SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir 3. júlí 2024

SÍÐBÚIN EN VERÐSKULDUÐ VIÐURKENNING. Doris Lessing

Ef einhverjir undruðust val Nóbelsnefndarinnar á verðlaunahafa ársins 2007 í bókmenntum hlýtur það að hafa verið yfir því að Doris Lessing væri ekki búin að fá verðlaunin löngu fyrr. Doris Lessing er einn af mikilvægustu rithöfundum tuttugustu aldarinnar og undirrituð sökkti sér ofan í verk hennar á síðari helmingi níunda áratugarins og í byrjun þess tíunda af þeirri einföldu ástæðu að þá komu nokkur þeirra út í vönduðum íslenskum þýðingum hvert á fætur öðru – næstum því árlega: Minningar einnar sem eftir lifði árið 1985 (Memoirs of a survivior, þýðing Hjörtur Pálsson); Grasið syngur 1986 (The grass is singing; þýðing Birgir Sigurðsson); Dagbók góðrar grannkonu 1988 (The diary of a good neighbour, þýðing Þuríður Baxter); Sumarið fyrir myrkur 1989 (The summer before the darkness, þýðing Helga Guðmundsdóttir); Marta Quest 1990 (þýðing Birgir Sigurðsson); Í góðu hjónabandi 1991 (A proper marriage, þýðing Fríða Á. Sigurðardóttir) og Veðraþytur 1992 (A ripple from the storm, þýðing Hjörtur Pálsson.) Sjö skáldsögur sama höfundar þýddar á íslensku á átta árum – er það ekki einsdæmi? Það var Forlagið, þá lítil en metnaðarfull bókaútgáfa, sem sýndi þetta aðdáunarverða framtak í þýðingum á verkum Dorisar Lessing, en allar bækurnar að þeirri fyrsttöldu undanskilinni komu út hjá Forlaginu.

 

Börn ofbeldis

Þrjár síðasttöldu bækurnar hér að ofan tilheyra bókaflokknum Börn ofbeldis (Children of violence) en hann samanstendur af fimm skáldsögum sem komu út á árunum 1952-1969. Tvær þær síðustu, sem ekki hafa komið út á íslensku, eru Landlocked (1965) og The fourgated city (1969). Saman segja þessar bækur okkur þroskasögu Mörthu Quest, sem fædd er og uppalin í sunnanverðri Afríku undir lok fyrri heimsstyrjaldarinnar. Við fylgjumst með uppvexti Mörthu, hjónabandsárum hennar undir ógnum síðari heimsstyrjaldarinnar, lífi hennar í London frá því á sjötta áratugnum, á tímum kalda stríðsins og vaxandi bils á milli hinna ríku og hinna fátæku og samfélagslegrar upplausnar. Í lok fimmta bindis stendur mannkynið frammi fyrir þriðju heimsstyrjöldinni. Sjá má sjálfsævisögulega þætti í sögu Mörthu Quest en verkið er ekki síst athyglisvert fyrir það hvernig Doris Lessing blandar saman í því ólíkum bókmenntaformum, eins og átti eftir að komast í tísku mörgum árum síðar.

 

Óhamingjusöm æska

Doris May Tayler fæddist 22. október 1919 í því landi sem í dag heitir Íran en hét þá Persía, af bresku foreldri. Þegar Doris var þriggja ára fluttu foreldrar hennar til Ródesíu, nú Zimbabwe, þar sem þau hugðust efnast á maísrækt. Sá draumur rættist ekki og líf fjölskyldunnar var enginn dans á rósum. Doris og Harry yngri bróðir hennar áttu erfiða æsku, foreldrarnir fundu sig engan veginn í framandi aðstæðum og voru óhamingjusöm og börnin áttu erfitt uppdráttar þótt ævintýraleg náttúran væri þeim skjól sem þau leituðu mikið til. Móðir Dorisar hafði íhaldsamar hugmyndir varðandi stúlknauppeldi og sendi dóttur sína í kaþólskan stúlknaskóla þar sem giltu strangar reglur og trúarkreddur lituðu allt skólastarfið. Síðar var hún send í annan kvennaskóla sem hún yfirgaf þegar hún var þrettán ára og þar með var hennar formlegu skólagöngu lokið. Eins og títt er um óhamingjusöm börn átti Doris athvarf í heimi bókmennta og snemma varð hún staðráðin í að verða rithöfundur. Aðeins nítján ára gömul gifti Doris sig manni að nafni Frank Wisdom (hvernig er hægt að standast mann með slíkt nafn?) og eignaðist með honum tvö börn. Nokkrum árum síðar urðu aðstæðurnar henni um megn og hún yfirgaf fjölskylduna árið 1943. Stuttu síðar kynntist hún síðari eiginmanni sínum, Gottfried Lessing, sem var meðlimur í bókaklúbbi kommúnista eins og hún. Þau eignuðust einn son en hjónabandinu lauk með skilnaði árið 1949. Þá flutti hún til London, ásamt syni sínum, þar sem hún bjó þar til hún lést 17. nóvember 2013. 1950 kom út fyrsta skáldsaga Dorisar, Grasið syngur, sem gerist á æskuslóðum hennar í Ródesíu og fjallar á áhrifaríkan hátt um samskipti hvítra og svartra, en Doris Lessing var mjög andvíg aðskilnaðarstefnu suðurafrískra stjórnvalda eins og sjá má af fleiri bókum hennar. Sú sannfæring hennar varð til þess að henni var bannað að heimsækja Ródesíu og Suður-Afríku árum saman.

