TILURÐ SKÁLDS OG FAGURFRÆÐILEG AÐFERÐ
Línur í lófa eftir Þóru Jónsdóttur
I
Þóra Jónsdóttir sendi frá sér fyrstu ljóðabókina, Leit að tjaldstæði, árið 1973 þegar hún var fjörutíu og átta ára. Það telst líklega fremur sein innkoma á bókmenntasviðið en er mjög algengt í tilviki kvenna, sér í lagi þeirra sem fæddar eru fyrir miðja tuttugustu öld. Síðbúna innkomu á sviðið hefur Þóra hins vegar bætt upp með ríkulegri útgáfu á síðari hluta ævinnar, frumsamdar ljóðabækur hennar eru þegar þetta er skrifað tíu talsins og tvær bækur til viðbótar hefur hún sent frá sér með ljóðrænum örsögum. Nýjasta bók hennar, Sólardansinn, kom út haustið 2019 þegar Þóra var tæplega níutíu og fimm ára að aldri.1 Strax í fyrstu ljóðabókinni kemur Þóra fram sem fullþroska módernisti og má til að mynda sjá náinn skyldleika með ljóðlist hennar og ljóðlist Hannesar Péturssonar og Þorsteins frá Hamri þótt engin tilraun hafi verið gerð til að tengja skáldskap hennar við skáldskap þeirra – eða annarra módernisma – í íslenskum bókmenntasögum.2 Ljóðmál Þóru Jónsdóttur er víðast hvar mjög meitlað og myndmál frumlegt og vísar gjarnan til jaðarstöðu, einsemdar og jafnvel útilokunar. Þóra spyr djúpra tilvistarspurninga, hún yrkir um tímann, ástina og tengsl við fortíð og fjölskyldu, svo fátt eitt sé nefnt. Hún er magnað náttúruskáld og kvennasjónarmið er áberandi í verkum hennar.3
Sem ljóðskáld hefur Þóra Jónsdóttir þróast og eflst með hverri bók og hún er óhrædd við að takast á við ljóðformið á nýstárlegan hátt. Hér á eftir verður athyglinni beint að sjöttu ljóðabókinni, Línur í lófa, sem kom út 1991.4 Bókin hefur nokkra sérstöðu meðal verka Þóru því þar segir hún sjálfsævisögu sína í frásagnarkenndum ljóðum og lýsir því hvernig skáldagáfan vaknar og þrífst í samspili við náttúru heimahaganna og það félagslega umhverfi sem hún ólst upp í. En sjálfsævisögulegi efniviðurinn er bara annar þáttur bókarinnar – hinn þátturinn snýst um fagurfræði höfundar. Í Línum í lófa veitir Þóra Jónsdóttir lesandanum einstaka innsýn inn í skáldskaparaðferð sína; hvernig hún spinnur ljóð úr atvikum, þéttir og eimar niður í meitlað ljóðmál sem gjarnan er órætt og opið til túlkunar, eins og tekin verða dæmi um hér á eftir.
