ÞAÐ SEM HÓMER ÞAGÐI UM - PENELÓPUKVIÐA
Kanadíska skáldkonan Margaret Atwood, sem kom hingað til lands á bókmenntahátíð 2004, er höfundur m.a. hinnar víðfrægu skáldsögu Sögu þernunnar (The Handmaid´s Tale). Um svipað leyti og Atwood kom til Íslands hafði hún unnið með goðsöguna um Penelópu, hina tryggu eiginkonu Ódysseifs sem sagt er frá í kviðu Hómers, og túlkað hana upp á nýtt út frá femínísku sjónarhorni í bók sem nefnist Penelópukviða.
Hetjan og kona hans
Þau hjónin Ódysseifur og Penelópa hafa verið yrkisefni skálda, myndlistarmanna og rithöfunda um aldir og Hómer dregur upp þá mynd að hinn ráðagóði Ódysseifur sé hetjan sem sigraði Tróju og batt þar með enda á blóðugt stríð, og Penelópa sé dyggðin uppmáluð, fyrirmyndareiginkonan og vefarinn mikli. Meðan Ódysseifur var í burtu áratugum saman beið hún þolinmóð heimkomu hans og varðist ágangi biðlanna sem lögðu undir sig höllina, kýldu vömbina og kneyfuðu öl. Og þegar Ódysseifur, klækjameistarinn kunni sem fékk alla á sitt band með kliðmjúkri röddu, sneri loksins heim, þekkti Penelópa hann ekki aftur.
Lurkur til að berja með aðrar konur
Í Penelópukviðu Atwood kveður við allt annan tón. Penelópa talar til samtímans úr dauflegum Hadesarheimum og þernur hennar tólf mynda kór, líkt og tíðkaðist í leikritum Forngrikkja, „sem þylur og syngur og gerir að umtalsefni tvær spurningar sem hljóta að vakna við nákvæman lestur Ódysseifskviðu. Hvað varð til þess að þernurnar voru hengdar og hvað var Penelópa að aðhafast í raun og veru?“ (8).
Í árþúsundir hefur Penelópa beðið þess með óþreyju að segja sögu sína og þernanna tólf sem voru hengdar allar með tölu þegar Ódysseifur sneri aftur. Hún er ósátt við opinbera útgáfu goðsagnarinnar sem náð hefur fótfestu um allan heim þar sem Penelópa er túlkuð sem tákn tryggðar og þolinmæði, „lurkur til að berja með aðrar konur“ (10). Henni finnst tímabært að sannleikurinn komi í ljós og hæfileikar hennar fái að njóta sín. Í fjarveru Ódysseifs þarf Penelópa á öllu sínu að halda til að glíma við margskonar vandamál heima fyrir, s.s. ráðríka fóstru, þjófótta þræla og hyskið þjónustufólk fyrir utan uppeldi einkasonarins, hins „kaldeyga“ Telemakkusar (59). Hún stjórnar ríki Ódysseifs af visku og kvenlegri lagni; einhver verður jú að gæta bús og barna þegar karlmennirnir eru í stríði og ævintýraleit. En hana skortir festu og mannskap til að reka biðlana af höndum sér. Þá grípur hún til þess ráðs að fá yngstu og fallegustu þernurnar í lið með en brátt verða ofbeldi og nauðganir daglegt brauð í höllinni (93) og ráðagerðin endar með skelfingu.
Goðsaga verður til
Þernurnar fá líka að segja sína hlið á goðsögninni í Penelópukviðu en það gera þær í bundnu máli, sem ekki hefur verið þrautalaust að þýða á íslensku en Sigrún Á. Eiríksdóttir gerir það með sóma. Þernurnar koma inn í frásögn Penelópu af og til, stíga fótnettar fram og syngja saman sippubandssöng, harmsöng og dægurlag, sveitaljóð, sjómannasöng og ballöðu, leika leikrit, flytja fyrirlestur, taka réttarhöld upp á myndband, syngja ástarsöng og fara með lokaorð.
Kveðskapur þernanna er hljómfagur, þótt ekki standi hann alltaf rétt í hljóðstöfunum, tregaþrunginn og harmrænn eins og örlög þeirra. Hann tengist bæði frásögn Penelópu og ævintýrum hins ráðagóða Ódysseifs en framan af berast allskonar fréttir af honum: „Okkur bárust sögusagnir með öðrum skipum. Ódysseifur og menn hans höfðu orðið ölvaðir í fyrstu viðkomuhöfn og mennirnir gert uppreisn, sögðu sumir. Nei, sögðu aðrir, þeir átu töfrajurt sem gerði þá minnislausa og Ódysseifur bjargaði þeim með því að binda þá og færa þá aftur til skipanna. Ódysseifur hafði lent í bardaga við risavaxinn, eineygðan Kýklópa, sögðu sumir. Nei, hann slóst bara við eineygðan kráareiganda, sögðu aðrir, og slagsmálin voru út af ógreiddum reikningi. Mannætur höfðu étið suma mennina, sögðu sumir. Nei, þetta voru ekki annað en venjuleg áflog, sögðu aðrir, eyrnabit og blóðnasir og hnífsstungur og innyflin úti“ (69). Er það ekki nákvæmlega svona sem góðar sögur og goðsögur verða til?
Penelópa og Gunnlöð
Endurvinnsla Atwood á goðsögninni um Penelópu er bæði fersk og skapandi. Hún minnir á Gunnlaðarsögu (Gunnlöth´s Tale) Svövu Jakobsdóttur (1987) þar sem goðsögnin um Óðin og skáldskaparmjöðinn er sögð með öðrum hætti en í hefðbundinni túlkun. Í „fyrirlestri þernanna um mannfræði“ (127- 128) koma fram áþekkar túlkanir og tengingar við mæðra- og feðraveldi hjá Atwood eins og hjá Svövu.
Í Penelópukviðu fær lesandi skýra mynd af þessari frægu konu sem ekki bara sat og beið. Hún er ástlaus í uppvextinum, síðan verður hún brúður sem flytur til brúðgumans á nýjan stað og kvelst þar af einmanaleika og leiðindum, þá móðir sem þarf að þola að táningurinn Telemakkus brúki munn, einnig ástkona sem kemst ekki undan samanburði við Helenu fögru; þá illkvittnu og eigingjörnu dræsu sem er undirrótin að ógæfu Penelópu; og loks þroskuð kona sem stjórnar ríki sínu og glímir við yfirgang biðlanna sem gera gys að henni og ásælast auðævi hennar.
Karlrembugoðsögur
Það er í eðli goðsagna að vera sagðar aftur og aftur og engin rétt útgáfa til. Aðstæður breytast, merking goðsagna getur breyst en sannleikur þeirra um eðli mannsins er sígildur. Atwood beitir frumlegu og femínísku sjónarhorni á hina á forna sögu og glæðir hana nýju lífi; loksins fær Penelópa að að komast að og segja hlutina frá sínu sjónarhorni og þernurnar fá mál. Femínísk hlið á karlrembulegum goðsögum er dregin fram; hljómfagrar kvenraddir úr fjarska óma það sem Hómer þagði um.
Penelópukviða Atwood hefur verið sett á svið. Ljósmynd af þernunum: Samuel M Puckett
Greinin er unnin upp úr ritdómi sem birtist í Morgunblaðinu 15. nóvember 2005