SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn 7. október 2018

FANTASÍA OG KARNIVAL Í SAGNAHEIMI SVÖVU JAKOBSDÓTTUR

GREIN EFTIR SIGRÍÐI ALBERTSDÓTTIR

 

Í grein sinni „Reynsla og raunveruleiki“ sem birtist í bókinni Konur skrifa til heiðurs Önnu Sigurðardóttur fjallar Svava Jakobsdóttir m.a. um það hvernig unnt sé að gera innri reynslu raunverulega í skáldskap. Hún lýsir líðan sinni þegar hún stóð frammi fyrir þeirri ákvörðun að gerast rithöfundur og hvaða hindranir hún þurfti að yfirstíga. Hún segist fljótlega hafa gert sér grein fyrir því að sem kvenrithöfundur skorti hana þá lífsreynslu sem bókmenntir eru smíðaðar úr. Einnig talar hún um að henni hefði ekki fundist hún hafa reynt neitt sem hæfði í skáldskap og segir í framhaldi af því:

 

En um leið var ég jafnsannfærð um það, að ætti ég að ná lágmarksárangrií listsköpun, yrði ég að fylgja þeirri  frumskyldu að vera trú sjálfri mér og minni eigin reynslu – eða í fáum orðum sagt – ég yrði að skrifa um það
sem ég þekkti.1

 

Eftir að Svava hafði beitt aðferðum sálfræðilegs raunsæis í skrifum sínum segist hún hafa fundið æ meira fyrir takmörkunum þeirrar frásagnaraðferðar því hún vildi láta innri reynslu kvenna koma upp á yfirborðið. Hún taldi ekki nægilegt að sýna að konur ættu sér sérstakt innra líf heldur vildi hún láta lesandann standa andspænis þeirri reynslu, lýsa henni og taka afstöðu og því greip hún í æ ríkara mæli til fantastískrar frásagnaraðferðar. Með fantasíunni segist Svava geta fengið persónur sögunnar, svo og lesandann, til að bregðast við innri reynslu kvenna á raunhæfan hátt – „líkt og væri hún hlutlægur veruleiki“.2 Þetta gerir hún með því að tengja saman í einu og sama verkinu „lýsingu á innri veruleik kvenna í hlutlægu formi og raunsæja hversdagslýsingu á umhverfi þeirra (og okkar allra)“.3 Hún segir einnig:

 

Kannski er bókmenntaaðferð sem þannig er tilkomin nokkurs konar mótmæli eða ögrun við kvenlýsingar í bókmenntahefðinni. Við hina karlmannlegu bókmenntahefð segi ég: Gott og vel, ég skal ræða við ykkur á grundvelli hins hlutlæga raunsæis en með mínum skilyrðum – innra borðið skal snúa út.4

 

Ummæli Svövu má ekki túlka sem svo að frásagnarháttur fantasíunnar sé kvenlegur ritháttur og því eingöngu ætlaður konum. Hinsvegar má ljóst vera að fantasían er í jaðarstöðu, líkt og konan, og jafnframt í uppreisn við ríkjandi bókmenntahefð því hún leysir úr viðjum byltingarkennt tungumál og bælda orðræðu.

Í bókinni Fantasy: The Literature of Subversion bendir Rosemary Jackson á að ekki sé hægt að skilja fantasíuna án þess að skilgreina þjóðfélagið sem hún er sprottin úr. Hún segir að fantasían reyni að fylla í eyðu sem sé tilkomin vegna þeirra hafta sem mismunandi menningarheimar setji og að hún birti þrá eftir að finna á ný eitthvað sem við innst inni skynjum sem fjarveru og/eða missi. Að sögn Jacksons leitar fantasían uppi það óséða og ósagða í menningu okkar, allt sem hefur verið þaggað niður og/eða fjarlægt og einnig leitast hún við að grafa undan skrifuðum og óskrifuðum reglum samfélagsins og sýna okkur veruleikann í nýju og áður óþekktu ljósi.5 Í heimi fantasíunnar eru gjarnan óhugnanleg tákn sem í mörgum tilvikum vísa til þeirrar staðreyndar að tilraunir mannsins til að uppfylla þrá sína og skort eru fyrirfram vonlausar.