II
Frásagnarljóð bókarinnar segja samfellda sögu; þau eru sjálfsævisöguleg og mynda saman frásögn af æsku og uppvexti höfundar sem ólst upp á myndarlegu sveitaheimili, á Laxamýri í Suður-Þingeyjarsýslu á fyrri hluta tuttugustu aldar. Kápumynd bókarinnar sýnir okkur sögusviðið, á henni er vatnslitamynd eftir Þóru Jónsdóttur af æskuheimilinu.5 Titill bókarinnar vísar til lófalesturs eða þeirrar gömlu trúar að sitthvað megi ráða um persónuleika og lífsferil manneskjunnar með því að rýna í þær línur sem þar eru markaðar. Samkvæmt lófalesturstrúnni má segja að saman myndi línurnar „mynstur sem skapar einstaklinginn“ en þá hendingu er að finna í einu ljóða bókarinnar, Þekkingarleit, en er þar reyndar sett í annað samhengi því ljóðið lýsir leit ljóðmælandans eftir þekkingu í gegnum bækur, sem voru af skornum skammti; útvarp, þótt „hlustunarskilyrði [væru] í lágmarki“; blöð og tímarit sem bárust á heimilið; húslestra sem gerðu „myndmál biblíunnar aðgengilegt“; sem og í gegnum samtöl við fullorðna sem miðluðu beint og „óbeint af lífsreynslu sinni“. Lokalínur ljóðsins eru: „Sjálfið raðar síðan bitunum saman / í mynstur sem skapar einstaklinginn.“
Línur í lófa fellur undir skilgreininguna ævikvæði en íslenskar konur hafa verið iðnar við að yrkja slík kvæði og gera enn þótt þessi bókmenntagrein sé sögð úrelt í uppflettiritum og bókmenntasögum enda er þar eingöngu tekið mið af skáldskap karla (Helga Kress 2009:147). Samkvæmt skilgreiningu í Hugtökum og heitum í bókmenntafræðum eru ævikvæði einfaldlega: „kvæði þar sem höfundur rekur ævi sína í ljóðum, e.k. sjálfsævisaga í ljóðum“ (Jakob Benediktsson 1983:314). Helga Kress telur að með „sjálfsævisögulegum kvæðum sínum [leitist] konur við að gefa lífi sínu merkingu, gera það sýnilegt sem samfélagið ekki sér og finna því stað í sögunni.“ (Helga Kress 2009:150). Hún bendir einnig á að konur flétti „gjarnan saman frásögnum af eigin lífi og endurminningum um mannlíf fyrri tíma, oft undir yfirskini þjóðlegs fróðleiks“ (Helga Kress 2009:148) og þannig mætti einmitt lýsa verki Þóru Jónsdóttur – öðrum þræði.
Í fyrsta ljóði bókarinnar ávarpar skáldið börnin sín og lýsir markmiði sínu; að segja börnunum frá ævi sinni og uppvexti, að efna gamalt loforð um að segja þeim Allt í heimi. Slíkt upphaf – að ávarpa börn sín og lýsa því yfir að það sem á eftir fylgi sé þeim ætlað, oft til þess að forða frá glötun og gleymsku horfnum heimi – er endurtekið minni í sjálfsæviskrifum kvenna; það er líkast því að þær séu að afsaka þá dirfsku að beina kastljósinu að eigin ævi, að sjálfri sér.
Ljóðið má lesa sem formála að því sem fylgir, ljóðunum sextíu og tveimur þar sem Þóra lýsir umhverfi bernsku sinnar, híbýlum, búskaparháttum, ýmsum atvikum úr bernsku sem varða hana sjálfa, fjölskyldu hennar og annað fólk úr nærliggjandi sveitum eða sem á leið þar um. Sum ljóðanna eru í formi hugleiðinga á borð við ljóðið um þekkingarleitina sem minnst hefur verið á. En er efnið þá fyrst og fremst fræðsla um gamla búskaparhætti og lífshætti fyrri tíma? Það mætti ætla af viðtökum bókarinnar. Tveir ritdómar birtust um Línur í lófa, annar eftir Sigríði Albertsdóttur í DV og hinn eftir Súsönnu Svavarsdóttur í Morgunblaðinu. Báðir dómarnir eru jákvæðir og í þeim báðum er lögð áhersla á að umfjöllunarefnið snúist um búskaparhætti fyrri tíma. Í upphafi ritdómsins í Morgunblaðinu segir: „Landið, jörðin, húsin, dýrin, vættir og álfar, heimafólk, gestir og gangandi, lífið í sveitinni á fyrri hluta aldarinnar er yrkisefni Þóru í þessari sjöttu