ÞAÐ ER ENGINN AÐ BÍÐA EFTIR SKÁLDSÖGU EFTIR HEKLU GOTTSKÁLKSDÓTTIR
Eftirfarind texti var skrifaður fyrir leikskrá að sýningu Borgarleikhússins á Ungfrú Ísland, sem byggð er á samnefndri skáldsögu Auðar Övu Ólafsdóttur og var frumsýnd 17. janúar 2025 í leikstjórn Grétu Kristínar Ómarsdóttur.
Þegar Hekla Gottskálksdóttir heldur rúmlega tvítug að aldri úr sveitinni sinni til höfuðborgarinnar ber hún draum í brjósti; hún þráir að skrifa skáldskap. Rútuferðin úr Dölunum til Reykjavíkur tekur átta klukkustundir og á því ferðalagi dregur höfundur upp lifandi mynd af því sem fyrir augu aðalpersónunnar ber; mynd af samfélagi sem Íslendingar fæddir fyrir miðja síðustu öld þekkja en nú er að miklu leyti horfið. Hekla lætur hugann reika á milli þess sem hún les í Ulysses eftir James Joyce og tvær myndir af skáldum lifna fyrir hugskotssjónum hennar. „Bjó ekki skáldkona á þessum bæ?“ spyr hún sig þegar rútan ekur yfir straumþunga á: „Niðaði ekki einmitt í æðum hennar þessi kolgráa, straumþunga á, full af sandi og leðju. Það bitnaði á kúnum, sagði fólk, því þegar hún sat við að skrifa um ástalíf og harmræn örlög sveitunga sinna, upptekin við að breyta sauðalitum í sólarlag á Breiðafirði, gleymdi hún að mjólka.“ Og Hekla hugleiðir örlög skáldkonunnar:
Það var svo „mikið óyndi í henni að eitt ljósbjart vorkvöldið hvarf hún ofan í silfurgráan hylinn í ánni [...] Hún fannst í silungsneti við brúna, vængstýft skáld var dregið á land í gegnsósa pilsi, með lykkjufall á sokkum, maginn fullur af vatni.– Hún eyðilagði netið, sagði bóndinn sem átti lögnina. Ég lagði fyrir silung en möskvarnir voru ekki gerðir fyrir skáldkonu.Örlög hennar voru í senn víti til varnaðar og eina fyrirmynd mín að kvenkynsrithöfundi.Annars voru skáld karlkyns.Ég lærði af því að segja engum hvað ég hugðist fyrir.
Hinni skáldamyndinni bregður fyrir þegar rútan ekur framhjá afleggjaranum upp í Mosfellsdal og vísar að sjálfsögðu til Nóbelskáldsins sem keyrir um á „Buick, fjögurra dyra, árgerð 1954“ með „firnagóðu fjaðrakerfi og öflugri miðstöð“ eða á grænum Lincoln, eins og þar segir. Ólík eru hlutskipti kvenskálda og karlskálda á þeim tímum sem Hekla lifir og hún harmar skort á fyrirmyndum.
Hekla er fædd á fimmta áratug tuttugustu aldar, á tíma þegar íslenskar skáldkonur voru sannarlega til en voru svo til ósýnilegar í umræðu um bókmenntir og listir. Þær sem létu mótlætið ekki stöðva sig og sendu frá sér fjölda bóka og nutu jafnvel vinsælda hjá almenningi – sé tekið mið af útlánstölum bókasafna – voru hundsaðar af bókmenntapáfum og um verk þeirra höfð niðrandi orð: „Kellingabókmenntir“. Enn í dag er umræðan jafnvel á þann veg að það er líkast því að engir kvenrithöfundar hafi komið fram á sjónarsviðið fyrr en á sjöunda áratugnum með höfundum á borð við Ástu Sigurðardóttur, Jakobínu Sigurðardóttur og Svövu Jakobsdóttur. Kynslóðir þeirra skrifandi kvenna sem komu á undan þeim, Ragnheiður Jónsdóttir, Þórunn Elfa Magnúsdóttir og Oddný Guðmundsdóttir – svo fáeinar séu nefndar – virðast gleymdar og grafnar.
