SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir

LILJA, BRAUÐSTRITIÐ OG SVEI, SVEI, SUBBALÍN!

Lilja Björnsdóttir (1894-1971) var frá Keldudal í Dýrafirði en kenndi sig jafnan við Þingeyri. Hún var alþýðukona sem ólst upp við talsvert basl, hún var þó mjög dreymin og gekk illa að sinna bústörfunum. Hún þráði að mennta sig en faðir hennar vildi að hún lærði karlmannafatasaum, líkt og systir hennar. Lilja stefndi hins vegar annað og árið 1913 dreif hún sig til Reykjavíkur og fór í Kvennaskólann. Hún þurfti þó mjög að hafa fyrir því og gat aðeins verið tvo vetur vegna vanefna. Síðan starfaði hún um hríð sem heimiliskennari í Borgarfirði.

Árið 1917 sneri Lilja aftur í sveitina, því ,,römm er sú taug". Fyrst dvaldi hún á Þingeyri en líkaði ekki ,,sollurinn" þar og fór til Hóla en þar kynntist hún eiginmanni sínum, Jóni Erlendssyni frá Bakka í Dýrafirði. Þau trúlofuðust frostaveturinn mikla og giftust þegar spánska veikin herjaði á landann.

Lilja og Jón bjuggu á Bakka og var oft hart í búi. Jón þurfti að stunda róðra og þá var Lilja ein á bænum með fjögur börn. Hún missti þau öll og þegar síðasta barnið dó lagðist hún í rúmið og fannst hún ekki hafa neitt að lifa fyrir. En þá bjargaði henni það sem varð leiðarljósið hennar síðan, þ.e. stakan, ljóðið, og hún kvað sitt Sonatorrek:

Sér ástvinaþráin svo öfluga rót
í elskenda hjartanu grefur,
að viljinn og skynsemin vega ei hót,
mót valdi, sem tilfinning hefur. 

 

Eftir að hafa kveðið þessa vísu fór Lilja á fætur og tók aftur til við búverkin. Hjónin bjuggu á Bakka í tíu ár við mikla fátækt en fluttu þaðan til Þingeyrar. Jón stundaði sjóinn og Lilja var ein með börnin sem fæddust eitt af öðru og döfnuðu öll vel. En Lilju leiddist og langaði til Reykjavíkur. Það varð þó nokkur bið á því þar sem auraráðin voru lítil. Enn var það stakan sem hjálpaði Lilju að þrauka erfiðar stundir.  

Árið 1944 flutti Lilja, ásamt fjölskyldu sinni, til Reykjavíkur. Þau reistu bæ á Sundlaugavegi sem bar nafnið Litlaland. Bærinn stóð undir nafni því hann rúmaði vart Lilju, Jón og fimm börn. Árið 1947 dó Jón en Lilja bjó áfram með börnum sínum í Litlalandi þar til bæjaryfirvöld fóru að amast við kofanum og tóku hann af henni. Í staðinn fékk hún íbúð sem hún lét sér vel lynda. 

Lilja sendi frá sér þrjú verk: Augnabliksmyndir kom út árið 1935 á Ísafirði. Hún kostaði sjálf útgáfuna en vegna fjárhagsörðugleika varð upplagið mjög takmarkað. Næsta bók bar titilinn Vökudraumar: Ljóð og kom út 1948 og sú þriðja, Liljublöð kom út 1952. Auk þess orti hún talsvert af erfiljóðum og skrifaði ritgerðir. Þrá hennar eftir að læra dvínaði aldrei og tæplega sextug fékk hún leyfi til að sitja einn vetur í íslenskutímum í háskólanum. Þá fór hún í námsflokkana og naut þess að vera í kringum unga fólkið. 

Lilja var vinsæl skáldkona og eru kvæði hennar og stökur af ýmsu efni. Í Vökudraumum: Ljóð má til dæmis finna býsna skemmtilegt ljóð sem ber titilinn:  ,,Úr munnmælasögunni ,,Svei, svei, Subbalín"" 

Munnmælasagan sem ljóð Lilju byggir á er nokkurn veginn svona: 

Stúlkur dyfu stundum þurrku ofan í mjólkurlögg og lauguðu andlitið úr henni. Það átti að gefa fallega húð. Sögn er um það að hulumaður (svo) hafi viljað ná ástum mennskrar stúlku, svo hún var komin rétt í vandræði með að verjast ásókn hans. Henni hugkvæmdist þá að þvo sér um hendur upp úr mjólk í návist hans. Hulumaðurinn varð ókvæða við, því álfar eru sagðir hreinlátir, og sagði: Svei þér aftan subbalín, aldrei skaltu verða mín.

 

Ljóð Lilju er öllu raunsannara en munnmælasagan því þar kemur huldumaður hvergi við sögu. Pilturinn sem kemur í hans stað er hins vegar jafn ágengur, og stúlkan lendir í vanda því hún hefur minnst um það að segja hverjum hún giftist. Blessunarlega er sveinninn afar óhress með sóðaskapinn og verður mjög fráhverfur henni:

 

Úr munnmælasögunni ,,Svei, svei, Subbalín"
 
Við mjaltir á kvíunum mærin var ein,
- en mjög var þá algeng sú vinna. -
Að réttinni stefna hún sá þá einn svein,
en sá þurfti hana að finna.
 
Á garðveggnum staðnæmdist gesturinn sá,
hún grun í hans ákvörðun renndi;
en öðrum hún vildi þó ást sína ljá,
og eldlega sársaukinn brenndi.
 
Hún vissi', að það hreif hvorki bræði né bón,
ef biðill var foreldrum þekkur.
Þó mærinni byggi það margskonar tjón,
í mæðgir var tekinn sá rekkur.
 
Og djarflegt var ráðið, sem drósin tók sú,
- því draumunum ógnaði voði. -
Úr mjólkinni allri svo mætavel nú
hún ,,mjöltina" af höndum sér þvoði.
 
,,Ei þvílíkan ófögnuð þekkti' eða sá,
að þvo burtu mjöltina svona!
Ó, vei þeir nú, Subbalín, vita skalt þá
að verður þú aldrei mín kona!"

 

Lilja andaðist á Hrafnistu 20. september árið 1971 en hún lifir enn í ljóðum sínum, sem vert er að halda á lofti.

 

Heimildir

Brandur. (1962, 30. október). ,,Stakan bjargaði mér". Alþýðublaðið. https://timarit.is/page/2254210?iabr=on#page/n7/mode/2up

Lilja Björnsdóttir frá Þingeyri. (1948). Vökudraumar - ljóð. Reykjavík.  

Sarpur: Menningarsögulegt gagnasafn. (E.d.). Að koma mjólk í mat. https://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=539473

 

 

Tengt efni