 

Gyllta minnisbókin

Strax með fyrstu bók sinni vakti Doris Lessing athygli í breska bókmenntaheiminum en það var hins vegar The golden notebook (1962) sem kom henni rækilega á kortið meðal helstu höfunda samtímans. Verkið er eitt af grundvallarritum tuttugustu aldar kvennabókmennta og því má hiklaust skipa við hlið bóka á borð við Sérherbergi eftir Virginiu Woolf (A room of ones own, 1929), Kvengeldingsins eftir Germaine Greer (The female eunuch, 1970) og Kvennaklósettsins eftir Marilyn French (The women’s room, 1977). Bókin segir frá rithöfundinum Önnu Wulf sem glímir við það verkefni að vinna upp úr fjórum minnisbókum sínum heildstæðan texta sem hún hyggst færa inn í þá fimmtu: Gylltu minnisbókina. Í hverja hinna fjögurra minnisbóka hefur Anna skráð afmarkaða þætti lífs sína: Svarta minnisbókin geymir minningar hennar frá Afríku; rauða minnisbókin segir frá pólitísku lífi hennar, veru hennar í breska kommúnistaflokknum og skipbroti hugsjónanna; í gulu minnisbókina skráir Anna nýja skáldsögu sem er byggð á skipbroti hennar í ástamálum og í bláu bókina skráir hún minningar sínar og drauma og lýsir tilfinningalegri líðan sinni.

Það sem Anna er í raun að glíma við er að reyna að framkalla mynd af heildstæðu sjálfi; að sætta ólíkar hliðar persónuleika sína eða – eins og það er gjarnan kallað – að leita að sjálfri sér í ótal textabrotum, minningum og draumum frá mismunandi tímum. Verkefnið er engan veginn auðvelt og form frásagnarinnar endurspeglar þá sundruðu sjálfsmynd sem Anna reynir að safna saman á síðum gylltu minnisbókarinnar. Til að bæta gráu ofan á svart þjáist Anna af ritstíflu; martröð hvers rithöfundar. Frásögnin lýsir í raun sálrænu niðurbroti um leið og því er lýst hvernig Anna byggir sig upp og tekst á við þann vanda sem lífið hefur fært henni. Og það sem skiptir ekki síst máli er að saga Önnu er saga sem margar konur fundu (og finna enn) samhljóm í því þetta er saga sem spannar reynslu „nútímakonunnar“; lýsir væntingum og vonbrigðum jafnt í einkalífi sem og opinberu lífi. Síðast en ekki síst er þetta saga um sköpunarferlið sjálft; um það hvernig kona verður til og um það hvernig saga verður til.

 

Vísindaskáldsögur

Á áttunda og níunda áratugnum kom Doris Lessing lesendum sínum á óvart þegar hún sendi frá sér nokkrar skáldsögur innan þeirrar bókmenntagreinar sem kallast vísindaskáldsögur. Þau verk eru sögð undir áhrifum frá Súfískri dulspeki (ég sel það ekki dýrara en ég keypti það). Hér má nefna bækurnar Briefing for a decent into hell, 1971; Memoirs of a survivior, 1974, og fimm bóka flokk sem nefnist Canopus in Argos: Arcives og kom út á árunum 1979-1983. Haft er fyrir satt að þessar bækur Dorisar Lessing hafi ekki hlotið náð fyrir augum bókmenntagagnrýnenda sem áður lofuðu verk hennar en hjá aðdáendum vísindaskáldskapar eru þær mikils metnar.