Ef litið er til sagna Svövu með þessa lýsingu Rosemary Jacksons í huga, má sjá að í mörgum þeirra ríkir þrá eftir samruna og jafnvægi. Því jafnvægi er hinsvegar aldrei náð því ævinlega er gjá á milli þess sem persónurnar þrá og þess sem þær upplifa. Sem dæmi má nefna sögurnar Krabbadýr, brúðkaup, andlát úr smásagnasafninu Veizla undir grjótvegg og Í draumi manns og Gefið hvort öðru … úr samnefndu smásagnasafni. Allar hverfast sögurnar um giftingu og mismunandi væntingar aðalpersónanna, sem allar eru konur, til þessa hátíðlega og merkilega viðburðar en í öllum tilvikum er ávinningur kvennanna enginn. Í stað gleði og fullnægju ástarinnar lokast þær inni í heimi hrörnunar, aflimunar og/eða dauða. Veröldin sem þær lifa og hrærast í tilheyrir ekki þeirra eigin sjálfi og myndmál sagnanna vísar til þess að vitund þeirra sé smátt og smátt að þurrkast út. Þær lifa ekki sjálfstæðu lífi, eru allar hluti af einhverju eða einhverjum öðrum og í giftingunni glata þær sjálfri sér til þessa annars. Í sögunum er krökkt af endurtekningum og innilokunar- og árásarmyndum sem staðfesta frelsissviptingu kvennanna. Hjónabandið er táknrænt fangelsi en konurnar gera sér ekki grein fyrir þeirri staðreynd fyrr en um seinan. Konan sem lokast inni Í draumi manns giftir sig í víðum marglitum serk sem er tákn þess frelsis sem hún hefur hingað til notið og hyggst njóta áfram:

 

Hún hafði sagt við unnusta sinn að hann væri tilvalinn brúðarkjóll. Sérstakur hvítur brúðarkjóll með blúndu gerði mann að manneskju sem maður hefði aldrei verið áður og þekkti ekki einu sinni sjálfur og það væri það minnsta, hafði hún sagt, að maður þekkti sjálfan sig á brúðkaupsdaginn.6

 

Frelsið snýst upp í andhverfu sína á brúðkaupsnóttina þegar maðurinn breytir serknum í hvítan, síðan brúðarkjól en um leið hlutgerir hann drauma sína og þær aldagömlu hugmyndir að í hjónabandinu verði konan eign mannsins: „Þá fyrst á ég þig, hvíslaði hann, þegar ég hef rifið utan af þér þennan hvíta hjúp. Þá ertu mín!“7 Hinn innri veruleiki er hlutgerður og það sem konan hefur í raun alltaf vitað en bælt innra með sér er sýnt á grófan og óhugnanlegan hátt. Skyndilega er hún stödd í framandi heimi, uppfullum af þunglamalegum húsgögnum huldum ryki: „Rykið virtist leita inn fremur en út og það fyllti herbergið og öll hennar skilningarvit uns henni fannst hún vera að kafna.“8 Hún getur ekkert farið og þó hún hafi eftir árás mannsins um nóttina falið hann lögreglunni á vald getur hún sig hvergi hreyft án hans íhlutunar. Hann hefur samsamað hana sínu eigin sjálfi, ekki aðeins með því að loka hana inni í herbergi með rimlum fyrir gluggunum heldur er hún einnig fangi í hugskoti hans:

 

Þegar hann réðst á hana og reif utan af henni silki, blúndur og slör, fór hún að æpa. Það var engu líkara en hann væri að rífa af henni húðina. Innsta kvika tilveru hennar stóð opin og óvarin svo jafnvel andrúmsloftið nísti hana eins og svipuhögg og hún veinaði af sársauka. En sárast veinaði hún undan augnatilliti hans sem endurspeglaði í sífellu nýja mynd af henni ýmist í blíðu, losta eða grimmd og hún var ofurseld þessum ókunnu konumyndum sem hún sá í augum hans og hafði sjálf ekki lengur vald á því hver hún var.9

 

Tilraunir konunnar til að komast frá manninum reynast tilgangslausar: „Hún var læst inni í draumaheimi hans og hann einn gat hleypt henni út.“10

Í sögunum Gefið hvort öðru … og Krabbadýr, brúðkaup, andlát eru konurnar búnar undir þennan „óhugnanlega“ atburð – brúðkaupið. Þær vita að það felur í sér afmáun sjálfsins og sú vissa er m.a. hlutgerð í afhöggnu hendinni sem konan í Gefið hvort öðru … færir manni sínum á brúðkaupsdaginn:

