SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir 7. júní 2024

LEIKUR OG VERULEIKI, LEIKHÚS OG LÍF

 

Um leikritið Hægan, Elektra eftir Hrafnhildi Hagalín

Eftirfarandi texti um leikritið Hægan, Elektra eftir Hrafnhildi Hagalín er byggður á grein sem birtist í hausthefti Skírnis 2001, en þar er fjallað um leikrit Hrafnhildar og leikrit Sigurðar Pálssonar, Einhver í dyrunum, sem bæði voru sýnd og gefin út á bók árið 2000. Tilvitnanir í leiktexta Hrafnhildar vísa í blaðsíðutöl í útgáfu Forlagsins á Hægan, Elektra. Upphaflega greinin, sem birtist í Skírni, ber titilinn "Persónur og leikendur: um tvö leikrit frá liðnu ári". Hér er birt umfjöllunin um leikrit Hrafnhildar, aðeins stytt og breytt, um leið og Hrafnhildur er boðin velkomin í Skáldatalið okkar.

 

 

Hægan, Elektra: Leikur og veruleiki

„Við skulum ekki vekja upp gamla drauga, móðir,“1 segir unga leikkonan við móður sína, eldri leikkonuna, í leikriti Hrafnhildar Hagalín Guðmundsdóttur, Hægan, Elektra. Þetta er aðalpersónur verksins, mæðgur og leikkonur sem berjast við fortíðardrauga og í brennidepli er spunasýning sem endaði á afdrifaríkan hátt og batt endahnútinn á leikferil mæðgnanna.

Eða hvað? Er leikritið Hægan, Elektra ef til vill sýning sem mæðgurnar eru að sviðsetja (eða spinna), kannski eftir langt hlé? Slíkar hugleiðingar fá byr undir báða vængi undir lok leikritsins þegar eldri leikkonan fer „út úr hlutverkinu“ og kallar í myrkrinu: „Ljós upp!“ (74). Eftir að leikkonurnar fara út úr hlutverkum sínum ávarpar sú yngri þá eldri áfram sem móður þannig að beinast liggur við að þær séu mæðgur „í raun og veru“. Lokaatriði leikritsins sýnir okkur leikkonurnar stíga út af sviði leikhússins og þakka fyrir sig. Áður en þær hverfa á braut standa þær á sviðsbrúninni, horfa fram og eldri leikkonan segir orðið „leikhúsið“ sem hin yngri endurtekur síðan. Hér er því ítrekað, ef einhver hefur velkst í vafa, að leikritið hefur framar öðru snúist um leikhúsið sjálft, möguleika og takmarkanir þess og áhrif leiklistarinnar á listafólkið sem gefst henni á vald. 

 

Samskipti mæðgna

Hægan, Elektra er leikrit í einum þætti sem á yfirborðinu fjallar um samskipti mæðgna. (Í hlutverkum þeirra í sýningu Þjóðleikhússins voru Edda Heiðrún Backmann og Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir.) Segja má að í verkinu vindi fram tveimur sögum sem gerast á ólíkum tímaskeiðum. Annars vegar er það framvindan á sviðinu sem gerist í nútíð og hins vegar er framvindan sem sýnd er á kvikmyndatjaldi og sýnir okkur upptöku af spunasýningu mæðgnanna í fortíðinni. Textinn „á tjaldinu“ er um þriðjungur af heildartexta leikritsins og sagan sem þar er sögð/sýnd fleygar með jöfnu millibili þá sögu sem gerist á sviðinu. Við fyrstu sýn mætti halda að það sem við sjáum á sviðinu sé „raunveruleiki“ en það sem varpast á tjaldið sé „leikur“ eða „spuni“. Fljótlega verður þó ljóst að þessi aðgreining stenst ekki, hefðbundnar væntingar okkar til leiks og veruleika eru smátt og smátt afbyggðar eftir því sem fléttu verksins vindur fram. Það sem gerist á tjaldinu getur ekki lengur flokkast sem spuni (eða list augnabliksins) þar sem kvikmyndavélin hefur fest það á filmu sem sýna má aftur og aftur. Síðar kemur einnig í ljós að það sem gerðist á tjaldinu er ekki síður „raunveruleiki“ en það sem gerist utan tjalds.

Dæmi um hvernig mörk leiks og veruleika eru þurrkuð út og hvernig báðir „heimar“ verksins fléttast saman í órjúfanlega heild má sjá í upphafs- og lokaatriðinu. Í upphafsatriðinu gengur eldri leikkonan á tjaldinu fram á sviðsbrún og ávarpar áhorfendur og býður þá velkomna með nokkrum orðum. Í lokaatriðinu ganga báðar leikkonurnar á sviðinu fram á brún þess og ávarpa áhorfendur. Þessar athafnir, sem segja má að myndi ramma um verkið/sýninguna, tilheyra í raun ólíkum tímaskeiðum leikritsins en falla engu að síður saman í eitt þegar verkið er skoðað í heild. Það sem skiptir þó mestu máli þegar leikritið er túlkað er að gera sér grein fyrir því að á milli þeirra tveggja atburðarása sem fram fara innan leikritsins (á sviðinu og á tjaldinu) er órjúfanlegt og merkingarbært samhengi.

Í Hægan, Elektra sjáum við sálræn átök á milli mæðgnanna og þau eiga sér ýmsar orsakir. Hægt væri að skrifa langt mál um samband mæðgnanna út frá kenningum um áhrif mæðra á dætur sínar og þátt þeirra í sálfræðilegri mótun og kynmótun þeirra. Það verður þó ekki gert hér heldur mun ég beina athyglinni að tengslum leikritsins við það gríska efni sem kalla má undirtexta verksins og hvernig þau tengsl geta hjálpað lesanda/áhorfanda við að fylla upp í eyður textans.

