SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir30. september 2023

HÚN LÁ LENGI Á ÞESSUM LJÓÐUM EINS OG TÍTT ER UM KONUR - Elísabet Þorgeirsdóttir og árið er 1977

Árið 1977 er Elísabet Þorgeirsdóttir 22 ára. Í 19. júni, Ársriti Kvenréttindafélags Íslands, er birt viðtal við hana og fáein ljóð. Haft er eftir Elísabetu að bók sé væntanleg með haustinu og kom fyrsta ljóðabók hennar, Augað í fjallinu, út þetta sama ár.

 

Þetta sem núna kallast yrkingar hjá mér

Elísabet segist aldrei hafa dottið í hug að verða skáld og að  ,,þetta sem núna kallast yrkingar hjá mér" fór hún að skrifa hjá sér þegar hún var sextán ára. Þá hugsaði hún ekkert um hvort þetta væri skáldskapur, hún vildi aðeins koma þessu frá sér. Þá segir Elísabet að allir ættu að skrifa niður það sem þeim býr í brjósti því það geti þetta allir.

Ástæðan fyrir því að Elísabet fór að skrifa er vegna þess að í landsprófi hafi hún í fyrsta skipti fengið kennslu í nútímaljóðlist. Þá hafi opnast henni nýr heimur. Upp frá því hafi hún farið að skrifa niður hugsanir sínar í ljóðum. 

Elísabet segir að eftirlætisskáldið hennar sér Steinn Steinarr en hún sökkvi sér einnig niður í Thor Vilhjálmsson og Jóhannes úr Kötlum. Hún beri þó mesta virðingu fyrir Jakobínu Sigurðardóttur og vilji helst líkjast henni. 

 

Eins og títt er um konur

Í viðtalinu segir að Elísabet hafi legið lengi á þessum ljóðum ,,eins og títt er um konur. Henni datt ekki í hug að aðrir gætu haft gaman af þeim."  Þetta hafi hins vegar farið að kvisast út og ljóðin að hlaðast upp og því fór svo að hún las nokkur ljóð á skemmtikvöldi hjá Mími, félagi stúdenta í íslensku. Eftir það varð ekki þagað yfir þessu lengur og er bókin væntanleg, líkt og fyrr segir, með gömlum ljóðum og nýjum. Elísabet segir síðasta ljóðið hafa verið ort í vetur en ljóðabókin sé strax orðin fjarlæg henni. Ljóðin komi henni ekki eins mikið við og þau gerðu.

Ljóð Elísabetar eru sögð hreinskilin og blátt áfram. Hún segist yrkja þegar hana vanti að segja eitthvað á meðan aðrir rífist, máli, spili á hljóðfæri eða stundi íþróttir. Hún setjist aldrei niður og hugsi um hvað hún ætli að skrifa. Þetta komi ósjálfrátt og klykkir Elísabet út með orðunum að að þetta geti allir gert.

Í blaðinu eru birt fimm ljóð eftir Elísabetu og eru tvö þeirra birt hér:

Skyldan
 
Töfrar næturinnar
kveikja titring í brjósti mér.
Svart himinhvolfið
streymir yfir með lágum nið
og endar ferð sína hinumegin við fjallið
þar sem nóttin býr á kvöldin
þaðan sem dagarnir koma.
 
Einhver leiðinleg rödd
sem býr í rassinum á mér
og sálfræðingar kalla skynsemi
segir mér að koma mér í rúmið
því augun séu orðin rauð - höfuðið sljótt
og á morgun bíði mín tvö hefti
af hundleiðinlegri kennslubók
sem ég eigi að lesa
ef ég ætli mér einhvern tíma að hætta í skóla
og verða almennileg manneskja með fullu viti
en ekki lengur blóðsuga á þjóðfélaginu
og baggi á herðum þess vinnandi fólks
sem sér landinu fyrir nægum gjaldeyri
og heldur þjóðfélaginu uppi.
 
Eftir þessa ástríðufullu ræðu samviskunnar
þori ég ekki annað en skreiðast í bælið
og signa mig.
 
 
Við erum ung
 
Enn einu sinni
héf ég vaknað upp að morgni
og minnst stunda næturinnar.
 
Enn eina sinnið lét ég undan heitu brosi
og kraftalegum faðmi.
 
Í hita dansins
og nálægð manns og handa
fékk ég ekki staðist æskuhitann
í líkama mínum
og líkama þínum.
 
Enn ein nótt er liðin - 
við vöknum upp
og finnst við óhreinni en áður.
 
Blekkingarvefurinn er fallinn frá.
Raunveruleikinn skerst inn í hugann
kaldur og svartur.
 
látalætin stóðust ekki -
hitinn sem við kveiktum
var ekki sannur, ekki nógu heitur.
 
Í flýti læðist þú út frá mér
við eigum ekkert vantalað.
 
Fegin breiði ég sængina
upp fyrir haus
og hlusta á fótatak þitt
niður stigann.
 
Nú er ég ein í rúmi mínu.
Þráin sem ólgaði í brjósti mér
svívirt og lítillækkuð.
Í hljóðfærið okkar
vantaði alla tóna
hljómurinn var holur
snertingin köld - ósönn.
 
Höfuð mitt hvílist við koddann.
Ég læt mig dreyma á ný
fallega drauma
um fallegan hlut.
 
 
Lesa má viðtalið í fullri lengd og fleiri ljóð hér.