SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir19. janúar 2024

HVAÐ ER KONA AF KONU FÆDD - GETUR HÚN ALDREI ORÐIÐ FRÁLS?

Um samband móður og dóttur í Sölku Völku eftir Halldór Laxness

(Greinin birtist fyrst í Tímariti Máls og menningar, 3. hefti 1992)

Þroskasaga

 

- nema það hafi verið stúlkan Sigurlína Jónsdóttir í henni sjálfri sem hún var að verja, - eða var hún að flýja hana? Kanski var alt líf hennar í senn bardagi fyrir málstað móður hennar og flótti undan honum (285).1

 


Í skáldsögum Halldórs Laxness er að finna margar og athyglisverðar lýsingar á sambandi móður og barns. Ein sú frægasta er líklega lýsingin á flóknu sambandi mæðgnanna Sölku Völku og Sigurlínu. Sannast þar hið fornkveðna að oft er erfitt samband á milli móður og dóttur - að minnsta kosti í bókmenntum. Hér á eftir ætla ég að beina athyglinni að sambandi Sölku Völku og Sigurlínu og sýna fram á hversu afdrifaríkt sambandið við móðurina, líf hennar og afdrif, eru á þroska og líf Sölku. Ég ætla að túlka Sölku Völku sem þroskasögu. Áhersla mín er á aðalpersónunni Sölku Völku og sambandi hennar við aðrar helstu persónur verksins. Afdrifaríkast tel ég vera samband hennar við móður sína Sigurlínu; í því felst lykillinn að persónuleika Sölku og þeim ákvörðunum sem hún tekur í lífi sínu.2

Salka Valka skiptist í tvær bækur: Þú vínviður hreini og Fuglinn í fjörunni. Nafnið á fyrri bókinni vísar til Krists og hefur víðast verið túlkað sem tilvísun til píslarvættis Sigurlínu. Skiptar skoðanir eru á hvert heiti seinni bókar vísar. Þannig vill Árni Sigurjónsson meina að það bendi á Arnald þar sem honum sé þrisvar sinnum í bókinni líkt við fugl og vegna þess að á sama hátt og fuglinn er markafyrirbæri í loftinu (ferðist milli lands og himins) sé Arnaldur markafyrirbæri í þjóðfélaginu (stéttarlega séð).3 Mér sýnist að höfundur leiki sér með fuglamyndmál í tengslum við bæði Sölku og Arnald. Fyrsta ávarp Steinþórs til Sölku er: „Ó litli fugl“ (16); Salka kallar fjörufuglana bræður sína og sögumaður segir flæðarmálið búa í vitund hennar (285). Salka er flæðarmálsfuglinn, staðarfuglinn: Fuglinn í fjörunni. Sveimhuginn Arnaldur er fuglinn sem kemur og fer: Farfuglinn. Þessar myndir eru síendurteknar. 

Fyrsti hluti fyrri bókar ber yfirskriftina „Ástin“ og má hún skiljast sem írónísk vísun í samband Sigurlínu og Steinþórs. Þeim hluta lýkur á nauðgunartilraun Steinþórs á Sölku. Þegar hann leggur til atlögu við barnið segir hann: „Nú er dagur ástarinnar runninn upp í allri sinni dýrð“ (109). Síðasta setning bókarinnar er: „Slík var þá hin fyrsta persónulega reynsla sem Salka Valka hafði af ástinni“ (109). Það má því allt eins sjá (ekki síður íróníska) tilvísun til Sölku í yfirskriftinni. Annar hluti fyrri bókar heitir „Dauðinn“ og vísar til dauða Sigurlínu og um leið til biturrar reynslu Sölku af dauða móður sinnar og þeirrar nöturlegu myndar sem dauðdagi hennar skilur eftir sig í huga barnsins. Ástin og dauðinn eiga eftir að móta persónu Sölku mest í seinni hluta verksins.

Seinni bókin, Fuglinn í fjörunni, skiptist einnig í tvo hluta. Sá fyrri heitir „Annar heimur“ og tengist sá titill meðal annars þeim orðum sem Salka viðhefur um Arnald, að hann sé af öðrum heimi. Eins og ég mun koma að síðar er það (drauma)heimur hinnar horfnu móður. Einnig vísar titilinn til þess heims sem Salka kynnist í gegnum Arnald og þau bæði í gegnum ástina. Seinni hlutinn heitir „Kjördagur lífsins“ og vísar til þeirrar ákvörðunar Sölku að senda Arnald burtu. Með þeirri ákvörðun velur hún lífið um leið og hún hafnar því hlutverki sem móðir hennar valdi og leiddi hana í dauðann. Ég hef gert þessar fyrirsagnir að umtalsefni þar sem ég tel að þær gefi vísbendingu um hneigð sögunnar; hvar áhersla hennar liggur. Um þetta eru skiptar skoðanir meðal þeirra sem hafa fjallað um Sölku Völku á prenti. Deilt er um hvernig meta skuli aðalpersónur verksins og þar með hvaða svið sögunnar séu mikilvægust.4 Að mínu mati hefur Salka Valka ótal svið sem hvert um sig bjóða upp á marga túlkunarmöguleika. Það svið sem mest hefur verið fjallað um fræðilega er hið pólitíska svið eða þjóðfélagsleg mynd verksins. Það hafa meðal annarra Peter Hallberg og Árni Sigurjónsson gert á ágætan hátt. Þegar áherslan er á þessu sviði verksins er Arnaldi skipað í aðalhlutverk þess. Ég tel hins vegar að Salka Valka sé aðalpersóna sögunnar og að yfirskriftir þær sem fjallað var um að framan styðji þá túlkun. Samkvæmt því legg ég áherslu á þroskasögu Sölku.