 

Gríska sögnin um Elektru

Titill leikritsins vísar í alþekkta gríska goðsögn um Elektru, dóttur konungsins og hershöfðingjans Agamemnons og eiginkonu hans Klýtæmnestru drottningar. Eins og frægt er myrtu drottning og friðill hennar, Ægisþos, hinn sigursæla konung við heimkomu hans úr Trjóustríðinu. Leikrit grísku harmleikjaskáldanna Sófoklesar og Evripídesar um Elektru fjalla um ill örlög hennar, harm og hefndarhug. Elektra syrgir föður sinn ákaft og leggur hatur á móður sína og óskar henni dauða. Hún bíður komu bróður síns Orestesar, sem snýr aftur úr útlegð og fremur verkið sem er „meira en voðalegt“ - móðurmorðið - áður en yfir lýkur.2 Í leikriti Hrafnhildar er hvergi vikið beint að þessari gömlu sögu en nokkrar óbeinar vísanir í grísku harmleikina er að finna í textanum auk þeirrar beinu tilvísunar sem felst í titlinum. Titillinn einn og sér nægir til þess að gera áhorfanda eða lesanda Hægan, Elektra vakandi fyrir tengslum við hið forngríska efni, tengslum sem eru fyrst og fremst af þematískum toga spunnin og skýrast smátt og smátt þegar líður á leikritið.

Mæðgurnar í Hægan, Elektra eru nafnlausar (ætíð nefndar yngri og eldri leikkonan) en á einum stað kallar dóttirin sig sjálf Elektru (68). Eins og Elektra í grísku sögninni virðist hún bera þungan harm í brjósti. Tilfinningar hennar í garð móðurinnar sveiflast frá fullkominni undirgefni og uppgjöf til haturs sem er þó að mestu leyti bælt og kemur aðeins örsjaldan upp á yfirborðið. Á þeim augnablikum virðist hún þess albúin að drepa móður sína. Ris leikritsins er tvíþætt því um er að ræða ris í atburðarásum beggja tímaskeiða, á sviðinu og í kvikmyndinni á tjaldinu. Þessi ris eru þó af sama toga og falla saman í leikritinu og er það eina atriði leikritsins þar sem sagan á sviðinu og sagan á tjaldinu eru ekki aðskildar. Risið lýsir aðdraganda að móðurmorði sem hætt er við á síðustu stundu (á tjaldinu) eða komið í veg fyrir á síðustu stundu (á sviðinu). Í báðum þessum atriðum kristallast ósk dótturinnar um að drepa móður sína og í bæði skiptin gerir móðirin sér grein fyrir ósk hennar.

 

Elektruduld?

Einn af lærisveinum Freuds, Carl Gustav Jung, var á þeirri skoðun að á kynmótunarferli stúlkna gengu þær í gegnum stig sem einkenndist af því að þær legðu hatur á móður sína og kepptu við hana um ást föður síns. Þetta kallaði hann elektruduld og taldi að væri sambærilegt við ödipúsarduldina eins og Freud skilgreindi hana. Freud hafnaði þessari kenningu Jungs alfarið og taldi ekki hægt að breyta formerkjum ödipúsarduldarinnar á þennan hátt.3 Hins vegar er ljóst að samband á milli mæðgna getur verið erfitt á ýmsan hátt, um það bera sálfræðin, sagan og heimsbókmenntirnir glöggt vitni. Móðirin er yfirleitt talin leika stærsta hlutverkið í mótun sjálfsmyndar dætra sinna og heilbrigt uppeldi á að miða að því að dóttirin nái að þroskast frá móður sinni og öðlist heildstæða sjálfsmynd. Eitt aðalvandamál dótturinnar í Hægan, Elektra er einmitt að hún virðist eiga í erfiðleikum með að greina á milli eigin sjálfs og móðurinnar, þarfir móðurinnar eru hennar þarfir og líðan hennar löguð að þörfum móðurinnar. Með öðrum orðum mætti segja að mörk sjálfsmyndarinnar séu óljós eða fljótandi eins og oft vill verða hjá konum sem eru sálfræðilega háðar mæðrum sínum.4 Þetta er ítrekað í atriðum þar sem dóttirin endurtekur orð móður sinnar eða endurspeglar þarfir hennar:

 

ELDRI LEIKKONAN: […] Ertu hamingjusöm?
UNGA LEIKKONAN: Já. - Ef þú ert hamingjusöm.
ELDRI LEIKKONAN: Ég er hamingjusöm.
UNGA LEIKKONAN: Þá er ég hamingjusöm. (15, sjá einnig 46 og 54)

 

Í Hægan, Elektra má einnig greina ýmiss konar erfiðleika í samskiptum mæðgnanna aðra en þá sem skapast af þessum óljósu mörkum. Á milli þeirra virðist t.d. vera stöðug valdabarátta og hefur ýmist móðirin eða dóttirin yfirhöndina í þeim átökum.

 

Sagan á sviðinu og sagan á tjaldinu

Ef við skoðum aðstæðurnar á sviðinu eða á nútíðarsviði leikritsins er ljóst að mæðgurnar tvær dveljast í nokkurs konar einangrun eða sjálfskipaðri útlegð. Þær eru á friðsælum stað þar sem þögnin ríkir og ekki er von á neinum (sjá t.d. bls. 13, 15 og 22). Þetta er staður án bóka og án blóma, staður sem er gjörsneyddur öllu sem hugsanlega gæti „afvegaleitt tilfinningu [þeirra] fyrir því sem er. Truflað skynjun [þeirra] á nútíðinni“ (17). Þessi óræði staður virðist einnig vera handan allrar venjubundinnar tímaskynjunar. Fyrsta setningin sem móðirin segir hljómar þannig: „Liljurnar hljóta að standa í blóma núna, ef það er vor…“ (9). Hún virðist ekki vita hvort það sé vor enda hafa „ferðir himintunglanna engin áhrif“ á þessum stað (sjá 62-63). Á öðrum stað spyr dóttirin: „hvaða dagur skyldi vera í dag? Hvaða mánuður, hvaða ár?!“ (22).