ljóðabók hennar“. En ritdómarinn leggur líka áherslu á að þótt „flest ljóðin séu nánast eins og epísk frásögn og verið sé lýsa því sem raunverulega gerðist, samkvæmt minningunni, er lýrískur tónninn sterkur og svo mikið af fallegum myndum“ (Súsanna Svavarsdóttir 1992:10). Sigríður Albertsdóttir tengir Línur í lófa við fyrri bækur höfundar með því að benda á að í þeim sé svipað þema og í fyrri bókum Þóru; að ort sé um manneskju í leit að samastað og það megi túlka „með tilliti til rótleysis í nýjum heimi og þörf mannsins til að nálgast og skilgreina uppruna sinn“. Hún bætir við að þetta séu „greinar af sama meiði og freistandi að segja sem svo að til þess að ná einhverjum haldbærum tengslum við sjálfan sig sé þarft að hverfa aftur til fortíðar“ (Sigríður Albertsdóttir 1992:25). Sigríður telur einnig að ljóð bókarinnar séu „ein heild í formi æviminninga úr sveitinni“ og kallast þau orð á við lokaorð Súsönnu um að bókin sé „full af sannleika minninganna um gleði og sorgir sem búa á bak við myndir af landinu og jörðinni, húsum, dýrum, álfum og vættum, heimafólki, gestum og gangandi; lífinu í sveitinni. Lífinu hvar sem er“ (Súsanna Svavarsdóttir 1992:10). Í Íslenskri bókmenntasögu Máls og menningar er minnst á þessa bók í afar takmarkaðri umfjöllun um ljóðlist Þóru Jónsdóttur en á mun neikvæðari nótum en ritdómararnir tveir: „[…] þegar hún tekur bernskuna heima í Þingeyjarsýslu sérstaklega fyrir í bókinni Línum í lófa (1991) verður fræðslan um gamla búskaparhætti og lífsáttu yfirgnæfandi og kæfir ljóðin“ (Silja Aðalsteinsdóttir 2006:166).
Þegar ljóðasafn Þóru Jónsdóttur, Landið í brjóstinu, kom út fjórtán árum síðar bendir Ástráður Eysteinsson hins vegar á að þótt þau ljóðanna sem „borin [eru] upp af frásögnum úr bernsku hennar í sveit … [teygi] sig alveg yfir á svið hins svokallaða „þjóðlega fróðleiks“ þá sleppi skáldið aldrei „hjartaþráðum“ (Ástráður Eysteinsson 2005:B 7). Þetta er mjög mikilvægt að hafa í huga; að lengri ljóð bókarinnar eru langt frá því að vera einfaldar frásagnir þótt mörg þeirra nálgist form lausamáls fremur en bundins máls, þau eru spunnin úr ljóðrænum ‚hjartaþráðum‘ – eins og ljóst má vera af þeim dæmum sem síðar verða tekin. Ástráður bendir einnig á að Línur í lófa hafi opnað nýjar gáttir. Myndhugsunin verður enn djarfari, óhamdari“ í sumum seinni ljóðum þessa höfundar“ (Ástráður Eysteinsson 2005:B 7) og undir það má taka.
III
Eins og nefnt er hér að ofan eru æviminningar úr sveitinni aðeins annar meginþráður ljóðabókarinnar. Fáir sem um bókina hafa fjallað á opinberum vettvangi hafa hins vegar beint athyglinni að hinum meginþræðinum, jafnvel þótt hann birtist í um það bil helmingi ljóðanna eða þeim þrjátíu ljóðum sem ekki er hægt að skilgreina sem frásagnarljóð. Eins og minnst var á getur ritdómari Morgunblaðsins þess að í bókinni sé sterkur lýrískur tónn og „mikið af fallegum myndum“ (Súsanna Svavarsdóttir 1992:10) en ræðir ekki tengsl þeirra við frásagnarljóðin. Í yfirlitsgrein um ljóðlist Þóru Jónsdóttur á Bókmenntavef Reykjavíkurborgar bendir Úlfhildur Dagsdóttir á að ljóð bókarinnar „skiptast í tvær tegundir“ og skilgreinir lengri ljóðin sem „stílhreinar og einfaldar lýsingar á aðstæðum og staðháttum, sem eru í frásagnarstíl, einkennast oft af upptalningu og minna að því leyti kannski helst á þulur“ (Úlfhildur Dagsdóttir 2002). Hún segir að þessi ljóð séð „yfirleitt tjáð úr nokkurri fjarlægð, þrátt fyrir að ljóðmælandi sé oftar en ekki þátttakandi í atburðum“ og bendir síðan á að „inni á milli þessara frásagnarljóða [séu] svo persónulegri ljóð, vangaveltur skáldkonunnar útfrá atburðum og staðháttum sem hún lýsir“ og nefnir tvö dæmi um slíka tengingu.6