Salka Valka hefst á komu Sölku litlu og móður hennar til Óseyrar. Sagan fylgir óblíðum uppvexti hennar í þorpinu, um barns- og unglingsár og lýkur þegar hún er orðin fullþroska sjálfstæð kona. Þroski Sölku felst í aðskilnaði frámóður (í eiginlegri og óeiginlegri merkingu), niðurlægingu og uppreisn, ást og afneitun, svo fátt eitt sé nefnt. Þegar þroskaferill Sölku er skoðaður kemur í ljós að afdrifaríkasti þátturinn í mótun persónuleika hennar og sjálfsmynd er sambandið við móðurina. Sambönd hennar við Steinþór og Arnald eru einnig mikilvæg, en skuggi Sigurlínu eða minningin um hana fylgir Sölku ætíð og litar þessi sambönd. Þroski Sölku og sjálfsmynd hennar tengist alltaf afstöðu hennar til móður sinnar.


Valdaleysið

 

Ég vil ekki sjá að vera stelpa. Ég skal aldrei aldrei verða kvenmaður
- einsog hún mamma! (91).

 

Saga Sigurlínu hefur verið túlkuð af fræðimönnum sem tilbrigði við píslarsögu Krists með þeim öfugu formerkjum að píslir og dauði hennar hafi enga þýðingu og beri enga von með sér; að þau séu merkingarlaus. Sigurlína hefur þannig verið túlkuð sem týpa: Jesúgervingur.5 Augljóst trúarlegt myndmál í sögu Sigurlínu, svo og dauði hennar á páskum, þykja renna stoðum undir þessa túlkun. Trúarlegt myndmál er reyndar gegnumgangandi í öllu verkinu til enda, ekki bara í sögu Sigurlínu. Það er til að mynda einnig notað í ástarsögu Arnalds og Sölku þar sem Salka er í hlutverki Maríu og Arnaldur er í hlutverki Jesúsbarnsins og frelsarans. En túlkun á Sigurlínu sem jesúgervingi skiptir engu meginmáli hvorki varðandi túlkun á verkinu í heild eða á sögu Sigurlínu. Sigurlína er meira en týpa og líf hennar og dauði er alls ekki þýðingarlaus að öllu leyti því þau hafa úrslitaþýðingu varðandi dóttur hennar. Salka horfir upp á valdaleysi móður sinnar, málleysi hennar, þjáningar og píslir og ákveður að svona skuli ekki fara fyrir henni sjálfri. Hún ályktar að til þess að lifa af verði hún að samsama sig karlmönnum en afneita móður sinni - eða því sem hún stendur fyrir. Hún ákveður að bæla hið kvenlega og afneitar þar af leiðandi einnig ástinni.

Valdaleysi Sigurlínu er nátengt ófærni hennar í að tjá sig og nota tungumálið. Í Sölku Völku eru það Steinþór, Arnaldur og aðrir ráðandi karlmenn verksins sem hafa tungumálið á valdi sínu. Þegar Sigurlína er jörðuð neitar presturinn að gera uppáhaldssálm hennar að umtalsefni í líkræðunni. Árni Sigurjónsson bendir réttilega á að þar með sé henni varnað máls, hennar síðasta ósk hundsuð:

 

Þessi fáu orð sálmsins, sem hefðu getað orðið einhvers konar skilaboð Sigurlínu til eftirlifanda, innlegg í orðræðu staðarins, eru einskis metin og hún hverfur í eilífa þögn [...] Sigurlína er rúin orðinu, ofurseld þögninni, en þau örlög eru verst í sögu, og enginn dauði er eins eiginlegur sögu og þögnin.6

 

Þessi orð Árna um endalok Sigurlínu varða raunar líf hennar allt og benda á grundvallaratriði í allri sögu hennar. Þessi endalok eru vandlega undirbyggð allt frá upphafi verksins. Málleysi og valdaleysi eru fylgifiskar Sigurlínu alla tíð og þetta tvennt er samtvinnað.

Vafalaust eru vandfundnar aumkunarverðari og umkomulausari mæðgur en Sigurlína og Salka þegar þær koma í land á Óseyri peningalausar með eigur sínar í strigapoka og engan samastað í tilverunni. Þær eiga bara hvor aðra og á milli þeirra ríkir í upphafi fullkomin samheldni og sameining, að mati Sölku.

 

Mamma og Salka litla hennar mömmu voru auðvitað eitt og áttu altaf að vernda hvor aðra frá öllu íllu einsog þegar hægri höndin verndar hina vinstri, þær eiga báðar sömu sök (60).