Það hvarflar fljótlega að lesanda að hugsanlega séu mæðgurnar á einhvers konar sjúkrastofnun í þeim tilgangi að hvíla sig eða ná sér eftir áfall. Þetta er þó alls ekki víst og verður hver og einn að gera það upp við sig hvers konar „athvarf“ um er að ræða. Það virðist þó óhætt að álykta að tilgangur dvalar mæðgnanna á þessum stað sé hvíld og það virðist ekki síst dóttirin sem er hvíldarinnar þurfi. Hún virðist útkeyrð á sál og líkama:

 

ELDRI LEIKKONAN: […] Þú þarft alltaf að vera að leggja þig. Það mætti halda að … Já, mér finnst það hreint og beint óeðlilegt með unga manneskju eins og þig, að þurfa statt og stöðugt að vera að leggja sig. Kannski þú ættir að láta líta á þig, elskan. Ekki viljum við að þú sért lasin. Ekki viljum við að einhver óværa skjóti rótum innra með þér og fari að gera usla sem hægt væri að koma í veg fyrir með auðveldum hætti. Viltu ekki að ég hringi í lækni? (19)

 

Við fyrstu sýn virðist móðirin hafa öll ráð í hendi sér. Hún er frískleg, hvetur dóttur sína til þess að „gera sér glaðan dag“ og „njóta lífsins“ (9), en umfram allt hvetur hún hana til þess að „hugsa ekki“ (sjá 10, 12, 15, 23). Hún hvetur hana einnig til að hvíla sig og tala ekki, nema þá um það sem er fallegt og skemmtilegt. Allt rennir þetta stoðum undir þá ályktun að það sé dóttirin sem sé hvíldar þurfi og sé ef til vill að jafna sig eftir sálrænt áfall.

 

Dóttirin ber öll merki þess að þjást af þunglyndi. Hún sefur mikið, hreyfir sig lítið (stendur oftast hreyfingarlaus á sviðinu eða situr og reykir), hugsar ekki um útlit sitt og virðist í stuttu máli eiga við leyndan harm að stríða. Móðirin reynir að hressa hana við en með litlum árangri: „Þú ert alltaf svo döpur. Eins og þú sért með allan heimsins þunga á herðunum. Slakaðu á og reyndu að njóta lífsins. Þú ert ung. Þú ert heilbrigð. Ekki ertu lömuð. Þú hefur enga ástæðu til að sýta“ (11). Gefið er í skyn að dvöl mæðgnanna á „þessum stað“ sé ekki samkvæmt hennar vilja þegar hún segir á einum stað lágt við sjálfa sig: „Það eina sem ég veit er að við erum hér. Innilokaðar. Gluggarnir lokaðir. Dyrnar lokaðar. Hér, innan þessara fjögurra veggja. Og við komumst ekki út“ (31). Manni verður ósjálfrátt hugsað til orða Elektru í leikriti Sófoklesar sem segist líta á móður sína fyrr „sem fangavörð en móður“.5 Í sama leikriti er Elektra reyndar vöruð við því að Klýtæmnestra og Ægisþos hyggist senda hana „burt þangað sem þú aldrei færð að líta dagsins ljós; í klefa djúpt í jörð þú syngja skalt þitt harmaljóð ein til dauðadags.“6

Fljótt á litið mætti halda að dóttirin sé í einhvers konar gæslu eða meðferð og móðir hennar dveljist hjá henni til að aðstoða hana við að ná sér. En hvert er þá áfallið? Beinast liggur við að leita skýringa í spunasýninguna sem fram fer á tjaldinu. Sýningin virðist a.m.k. marka þáttaskil í lífi þeirra mæðgna:

 

UNGA LEIKKONAN: Þetta var fyrir sýninguna.
ELDRI LEIKKONAN: Jaá. Fyrir sýninguna.
UNGA LEIKKONAN: Núna er eftir sýninguna. ELDRI LEIKKONAN: Ég veit það.
UNGA LEIKKONAN: Núna er löngu eftir sýninguna.
ELDRI LEIKKONAN: Þú þarft ekki að segja mér það. Ég veit það! (24 og 29-30)

 

Eins og áður er getið er framvindan á sviðinu af og til fleyguð með myndskeiðum sem varpað er á stórt kvikmyndatjald fyrir enda sviðsins samkvæmt sviðslýsingu höfundar. Það sem fram fer á tjaldinu er upptaka af síðustu leiksýningu mæðgnanna.7 Í umræddri sýningu leikur dóttirin ungan karlmann sem býður ungri stúlku, sem móðirin leikur, í bíltúr. Í bíltúrnum daðra stúlkan og karlmaðurinn á meðan hann eykur smám saman hraða bifreiðarinnar. Þau ásaka hvort annað um að sigla undir fölsku flaggi og stúlkunni fer að verða órótt þegar maðurinn stígur bensínið í botn svo að bifreiðin þeysist áfram á ofsahraða. Stúlkan (móðirin) grátbiður manninn (dótturina) um að stöðva bifreiðina og í lýsingu höfundar segir: „Á hámarki hraðans tekur hún ákvörðun, hægir smám saman ferðina, það vælir í hjólum og bremsum uns þær nema staðar“ (72). Eftir að bifreiðin stöðvast dettur móðirin „út úr hlutverkinu“ og segir: „Guð minn góður … Ætlaðirðu að … Nú gengurðu of langt … Heyrirðu það?! Þú hefur gengið of langt! (Hún stendur upp í örvilnan. Æðir svo út af sviðinu)“ (72). Hér lýstur saman leik og raunveruleika í huga móðurinnar sem upplifir atvikið sem morðtilraun dóttur sinnar og karlmannsgervi hennar gæti þá vísað til móðurmorðingjans Orestesar. Hvað gerðist í framhaldi af þessu atviki fáum við ekki að vita að öðru leyti en því að mæðgurnar hættu að leika, leikur þeirra var orðin of hættulegur.

