SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir16. janúar 2025

ER ÓLAFÍA JÓHANNSDÓTTIR GLEYMD?

 

Í Morgunútvarpinu á rás 1 í morgun (16. janúar 2025) var viðtal við Sólveigu Katrínu Jónsdóttur um Ólafíu Jóhannsdóttur. Tilefnið var að Sólveig Katrín birti nýlega grein um Ólafíu í Morgunblaðinu. Það er svo sannarlega góðra gjalda vert að vekja athygli á Ólafíu og stórmerkilegu starfi hennar í þágu bágstaddra kvenna í Noregi snemma á síðustu öld. Norðmenn eru Ólafíu þakklátir og halda minningu hennar á lofti og er stytta af henni við fjölfarna götu í Osló.

Það sem var hins vegar heldur miður við áðurnefnt viðtal var sú fullyrðing Sólveigar Katrínar að Ólafía Jóhannsdóttir væri gleymd á Íslandi, enginn þekkti til hennar og sjálf hafi hún skrifað  greinina í Morgunblaðið til að vekja athygli á þessari íslensku kvenhetju sem enginn þekkti. Þessa ályktun dró hún af því að hún hafði sjálf ekki þekkt til Ólafíu fyrr en nýlega. Þetta er kolrangt.

Fjölmargir vita hver Ólafía Jóhannsdóttir er, hafa lesið bækur hennar og þekkja til góðgerðastarfa hennar í gömlu Kristíaníu (nú Osló). Um Ólafíu hafa verið ritaðar bækur og fjöldi greina og stytta af henni er staðsett í aðalbyggingu Háskóla Íslands og einnig við fæðingarstað hennar á Mosfelli. Á styttuna var minnst í viðtalinu í Morgunútvarpinu en helsta íslenska heimildin: Ólafía: ævisaga Ólafíu Jóhannsdóttur eftir Sigríði Dúna Kristmundsdóttur var nefnd í hröðu framhjáhlaupi og ekki getið um höfundinn. Ævisaga Sigríðar Dúnu kom út 2006 og vakti þá töluverða athygli.

 

Björg Einarsdóttir skrifaði um ævi og störf Ólafíu Jóhannsdóttur í merku riti sínu Úr ævi og starfi íslenskra kvenna, sem kom út í þremur bindum á árunum 1984-1986.

Í bók Ragnhildar Richter Lafað í röndinni á mannfélaginu: Um sjálfsævisögur kvenna, sem kom út 1997, er fjallað ítarlega um sjálfsævisögu Ólafíu Jóhannsdóttur, Frá myrkri til ljóss, enda var Ólafía frumkvöðull á sviði íslenskrar sjálfævisagnaritunar - líkt og hún var á svo mörgum öðrum sviðum. Um skrif Ragnhildar má lesa nánar hér.

 

Í safnritinu Sögum íslenskra kvenna 1879-1960, sem kom út 1987, er einnig fjallað um Ólafíu og birt ein af sögum hennar úr Aumastar allra, sem er líklega hennar þekktasta bók, en þar birtir Ólafía smásögur sem eru byggðar á reynslu hennar af sjálfboðastarfi með bágstaddra kvenna í höfuðborg Noregs í upphafi liðinnar aldar. Um það verk má lesa eftirfarandi í eftirmála bókarinnar:

 

 

Hinir sýktu limir þjóðarlíkamans

Árið 1916 gaf Ólafía út smásagnasafnið De ulykkeligste. Það vakti mikla athygli og var endurútgefið tvisvar sinnum í Noregi, einnig þýtt á ensku og gefið út í Kanada 1926. Á íslensku kom safnið út 1923 og bar titilinn Aumastar allra.