Þessi samkennd móður og dóttur á eftir að rofna. Í gegnum sálfræði og sálgreiningu höfum við lært að slík samkennd móður og barns, þessi eining sem við upplifum í æsku við líkama móðurinnar, er fölsk samkennd sem rofnar þegar við komumst á legg. Að kljúfa sjálf sitt frá móðurinni er nauðsynlegt stig í þroskaferlis hvers einstaklings. En þær mæðgur Salka og Sigurlína eiga eftir að hafna hvor annari á harkalegri hátt en eðlilegt getur talist og megin ástæðurnar eru tvær. Í fyrsta lagi kemst ormurinn Steinþór í paradís einingarinnar og í öðru lagi á Salka eftir að horfa upp á margfalda niðurlægingu móður sinnar.


Sigurlínu er ætíð lýst sem þolanda sem tekur því sem að höndum ber án þess að mögla eða bera hönd fyrir höfuð sér. Þetta kemur skýrt fram í upphafi sögunnar. Sigurlína lendir á Óseyri án þess að hafa ætlað sér það, hún er „handlaunguð“ niður í bátinn úr skipinu og „sett“ þar niður á þóftu. Hjálparleysi hennar er svo enn ítrekað með vanhæfni hennar til að tjá sig. „Hún talaði veikum rómi sem hvað eftir annað hljóp í baklás af kvíða og óstyrk, saup hveljur og drap í skörðin“ (94-95). Málleysi Sigurlínu kemur gleggst í ljós gagnvart valdi karlmannanna sem oftar en ekki felst einmitt í tökum þeirra á tungumálinu; hæfileika þeirra til að tala hana í kaf jafnvel þótt innistæðan sé lítil. Þetta má meðal annars sjá í fyrsta sinn sem þær mæðgur hitta Steinþór. Steinþór talar „skýlaust og ákveðið um vald sitt“ (14), hann reigir sig og tilkynnir þeim að hann eigi „þessi fjöll og þennan dal og þennan sjó og þetta þorp og þetta fólk og þetta hús [...]“ (15) og enn heldur hann áfram: „Ég á hafið, ég á flæðarmálið og plássið og himininn“ (15). Eitt á hann örugglega og það er sjálfstraustið sem Sigurlínu skortir svo sárlega: „Ég er sá sem ég er“ (15). Lesandi sér vitanlega í orðum Steinþórs raus drukkins manns, en engu að síður reynist hann sá eini í þorpinu sem getur veitt þeim húsaskjól og þannig verða þær upp á hann komnar.

Steinþór notar tungumálið til að tjá vald sitt og hann hefur vald átungumálinu. Málrómur hans er sagður „sterkur og dimmur“ en einnig búa yfir „blæbrigðum sem stundum nálguðust ljóðrænu“ (13). Ennfremur er Steinþór: gæddur eðlisþætti [...] lotníngu hinnar landbundnu þjóðar fyrir túngu sinni [...] Hann hafði orð á sér fyrir að vera manna hnytnastur í orðalagi, álitinn sæmilega hagmæltur og í tali hans brá næstum altaf fyrir hinu háttbundna vængjataki skáldsins (92). Sigurlína er mállaus í táknrænum skilningi og allt að því mállaus í bókstaflegum skilningi. Hennar orðræða nær hvergi eyrum manna nema á samkomum Hjálpræðishersins en þar fá allir að tala, enda er þar um að ræða orðræðu sem gengur út á að játa valdaleysi sitt, játa á sig syndir og lofa Drottinn. Salka skynjar sterkt þetta valdamisvægi Steinþórs og Sigurlínu sem kristallast í tökum þeirra á tungumálinu og „hún hataði hann í þögn hennar“ (92).