Í raun hefur orðið hér áhugaverður umsnúningur á leik og raunveruleika vegna þess að svo virðist sem að leikurinn geri dótturinni fært að tjá tilfinningar og líðan sem hún getur ekki tjáð utan sviðs. Móðir hennar segir á einum stað þegar hún er að lýsa óánægju sinni með hirðuleysi dótturinnar um útlit sitt: „Það var ekki nema á sviðinu sem þú varðst allt öðruvísi … Þar réttirðu úr þér. Þar barstu höfuðið hátt. Þar varstu elegant …“ (13). Leiklistin virðist búa yfir frelsandi afli fyrir ungu konuna, hún breytist úr bældri dóttur í sterka sjálfstæða manneskju. En í því afli er einnig fólgin hætta því leiklistin leysir úr læðingi tilfinningar sem dóttirin ræður ekki að fullu leyti við. Hún getur ekki falið sig á bak við „grímur raunveruleikans“ þegar hún er komin á sviðið, hún er berskjölduð:

 

UNGA LEIKKONAN: […] Þú veist að á sviðinu gátum við ekki falið okkur á bak við grímur raunveruleikans. Manstu …? Manstu ekki? Sviðið er kalt og bert … Við gengum þar fram og grimm birtan helltist yfir okkur … Þar var ekkert skjól … Hvergi athvarf … Manstu ekki? Manstu ….? Á sviðinu höfðum við engin tjöld til að draga fyrir ásjónur okkar … (27)

 

Grímur raunveruleikans falla á sviðinu og tilfinningarnar standa naktar. Í þeim skilningi er það „sannleikurinn“ (eða raunveruleikinn) sem opinberast fyrir tilverknað leiklistarinnar og þá flýr móðirin af hólmi. Dóttirin segir hreinlega: „Við gátum ekki lengur … leikið …“ (26) og móðirin orðar sömu hugsun síðar: „Það var beinlínis eins og við helltumst yfir okkur þegar við gengum fram á sviðið. Eins og við legðumst yfir okkur sjálfar með öllum okkar þunga. Það var hræðilegt. Guði sé lof að við erum hættar. Guði sé lof!“ (54). Síðar, þegar mæðgurnar ræða þann möguleika að byrja að leika á ný, hafnar móðirin því þótt dóttirin lofi að reyna að halda leik og raunveruleika aðskildum:

 

UNGA LEIKKONAN: Við gætum reynt að blanda okkur ekki í málin. Reynt að halda okkur utan við persónurnar sem við leikum og þá fer allt vel.
ELDRI LEIKKONAN: Það er ekki hægt.
UNGA LEIKKONAN: Hvaða vitleysa!
ELDRI LEIKKONAN: Við vorum margbúnar að reyna það. Fyrst með persónum eftir aðra höfunda og svo reyndum við að búa til okkar eigin en allt fór á sömu leið. Skilurðu ekki að það er ekki hægt að ganga við hliðina á persónunni sem maður er að leika! Við erum búnar að sannreyna það! (35)

 

Höfnun móðurinnar er mjög skiljanleg þar sem hún gerir sér grein fyrir því að um líf hennar kunni að vera að tefla eins og fram kemur þegar þær ræða um spunasýninguna:

 

UNGA LEIKKONAN: […] … hvað … hvað … hvað ef við hefðum lokið sýningunni …?
ELDRI LEIKKONAN: Hefði þér tekist það, áttu við!
UNGA LEIKKONAN: Einhvern veginn öðruvísi. Ef við hefðum lokið sýningunni.
ELDRI LEIKKONAN: Það er ósköp einfalt. Þá væri ég undir grænni torfu!
UNGA LEIKKONAN: Það er ekki víst …
ELDRI LEIKKONAN: O, ætli það nú ekki. Mér sýndist þú nú frekar vera á þeim buxunum … (30)

 

En af hverju óskar dóttirin móður sinni dauða? Hvaða öfl eru það sem leysast úr læðingi í leiknum? Eins og sjá má af tilvitnununum í leikrit Hrafnhildar er textinn víða fleygaður með eyðum sem auðkenndar eru með þrípunkti. Eftir því sem átökin harðna á milli mæðgnanna fjölgar eyðunum og lesandinn verður að fylla upp í sjálfur og geta sér til um hvað liggur að baki átakanna. En með því að fylgja þeim vísbendingum sem gefnar eru virðist óhætt að draga þá ályktun að vandinn í samskiptum mæðgnanna snerti framar öðru einhvern atburð sem tengist föðurnum. Fáar sem engar beinar vísbendingar er þó um að ræða. Á einum stað er móðirin að útskýra fyrir sviðsstjóra8 hegðun dóttur sinnar:

 