Það virðist sem fáir hafi tekið eftir að þessi myndrænu og styttri ljóð mynda einnig samfellu því þau eru ljóðræn úrvinnsla sem spegla frásagnarljóðin eða spinna áfram ‚hjartaþræði‘ úr þeim. Bygging ljóðabókarinnar er vandlega úthugsuð þar sem flest ljóðanna mynda það sem kalla mætti tvennur: fyrst kemur frásagnarljóð byggt á bernskuminningu og á eftir fylgir knappari mynd byggð á sömu minningu eða spunninn út frá henni. Þóra Jónsdóttir er ekki bara að rifja upp barnæsku sína og lýsa gömlum búskaparháttum, hún er líka að segja tilurðarsögu skálds, að sýna hvernig atvikin og aðstæðurnar verða henni efniviður til ljóðrænnar úrvinnslu. Í stuttum pistli sem Þóra skrifaði á Bókmenntavef Reykjavíkurborgar lýsir hún reyndar sjálf þessari aðferð sinni þegar hún minnist bernskuslóðanna: „Á einhvern hátt sem ég kann ekki að skýra fékk hver þáttur náttúru og umhverfis samsvörun innra með mér og bætti að nokkru leyti upp hina félagslegu fábreytni sem ég bjó við. Þessir töfrar hafa ætíð síðan fylgt mér“ (Þóra Jónsdóttir 2001).
Athygli vekur að á titilsíðu Línur í lófa er bætt við skilgreiningu fyrir neðan bókartitilinn: „Bundið mál“. Velta má fyrir sér hvers vegna ljóðskáldið (eða útgefandinn) hafi séð ástæðu til að bæta þessum orðum við og hnykkja þar með á því að hér sé um ljóð að ræða? Var hætta á að væntanlegir lesendur myndu velkjast í vafa um hvers kyns texta þeir eru að lesa? Frásagnarljóð – eða prósaljóð – voru síður en svo óþekkt fyrirbæri þegar bókin kom út. Það má hins vegar til sanns vegar færa að stór hluti ljóða bókarinnar er ólíkur þeim ljóðum sem finna má í fyrri bókum Þóru Jónsdóttur bæði ef litið er til uppbyggingu efnisins og formgerð ljóðanna. Í stað knappra myndljóða sem einkenna eldri ljóðabækur Þóru er helmingur ljóðanna í Línum í lófa í formi óvenju langra frásagnarljóða: Tíu ljóð ná yfir eina og hálfa blaðsíðu, sjö ljóð telja tvær heilsíður, þrjú ljóð þekja þrjár síður, en lengsta ljóðið nær yfir á fjórðu síðu. Hér hafa verið talin tuttugu og eitt af sextíu og þremur ljóðum bókarinnar. Tólf ljóð til viðbótar mega flokkast sem frásagnarljóð í lengri kantinum, sum ná yfir heila síðu, önnur nokkrum línum styttri. Þá eru ótalin þrjátíu ljóð sem eru styttri og hnitmiðaðri og líkjast að því leyti ljóðunum í fyrri bókum höfundar. Til glöggvunar má draga þetta saman: Ljóð bókarinnar eru 63 talsins, fyrsta ljóðið er nokkurs konar formáli, þá taka við til skiptis 30 frásagnarljóð og 30 styttri ljóð. Þessi 60 ljóð mynda saman 30 ljóðatvennur sem tengjast efnislega. Síðasta ljóðið, Að fara, má lesa sem nokkurs konar eftirmála; þar er æskuheimilið og sú veröld sem bókin lýsir kvatt:
Það sem þessi tölfræði sýnir er að bygging bókarinnar er vandlega úthugsuð og merkingarbær. Ljóðatvennurnar, sem einnig mætti lýsa sem pörum, raðast alltaf saman, það er að segja lengra frásagnarljóðið kemur fyrst og styttra ljóð sem tengist því fylgir beint á eftir. Þó ber einnig að geta þess að margar fleiri tengingar má finna á milli einstakra ljóða bókarinnar, hvort sem þeim er raðað saman eða ekki. Höfundur notar orðalag og endurtekningar til að ítreka hvað hún hyggst fyrir með þessum sjálfsævisögulegu ljóðum. Hún er að „mynnast við hugsanagervi,“ eins og segir í ljóðinu Bárujárnshús (9), að kalla fram „hugsanagervi horfins tíma,“ eins og segir í upphafslínum ljóðsins Fjósadraugurinn (21).