Enn betra dæmi um vald tungumálsins er píslarganga mæðgnanna milli ráðamanna þorpsins í upphafi sögunnar. Í umkomuleysi sínu leita þær á náðir kaupmannsins, prestsins og læknisins í von um aðstoð. Alls staðar er þeim úthýst en þó ekki vífilengjulaust heldur með ótrúlegum málalengingum; þær eru talaðar í kaf, flæmdar burt með orðskrúði. Fyrst reyna þær fyrir sér í húsi kaupmannsins („tölugasta manns plássins“ eins og Salka nefnir hann síðar (275)). Þar tekur á móti þeim sonur kaupmanns, Ángantýr Bogesen. Þótt drengurinn sé ekki nema tíu ára gamall veit hann vel til sín. Hann byrjar á því að fræða þær mæðgur um hreysti sína og vald: „Ég á hest [...] Ég á þúsund krónur [...] Ég kann að reykja [...] Ég get drukkið brennivín [...]“ o.s.frv. (32-35). Þessi ræða hans, sem er eins og skopfærsla á ræðu Steinþórs litlu fyrr, endar síðan á fúkyrða- og formælingaflaumi sem hrekur þær mæðgur burt; Sölku með hendur fyrir eyrum og Sigurlínu biðjandi fyrir sér. Í húsi prófastsins ganga þær fram fyrir húsráðanda sem birtist þeim „einsog hann kæmi ofan af háum prédikunarstóli“ (36). Prófastur tekur til máls og „rödd hans [var] öll í einum tóni, köld og hol, og virtist koma einhversstaðar ofanúr höfðinu“ (37). Hann bókstaflega hellir yfir þær hinum aðskiljanlegustu „rökum“ fyrir því að hann geti þeim enga aðstoð veitt og: „Gagnvart slíku flóði af virðulegu tali stóð konan alveg berskjölduð“ (39). Þær hörfa burtu frá prófasti sem „stóð einnig á fætur í allri sinni tign og öllum sínum virðuleik, og hann var að minsta kosti þrjár álnir á hæð“ (40). Í húsi læknisins nær þessi grái leikur með tungumálið þó hámarki þegar læknirinn lætur algerlega óskiljanlegar setningar dynja á mæðgunum og endar á latínusúpu: „Tinctura digitalis aetherea, Tinctura nucis vomicae, Tinctura strophanti, Salicylas physostigmicus, Chloretum ammonicum sublimatum, Hexamethylentetraminum, Acidum salicylicum, Acidum sulphuricum, Acidum nitricum. ... Ég veit þér skiljið mig alveg fullkomlega (44). Eftir hástemmda „ljóðræna“ viðbót við þessa ræðu læknisins er Sigurlínu allri lokið.

 

Sigurlína hafði ekki staðið jafn gersamlega ráðalaus uppi gagnvart neinu sem hún hafði heyrt þennan morgun, einsog hún stóð nú. Hér stóð hún sem sagt uppi alveg einsog þvara. Málfæri þessa manns og hugsanagángur var að minsta kosti jafn óskiljanlegt og hin dularfulla lykt uppúr krukkum hans (44).

 

Sigurlína og Salka fara erindisleysu á fund valdamanna þorpsins og eru þar með ofurseldar valdi og vilja Steinþórs sem þegar öllu er á botninn hvolft er sá eini sem reynist fær um að hjálpa þeim. En hann vill líka fá sitthvað fyrir snúð sinn.

 

Sektarkenndin


Steinþór Steinsson er sérlega flókin persóna frá hendi höfundar. Samtímis því að vera grófur og fráhrindandi hefur hann seiðmagnað aðdráttarafl sem mæðgurnar eiga báðar eftir að kynnast. Þetta er mikilvægt atriði til skilnings á togstreitunni í viðhorfi Sölku til hans. Meðan Salka er barn hatar hún hann fyrir að ræna sig móðurinni. Samheldni og samkennd mæðgnanna sem lýst er í byrjun sögunnar rofnar skyndilega fyrir tilstuðlan Steinþórs. Hann tekur Sigurlínu burt úr rúminu frá dóttur sinni strax fyrstu nóttina. Salka vaknar og upplifir aðskilnaðinn á sársaukafullan hátt.

 

Og hún ætlaði að halla sér uppað brjósti móður sinnar að nýu. En brjóst móður hennar var horfið. Telpan reis upp við dogg og þreifaði fyrir sér í rúminu við hlið sér, en rúmið var tómt. Móðir hennar var farin. Stundarkorn horfði telpan útí myrkrið slegin lömun, og ósjálfrátt mynduðu varir hennar sig til að kalla: mamma, mamma. En þetta óskiljanlega orð fæddist andvana á vörum hennar, sem betur fór. Því hver ansar þessu orði ef maður kallar það útí myrkrið í skelfingu sinni? Einginn. Sum orð eiga ekki hljómgrunn nema í manni sjálfum. (60)

 

Í lýsingunni á þessu atviki er lögð er áhersla á að þarna standi Salka á mikilvægum tímamótum. „Að verða fullorðinn er að komast að raun um að maður á ekki móður, heldur vakir einn í myrkri næturinnar“ (61). Upp frá þessu eru Salka og Sigurlína ekki eitt heldur „tvær stúlkur“ og það er hugmynd sem Sölku finnst „mikil fjarstæða“ þegar hún heyrir hana fyrst kvöldið áður en hún vaknar ein í rúmi sínu.