Hekla Gottskálksdóttir er fulltrúi þessara týndu kvenrithöfunda. Það er athyglisvert að höfundur dregur um hliðstæðu með skriftar- og sköpunarþrá hennar og samkynhneigðri þrá besta vinar hennar, Davíðs Jóns John Stefánssonar Johnsson. Þau trúa hvort öðru fyrir sínum dýpstu leyndarmálum:
Þá segi ég honum það.Að ég skrifi.Á hverjum degi.[…]Á móti trúði fallegasti strákurinn í Dölunum mér fyrir því að hann elskaði stráka.Við geymum leyndarmál hvort annars.Það var jafngilt.
Og höfundur dregur upp aðra hliðstæðu í mynd Íseyjar, bestu vinkonu Heklu, sem ber sama draum í brjósti en fær honum ekki fullnægt því skyldan yfirvinnur sköpunarþrána í hennar tilviki. Við fáum djúpa innsýn inn í drauma og þrár Íseyjar og þær skorður sem henni eru settar í hlutverki sínu sem eiginkona og móðir. Hún er skáld – líkt og Hekla – en ólíkt Heklu nærir hún ekki meðvitað með sér drauma um að þroska þá gáfu sína, hún getur bara ekki annað því allt verður henni að texta eða ljóði; hún er búin að skrifa sögu, leikrit, ljóð áður en hún veit af. Hún skrifar í dagbók sem hún felur í skúringafötunni fyrir eiginmanninum, sem „myndi ekki skilja að ég eyddi tíma í að skrifa um það sem er ekki eða um það sem er liðið“.
Baráttan sem Ísey heyr við sköpunarþrána er barátta sem stígur fram í skrifum ótal íslenskra kvenna allt frá því að þær stigu sín fyrstu spor á ritvellinum á síðari hluta nítjándu aldar og fram yfir miðja tuttugustu öld. Þótt þrá Íseyjar endurspegli þrá Heklu en munurinn sá að Hekla er ekki fangi aðstæðna sinna, líkt og Ísey, og hún er staðráðin í að láta ekki hlutskipti sitt beygja sig og fetar þá slóð sem hún þráir þótt leiðin sé grýtt og samfélagið hafi meiri áhuga á líkama hennar en anda. Hekla heldur sínu striki jafnvel þótt hún fái verk sín ekki útgefin og „enginn [sé] að bíða eftir skáldsögu eftir Heklu Gottskálksdóttur“, eins og segir á einum stað.
Hekla les og skrifar allar sínar lausu stundir, hún upplifir umhverfi sitt á skapandi hátt, skynjar Fegurðina – með stórum staf. En til að koma þeirri Fegurð á framfæri þarf Hekla að grípa til ráðs sem margar skáldkonur fyrri tíma þurftu að nota til að koma verkum sínum á framfæri; að fá bók sína útgefna undir dulnefni karlmanns. Þannig lýkur skáldsögunni Ungfrú Ísland og hvort Hekla sigrar eða tapar í baráttu sinni fyrir að fá að skrifa verður hver lesandi að gera upp við sig. Það er þó ljóst að hún lifir draum sinn, að minnsta kosti að einhverju leyti: Skapar heima og miðlar fegurð – þótt sjálf sé hún ósýnileg:
Ég held á tónsprotanum.Ég get kveikt á stjörnu á svartri hvelfingunni.Ég get líka slökkt á henni.Heimurinn er mín uppfinning.
Það liggur beinast við að líkja frásagnarhætti Auðar Övu í þessari bók við blundandi eldfjall. Frásögnin er yfirveguð, róleg á yfirborðinu, virðist áreynslulaus og streymir áfram hnökralaus og heillandi. En ljóst er að undir niðri býr kraumandi eldur, höfundi liggur margt á hjarta, ekki síst staða kvenna og annarra jaðarhópa í samfélagi karlrembu og fordóma. Þá er líka viðeigandi að bókin endi á stuttum kafla með yfirskriftinni „Líkami jarðar“ þar sem jarðskjálfti ríður yfir og „opnast hefur rifa á jörðina“. Þau jarðarumbrot má vafalaust túlka á margskonar máta. Kannski vísa þau til þess að kvika sköpunargáfu Heklu sé að brjóta sér leið upp á yfirborðið en einnig má geta sér til um að þau kallist á við samfélagsleg umbrot sem eru í farvatninu á síðari hluta tuttugustu aldar, á þeim tíma þegar frásögninni lýkur; umbrot sem áttu eftir að greiða leið íslenskra kvenna inn á vettvang íslenskra bókmennta.