Hún hefur verið svona alveg frá því að faðir hennar … Frá því að hann … Eiginmaður minn. Eiginmaður minn … (hlær) … ef hægt er að kalla hann því nafni … Hann var ekki mjög … þú skilur … (Lítur flóttalega til Ungu leikkonunnar.) Við héldum áfram lengi á eftir, ég og dóttir mín, en það var ekki það sama … svo við ákváðum að hætta og við höfum aldrei séð eftir því … trúðu mér … þetta var allt komið í eitthvert óefni … þú skilur … Hvers vegna horfirðu svona á mig? Það er eins og þú haldir að … eins og þig gruni eitthvað … Hvað ertu eiginlega að hugsa … Þú heldur þó ekki að ég hafi … Æ, hvað er ég að eyða orðum á svona lamb eins og þig … (40-41)

 

Hér verðum við að geta í eyðurnar og möguleikarnir eru margir. Ef til vill dó faðirinn eða yfirgaf þær mæðgur eða kannski er um eitthvað allt annað að ræða. Óvarlegt finnst mér að álykta að móðirin hafi myrt föðurinn, a.m.k. er fátt í textanum sem bendir til þess. Kannski mætti álykta að faðirinn hafi látist í bílslysi sem móðirin ber ábyrgð á, eða hér gæti einfaldlega verið um skilnað foreldranna að ræða, framhjáhald móðurinnar eða svik af einhverju tagi, en ekkert af þessu þarf þó að vera rétt. Þó er gefið í skyn að móðirin hafi verið óánægð í hjónabandinu (sbr. orð hennar hér að ofan: „ef hægt er að kalla hann því nafni“) og fram kemur að eiginmaðurinn hafi verið afbrýðisamur og bannað henni að dansa við aðra menn, þótt hann kærði sig ekki um að dansa sjálfur (23). Jafnvel getur verið að dóttirin sé einfaldlega að ímynda sér að móðirin sé sek, hver svo sem sekt hennar kann að vera að hennar mati. Móðirin finnur oft fyrir ásökun í orðum og viðmóti dóttur sinnar og reynir að snúast til varnar: „Það er eins og ég hafi framið glæp. Ég kannast ekki við það, að hafa framið nokkurn glæp… Ég veit ekki til þess að ég hafi gert nokkurn skapaðan hlut af mér…“ (27). (Sjá einnig bls. 17 og 65-66.)

Hvort sem móðirin er sek um einhvern glæp eða ekki er ljóst að dóttirin hefur verið tengd föður sínum sterkum böndum. Móðirin talar um hversu lík hún sé föðurnum: „… það [er] annars makalaust hvað konur geta líkst feðrum sínum mikið án þess að vera karlmenn sjálfar …“ (42). Jafnvel er gefið í skyn að foreldrarnir hafi háð baráttu um ást dótturinnar. Sé það rétt hefur dóttirin vafalaust tekið föðurinn fram yfir móðurina, a.m.k. virðist hún hafa reynt að samsama sig honum með því að haga sér eins og strákur og afneita kyni sínu: „Hún hlýtur að vera af vitlausu kyni, sagði faðir þinn stundum … af vitlausu kyni …“ (13). Ef til vill má skynja átök foreldranna um ást dótturinnar í eftirfarandi orðaskiptum mæðgnanna (um leið og þau lýsa að sjálfsögðu átökum milli þeirra sjálfra):

 

UNGA LEIKKONAN (hægt, lágt, við sjálfa sig): Ef ég hefði látið hann fljúga … Ef ég hefði þeyst á honum út í myrkrið, fundið fyrir loftinu undir honum, frelsinu andartak … og hrapað síðan …
ELDRI LEIKKONAN: Talaðu ekki svona. Við erum hér. Við erum hér saman. Við erum hamingjusamar. Þú ætlaðir þér það aldrei. Heldurðu að ég viti það ekki? Þú hefðir aldrei gert það. Ég þekki þig. Þú ert góð stúlka. Þú ert góð stúlka.
UNGA LEIKKONAN (snýr sér að móður sinni, lágt, samanbitið): Stúlka. Stúlka! Hvað ertu að segja?! Ég - er - ekki stúlka!
ELDRI LEIKKONAN: Hvaða vitleysa! Vertu ekki með vitleysu! Þú ert stúlkan mín. Þú ert stúlkan mín … Ég ætti að þekkja þig. Ég sem ól þig. Ég sem kreisti þig niður af mér. Ég er móðir þín. Svona nú … Vertu ekki með vitleysu og komdu hingað … (31)

 

Síðar í leikritinu segir unga leikkonan blátt áfram: „Ég vildi vera strákur til að vera ekki eins og þú“ (47) og sú eldri svarar: „Þú varst aldrei eins og ég. Þú hefur aldrei verið eins og ég … Þú hefur alltaf … (áttar sig, syngur): Fólk er svo misjafnt að stærð og gerð, lögun og lagi …“ (47). Hún þagnar þegar hún er að því kominn að nefna föðurinn því hún veit að í hvert skipti sem hún nefnir hann kemst dóttirin í uppnám.