Eftir útkomu bókarinnar hóf Ólafía aftur fyrirlestrahald og hélt fram ýmsum athyglisverðum skoðunum. Í einum slíkum fyrirlestri lýsir Ólafía samhjálp sem borgaralegri skyldu allra manna, hún segir:

 
Hinir glötuðu eru sjúkir limir á líkama þjóðfélagsins. En þegar svo er komið,
þá er fyrir hendi hætta á smitun alls líkamans, - hætta á að þjóðfélgið allt sýkist.

 

Þetta viðhorf minnir á frönsku natúralistana og skoðun þeirra að bókmenntirnar megi nota til að uppræta slík þjóðfélagsmein. Með því að lýsa sýktum limum þjóðfélagsins á sannan og fordómalausan hátt í bókmenntum höfði rithöfundurinn til samábyrgðar allra manna og lækningar sé von. Það má teljast líklegt að slíkur hafi einmitt verið tilgnagur Ólafíu með smásagnasafni sínu.

Þótt trúin hafi verið sterkasti þátturinn í lífi Ólafíu á þessum tíma og leiðin til lausnar á vandamálum sögupersónanna liggi í gegnum trúna, er boðskapurinn aldrei yfirgnæfandi. Ólafía segir frá á fordómalausan hátt og býður aldrei upp á ódýrar lausnir í formi frelsunar og góðaverka, líkt og bregður fyrir í ritverkum vinkonu hennar Guðrúnar Lárusdóttur.

Smásagnasafnið Aumastar allra er einstætt í íslenskri bókmenntasögu. Þar eru sagðar sögur af "föllnum" konum; vændiskonum, afbrotakonum, konum sem gista stræti og fangelsi, konum sem þjást af sárasótt og öðrum afleiðingum lífernis síns.

Það er ekki einungis óvenjulegt efni sem vekur athygli á þessum sögum heldur einnig frásagnarhátturinn og stíllinn. Sögurnar eru sagðar hispurslaust, höfundur færir þær í listrænan búning, dramatíserar samtöl og atburði, þannig að um heildsteyptan skáldskpa er að ræða þó efniviðurinn sé endurminningar.

Í sögunni "Vonda veikin" hér í safninu, er sögð harmsaga ungrar stúlku sem er tæld og vikin af illa innrættum karlmanni, sem smitar hana af vondu veikinni: sárasótt. Ekkert er dregið undan í lýsingunni á afleiðingum sjúkdómsins. Lýst er í smáatriðum líkalegum sem og andlegum þjáningum hinnar sýktu, og einnig gerir höfundur skil hinni félagslegu útskúfun sem fylgir í kjölfarið. Sagan hlýtur að teljast einsdæmi í íslenskum bókmenntum og hefur vafalaust verið ögrandi á þeim tíma sem hún er skrifuð, þegar ekki mátti skrifa um kynlíf í bókmenntum hvað þá kynsjúkdóma.

(Eftirmáli Soffíu Auðar Birgisdóttur, "Skyldan og sköpunarþráin" við Sögur íslenskra kvenna 1879-1960, bls. 937).

 

Það er alltaf ástæða til að minna á Ólafíu Jóhannsdóttur, verk hennar og merkilegt starf, en óþarfi að halda því fram að hún sé öllum gleymd - svo er alls ekki. Í áðurnefndu viðtali tengdi Sólveig Katrín stöðu bágstaddra kvenna í Osló í upphafi síðustu aldar við stöðu bágstaddra og heimilslausra á Íslandi í dag og hvatti til samhjálpar og sjálfboðastarfa á borð við þá sem Ólafía Jóhannsdóttir stundaði á sínum tíma. Tengingin er góðra gjalda verð og einnig hvatningin til almennra borgara - en það hefði líka mátt snúa þeirri hvatningu að yfirvöldum og ráðamönnum þjóðarinnar.

Nánar má fræðast um Ólafíu Jóhannsdóttur í skáldatalinu hér á vefnum - og svo auðvitað í þeim bókum sem nefndar hafa verið hér að ofan og fjölda blaða- og tímaritsgreina sem birst hafa um Ólafíu, verk hennar og störf í gegnum árin.

Tengt efni