Um ljóðatvennur bókarinnar mætti taka þrjátíu dæmi en vegna lengdar frásagnarljóðanna er það örðugt og því verða hér neðar aðeins tekin þrjú dæmi þar sem ljóðin eru birt í heild en síðan fjallað um fleiri í endursögn. Vísbendingar um þessa aðferð – að tengja saman tvö og tvö ljóð, þar sem fyrra ljóðið er í formi lausamáls og það sem á eftir fylgir er nokkurs konar útlegging á því fyrra í meitlaðra formi – eru reyndar stundum gefnar í titlum þeirra ljóða sem mynda það sem ég kalla tvennur:
Undir olíulampanum (12-13) / Ljósið (14)Vetur (18-19) / Skammdegi (20)Fjósadraugurinn (21-22) / Mýrarselsskotta fær skautafald (23)Farskóli (28-29) / Margföldunartaflan og stafrófið (30)Vorönn (39-40) / Háttað í björtu (41)Varpið (42-45) / Eggið (46)Fossadagur (47-48) / Við fossana (49)Ullarþvottur við læk (57) / Bæjarlækur (58)Huldubyggðir (68) / Þjóðvísur (69)Við eldavélina (72-74) / Neistaflug (75)Í bláberjalaut (82-83) / Aðalbláber (84)
Ljóðin Vetur og Skammdegi sýna aðferð skáldsins glöggt. Í fyrra ljóðinu er brugðið upp lifandi mynd af mannlífinu um vetur í sveitinni. Ljóðið er útleitið og áhersla lögð á ytri aðstæður og líf og vinnu fólksins í vetrarhörkum. Þarna er brugðið upp mjög sterkri mynd af vetrarlandslagi og samspil manns og náttúru er í forgrunni. Þótt ljóðið sé frásagnarkennt má glöggt sjá hvernig ljóðrænan hefur engu að síður yfirhöndina. Síðara ljóðið er hins vegar knappt í formi, innleitið og birtir áhrifamikla mynd af skammdegiskvíða þar sem ytri aðstæður spegla innra líf á táknsæjan hátt.
Samhengið á milli lengra ljóðsins og myndarinnar sem fylgir í kjölfarið er augljóst í ofan nefndu dæmi. Sumar ljóðatvennurnar verður hins vegar að rýna vel í til að sjá samhengið sem getur stundum verið óvænt. Frábært dæmi um það eru ljóðin Boli boli bankar á dyr (50) og Leikurinn (51):
Í fyrra ljóðinu er brugðið upp mynd sem flestir kannast við af fögnuði kúnna þegar þeim er hleypt út úr fjósinu á vorin. En í fjósinu er „rauði bolinn bundinn“ og hætta á „að hann slíti sig upp / og birtist í fjósdyrunum / í öllum sínum hrikaleik“. Hugrenningartengsl hljóta að vakna um samskipti kúnna og bola, um hlutverk hans í lífi þeirra. Bolinn og nautkálfarnir sem „liggja úti“ vekja ótta hjá konum og börnum; þessum karldýrum tengist bæði árásarhvöt og kynhvöt: „Þótt við komumst ekki í háska / hverfur aldrei uggurinn við illskuna / sem líkamnast í nautinu“. Í styttra ljóðinu sem fylgir er hins vegar á óræðan og táknlegan hátt lýst vaknandi kynhvöt kvenkyns ljóðmælanda („Það er tímabært að hafna brúðum / og hætta hreiðraleik í grænu bæjarsundi“) sem hefur „álpast undir skilningstré / á þessum stað / þar sem björkin er lágvaxin í aldingarðinum“. Tengsl ljóðanna tveggja verða ljós þegar rýnt er í myndmál beggja.