 

Nú voru síðustu forvöð að taka til hendi. Enn einu sinni renndi hún augum yfir snyrtiborðið til að fullvissa sig um að allt væri til reiðu. Á öðrum borðsendanum stóð hreint handklæði, skál með vatni, baðmullarhnoðrar í krukku og stór uppvafin lengja af sáratrafi. Á hinn borðsendann hafði hún breitt plastdúk til að verja plötuna skemmdum. Hún opnaði efstu skúffuna í snyrtiborðinu og tók þaðan öxi. Öxina bar hún upp að birtunni og íhugul á svip renndi hún fingri yfir eggina. Síðan lagði hún aðra hönd á plastdúkinn, með hinni hóf hún öxina á loft, miðaði, og með snöggu átaki hjó hún af sér höndina.11

 

Það að gefa hönd sína er tekið bókstaflega og unga konan mætir til kirkju með stúfinn. Þegar hún réttir tilvonandi eiginmanni snyrtilega, afhöggvinn liminn hrekkur maðurinn í kút og neitar að taka við þessari óvæntu gjöf. Neitun mannsins veldur stúlkunni undrun og óróa: „Hafði hann ekki sjálfur beðið um hana?“12 „Hvernig var hægt að gefa hönd án þess fylgdi stúfur?“13 Líkt og í sögunni Í draumi manns vill maðurinn konuna heila og óskipta en táknheimur sögunnar vísar alfarið til þess að slíkt er óhugsandi nema svo „skemmtilega“ vilji til að karlmönnunum takist að loka konur sínar inni eða afmá vitund þeirra og vilja. En það er einmitt vilji kvennanna sjálfra sem verður undan að láta þó á ólíkan hátt sé. Í Draumi manns verður konan tvöfaldri innilokun að bráð, innilokun í húsi og vitund eiginmannsins og þar með er hún ekki lengur frjáls.Í Gefið hvort öðru … grípur unga konan til þess örþrifaráðs að æða til gervilimasmiðs sem án tafar smellir á hana nýrri hönd. Þar með tekst henni að blekkja manninn sem glaður í bragði tekur á móti henni við altarið, heilli að nýju. Lesandi veit að konan gefur sig þó ekki heila og óskipta því til að eiginmaðurinn taki við henni þarf hún að sýnast, blekkja og afvegaleiða. Þannig sundrar hjónabandið um leið og það sameinar: Það sameinar konuna manninum en sundrar henni frá sjálfri sér og máir út vitund hennar og vilja.

Í Draumi manns og Gefið hvort öðru … er meginþemað gifting sem jafngildir frelsissviptingu en í sögunni Krabbadýr, brúðkaup, andlát gengur Svava enn lengra og lætur þemað hverfast um giftingu sem jafngildir andláti en það fellur vel að staðhæfingu Rosemary Jacksons um að fantasían afhjúpi þrá sem aldrei verður uppfyllt.

Í upphafi sögunnar er stúlkan að undirbúa sig undir brúðkaupið en frá fimm ára aldrei hefur hún vitað að á brúðkaupsdaginn mun hún deyja. Á skipulegan hátt hefur hún einsett sér að lesa allar bækur heimsins áður en hún deyr og á brúðkaupsdaginn situr hún við lestur á síðustu bókinni sem hún hefur heitið sjálfri sér að ljúka áður en hún gengur fram fyrir altarið. Þetta er sagan af litla krabbadýrinu sem buslar í sjónum og heldur að það sé að gera eitthvert gagn. Sú saga er endurtekin a.m.k. tvisar og það veldur stúlkunni óróa. Það er sama hve mikið hún reynir, henni tekst ekki að ljúka sögunni af litla krabbadýrinu því smávera þessi er tákn fyrir hefðina – allar þær fjölmörgu konur sem sitja heima og gæta bús og barna á meðan karlmennirnir eru á ferð og flugi að færa björg í bú:

 