Dóttirin lætur einnig sem hún eigi von á einhverjum sem tengdur er málinu og ef við fylgjum eftir þeim vísbendingum sem hún gefur sjáum við að hér er um að ræða staðgengil bróðurins, Orestesar, í hinni grísku sögn. En Orestes (eða þessi staðgengill hans) birtist okkur vandlega dulbúinn í leikritinu. Hann er í gervi klæðskiptings á bar og birtist ungu leikkonunni fyrst á meðan hún bíður í búningsherberginu eftir því að sýningin hefjist:

 

UNGA LEIKKONAN: (eins og við sjálfa sig): Meðan ég beið eftir sýningunni þá fannst mér ég vera … kynnir á klæðskiptingabar … Ég fann allt í einu fyrir einhverjum í búningsherberginu mínu … Ég lagði frá mér blýantinn og leit upp, ég horfði í spegilinn, mjög gaumgæfilega, framhjá sjálfri mér … eins og framhjá sjálfri mér … í speglinum sé ég næstum allt búningsherbergið … Ég litast um, hægt og rólega, og allt í einu kem ég auga á hann, hann stendur þarna rétt hjá mér, núna sé ég hann, núna sé ég hann mjög greinilega. Þarna ertu þá, segi ég, ég hef verið að bíða eftir þér […] ég stend upp og ætla að ganga til hans. Ég sný mér við … En þá er þar enginn …. (23-24)

 

Þótt greinilega sé gefið í skyn að þetta sé hugarburður ungu leikkonunnar óttast móðir hennar engu að síður þetta tal: „Hér er enginn, nema við og þessi þarna … Komdu því inn í hausinn á þér … Hingað kemur enginn. Hingað á enginn erindi!“ (24). En samt er hún forvitin og vill heyra meira um þennan mann sem dóttir hennar bíður: „Hvernig var hann … þessi …? […] Segðu mér það … Ég skal hlusta … Ég skal vera stillt …“ (28). Þá fáum við að vita að hann sé fallegur, kvenlegur, líkur dótturinni og hún lýsir honum nánar: „Með eins hár. Eins hendur. Og skórnir af mér pössuðu á hann“ (28). Í leikritum Sófoklesar og Evripídesar, Elektru, ber Elektra kennsl á bróður sinn með því að bera saman lokk úr hári hans við hár sitt: „Sjá þennan lokk; já, legg hann við þitt eigið hár, og hyggjum að, hvort ekki er samur litur hans“9 Einnig er í leikriti Evripídesar vísað til fótalags systkinanna: „Þá skaltu bera fótalag þitt við fótspor hans og sjá hvort ekki er sama mótið“10 og til örs sem Orestes ber við augabrún. Í leikriti Sófoklesar er einnig vísað til hrings og siglis föðurins sem Orestes geymir. Í Hægan, Elektra höfum við því óbeinar vísanir í tvö þessara tákna sem sanna bróðernið: háralitinn og fótsporið. Að vissu leyti nærir móðirin þessa ímyndun dótturinnar með því að krefja hana sagna:

 

ELDRI LEIKKONAN: (ísmeygilega): Segðu mér, þessi maður … Hefurðu hitt hann, eftir þetta?
UNGA LEIKKONAN: Þú veist að hann er aðeins ímyndun.
ELDRI LEIKKONAN: Já, en hefurðu hitt hann, meina ég. Í huganum, eftir þetta …
UNGA LEIKKONAN: Og ef svo væri?
ELDRI LEIKKONAN: Þú ert ekki með réttu ráði! Hver er hann? Segðu mér það! (56)

 

Móðirin skynjar að sér stafar einhver hætta af þessum hugarburði dótturinnar og í huga hennar takast á forvitni og ótti. En hún hæðist einnig að dóttur sinni: „Auminginn … Auminginn, bíður og bíður daginn út og inn eftir þessum manni sem er ekki til! Klæðskiptingur. Klæðskiptingur! Bróðir minn, segir hún. Ég hef ekki heyrt það betra. Ég hef aldri á minni lífsfæddri ævi heyrt það betra! (Hún öskrar af hlátri.)“ (65). Tengsl mannsins við Orestes eru síðan áréttuð svo ekki verður um villst í risi leikritsins. Atriðið hefst á því að móðirin spyr „ísmeygilega“ hvort „þessi klæðskiptingur“ hafi síðan komið fram. Dóttirin neitar því en segist hafa sent hann burt:

 

UNGA LEIKKONAN: […] ég sendi hann í burtu. Ég bar hann burtu og fann honum felustað, vertu hér sagði ég, hvíldu þig og komdu svo seinna þegar þú hefur safnað kröftum og sæktu mig.
ELDRI LEIKKONAN: (hæðin): Og síðan þá hefur hann ekki látið sjá sig …
UNGA LEIKKONAN: Hann kemur. Bíddu, sagði hann. Bíddu eftir mér. Bíddu. Elektra.
ELDRI LEIKKONAN: Hættu þessu nú! Hættu! Í eitt skipti fyrir öll!
UNGA LEIKKONAN: Hlustaðu … (68)

 

Eftir þessi orðaskipti fer myndin á tjaldinu af stað og í fyrsta og eina skiptið í leikritinu fléttast frásagnirnar tvær saman, eins og áður er getið. Á meðan unga leikkonan á tjaldinu eykur hraða bifreiðarinnar og eldri leikkonan fer að óttast um líf sitt „heyrir“ unga leikkonan á sviðinu í þeim sem hún hefur beðið eftir og hún ímyndar sér orð hans:

 

Hann segir, ég hef hugsað til þín alveg síðan þú sendir mig í burtu og undirbúið komu mína hingað og nú er ég kominn … […] Þú ert svo tekin, svo gömul, ég hugsaði: Getur þetta verið hún, er það mögulegt að þetta sé hún, systir mín? Og þá segi ég, ég ætlaði heldur ekki að þekkja þig … Ert þetta í raun og veru þú? Sjáðu þessa fléttu segði hann þá og rétti mér hana, ég lagði hana á leiði föður míns og bjóst við að þú myndir finna hana þar og vita þá að ég væri væntanlegur en þegar ég kom þar við nú áðan sá ég að fléttan lá þar enn óhreyfð. Já, segði ég. Mér þykir það leitt, en ég hef ekki farið að gröf föður míns í mörg ár, ekki síðan … Ég hef ekki farið að gröf föður míns í mörg ár … (69-70)

 

Eins og sjá má er þessi texti krökkur af beinum vísunum í Elektru grísku skáldanna og meðan dóttirin talar grátbænir móðir hennar hana að hætta og að koma „aftur til sjálfrar [sín]“ (70). En spennan magnast innra með dótturinni og um leið og hraði bifreiðarinnar á tjaldinu nær hámarki „æðir [hún] í áttina að móður sinni“ og ákallar „bróður“ sinn (71). Á tjaldinu hættir unga leikkonan við á síðustu stundu og stöðvar bifreiðina, á sviðinu grípur sviðsstjórinn inn í og kemur í veg fyrir að hún nái til móður sinnar.

