SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir30. apríl 2023

FYRSTA ÚTGEFNA SJÁLFSÆVISAGA ÍSLENSKRAR KONU


Fyrsta prentaða sjálfsævisaga íslenskrar konu var sjálfsævisaga Ólafíu Jóhannsdóttur Frá myrkri til ljóss sem kom út árið 1925. Bókin sver sig í ætt við það verk sem upphaf sjálfsævisagnaritunar í hinum vestræna heimi er oftast miðað við, Játningar Ágústínusar kirkjuföðurs. Frá myrkri til ljóss er – líkt og sjálfsævisaga Ágústínusar – saga af trúarlegri reynslu og frelsun.

Hér á eftir verður fjallað aðeins um ævi og verk Ólafíu og sérstaklega um sjálfsævisögu hennar og áhugaverða túlkun Ragnhildar Richter bókmenntafræðings á verkinu en Ragnhildur fjallaði um bókina í fræðiritinu Lafað í röndinni á mannfélaginu. Um sjálfsævisögur kvenna sem kom út 1997.

 

 

Ólafía Jóhannsdóttir fór ekki troðnar slóðir í lífi sínu og starfi. Hún fæddist 22. október 1863 að Mosfelli í Mosfellssveit og voru foreldrar hennar Ragnheiður Sveinsdóttir og Jóhann K. Benediktsson prestur. Þegar Ólafía var á öðru ári fór hún í fóstur til Sigríðar Þórðardóttur í Viðey, en faðir hennar hafði tapað nær öllum eigum sínum og börnin voru mörg. Ólafía dvaldi í Viðey á fjórða ár, en þá tók móðir hennar hana þaðan burt en kom henni í fóstur til systur sinnar Þorbjörgar Sveinsdóttur ljósmóður og móður sinnar Kristínar Jónsdóttur sem bjuggu á Skólavörðustíg í Reykjavík. Ólafía ólst því að mestu leyti upp hjá móðursystur sinni og ömmu og hún naut mikils frelsis í uppeldinu og varð snemma sjálfstæð í hugsun og skoðunum.

Ólafía gekk þrjá vetur í Barnaskólann í Reykjavík og veturinn eftir að hún var fermd settist hún í Kvennaskólann. Ári síðar sagði hún sig úr skólanum og sagan segir að henni hafi ekki líkað strangleikinn sem ríkti í skólahaldinu. Síðar las Ólafía utan skóla til prófs úr fjórða bekk Latínuskólans, en stúlkur höfðu ekki heimild til að sitja í skólanum. Prófið tók hún vorið 1890 og sótti um að fá að taka stúdentspróf ári síðar. Því var hafnað á þeirri forsendu að tveir vetur skyldu líða á milli fjórðabekkjarprófsins og stúdentsprófsins. Ólafía taldi sig hins vegar tilbúna til að taka prófið, sætti sig ekki við þessi málalok og hætti frekara námi við Latínuskólann.

Á árunum 1888-1902 starfaði Ólafía sem kennari, fyrst í Flatey á Breiðafirði, síðar í Reykjavík við barnaskólann og Kvennaskólann. Hún hafði mikinn áhuga á að koma á fót menntastofnun fyrir konur og fór utan haustið 1892 til að kynna sér slíkar stofnanir.

 

Af ofangreindu má heyra að Ólafía hefur snemma verið óvenju sjálfstæð og starfsöm. Þó er fátt eitt talið. Kvenréttindamál tóku snemma huga hennar og þegar Hið íslenska kvenfélag var stofnað 1894 gekk hún í það og ásamt fóstru sinni, Þorbjörgu, starfaði hún ötullega innan þess. Félagið var upphaflega stofnað til þess að beita sér fyrir stofnun háskóla á Íslandi en einnig hafði það aukin réttindi kvenna á stefnuskrá sinni. Ólafía var ritstjóri Ársrits félagsins á árunum 1895-1899 og skrifaði margar greinar í það. 1899-1900 ritstýrði hún barnablaðinu Æskunni og ásamt Jarþrúði Jónsdóttur ritstýrði hún kvennatímaritinu Framsókn 1899-1901.

 

Árið 1895 beitti Ólafía sér fyrir stofnun Hvítabandsfélags á Íslandi og var hún kjörin formaður þess. Félagið beitti sér fyrir bindindismálum og mannúðarmálum. Ólafía ferðaðist víða bæði heima og erlendis á árunum 1897 og 1898 og hélt fyrirlestra, meðal annars um bindindismál og kvenréttindamál.