Ljóðin Guðað á glugga og Vaxið á nóttunni tengjast einnig á nokkuð óræðan en snjallan hátt. Fyrra ljóðið lýsir atviki úr fortíðinni þegar guðað er á glugga um hánótt, þar er á ferð maður sem lagt hefur á sig langt ferðalag til að sækja hjálp handa veikri konu sinni. Ljóðið bregður upp mynd af því hvernig líf fólks gat hangið á bláþræði vegna fjarlægða og erfiðra samgangna. Í þessari, að því er virðist, einföldu frásögn eru fólgin mörg mikilvæg atriði. Hér er ekki bara sagt frá ögurstundu í lífi veikrar konu, frá erfiðum samgöngum og hættulegum sjúkdómum sem ógnuðu tilveru fólksins fyrr á dögum heldur er einnig ítrekað hversu samhjálpin, vinarþelið og bjartsýnin skipti fólkið miklu máli. Og lokalínurnar eru áminning um hvernig upprifjun á hinu liðna á það til að fegra og „sópa undir teppi gleymskunnar“ því sem erfitt var.
Síðara ljóðið tengir beint við það fyrra með upphafslínum sem minna á upphafslínur fyrra ljóðsins. Í fyrra ljóðinu er guðað á glugga húsbóndans en í því síðara er lýst glugga „í smáu herbergi“ barns sem hefur þar afdrep „til að vaxa á nóttunni“. Í fyrra ljóðinu ríkir hánótt og myrkur en í því síðara er birta og söngur sólskríkjunnar. En einföld lokalína síðara ljóðsins minnir á fjórar lokalínur fyrra ljóðsins, eftir fallega mynd kemur lokasetningin: „Ekki dagar alltaf þannig“. Lokalínur beggja ljóða sýna einnig vel þá tvíbentu afstöðu sem höfundur hefur til fortíðarinnar og því er hæpið að halda því fram að ljóðabókina Línur í lófa einkenni fortíðarþrá, eins og brá við í ritdómum.7
Hægt væri að fara í gegnum alla bókina og ræða ljóðatvennurnar, tengslin þeirra á milli, myndmálið, mögulega merkingu og merkingarauka, o.s.frv. En slíkt væri ærið verkefni og óþarfi að taka ánægjuna sem felst í slíkum pælingum af lesendum ljóðanna. Hér verður því aðeins tæpt á tengslum nokkurra ljóða í viðbót og einkum valdar ljóðatvennur þar sem tengslin eru óræðari en annars staðar og eru ekki gefin upp í sjálfum titlunum, eins og sýnt hefur verið fram á hér framar.
Í ljóði sem ber yfirskriftina Heimatilbúið jólatré og nær yfir tvær heilsíður (15-16) er lýst undirbúningi jólanna; laufabrauðsgerð, jólainnkaupum, hreingerningum, jólatrésgerð og ýmsu fleiru. Börnin velja „beinvaxna birkihríslu“ og rífa upp „sígrænan eini“: „Á hrísluna er síðan smíðaður fótur / einiviði og sortulyngi vafið um greinarnar“. Þá er aðfangadagskvöldinu lýst, borðhaldi og gjöfum. Gengið er „kringum jólatréð með lifandi kertaljósum“ og lokalínur ljóðsins eru:
Í ljóðinu sem á eftir fylgir er leikið með andstæður borgarljósa og lifandi ljósa bernskunnar. Ljóðið sýnir á frábæran hátt hvernig skáldið vinnur með minningarnar, bætir við víddum sem ekki eru í fyrra ljóðinu þótt það sé miklu lengra:
Ljóðið Hverja elska guðirnir? (34-35) er átakanleg frásögn af fæðingu yngri tvíburabræðra ljóðmælandans. Lýst er veikindum annars tvíburans sem fær heilahimnubólgu sem skaðar hann varanlega þótt hann lifi til tvítugs. Fjallað er um vonina, brostnar væntingar og sorgina. Lýst er ótímabærum dauða unga mannsins og kvöl móðurinnar sem saumar líkklæði hans. Í næsta ljóði er það hins vegar móðirin sjálf sem er kvödd með magnaðri náttúrumynd:
Ljóðin tengjast því saman í gegnum minningar um nánustu fjölskyldumeðlimi og andlát þeirra. Þessa ljóðatvennu má því líka tengja ljóðum sem koma síðar í ljóðabókinni og byggjast á minningu um föður. Ljóðið Bóndi í kaupstaðarferð er lífleg mynd af því sem titillinn gefur fyrirheit um. Um miðbik ljóðsins segir: „Svo kemur þúsundasta og fyrsta ferðin / eftir ár dag / Faðir minn og ég förum saman“ (85). Lokalínurnar vísa til þess að faðirinn er orðinn aldraður: „ferðahugur“ hans „loks þrotinn“ og hann gengur ekki lengur „í vetrarveðrum / heim á flesta sveitabæi á landinu“ til að miðla þekkingu og verða að liði (86). Ljóðið sem fylgir í kjölfarið er mjög fallegt tilbrigði við fyrri föðurminninguna:
Í frásagnarljóðinu Farskóli (28-29) er lýst heimakennslu barnanna sem nær yfir fjögurra ára tímabil og er á höndum foreldra og farkennara sem dvelur á heimilinu nokkrar vikur í einu: „Kennarinn reynir að fella kennsluna að aldri hvers og eins / agavandamál eru engin / Börnunum finnst íðilgaman í tímum og utan þeirra / Dagarnir líða alltof hratt“. Á eftir fylgir ljóð þar sem skáldið spinnur í kringum stafróf og reikning:
Af minningu um farskóla bernskunnar og barnalærdóm tekst Þóru að spinna snjalla hugleiðingu af tilvistarlegum toga og lokalínur ljóðsins tengjast einu af sterkasta þema ljóðabókarinnar sem snýst um það hvernig sjálfið verður til og myndar „mynstur sem skapar einstaklinginn“.
Ljóðin Farið í heimsókn á millistríðsárunum (62-64) og Úr svanabyggðum (65) gætu virst eiga lítið sameiginlegt við fyrsta lestur. Í fyrrnefnda ljóðinu er lýst í löngu máli hvernig fjölskyldan bregður sér af bæ í heimsókn til frændfólks í Laxárdal. Farið er á hestum og mikil spenna hjá börnunum. Hestaferðinni er lýst á lifandi hátt, fegurð náttúrunnar og fuglalífið heillar. Gestunum er vel tekið á áfangastað, fólkið á saman gleðistundir og veitingar eru góðar. Sofið er „í drifhvítu línu í gestaherberginu“ og daginn eftir er boðið upp á kaffi og volgar pönnukökur, spjallað, hlegið og gert að gamni sínu. Á heimleið er fjölskyldunni boðið inn í annan bæ til „að þiggja góðgerðir“ og heil komast þau aftur heim. Í síðarnefnda ljóðinu er öllu þessu snúið á haus. Í ljóðinu talar kona sem er alls staðar úthýst:
Það er áreiðanlega ekki tilviljun að þessum tveimur ljóðum er raðað saman; tengslin felast hér í þeim sterku andstæðum sem þarna eru dregnar upp og hljóta að vekja upp áleitnar spurningar um hjartalag og náungakærleika eða skort á honum. Bæta má við að seinna ljóðið er eitt af mörgum ljóðum Þóru Jónsdóttur sem bregða upp mynd af erfiðri stöðu og óblíðum örlögum kvenna. Jafnvel mætti lesa það táknlegum skilningi sem mynd af skáldkonu sem þunguð er af ljóðum sem enginn vill kannast við.