 

 

Síðasta atriði leikritsins, áður en leikkonurnar „detta út úr hlutverkum sínum“, er athyglisvert. Skyndilega er engu líkara en dóttirin sé orðin ungbarn á ný sem er að læra að stíga sín fyrstu skref:

 

ELDRI LEIKKONAN: Svona nú, komdu nú hérna til mín … Komdu nú … Ekki hrædd, stígðu eitt skref, svo annað, komdu nú … Unga leikkonan verður eins og barn sem er að stíga sín fyrstu skref upp á eigin spýtur.
ELDRI LEIKKONAN: Svona nú … Komdu nú … Unga leikkonan stígur eitt skref í átt að móðurinni.
ELDRI LEIKKONAN: Bravó! Svona já. Dugleg stelpa. Unga leikkonan stígur annað skref.
ELDRI LEIKKONAN: (Klappar ennþá meira): Bravó! Unga leikkonan tekur fleiri skref. Eldri leikkonan klappar rosalega. Unga leikkonan skjögrar í áttina til hennar og fellur um hálsinn á henni.
ELDRI LEIKKONAN: Svona, já. Svona. (73-74)

 

Hér mætti álykta að dóttirin hafi orðið fyrir sálrænu áfalli við atlögu sína að móðurinni. Jafnframt mætti þá velta fyrir sér hvort eitthvað svipað hafi ekki komið fyrir þegar þær léku í spunasýningunni. Sú saga sem birtist okkur á sviðinu er þá einhvers konar brú á milli fortíðarinnar (spunasýningarinnar) og nútíðarinnar. Ef dóttirin hefur fengið sálrænt áfall í kjölfar spunasýningarinnar er ekki ólíklegt að móðir hennar hafi „hjúkrað henni“ þar til hún náði heilsu aftur og þær síðan byrjað aftur að leika á sviði. „Leikritið“ þeirra (á sviðinu) er þá nokkurs konar úrvinnsla á afleiðingum fyrra „leikritsins“ (á tjaldinu) og gefur okkur innsýn inn í það sem gerðist. Edda Heiðrún Backmann, sem lék eldri leikkonuna í áðurnefndri sýningu Þjóðleikhússins, túlkar verkið á annan hátt:

 

Edda Heiðrún bendir á að leikkonurnar (mæðgurnar) á sviðinu taki ekki tillit til kvikmyndarinnar sem birtist á tjaldinu. „Kvikmyndin er minning um það sem gerðist í raunveruleikanum. Sögurnar tvær, kvikmyndin og leikurinn á sviðinu, eru form verksins. Á tjaldinu sjáum við sýninguna eins og hún var, á sviðinu sjáum við hana eins og hún er. Þarna á milli hefur liðið talsverður tími og eitthvað hefur gerst. Kannski hafa þær hætt að leika, kannski farið í einhvers konar meðferð, en núna eru þær að leika ástandið eins og það hefði orðið ef þær hefðu hætt að leika. Þær hafa náð sér af áfallinu með því að halda áfram að leika.“11

 

Fremur en að sjá „leikritið“ á sviðinu sem speglun og brú á milli fortíðar og nútíðar sér Edda Heiðrún það sem mögulega afleiðingu, „ástandið eins og það hefði orðið ef þær hefðu hætt að leika“. Báðar skýringarnar sýna þó samþættingu leikhússins og lífsins eða möguleika leiklistarinnar sem „læknandi afls“, eins og Viðar Eggertsson leikstjóri sýningar Þjóðleikhússins á Hægan, Elektra komst að orði í viðtali við Morgunblaðið.12

 

Hver er „glæpurinn“?

Ég get þó ekki skilist við Hægan, Elektra án þess að koma með tillögu að svari við áleitnustu spurningu verksins: Hver er „glæpur“ móðurinnar? Þótt ég telji mig hafa sýnt fram á höfundur forðist eins og heitan eldinn að svara þessari spurningu á nokkurn einhlítan hátt þá er það engu að síður ljóst að með því að rekja sig eftir þeim óræðu vísbendingum sem er eins og laumað inn í textann er unnt að draga þá ályktun að um sifjaspell kunni að vera að ræða. Ef dóttirin hefur þurft að þola sifjaspell af hálfu föður síns skýrist margt í samskiptum hennar og móðurinnar. Það er alkunna að mæður í fjölskyldum þar sem sifjaspell á sér stað eru ófærar um að bregðast við ástandinu, ófærar um að verja dæturnar fyrir því broti sem þær verða fyrir af hálfu föðurins. „Glæpur“ móðurinnar felst þá í því að geta ekki varið dótturina sem hlýtur að upplifa afskiptaleysið sem ólýsanleg svik. Enn í dag eru sifjaspell eru hið mikla „tabú“ samfélagsins og þrátt fyrir mikla baráttu gegn þeim á undanförnum árum er þessi glæpur enn umlukinn sterkum þagnarmúr. Það má því með nokkrum rétti halda því fram að sjálft stílbragðið – eyðurnar … þögnin – sem svo áberandi er í verki Hrafnhildar sé vísbending um einmitt þennan glæp. En það er einnig hægt að finna aðrar vísbendingar í verkinu sem renna stoðum undir þessa túlkun. Klæðskiptingurinn sem dóttirin talar um gegnir hlutverki bróður hennar (Orestes) í táknmáli verksins. Og ef hann er bróðir hennar er ekki ólíklegt að það sem hann segir um föður sinn gildi einnig um föður hennar, þ.e.a.s. að hér sé um einn og sama föður að ræða. Og í leikritinu segir klæðskiptingurinn sögu af föður sínum og við fáum þá sögu í gegnum endursögn dótturinnar sem túlkar hana fyrir okkur á athyglisverðan hátt. Faðir klæðskiptingsins var veikur. Hann lokaði sig inni og horfði á kvikmyndir með Ginger Rogers…

