SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 2. febrúar 2025

ÍRSKI VERÐLAUNAHÖFUNDURINN

Nóvellurnar Smámunir sem þessir (2023) og Fóstur (2024) eftir Claire Keegan, og í þýðingu Helgu Soffíu Einarsdóttur, hafa uppskorið mikið lof lesenda enda alveg einstaklega vel skrifaðar sögur og áhrifaríkar. Fóstur hlaut Verðlaun bóksala í flokki þýddra skáldsagna og þykir sú fyrrnefnda ekki síðri en báðar sögurnar hafa hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar.

Claire Keegan fæddist árið 1968 og ólst upp á sveitabæ í Wicklow héraði á Írlandi. Hún fór 17 ára til New Orleans í Bandaríkjunum og nam þar ensku og stjórnmálafræði. Hún sneri aftur til Írlands árið 1992 og bjó síðan í eitt ár í Cardiff í Wales. Þar lauk hún MA gráðu í skapandi skrifum og kenndi þau við háskólann í Wales. Síðan kláraði hún meistaragráðu í heimspeki við Trinity háskólann í Dublin. 

Keegan er einkum þekkt fyrir smásögur sínar og nóvellur. Hún sló strax í gegn með fyrsta smásagnasafni sínu, Antartica, sem kom út árið 1999. Næsta smásagnasafn hennar var Walk the Blue Fields sem kom út 2007, og vann einnig til verðlauna, og fljótlega eftir það sendi Keegan frá sér smásöguna Foster (2009) sem var m.a. valin ein af bestu amerísku smásögunum 2011, eftir að hafa birst í The New Yorker. Árið 2010 var sagan gefin út á bók í lengri útgáfu og var þá m.a. valin af The Times sem ein af bestu 50 skáldsögum 21. aldarinnar. Kvikmyndin The Quiet Girl var gerð eftir sögunni árið 2022 og rakaði hún til sín verðlaunum og viðurkenningum. Hér má horfa á stiklu úr myndinni.

Árið 2021 sendi Keegan frá sér nóvelluna Small Things like These og rataði hún m.a. á stuttlista Booker verðlaunanna árið 2022. Sagan var kvikmynduð árið 2024 og hlaut strax ýmsar viðurkenningar. Það má sjá stiklu úr myndinni hér

Nýjasta afurð Keegan er safn þriggja smásagna sem ber yfirskriftina So Late in the Day en það kom út á haustdögum árið 2023.  Það hefur vakið mikil og góð viðbrögð lesenda, líkt og allt annað efni þessa virta metsöluhöfundar. Sögur Keegan hafa komið út á fjölda tungumála og er hvarvetna vel tekið. 

Báðar sögur Keegan sem komið hafa út á íslensku virðast ekki eiga margt sameiginlegt. Fóstur fjallar um unga stúlku sem er ofaukið á heimili sínu og því send í fóstur. Þar upplifir hún umhyggju og alúð sem hún á ekki að venjast en sorgin er þó skammt undan. Smámunir sem þessir fjallar hins vegar um kolakaupmann sem uppgötvar þann hrylling sem falinn er innan klausturveggjanna, Magdalenu-þvottahúsin, og þarf að taka afstöðu til hans sem og eigin uppvaxtar. Það sem þessar annars stuttu sögur, nóvellur, eiga hins vegar sameiginlegt er að þær eru skrifaðar af svo mikilli djúphygli og næmni að þær láta trúlega fáa ósnortna. Vonandi verður fljótlega ráðist í að þýða meira eftir Keegan.

Ef þig vantar eitthvað verulega gott að lesa þá er óhætt að mæla með sögum Claire Keegan! 

 

Tengt efni