SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Magnea Þuríður Ingvarsdóttir 7. apríl 2024

AÐ REISA VIÐ BRÁKAÐAN REYR

Það er alltaf þörf á að minna á rétt þinn til þess að lifa þínu lífi í friði og ró. Eins og til dæmis réttindi til þess að vera manneskja sem ekki er fótum troðinn af öðrum. Að vera ekki á flótta undan stríðsóðum valdaöflum sem hika ekki við að hirða allt af þér og hrekja á flótta og að eiga fótum sínum fjör að launa bara til að halda lífi. Vertu hugrakkur og láttu heyra í þér.

Á heimasíðu Stjórnarráðsins segir svo.: Mannréttindi eru réttindi sem í eðli sínu eiga við um allar manneskjur, hverrar þjóðar sem þær eru, óháð búsetu, kyni, þjóðerni, litarhætti, trúarbrögðum, tungumáli eða annarri stöðu. Við eigum öll jafnan rétt til að njóta mannréttinda án mismununar. Þessi réttindi eru fjölbreytt en samtengd og oft óaðskiljanleg. 

Lilja Björnsdóttir hafði hugann við mannréttindi, þess bera ljóð hennar vitni. Lilja sem fædd var á Kirkjubóli í Bæjarnesi á Barðarströnd árið 1894 fyrir 130 árum gaf út sínar ljóðabækur sjálf. Fyrsta bókin hennar ,,Augnabliksmyndir" kom út árið 1935. Síðar komu út Vökudrumar 1948 og Liljublöð árið 1952. Í ljóðunum hennar Lilju lesum við hugleiðingar hennar um mannréttindi. ,,Þekking er vald, en valdi þarf að beita,/viljann að styrkja, sannleikskjarna leita,/viskunni að beita í þágu kærleikskennda./Kærleikans öfl til ljóssins heima benda." og eins og ég les út úr þessum hendingum þá er okkar þekking okkar vald og í annarri lausavísu ,,Vor auður er dáðríki drósa./Það dæmir mín sannfæring./Og kvöl er að meiga ekki kjósa/konurnar inn á þing." Einmitt og þessi orð hennar voru hvatningarorð til kvenna, að huga að sínum réttindum og svo þessi orð ,,Andans svölun sönn er það,/sem að nokkrir skrifa:/ef ég sæi ei bók né blað,/brysti þrek að lifa." Það er einmitt það. Að hafa aðgang að ritföngum, setjast niður og koma frá sér hugleiðingum sínum, stappa svo í sig stálinu og gefa út fyrir eigin kostnað er áræðni og þor. Tala nú ekki um ef þú ert að fjalla um mannréttindi eða kvenréttindi á þessum tímum.  Lilja hafði þetta þor og hún hafði samúð með lífskjörum og hún var ávallt tilbúin til þess að ,,reisa við brákaðan reyr" sjá minningargr.                                                                                          

Mikið var nú gott að lesa hugleiðingar hennar Lilju sem fæddist fyrir 130 árum síðan svo snemma á sunnudagsmorgni. 

Eigið góðan og friðsælan dag

Kveðja Magnea

Morgunblaðið - 219. tölublað (29.09.1971) - Tímarit.is (timarit.is)

Vestfirskir listamenn: Lilja Björnsdóttir | Bæjarins Besta (bb.is)

Skáld.is (skald.is)

 

 

Tengt efni