.Við þökkum öllum sem lögðu blaðinu lið og veittu stuðning.
Margt spennandi efni birtist í þessu eina tölublaði HENDINGAR: frumsamin ljóð, ljóðaþýðingar, smásaga, örsaga, viðtal og greinar. Þarna birtust ljóð eftir Nínu Björk Árnadóttur, Gerði Kristnýju, Rögnu Sigurðardóttur, Margréti Hugrúnu og Þóru Elfu Björnsson og ljóðaþýðingar á ljóðum eftir bandarísku skáldkonuna Susan Ludvigsson.
Þótt tímaritinu væri fyrst og fremst ætlað að draga fram efni úr kistum kvenna komu karlar líka við sögu. Í HENDINGU er til að mynda mjög áhugaverð grein eftir Geir Svansson um hina umdeildu skáldkonu, Kathy Acker, ljóð eftir Jan Erik Vold í þýðingu Kjartans Árnasonar og langt ljóð eftir Pablo Neruda í þýðingu Ingibjargar Haraldsdóttur.
Skáld.is hefur fengið leyfi til að endurbirta ýmsilegt úr tímaritinu HENDINGU á næstunni.