Strax í upphafi myndast þríhyrningssamband á milli Steinþórs, Sigurlínu og Sölku. Steinþór kemur sem friðarspillir inn í einingu móður og barns og vekur upp afbrýðisemi barnsins. Þegar Steinþór tekur móðurina í fyrsta skipti í fangið „tók sú litla að lumbra á honum. Þú ert ljótur og vitlaus, láttu hana mömmu baravera og snáfaðu burt frá okkur“ (16). Síðar þegar hann hefur gerst hættulegri keppinautur barnsins um athygli móðurinnar bera allar hennar hótanir honum til handa keim geldingaróskar: „Elsku mamma, við skulum fá okkur lykil fyrir næstu nótt og aflæsa svo hann komist ekki inn. Mamma, við skulum fá okkur stóra sveðju“ (59); „Þú ert svo ljótur og vitlaus að ég gæti bara skorið af þér hausinn“ (100). Fljótlega snýst þó vörn Sölku fyrir móður sína uppí sjálfsvörn hennar gegn „ástleitni“ Steinþórs. Upp rís „ástarþríhyrningur“ sem ber keim af sifjaspellum og bitnar harðast á saklausu barninu. Þótt Steinþór sé ekki faðir Sölku í bókstaflegri merkingu þess orðs, er hann „trúlofaður“ móður hennar (eins og Salka sjálf kemst að orði, 99) og því n.k. félagsleg og sálfræðileg föðurímynd hennar. Sjálfur kallar Steinþór Sölku einu sinni stjúpdóttur sína (99). Það gerir hann þó í háði og tilfinningar hans til Sölku eru allt annað en föðurlegar. Salka hatar Steinþór sem girnist hana og hún er varnarlaus gagnvart hatri og afbrýðisemi móður sinnar. Sektarkenndin sem af þessu spinnst magnast við það að Salka tekur við gjöfum frá Steinþóri og veit ekki nema að ein slík gjöf, hringurinn, sé stæðan fyrir sjálfsmorði Sigurlínu. Sú sama gjöf er reyndar mjög mikilvæg í afstöðu Sölku til Steinþórs. Í tíu ár stendur Salka í þeirri trú að hringurinn sé dýrgripur gefinn af heilum og einlægum hug sem tákn ástar. Vegna þess og hins að hún veit ekki nema að Steinþóri hafi tekist að koma fram vilja sínum á henni þegar hann réðst á hana barnunga finnst Sölku að hún „tilheyri“ honum á einhvern hátt. Hún losnar ekki úr þeirri tilfinningalegu flækju fyrr en Steinþór upplýsir að hringurinn sé svikinn og að hann hafi ekki komið fram vilja sínum sökum ölvunar. Þá fyrst verður Salka frjáls undan valdi Steinþórs - og getur gefið sig Arnaldi.

Halldór Laxness lýsir á meistaralegan hátt hinu flókna þríhyrningssambandi Sigurlínu, Steinþórs og Sölku. Sálarstríði barnsins eru gerð góð skil. Örvænting hennar og hjálparleysi gagnvart kynferðislegri áreitni Steinþórs svo og gagnvart vanmáttugri bræði og afbrýðisemi Sigurlínu, er komið til skila á magnaðan hátt. Í slíkri aðstöðu er það ætíð barnið sem tapar, svikið af báðum mótleikurunum. Salka hefur engan til að snúa sér til í vandræðum sínum. Eftirfarandi klausa lýsir tilfinningum hennar þegar Steinþór „daðrar“ við hana ellefu ára gamla:

 

Harmleikur þessarar stundar var fólginn í vandræðum barns sem er ekki einusinni orðin kona í draumum sínum. Hún varð óttaslegin og gleymdi öllu sínu hatri. Hjarta hennar tók að berjast um af slíkum tryllíngi að hún heyrði taka undir í fjöllunum, andlit hennar hvítnaði upp, knjáliðirnir fóru að titra og gerðu sig líklega að bregðast með öllu. En það var ekki nema svipstund sem barnið horfði þannig titrandi á manninn, trufluðum óttaslegnum augum, - í næsta vetfángi tók hún snart viðbragð og var hlaupin sem fætur toguðu heimað bænum.
 Ætlaði hún að hlaupa í faðm móður sinnar og gráta einsog önnur börn þegar þau eru óttaslegin? (101).

 

Móðurfaðmurinn stendur ekki lengur opinn fyrir Sölku og hún hleypur sem leið liggur inn í fjós og grætur þar ein - og ekki er einu sinni huggunar að vænta hjá kúnni því Salka og hún „voru aungir vinir.“ Þrátt fyrir ungan aldur sinn veit Salka sem er að það er engrar huggunar að vænta frá móður hennar í þessu máli. Enda líður ekki á löngu áður en Sigurlína leitar hana uppi í fjósinu og heimtar skýringar á samskiptum hennar og Steinþórs:

 

Hvað var hann Steinþór að vilja þér? Ég sá ykkur útum gluggann. Hann fékk þér eitthvað.
   Hann gaf mér bara tvo penínga, sagði telpan óstyrk í máli, roðnaði og blygðaðist sín meir en þó glæp hefði verið ljóstað upp um hana, því hún fann af eðliskend að með því að veita viðtöku þessum peníngum hafði hún stofnað til eljurígs við móður sína.
   Svei attan, skömmin þín, að vera að taka við peníngum af karlmanni og ekki orðin mannbær, - og það af kærastanum hennar móður þinnar. Mínkastu þín og fáðu mér þá strax! (102).


En þótt Salka skynji að hún sé á einhvern hátt orðin keppinautur móður sinnar,um eitthvað sem er bæði skilningi hennar og vilja ofvaxið, reynir hún af öllum mætti að verja málstað móður sinnar. Þessi togstreita ástar og haturs á móðurinni á eftir að fylgja Sölku sem skuggi út söguna.