 

Á fyrstu árum tuttugustu aldarinnar tók Ólafía að flytja opinber erindi um trúmál og að beita sér markvissar fyrir bindindismálum, m.a. með aðhlynningu drykkjumanna. Hún hafði verið mikil trúkona frá æskuárum, en það er ekki fyrr en á árunum 1903-1906 að hún verður fyrir svo sterkri trúarlegri upplifun að hún ákveður að helga trúnni líf sitt og starf. Á þeim árum lá Ólafía veik og dvaldist á heimili formanns Hvítabandsins í Ytterö í Noregi. Þegar hún komst til heilsu aftur fór hún til Kristjaníu (nú Osló) og hóf þar störf á vegum Hvítabandssamtakanna sem fólust aðallega í því að sinna utangarðskonum á sjúkrahúsum og í fangelsum. Árið 1912 kom hún á fót heimili fyrir utangarðsfólk og veitti því forstöðu til ársins 1915 en þá tók heilsu hennar að hraka á ný. Fyrir þessi störf hefur Ólafía verið heiðruð á margvíslegan hátt í Noregi og hefur verið reistur minnisvarði í Osló. 

 

Auk þeirra fjölmörgu starfa Ólafíu sem hér hafa verið rakin lagði hún einnig stund á ritstörf og er framlag hennar til íslenskra bókmennta mjög merkilegt – og er þá ekki aðeins átt við þá staðreynd að hún skrifaði fyrst íslenskra kvenna sjálfsævisögu.

 

Árið 1916 kom út í Noregi smásagnasafn Ólafíu sem heitir De ulykkeligste. Bókin vakti mikla athygli og hefur verið endurútgefin nokkrum sinnum í Noregi, einng var hún þýdd á ensku og gefin út í Kanada árið 1926. Á íslensku kom bókin út árið 1923 og bar titilinn Aumastar allra. Eins og titilinn bendir á þá fjalla sögur Ólafíu um þá sem eru lægst settir, aumastar allra, í samfélaginu. Bókin er einstök í íslenskri bókmenntasögu. Þar eru sagðar sögur af „föllnum“ konum; vændiskonum, afbrotakonum, konum sem gista stræti og fangelsi, konum sem þjást af sárasótt og öðrum afleiðingum ömurlegs lífernis. Það er ekki aðeins efni sagnanna sem er óvenjulegt á þessum tíma, heldur vekur einnig athygli frásagnarhátturinn og stíllinn. Sögurnar eru sagðar hispurslaust, höfundur færir þær í listrænan búning, lýsir samtölum og atburðum á dramatískan hátt; þannig að um heilsteyptan skáldskap er hér að ræða þótt Ólafía byggi sögurnar á endurminningum sínum og reynslu af starfi meðal utangarðsfólks í Noregi.

 

Í einum af fyrirlestrum sínum lýsir Ólafía samhjálp sem borgaralegri skyldu allra manna. Hún segir: „Hinir glötuðu eru sjúkir limir á líkama þjóðfélagsins. En þegar svo er komið, þá er fyrir hendi hætta á smitun alls líkamans, –  hætta á að þjóðfélagið allt sýkist.“ Í smásagnasafni sínu er Ólafía einmitt að lýsa sýktum limum þjóðfélagsins á sannan og fordómalausan hátt, vafalaust í þeim tilgangi að höfða til samhjálpar manna í þeirri trú að bókmenntir megi nota sem tæki til að uppræta slík þjóðfélagsmein. Ólafía Jóhannsdóttir lést árið 1924 rúmlega sextug að aldri, árið áður en sjálfsævisaga hennar var gefin út á bók.

Óhætt er að segja að trúin hafi verið sterkasti þátturinn í lífi Ólafíu Jóhannsdóttur á þeim tíma sem hún skrifar Aumastar allra og sjálfsævisagan, Frá myrkri til ljóss, er – eins og áður sagði – saga af trúarlegri reynslu og frelsun. Sagan fjallar um ævi Ólafíu fram að fertugu, en henni lýkur um það leyti sem Ólafía frelsast til lifandi trúar, það eru þau tímamót sem marka sögulokin.

 

Ragnhildur Richter bókmenntafræðingur fjallar um sjálfsævisögu Ólafíu í bók sinni Lafað í röndinni á mannfélaginu. Um sjálfsævisögur kvenna. Ragnhildur telur að þetta kristilega efni sjálfsævisögunnar hafi vafalaust átt sinn þátt í því að sagan var gefin út. Vestræn, kristin menning hafi nefnilega helst getað sætt sig við þær sjálfsævisögur kvenna sem hafa trúarlíf höfundarins að meginefni.

