SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir23. janúar 2024

RÆÐA VÖLU HAUKSDÓTTUR við afhendingu Ljóðstafs Jóns úr Vör 2024

Vala Hauksdóttir flutti ræðu við afhendingu Ljóðstafs Jóns úr Vör sem fram fór á sunnudaginn var. Hún veitti Skáld.is góðfúslegt leyfi til að birta ræðuna en vinningsljóðið má lesa hér.

 

 

 Ég ætla með ykkur í smá ferðalag um landið svo þið kynnist mér og svo fáið þið að læra eina galdraþulu áður en ég les ljóðið mitt. 

 
Ég fæddist á Húsavík og þar var ég örugglega ekki nema þriggja ára þegar ég var farin að kynna mig undir nafninu Bara Vala - því fyrir aldamót hétu fáar konur Vala, þær hétu Valgerður, Valborg eða Valdís. En ég er Bara Vala Hauks.
 
Flest æskuárin bjó ég á Hvanneyri í Borgarfirði þar sem þótti eðlilegt eins og annars staðar til sveita að spyrja börn hverra manna þau væru. Þá þótti mér aldrei nógu fínt að segja að mamma og pabbi væru ekki úr sveit svo ég rakti ættirnar alltaf lengra, á Hóla í Hornafirði, í Fljótshlíðina eða vestur á Bíldudal. Í dag er ég hins vegar stolt að segja frá því að mamma mín ólst upp hérna á Kópavogsbrautinni og pabbi fæddist reyndar líka í Kópavogi (en það var nú bara af því að fæðingardeildin í Reykjavík var full þann daginn).
 
Eg er stolt í dag en ég var svo feimin þegar ég laumaði fyrst ljóði í þessa keppni fyrir þremur árum. Fannst ég hljóta að virðast ægilega grunsamleg að labba með bréf í póstkassann í Vík í Mýrdal áður en ég keyrði heim úr vinnunni í sveitina sem ég hafði þá reist mér undir Eyjafjöllum. Mig langaði líka helst að láta mig hverfa þegar ég sendi einu sinni smásögu í samkeppni fyrir fólk af landsbyggðinni en sú saga varð svo hluti af leikverki Lakegouse Theatre Company sem var sýnt á listahátíð í Reykjavík. Ég gaf mér litlar vonir þegar ég skilaði inn sýnisbók með umsókn í mastersnám við ritlist og öskurgrét í margar fallegar mínútur þegar ég fékk inngöngu. Svo tókst þetta, þriðja ljóðið sem ég sendi í þessa keppni er sigurljóð!
 
Ég vildi að það væru fleiri svona keppnir. Ekki til að vinna þær heldur vegna þess að þetta er svo góður hvati til þess að koma sér út fyrir örugga veggi skúffunnar. Þegar það var ekki lengur pláss í minni skúffu þá lærði ég galdraþulu sem ég hef sannreynt og langar að deila með ykkur: Áður en ég skila einhverju frá mér segi ég upphátt við sjálfa mig: Mér finnst þetta gott. Ef þið prófið þetta heima þá skuluð þið muna að galdurinn virkar bara ef þið segið hann upphátt: Mér finnst þetta gott!
 
Þá skiptir ekki máli hvaðan þú ert eða hverra manna. Það skiptir máli að þú standir með þér í því sem færir þér gleði - og áður en þú leyfir umheiminum að dæma verkin þín þarftu að segja framtíðarsjálfinu: Það þýðir ekkert að gera lítið úr þér! Þú ert ánægð með þetta. Þér finnst þetta gott. Þú sagðir það! Þá ratar þetta á endanum til einhvers sem er sammála þér, og það sem er mikilvægara, er að þú verður ekki eins viðkvæm fyrir litlu ósigrunum á leiðinni.
 
Ljóðið mitt heitir Verk að finna og ég ætla að leyfa því að tala fyrir sig.

 

 

Tengt efni