IV
Hér að framan var vitnað í ljóðlínur úr ljóðinu Þekkingarleit: „Sjálfið raðar síðan bitunum saman / í mynstur sem skapar einstaklinginn.“ Setningin lýsir vel þeirri kenningu sem hefur verið áberandi í sjálfsæviskrifafræðum undanfarna áratugi, að einstaklingurinn leitist við að skapa sögu – eða söguþráð – úr lífi sínu til að henda reiður á þá óreiðu sem tilvera hvers og eins óhjákvæmilega er.8 Samkvæmt þessum fræðum verður sjálfsmynd okkar (e. identity) til sem frásögn (e. narrative identity, narrative self).9 Í gegnum lífið leitast einstaklingurinn við að finna og/eða búa til sögu úr lífi sínu; sjálfið, eða öllu heldur sjálfsmyndin, er frásögn. Hitt er síðan ljóst að sagan sem við búum til er vitaskuld blekking eða tilbúningur því lífið er óreiða en ekki samfelld frásögn. Útkoman er því persónuleg goðsaga, eins og fram kemur í titli á bók sálfræðingsins Dan P. McAdams, The Stories we Live by: Personal Myths and the Making of the Self . Í inngangi bókarinnar skrifar McAdams:
Ef þú vilt þekkja mig verður þú að þekkja sögu mína, því sagan mín skilgreinir hver ég er. Og ef ég vil þekkja sjálfan mig, öðlast innsæi inn í merkingu lífs míns þá verð ég líka að kynnast eigin sögu. Ég verð að sjá í öllum smáatriðunum frásögn sjálfsins – hina persónulegu goðsögu – sem ég hef óbeint og jafnvel ómeðvitað skapað í gegnum árin. Það er saga sem ég held áfram að endurskoða og segja sjálfum mér (og stundum öðru fólki) meðan lífi mínu vindur fram. (McAdams 1993:11, þýðing mín)
Í Línum í lófa skapar Þóra Jónsdóttir sína eigin goðsögu; hún sýnir okkur hvernig ljóð hennar spretta af minningum sem hún vinnur úr á listrænan hátt. Í lok áður tilvitnaðs pistils sem Þóra skrifaði fyrir Bókmenntavef Reykjavíkurborgar gefur hún skýringu á því hvers vegna hún kom eins seint fram sem ljóðskáld og raun ber vitni um leið og hún skilgreinir skrif sín sem „æviminningar“: „Ég giftist ung að árum. Hjónabandið hefur enst. Þegar börnin okkar voru vaxin úr grasi fannst mér tíminn lengi að líða og hóf að skrifa það sem ég kalla ljóð en eru kannski smásögur ellegar æviminningar“ (Þóra Jónsdóttir 2001). Af þessum orðum má skilja að Þóra líti á allan sinn skáldskap sem „æviminningar“ þótt hvergi sé það eins ljóst og í þeirri bók sem hér hefur verið fjallað um. Einnig er áhugavert að hún nefni „smásögur“ þótt hún dragi reyndar úr þeirri skilgreiningu með orðinu „kannski“. Orðin „bundið mál“ sem standa undir titli ljóðabókarinnar Línur í lófa á titilsíðu verksins bera einnig vitni um þennan skilgreiningarefa. Það kann að vera að mikil áhersla þeirra sem um bókina hafa fjallað á frásagnareðli og þjóðlegan fróðleik, sem jafnvel „kæfir ljóðin“ (þjóðlegur fróðleikur hefur ekki þótt mjög „smart“ bókmenntagrein), hafa orðið til þess að textarnir í síðustu bókum Þóru, Hversdagsgæfu (2010), Elst milli hendinga (2013) og Sólardansinn (2019) eru settir upp og skilgreindir sem örsögur þótt ljóðræn stílbrögð ráði þar ekki síður ríkjum en í fyrri bókum hennar. Skilgreiningar skipta ef til vill litlu máli þegar allt kemur til alls. En það er áhugavert að Þóra Jónsdóttir skilgreini öll sín skrif sem æviminningar því það gefur okkur innsýn inn í listræna aðferð hennar, hennar persónulegu fagurfræði sem umfjölluninni hér að framan er ætlað að draga fram í dagsljósið.
Greinin birtist fyrst í SÓN, tímariti um ljóðlist og óðfræði, 2022