 

Dagný Kristjánsdóttir hefur í ritgerð um „Dýrasögu“ eftir Ástu Sigurðardóttur, greint myndir og mál og myndmál sögunnar og sýnt fram áhvernig höfundur kemur til skila ógnvænlegri sögu af sifjaspellum og kynferðislegri misnotkun á sex ára stúlkubarni.7 Þótt „Dýrasaga“ og Salka Valka séu gjörólík bókmenntaverk má sjá athyglisverðar samsvaranir hvað þetta ákveðna efni varðar. Í báðum tilvikum er um að ræða mæður sem eru þrautpíndar konur og fullar af sjálfsfyrirlitningu. Eins og fjallað var um hér að framan á Sigurlína erfitt með að tjá sig. Móðirin í „Dýrasögu“ er flámælt og maður hennar hæðist að því hvernig hún talar. Hún er einnig: „hvorki líkamlegur né andlegur jafnoki stjúpföðurins en samt reynir hún að „verja krakkann fyrir honum“ - með fortölum á daginn, með því að ganga á milli þeirra þegar stjúpfaðirinn „tekur í“ barnið á nóttunni.8

Grundvallarmunurinn á „Dýrasögu“ og Sölku Völku felst vitanlega í því að annars vegar er um að ræða smásögu en hins vegar skáldsögu. „Dýrasaga“ dregur upp hnitmiðaða mynd, persónur eru dregnar sterkum, einföldum dráttum. Mynd stjúpans er ógnvekjandi og hræðileg, mynd af hrotta. Galdur Halldórs Laxness er hins vegar sá að jafnfram því að lýsa Steinþóri sem hrotta og ofbeldismanni, tekst honum að sýna á honum aðrar og mannlegri hliðar og vekja þannig upp samúð lesandans. Svo vel tekst Halldóri upp í þessari tvíræðu persónulýsingu að þegar Steinþór ræðst á Sölku í þeim tilgangi að nauðga henni, hefur Peter Hallberg þetta að segja um ódæðið:

 

Ungmeyna Sölku Völku þráir hann af blindri eðlisfýsn. Þegar hann er orðinn einn með barninu og er í þann veginn að taka hana með valdi, lætur hann uppi fögnuð sinn og fram á varir hans líða „sundurlausar upphrópanir“, einskonar óður eðlishvatarinnar.9

 

Það sem Hallberg kallar „óð eðlishvatarinnar“ eru þau orð sem Steinþóri tekur sér í munn þegar hann ræðst á Sölku og með tilliti til kringumstæðna kýs ég fremur að kalla þau fyllerísraus í grófari kantinum:

 

Kópi, ég hef fundið lyktina af blóðinu í þér í allan vetur. Það er einsog stórstraumsfjara. Það er vegna þín sem eldur lífsins logar í mínum dauðlegu beinum sem ég hata þángaðtil kalkið í þeim er orðið að dufti á botni hafsins. Nú er dagur ástarinnar runninn upp í allri sinni dýrð (109).


Listræn tök Halldórs Laxness á persónusköpun, hæfileiki hans til að vekja samúð með ógeðfelldustu persónum sínum og að sýna skuggahliðar á sínum geðfelldustu persónum, getur orðið til þess að rugla lesendur dálítið í ríminu. Hallberg kýs að túlka voðaverk Steinþórs sem „blinda eðlishvöt“ og frýja hann þannig byrgð ágerðum sínum. Flestir (ef ekki allir) aðrir sem skrifað hafa um Sölku Völku kjósa að leiða hina kynferðislegu áreitni Steinþórs og nauðgunartilraunina hjá sér (líkt og þeir sem skrifa um Heimsljós skirrast við að taka afstöðu til atviksins þar sem Ólafur ljósvíkingur hefur samfarir við ófermda stúlku sem hann átti að leiðbeina í kristindómi). En það er þessi áreitni sem framar öðru klýfur samband móður og dóttur, um leið og hún gróðursetur í Sölku sektarkennd og einsemd sem hún verður að bera alla tíð. Það er þessi áreitni sem staðsetur Sölku utan við samfélagið, rænir hana móðurinni og á mestan þátt í því að Salka afneitar hinu kvenlega. Það er fyrst í sambandinu við Arnald sem Salka byrjar að sigrast á einsemd sinni og tekst að endurheimta kvenleika sinn.

 


Hræðslan við ástina

 
Ég er bara hrædd.
Ertu hrædd við sjálfa þig Salka? hvíslaði hann.
Þá tók hún hendurnar frá andlitinu og svaraði æst:
Nei, nei, nei. Ég er hrædd við hana mömmu (414).