 

Jane Somers

Á níunda áratugnum gerði Doris Lessing útgefanda sínum grikk þegar hún sendi honum tvær skáldsögur undir fölsku nafni: Jane Somers (Dagbók góðrar grannkonu, 1983 og If the old could … 1984). Útgefandinn hafnaði bókunum ítrekað og þegar þær loksins komu út – undir nafni Jane Somers – féllu gagnrýnendur einnig á bragðinu og sýndu bókunum lítinn áhuga. Þegar upplýst var hver höfundurinn var voru bækurnar gefnar út í mun stærra upplagi, rokseldust og fengu fína dóma! Doris Lessing sagðist vilja með þessu sýna hversu erfitt það væri fyrir nýja höfunda að hasla sér völl innan bókmenntaheimsins.

 

Femínísk útópía

Þegar Doris Lessing hlaut Nóbelsverðlaunin var hún komin hátt á níræðisaldur og var enn að skrifa athyglisverðar bækur. Hér hefur aðeins verið fjallað um nokkrar bóka hennar en ritaskráin telur yfir 50 útgefnar bækur. Nýjasta skáldsaga hennar The Cleft kom út rétt áður en hún fékk Nóbelinn, 2007. Þar segir frá forsögulegu samfélagi kvenna sem lifa í sátt og samlyndi og eignast stúlkubörn sem fæðast eftir náttúrulegu lögmáli án íhlutunar karlmanna; enda eru þeir ekki til í þessu samfélagi og konurnar hafa enga vitneskju um annað kyn. Það kemur þeim því í opna skjöldu þegar ein þeirra fæðir „öðruvísi“ barn; fæðingin hleypir öllu í uppnám og samfélagið breytist. Ég læt lesendum eftir að ráða í skemmtilega tvíræðan bókartitilinn en bendi til gamans á að bandaríska skáldkonan Charlotte Perkins Gilman (1860- 1935) skrifaði skáldsögu um svipað efni árið 1915 og kallaði Herland. Þessar tvær skáldsögur má skilgreina sem femínískar útópíur og kallast þær skemmtilega á yfir næstum heila öld í tíma.

Femínískar útópíur eru þó ekki margar á meðal verka Dorisar Lessing en hins vegar fjalla flestar skáldsögur hennar um konur, hlutskipti þeirra og stöðu í vestrænum samfélögum á tuttugustu öld; samskipti kynjanna eru í brennidepli og femínísk sýn einkennir verk hennar þótt látið hafi verið að því liggja að hún hafi afneitað þeirri skilgreiningu. Hvergi hef ég séð Doris Lessing afneita femínismanum og þegar hún varð spurð af breskum sjónvarpsfréttamönnum, 11. október 2006, hvað henni fyndist um það að verk hennar væru skilgreind sem femínísk svaraði hún stutt og laggott: „Ég þekki enga konu sem ekki er femínisti.“

 

Sjálfsævisagan: enn einn hápunkturinn

Ef segja mætti að gagnrýnendur hafi að einhverju leyti misst áhugann á Doris Lessing eftir fyrrnefnt vísindaskáldsagnatímabil og grikkinn með Jane Somers er óhætt að fullyrða að þeir tóku hana aftur í sátt þegar hún sendi frá sér sjálfsævisögu sína sem kom út í tveimur bindum: Under my skin (1994) og Walking in the shade (1997). Bækurnar eru metnar sem ekkert minna en meistaraverk og formaður Nóbelsnefndarinnar, Horace Engdahl, segir í viðtali sem sjá má á vefnum www.nobleprize.org að sú staðreynd að Doris Lessing hafi enn á ný sannað snilli sína í sjálfævisögunni hafi átt mikinn þátt í ákvörðun nefndarinnar að veita henni verðlaunin. Í rökstuðningi Nóbelsnefndarinnar fyrir vali sínu er Doris Lessing skilgreind sem „sagnaþulur kvenlegrar reynslu, sem með efahyggju, eldmóði og í krafti hugsjóna grannskoðar samfélag aðskilnaðar“ („that epicist of the female experience, who with scepticism, fire and visionary power has subjected a divided civilisation to scrutiny“). Orðalagið er snjallt þar sem það samfélag aðskilnaðar sem nefnt er í rökstuðninginum hefur margvíslegar skírskotanir til verka Lessing; aðskilnaðurinn getur verið á milli kynja, stétta eða kynþátta; á milli herraþjóðar og nýlendubúa; á milli ríkra og fátækra; eða jafnvel á milli tíma og veralda því skáldsagnaheimur Dorisar Lessing lýtur engum takmörkunum.

 

Greinin birtist í Lesbók Morgunblaðsins, 20. október 2007, í tilefni þess að Doris Lessing voru veitt Nóbelsverðlaunin í bókmenntum.

Tengt efni