SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir16. júní 2024

FYRSTI SAKAMÁLAHÖFUNDURINN

Birgitta H. Halldórsdóttir mun vera fyrst íslenskra kvenna til að senda frá sér sakamálasögu. Skáldsagan Inga kom út árið 1959 og er hún jafnframt frumraun Birgittu. Þar segir frá stúlku sem kemst í kynni við heldur ógeðfelldan mann. Framið er morð og stúlkan kemst í hann krappan við leit að morðingjanum..

Eftir þessa frumraun sína komst Birgitta á bragðið því hún sendi frá sér eina sakamálasögu á ári allt fram til ársins 2002, þá verður árshlé en síðan kom bók út árið 2004. Skjaldborg gaf sögurnar út. Samtals eru þetta 21 sakamálasaga en þar að auki á hún kafla í sögunni Leyndardómar Reykjavíkur, ásamt fleiri þekktum sakamálahöfunum, sem kom út aldamótaárið 2000. 

Þegar Birgitta hóf að senda frá sér sakamálasögur nutu þær ekki þeirra miklu vinsælda sem þær gera í dag. Á fyrri hluta 20. aldar má telja þær spennusögur sem komu út nánast á fingrum annarrar handar. Engar sögur í þessa veru koma út frá 1950 til 1977 en á næstu tveimur áratugum koma út ein til tvær á ári og oft er Birgitta ein um hitunina. Það er ekki fyrr en rétt fyrir aldamótin sem hiti fer að færast í leikinn og sakamálasögum fer hratt fjölgandi er á líður þessa öld og tróna jafnan hæst á vinsældalistum bókabúðanna.

Í sögum Birgittu er ástin aldrei langt undan og bendir Úlfhildur Dagsdóttir (2001) á að sögur hennar geti flokkast bæði sem ástar-  og sakamálasögur. Þá sé aðalsöguhetjan jafnan sjálfstæð, ung kona og yfirleitt kynferðislega virk. Þessi nálgun Birgittu fór eitthvað fyrir brjóstið á Erlendi JónssynI (1999) í gagnrýni hans á skáldsögunni Eftirleikur en þar segir hann það galla á bókinni hvað hún sé klúr: ,,Afstaða höfundar til ástalífsins sýnist annars vegar vera mjúk og rómantísk. Og blautlegar lýsingar fara illa saman við hina eina sönnu ást!" 

Sögur Birgittu hafa ekki verið mjög aðgengilegar um langa hríð en nú er svo komið að einar fjórar þeirra eru komnar á Storytel. Þetta eru sögurnar Gættu þín Helga (1985), Dætur regnbogans (1992) , Tafl fyrir fjóra (2002) og Óþekkta konan (2004). Lesarar eru Birgitta Birgisdóttir, Svandís Dóra Einarsdóttir og Þórdís Björk Þorfinnsdóttir. Þetta eru góðar fréttir fyrir unnendur spennusagna enda eru sögurnar allar á lista yfir vinsælustu bækurnar á hljóðveitunni um þessar mundir.

Birgitta hefur einnig gert nokkuð að því að yrkja og má lesa nokkrar lausavísur eftir hana inni á Húnaflóa- kvæða- og vísnasafni, á vef Árnastofnunnar. Þær eru sumar af trúarlegum toga sem er skemmtilega ólíkt þeim efnivið sem Birgitta nýtir sér í skáldsögunum. Það er ekki úr vegi að ljúka þessari stuttu umfjöllun með fallegri vísu eftir skáldkonuna:

Gengið hef ég gæfuspor
Guðs í þessum heimi.
Okkar líf er eilíft vor
og ekki þér ég gleymi.

 

Heimildir:

Erlendur Jónsson. (1999, 22. desember). Ástir og sakamál. Morgunblaðið. https://timarit.is/page/1954943#page/n41/mode/2up
Hið íslenska glæpafélag. (E.d.) Sótt af http://hig.is/index.php.
Katrín Jakobsdóttir. (2001). Glæpurinn sem ekki fannst: Saga og þróun íslenskra glæpasagna. Háskólaútgáfan.
Úlfhildur Dagsdóttir. (2001). Kvenhetjur í háska. Bókmenntir.is https://www.bokmenntir.is/bokmenntavefur/hofundar/birgitta-
   halldorsdottir

Tengt efni