 

Samband Sölku og Arnalds verður til þess að frelsa Sölku undan hinni skökku sjálfsmynd sem hún hefur þroskað með sér frá æsku. Í gegnum ástina lærist henni að hún er þrátt fyrir allt kvenmaður. Það er táknrænt að þegar Salka heimsækir Arnald morguninn eftir að hún hefur losnað undan „álögum“ Steinþórs svarar hún, þegar hún er spurð hver hún sé, með einu orði sem hún hefur aldrei notað um sig fyrr: „Stelpa“ (364). En þótt Salka viðurkenni kynferði sitt um leið og hún játast ástinni er hún enn minnug örlaga móðurinnar. Tilfinningar Sölku í garð Arnalds, sérstaklega hinar kynferðislegu tilfinningar sem ástarlot hans vekja með henni, fylla hana ótta sem á rót sína að rekja til minningarinnar um niðurlægingu móðurinnar. Niðurlæging Sigurlínu náði hámarki í hinni afskræmdu mynd af „ást“ hennar og Steinþórs og Salka er hrædd um að „týna sjálfri sér“á sama hátt og Sigurlína. Þess vegna verður hún að stíga eitt skref til viðbótar til að öðlast sjálfstæði og heilsteypta sjálfsmynd: Hún verður að senda Arnald frá sér.

Arnaldur er ekki síður en Steinþór skemmtileg persónusköpun frá hendi höfundar. Við sjáum hann aðallega frá tveimur sjónarhornum: Hinu íroníska sjónarhorni höfundar sem gerir mikið grín að hegðun hans og hugmyndum og hins vegar með augum Sölku. Það er í gegnum ástfangin augu Sölku sem lesandi öðlast samúð með persónunni Arnaldi. En eins og hún sjáum við einnig í gegnum hann sem sveimhuga og loftkastalasmið. Arnaldur er móðurlaus og eins og gildir um flesta aðra móðurleysingja í verkum Laxness stjórnast gerðir hans sífellt af móðurleit10 - og það sér Salka. Þegar Salka hittir Arnald í fyrsta sinn barn að aldri, segir hann henni frá draumi sínum um móðurina. Móðir hans dó þegar hann var smábarn en hann hefur neitað að viðurkenna það og telur sjálfum sér trú um að hún hafi farið burt og búi „lángt, lángt fyrir handan fjallið bláa“ (74). Hann trúir Sölku fyrir þrá sinni eftir móðurinni: „ég var altaf að gráta, af því mig lángaði svo til mömmu“ (74).

 

Mér finst að afi minn og Herborg hafi einhvernveginn numið mig á brott úr landinu þar sem ég á heima, og haldi mér hér í fángelsi til að fela mig fyrir mömmu (75).
Stundum finst mér ég vera huldudreingur, sem hafi verið hrakinn burt úr álfheimum út meðal manna og tekinn frá mér skygnigáfan um leið, svo ég sé ekki einusinni framar með augunum minn rétta heim (76).

 

Arnaldur upplifir aðskilnaðinn frá móður sinni sem brottrekstur úr Pardís (álfheimum) og minnir það á reynslu Sölku sem fjallað var um hér að framan.Þegar Arnaldur, mörgum árum síðar, snýr aftur til Óseyrar sem kommúnisti og boðar fagnaðarerindið á fundi hjá verkamönnum stendur Salka upp og segist kannast við „draumarugl“ hans. Framtíðarríkið sem Arnaldur boðar þorpsbúum minnir Sölku á „undraland" hans „hinumegin við fjallið bláa“. Síðar þegar Salka hefur gengið í verkalýðsfélagið og kaupfélagið og „frelsast til trúar“ Arnalds, verður hann í augum hennar „jafnframt sá maður sem hefur mentað álfkynjuðustu drauma sína og mun í fulltíngi þeirrar mentunar sigra plássið og gera aðra líka sér“ (379). Þannig samtvinnar Salka móðurleit Arnalds og þann sósíalisma sem hann boðar.

Það sem Arnaldur laðast að í fari Sölku er hversu nátengd „veruleikanum“ hún er að hans mati. Nálægt henni finnst honum annað fólk verða hégómlegt. En jafnframt sér hann í henni tengsl við draumaheim sinn - við móður: „Salka, þú hefur aungva hugmynd um, hvað ég er hjálparvana - gagnvart ástinni. Taktu mig að þér einsog óvitabarn Salka, og lofaðu mér að vera hjá þér“ (409). Þannig togast á í Arnaldi„veruleikinn“ og draumaheimurinn, en hann bregst illa við þegar Salka minnir hann á drauminn:

Arnaldur, sagði hún að lokum. Manstu eftir konunni fögru á bakvið fjallið bláa? Þú talaðir svo oft um hana áðurfyr. Hann hætti snögglega að teikna og leit á hana næstum óttasleginn, síðan muldraði hann eitthvað á þá leið hvaða ekkisens vitleysa væri komin í hana, en þó var greinilegt að hann átti í stríði við leynilega heri sem sóttu að vitund hans (408).