Þetta litla krabbadýr var yngst og heldur lítilfjörlegt að vexti og kröftum; þess vegna vildu krabbasystkinin ekki hafa það með í leikjum sínum. Þau áttu lítið fley og fagrar árar eins og þau höfðu stundum séð á yfirborði sjávar og svo reru þau út á hverjum morgni til að leggja undir sig sjóinn. Og á hverjum morgni sögðu þau litla krabbadýrinu að þau kæmust ekki áfram nema það yrði eftir heima til að hreyfa sjóinn og litla krabbadýrið trúði þessu af því að það vissi ekkert um sjávarstrauma. Þess vegna lá það alla daga endilangt á sjávarbotni og baðaði út öngunum. Og alveg innst inn í sína litlu krabbasál fann það til gleði yfir því hvernig vatnið sem þrýstist undan limum þess varð að þungum straumum og ólgandi rismiklum öldum sem sprungu í hvíta froðu lengst uppi á yfirborði, berandi fram ótal fögur fley …14

 

Saga litla krabbadýrsins endurspeglar sögu konunnar en munurinn er sá að hún gerir sér grein fyrir tilgangsleysi þessa lífs en krabbadýrið ekki. Á meðan hún reynir að klóra sig fram úr og komast til botns í sögunni er tilvonandi eiginmaður hennar á þönum. Hann sér um byggingarframkvæmdir húss sem rís á einum degi, kaupir húsgögn o.fl. og er svo önnum kafinn að hann má ekki einu sinni vera að því að skipta um föt fyrir brúðkaupið. En konunni vinnst ekkert, hún fyllist einungis spennu og óþoli yfir þessari eilífu endurtekningu í lífi krabbadýrsins og verður þegar yfir lýkur að sætta sig við að sagan tekur engan enda: Framhaldið felur einungis í sér enn fleiri endurtekningar. Líkt og maður sem villist í þoku og gengur sífellt fram á sömu kennileitin villist hún í þoku hefðarinnar og deyr. Hún hnígur niður fyrir framan altarið og gefur upp öndina í hjónarúmi á marmarasökkli með níutíu og níu ára ábyrgð!15

Endurtekningin í sögunni hefur óhugnanleg áhrif. Hún leggur áherslu á varnarleysi manneskjunnar í heimi þar sem hún hefur ekkert að segja, getur engu breytt og engin áhrif haft. Ekki er aðeins um endurtekningar að ræða innan þessarar tilteknu sögu heldur endurtaka þær sögur sem hér hefur verið fjallað um hver aðra: Það er sama til hvaða ráða konurnar grípa, í brúðkaupinu fjarlægjast konurnar þrá sína enn frekar og tapa sjálfstæðum vilja, lífi eða limum.

 

Gróteska og karnival

Í fantastískum bókmenntum ríkir gjarnan mikill óhugnaður, öngþveiti og örvænting, eins og hér hefur verið bent á, en einnig gróteskur húmor sem er eitt sterkasta höfundareinkenni Svövu Jakobsdóttur. Gróteski hláturinn á rætur að rekja til menippískrar satíru en á þau tengsl hefur rússneski fræðimaðurinn Mikhael Bakhtin m.a. bent í bók sinni Problems of Dostoevsky‘s Poetics.

Hugtakið menippísk satíra er kennd við heimspekinginn Menippos frá Gadara sem var uppi á 3. öld fyrir Krist. Í menippíunni er krafan um sögulegt raunsæi eða sennileika sniðgengin og í menippískum verkum eru skilin milli þessa heims og annarra óljós eða engin. Fortíð, nútíð og framtíð er blandað saman og samræður við dauðar sálir eru algengur og eðlilegur tjáskiptaháttur.[16] Ofskynjanir, draumar, geðveiki, sérkennileg hegðun, undarleg orðræða, líkamleg hamskipti og afbrigðilegar aðstæður eru viðmiðun verka af þessu tagi og farið er yfir öll mörk þar sem glæpir, erótík, geðveiki og dauði er meðhöndlað óttalaust. Menippíuna tengir Bakthin við hugmyndina um karnivalið en það var opinber athöfn sem allir tóku þátt í. Götur borga og bæja fylltust af kátu og hlæjandi fólki íklæddu búningum og þá fáu daga sem karnivalið stóð yfir nýtti fólk til að snúa á veruleikann og venjubundnar athafnir hversdagslífsins. Þar sem karnivalískt líf er líf slitið úr hversdagslegu samhengi þá er það skv. Bakhtin líf sem hann kýs að kalla lífið öfugsnúið – „live turned inside out“17 en þessi skilgreining rímar einmitt við áðurnefnda kröfu Svövu Jakobsdóttur um að „innra borðið skuli snúa út“.