Í formála að bókinni segist Ragnhildur skoða þá sjálfsmynd sem birtist í sjálfsæviögum kvennanna sem hún fjallar um, auk þess sem hún spyrji spurninga á borð við þessar: Hvaða möguleikar blöstu við konunum í æsku? Til hvers stóð hugur þeirra? Hvernig gekk þeim að láta drauma sína rætast? Hvaða hindrunum lýsa þær? Setti kynferði þeirra þeim skorður? Hvað hafði áhrif á þær og hvað lásu þær? Og hvernig skrifa þær sig inn í hina sterku karlahefð íslenskra bókmennta?

Með þessar spurningar að leiðarljósi í greiningu sinni á Frá myrkri til ljóss sýnir Ragnhildur fram á hvernig Ólafía skrifar sig inn í hina trúarlegu hefð sjálfsævisagna og um leið greinir hún bókina út frá sálfræðilegum þáttum.

Í sjálfsævisögunni kemur fram að Ólafía undi sér mjög vel í Viðey, hún lýsir þessum bernskuárum sem sælutíma og Sigríður fóstra hennar er henni blíð og eftirlát fósturmóðir. Líf Ólafíu einkennist af aðskilnaði við móður; fyrst við sína eiginlegu móður þegar hún er á öðru ári; síðan við Sigríði þegar hún er tæplega fimm ára; og enn síðar við fóstru sína Þorgerði og ömmu sína Kristínu. Ragnhildur Richter færir gild rök að því í bók sinni að þessi endurtekni aðskilnaður hafi sett djúpt mark sitt á sálarlíf Ólafíu og þróun sjálfsmyndar hennar – og sé að vissu leyti afgerandi þáttur í trúarlífi hennar, leit hennar að Guði og frelsun. Ragnhildur skrifar:

 

Með því að svipta Ólafíu móðurástinni og örygginu sem hún naut í Viðey má segja að móðir hennar leggi grunninn að allri framtíð hennar, því þótt hún segist hafa lært á reynslunni að tengjast engum stað lýsir hún engu að síður langri og erfiðri leit sinni að öryggi og föstum grundvelli að standa á. Það er ekki fyrr en hún löngu seinna kemst í náðarfaðm Guðs sem leitinni lýkur og hún eignast aftur öruggan samastað og þá ást sem hún getur treyst.

 

En það var ekki þrautalaust fyrir Ólafíu að gefa sig Guði á vald, hún átti erfitt með að lúta Guði, viðurkenna vald hans yfir sér, ganga honum á hönd og lækka sig fyrir honum. Þetta eru orðasambönd sem hún notar sjálf, jafnvel á þeirri stundu sem hún frelsast.

Ragnhildur Richter bendir á að til þess að sjá tengslin á milli margfalds aðskilnaðar Ólafíu við móður eða móðurstaðgengla og trúarlegrar frelsunar hennar sé nauðsynlegt að rannsaka mynd hennar af sambandinu við Guð eins og hún lýsir því eftir að hún hefur frelsast. Ragnhildur segir orðrétt:

 

Því þótt frelsunin tákni að Ólafía gangist undir lögmál föðurins og viðurkenni reglur samfélagsins er táknræn merking frelsunarinnar ekki einskorðuð við það eitt. Á síðustu síðu bókarinnar lýsir hún sambandi sínu við Guð sem líkamlegu sambandi þar sem Guð bæði nærir hana og hallar henni að hjarta sér.

 

Í þessum orðum kemur Ólafía með beina samlíkingu á milli móður og Guðs: „þótt móðir geti gleymt barni sínu, þá gleymir hann [það er Guð] ekki smælingjum sínum”, og Ragnhildur bendir á að í Guði finni Ólafía ekki aðeins föðurinn, „hann er henni jafnframt móðir sem hún hefur alltaf þráð. Móðir sem yfirgefur barn sitt aldrei og gleymir því ekki.”

Þótt Ólafía Jóhannsdóttir hafi sniðið sjálfsævisögu sinni ævafornt og viðurkennt bókmenntaform, sem rekja má allt aftur til Játninga heilags Ágústínusar, þá býr hún til nýja sögu, segir Ragnhildur, “sögu þar sem dóttirin finnur hlutverk sitt eftir langa leit og getur lifað viðburðaríku lífi í skjóli þess Guðs sem hún hefur skapað í texta sínum og sem mun aldrei yfirgefa hana.”

 

Tengt efni