 

En þótt Arnaldur segist laðast að Sölku vegna þess að hún sé tengd veruleikanum er Salka í raun „ekki nógu mikill draumur“ fyrir Arnald, eins og Steinþór kemst að orði (440). Hún er of mikill veruleikur. Þegar hann á þess kost að komast til Ameríku nær draumurinn aftur yfirhöndinni. Salka skynjar strax hvað brýst um í Arnaldi og hún veit hversu veikgeðja hann er. Því „leysir hún hann úr viðjum“ og gefur honum peninga svo hann „komist til landsins bakvið fjallið bláa“ (449). Þegar hann maldar í móinn svarar hún: „Jú Arnaldur, þetta er mitt hlutverk í lífinu: að biðja þig að fara - í dag. Til þess var ég fædd; til þess að þú færir áðuren vetrar“ (449). Þessi orð Sölku öðlast dýpri merkingu þegar þess er gætt að þær stundir hafa komið í sambandinu við Arnald að hún hefur óttast ástina, óttast áhrif hennar á sig. Hún minnist örlaga móður sinnar og hræðist að hún tapi sjálfri sér; verði bara partur af Arnaldi. Mitt í vímu ástarinnar blundar minningin um Sigurlínu í vitund Sölku:

 

Því var það eina nótt að hún spyr altíeinu uppúr dvalanum óttasleginni röddu, einsog svefngánga sem vaknar í standbergi: Arnaldur, hvernig ertu búinn að gera mig? Ég þekki mig ekki leingur sjálfa. Hvað verður um mig ef þú skyldir fara frá mér? Og þegar hann svaraði aungu, endurtók hún enn óttaslegnari en fyr: Hvað verður um mig ef þú skyldir fara frá mér? Og þegar hann svaraði enn ekki, kastaði hún sér yfir hann í örvílnan og grúfði andlitið leingi uppvið brjóst hans þar sem breytíng lífsins gerðist í háttbundnum slögum (429).
   Áður en þú komst Arnaldur, þá svaf ég einog reyndar alt í þessu plássi. Svo komst þú og vaktir mig. En síðan ég vaknaði til þín, þá er ég bara partur af þér og ekkert sjálf. Þú ert lífið mitt (432).

 

Þótt þessi orð megi skiljast sem fögur ástarjátning býr einnig í þeim óttinn um að hafa tapað sjálfum sér. Salka veit hverjar afleiðingar það getur haft að vera bara til fyrir aðra - og vera ekkert sjálfur. Það er lærdómurinn sem hún hefur dregið af lífi móður sinnar. Í þeirri ákvörðun Sölku að senda Arnald burtu felst því sjálfstæðisyfirlýsing. En þó að Salka hafi lýst yfir eigin sjálfstæði með því að senda Arnald burtu, má auðveldlega sjá í þessum sögulokum ákveðinn ósigur Sölku. Því verður ekki neitað að hún missir þann sem hún elskar og stendur enn einu sinni ein. Að lokum: Hvaða möguleika á ástarsamband Sölku og Arnalds? Þótt Sölku tækist að yfirvinna hræðslu sína við örlög móðurinnar - og tækist að kljúfa ástina frá dauðanum, má spyrja hvort hún eigi einnig möguleika á að yfirvinna skaðann sem Steinþór hefur unnið? Getur hún lært að líta á karlmenn sem jafningja í stað þess að líta á þá sem samsetning af óvita og leiðtoga? Er ekki Arnaldur of líkur Steinþóri þegar öllu er á botninn hvolft?

 

Aftanmálsgreinar
 
1 Allar tilvísarnir í Sölku Völku vísa til 3. útgáfu Helgafells 1959.
2 Greinin er að mestu leyti unnin upp úr kafla í óbirtri kandídatsritgerð minni, „Móðurmynd íslenskra bókmennta“, Háskóli Íslands, júní 1989 (eintak á Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni). Greinarheitið er fengið úr Sölku Völku, bls. 285.
3 Árni Sigurjónsson. „Hugmyndafræði Alþýðubókarinnar.“ Tímarit Máls og menningar, 1. hefti, 1982, bls. 59.
4 Hér verður ekki fjallað nánar um mismunandi viðhorf hvað þetta varðar en ég vísa til ritdeilu Árna Sigurjónssonar og Silju Aðalsteinsdóttur í Tímariti Máls og menningar 1., 2. og 3. hefti 1982.
5 Sjá til að mynda Peter Hallberg. Hús skáldsins. Um skáldverk Halldórs Laxness frá Sölku Völku til Gerplu. Reykjavík: Mál og menning, 1970, bls. 159-168; og Árna Sigurjónsson. Laxness og þjóðlífið II. Frá Ylfingabúð til Urðarsels. Reykjavík: Vaka-Helgafell, 1987, bls. 42-47.
6 Árni Sigurjónsson. Laxness og þjóðlífið II. Frá Ylfingabúð til Urðarsels. Reykjavík: Vaka-Helgafell, 1987, bls. 47.
7 Dagný Kristjánsdóttir. „Myndir.“ Tímarit Máls og menningar, 2. hefti, 1986, bls. 168-182.
8 Sama stað, bls. 177.
9 Peter Hallberg. Hús skáldsins. Um skáldverk Halldórs Laxness frá Sölku Völku til Gerplu. Reykjavík: Mál og menning, 1970, bls. 155-156.
10 Ég bendi til dæmis á Ólaf Kárason og Þormóð Kolbrúnarskáld, en um móðurleit hins síðarnefnda hefur Dagný Kristjánsdóttir skrifað ágæta grein, „Aldrei gerði Kristur sálu Þórelfi, vorri móður...“ Tímarit Máls og menningar 3. hefti. 1988, bls. 301-321.

 

Tengt efni