Hér gefur dóttirin í skyn að faðirinn hafi neytt son sinn til þess að klæðast kvenfötum og dansa fyrir sig; hann hafi m.ö.o. neytt son sitt til þess að gerast staðgengill hinnar dáðu leikkonu og við getum síðan ímyndað okkur að í framhaldi af því hafi sonurinn þurft að taka þátt í kynferðislegum athöfnum með föður sínum. Í þessu atriði leikritsins virðist því felast vísbending til sifjaspella föður og sonar og nærtækt er þá að álykta að sama hafi verið uppi á teningnum á milli föður og dóttur. Í því ljósi verður hin mikla spenna á milli móður og dóttur sem lýst er hér að framan skiljanleg. Síðast en ekki síst þá verða þagnirnar í samtölum þeirra skiljanlegar – eða eins og segir á einum stað í verkinu:

 

ELDRI LEIKKONAN: Þú verður að skilja … ég er ekki … þú skilur það er það ekki …? Við getum ekki setið hér hlið við hlið án þess að það gildi vissar reglur…
UNGA LEIKKONAN: Auðvitað. Auðvitað skil ég það. Nú skulum við þegja. Nú skulum við þegja. Það sem eftir er … (57)

 

 

AFTANMÁLSGREINAR
1Hrafnhildur Hagalín Guðmundsdóttir. Hægan, Elektra. Reykjavík: Mál og menning 2000, bls. 27. Hér eftir verða blaðsíðutöl sett innan sviga í meginmáli.
2Orðalagið er úr Elektru Evripídesar í íslenskri þýðingu Helga Hálfdanarsonar. Grískir harmleikir. Æskílos, Sófókles, Evripídes. Reykjavík: Mál og menning 1990, lína 1226, bls. 655.
3Sjá Sigmund Freud. Über die Weibliche Sexualität. 1931. Sjá enska þýðingu Joan Riviere. Female Sexuality í The Standard Edition of the Complete Psychological Works of Sigmund Freud XXI. Ritstjóri James Strachey. London: Hogart Press and the Institute of Psycho-Analysis 1961, bls. 221-243.
4Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, sem lék dótturina í sviðsetningu Þjóðleikhússins á Hægan, Elektra, lýsir henni m.a. með eftirfarandi orðum: „Hún er líka ein af þeim dætrum sem hefur ekki náð að þroskast frá móður sinni.“ Sjá Morgunblaðið, 24. febrúar 2000.
5Grískir harmleikir, 1990, lína 597, bls. 370.
6Sama rit, línur 380-382, bls. 365
7Þessi síðasta leiksýning var reyndar einnig frumsýning þeirra mæðgna, gagnstætt því sem leikstjóri sýningar Þjóðleikhússins, Viðar Eggertsson segir í viðtali við Morgunblaðið, 24. febrúar 2000: „Mæðgurnar, leikkonurnar tvær, eiga sérkennilega sögu að baki þegar við kynnumst þeim á Litla sviði Þjóðleikhússins. Þær hafa unnið mikið saman, sýnt í eins konar tilraunaleikhúsi spunasýningu þar sem móðirin leikur unga stúlku og dóttirin leikur karlmann með heldur vafasamar áætlanir. „Móðirin hefur viðhaldið æskublóma sínum með því að láta dótturina leika vonbiðla, við fáum ekki að vita hvers konar leikþættir hafa spunnist á milli þeirra en veigamikill hluti leikritsins er fólginn í kvikmynd sem lýsir síðustu sýningu þeirra af þessu tagi,“ segir Viðar.“ Í Hægan, Elektra segir móðirin aftur á móti, þegar hún ávarpar áhorfendur: „[…] - Skemmst er frá því að segja að ég og … dóttir mín … höfum nú um alllangt skeið verið að æfa okkur í þeirri list sem nefnd hefur verið spuni […] Nú er svo komið að við teljum okkur tilbúnar til að láta á okkur reyna fyrir framan áhorfendur og vona ég að þessi frumraun okkar verði áhugaverð reynsla fyrir okkur öll …“ (7-8 (skáletrun mín)).
8Sviðsstjórinn er eina persóna leikritsins fyrir utan mæðgurnar. Hann kemur fyrir bæði á sviðinu og á tjaldinu. Ef fylgt er þeirri hugmynd að mæðgurnar séu staddar á einhvers konar sjúkrastofnun (á sviðinu) þá væri auðvelt að ímynda sér hann sem starfsmann eða gæslumann.
9Grískir harmleikir, 1990, línur 520-521, bls. 637.
10Sama rit, línur 534-535, bls. 637.
11Tilvitnað viðtal í Morgunblaðinu.
12Sama stað.

 

 

Tengt efni