Í karnivalinu eru allir jafnir, þar fara saman í hópi trúaðir og guðleysingjar, háir sem lágir, greindir og heimskir. Hugmyndafræði karnivalsins gengur út á tvíræðni og stöðugar breytingar í formi fæðingar og dauða, blessunar og bölvunar, upphafningar og niðurlægingar, æsku og elli. Öllum venjubundnum athöfnum er viðsnúið, fólk fer í fötin sín úthverf og skylmist með eldhúshnífum svo dæmi séu tekin en þetta eru svokallaðar karnivalískar kenjar, röskun á vana og almennt viðurkenndu atferli. Annað sterkt einkenni á karnivalmenningunni er hinn gróteski hlátur sem tengist elstu formum helgisiðareglna. Hlátrinum er beint gegn veraldlegum valdhöfum en þeir voru spottaðir og hæddir í þeim tilgangi að fá þá til að hugsa sinn gang, endurnýjast og/eða breytast. Gróteski hláturinn var einungs leyfður á karnivalinu en í gegnum hann var ýmislegt leyft sem annars var óleyfilegt eða refsivert og þannig er gróteskur hlátur í senn frelsandi og niðurrífandi.18 Í bók sinni Rabelais and His World talar Bakhtin m.a. um að eitt af markmiðum gróteskunnar sé að afmá þann ójöfuð sem ríkir í lagskiptu þjóðfélagi en allar viðteknar umgengnisvenjur sem tengjast stöðu fólks eða hugmyndum eru dregnar niður á jarðneskt plan þar sem allir eru jafnir.

Sammannlegt er að hafa líkama og finna til og því ríkir í gróteskunni mikill áhugi á hvers konar líkamsstarfsemi svo sem áti, drykkju og meltingu. Allt er ýkt og afbakað og auganu gjarnan beint að tilteknum líkamshlutum. Ýmist eru þeir stækkaðir óeðlilega mikið svo þeir yfirgnæfa persónuna sjálfa eða skornir burtu, sundurrifnir eða brotnir. Í gróteskum lýsingum er gjarnan lögð áhersla á heim þar sem ekkert er öruggt og til að yfirbuga óttann og óvissuna hlæja menn, hæðast að og gera lítið úr sjálfum sér og öðrum og má því segja að með gróteskum lýsingum skori írónían hvikulleika lífsins á hólm.19

Í frásögnum sem nýta sér anda karnivalsins eru persónurnar ávallt á mörkum lífs og dauða, sannleika og lygi, heilbrigði eða geðveiki. Þær eru staðsettar í óvenjulegum heimi þar sem eitthvað skelfilegt eða undarlegt getur dunið yfir hvenær sem er. Tíminn er afstæður og athyglin beinist að miðpunkti karnivalsins – „markaðstorginu“ þar sem allir mætast. Torgið getur verið torg í bókstaflegri merkingu þess orðs en það getur jafnfram vísað til einhvers staðar innan húss þar sem „skandall“ eða „katastófa“ á sér stað. Vendipunktar slíkra sagna eiga sér gjarnan stað í dyragættum eða anddyri, göngum, stigum eða húsagörðum en staðir þessir vísa jafnframt til jaðarstöðu persónanna. Bakhtin segir að á slíkum stöðum breytist gjarnan örlög persónanna eða líf þeirra taki óvænta stefnu. Manneskjan tekur afdrifaríka ákvörðun og stígur yfir forboðna línu með þeim afleiðingum að hún ýmist „endurholdgast“ eða „glatast“.20

 

Á torginu

Í sögum Svövu Jakobsdóttur má finna mörg fantastísk tákn sem kenna má við karnivalið og má í því samhengi benda á gróteskar lýsingar Svövu á fólki og umhverfi. Slíkar lýsingar eru mjög áberandi í sögunum Gefið hvort öðru …, Krabbadýr, brúðkaup, andlát og Í draumi manns en þar er einnig að finna dæmigerðar myndir í anda þeirrar kröfu Svövu að „innra borðið skuli snúa út“. Í Gefið hvort öðru … er það tekið bókstaflega að gefa hönd. Hefðbundnum raunsæislýsingum af brúðkaupi er snúið við og athöfnin er gerð fáránleg og hlægileg. Allt fer á annan endann í kirkjunni og „andlit prestsins markaðist af þjáningu: hvergi í helgisiðabókinni var gert ráð fyrir slíkum atburði, ekki einu sinni þó lesið væri milli lína“.21 Í Krabbadýr, brúðkaup, andláti felur brúðkaupið í sér dauða í víðasta skilningi þess orðs og Í draumi manns læsist konan á táknrænan hátt inni í hugarheimi manns síns á brúðkaupsnóttina. Það sem konan hafði þráð af heilum hug umbreytist í martröð og blekkingu:

 

Hann … sogaði hana til sín inn í draum sinn um snyrtiborð með smyrslum og ilmvatni uns mynd hennar í litla veggspeglinum leystist upp í móðu og mynd þeirra beggja birtist í þessum stóra spegli í gyllta útflúraða rammanum á snyrtiborði í Loðvíks 14. stíl með upphleyptu ljónsfótunum og upp af borðinu steig höfugur ilmur dýrra smyrsla. Hún rauk upp skelkuð. Hvað hefurðu gert?22

 

Sá heimur sem eiginmaðurinn töfrar fram lýtur allt öðrum lögmálum en þeim sem ungu hjónin búa við. Draumur hans kollvarpar öllum hugmyndum um venjubundið líf, gerir það skrítið og neyðir konuna til að skilja og endurmeta lífið í ljósi nýrra staðreynda. Konan umbreytist í aðra konu og uppgötvar og sér í manni sínum allt annan mann en þann sem hún giftist fyrr um daginn og um leið er hún fangi og kemst ekki út: „Hún var læst inni í draumaheimi hans og hann einn gat hleypt henni út.“23 Það sem í huga konunnar átti að vera upphaf nýs og betra lífs hverfist í andstæðu sína, dauðann:

 

Ryk huldi smyrslabaukana og ilmvatnsglösin og smágerður grár köngulóarvefur var að breiðast yfir flöt spegilsins sem speglaði nú ekkert nema þennan óhugnanlega gráa blæ hrörnunar sem hvíldi yfir öllu í herberginu.24

 

Konan er umlukt gömlum hugmyndum og mýtum um stöðu konunnar og sér of seint að þessi rykfallna, draumórakennda veröld er ekki hennar veröld en þar er hún neydd til að dvelja þvert gegn vilja sínum. Hún vaknar til vitundar um nýtt líf sem felur í sér slæma, og í raun enga, möguleika fyrir hana.

Svipaðar hugleiðingar má greina í sögunni Kona með spegil, sem fyrst birtist í smásagnasafninu Veizla undir grjótvegg, en í þeirri sögu er karnivalstemningin allsráðandi. Á ytra borði fjallar sagan um konu sem hyggst í framhaldi af nýlokinni húsbyggingu þeirra hjóna læsa sig inni „því að þeir sem komnir voru í eigið húsnæði þar sem allir hlutir voru fullkomnir áttu ekki framar erindi út … Nema kannski eiginmenn og börn“.25 Í upphafi sögunnar bíður hún eftir að iðnaðarmenn setji upp spegil á ganginn en hann er síðasta framkvæmdin í því sköpunarferli konunnar að búa sér og sínum óaðfinnanlegan íverustað. Sér til mikillar gremju uppgötvar konan að spegillinn er of lítill: „Í honum birtist ekkert nema afskræming urtagarðs, afskorin lauf, hálfir blómknappar“.[26] Konan tekur spegilinn niður og leggur upp í ferð, staðráðin í að losa sig við þennan óskapnað sem sýnir aðeins heiminn að hluta. Á sama augnabliki og konan stígur út fyrir þröskuldinn á húsi sínu tekur sagan á sig karnivalískan blæ. Sú örlagaríka ákvörðun að yfirgefa öryggi heimilisins leiðir til þess að konan finnur sig í annarlegu og ókunnu umhverfi sem er henni svo framandi að hún þarf stöðugt að vera að kíkja í spegilinn til að sanna fyrir sjálfri sér að hún sé til:

 

Kannski var hún alls ekki þarna. Hún gáði í spegilinn. Vitleysa. Víst var hún til. Þarna sá hún sjálfa sig, að vísu ekki alveg heila. Spegillinn hallaðist og andlitið var að hálfu skorið af, en hún þekkti þó á sér nefið …27

 

En það er ekki einungis konan sem efast um eigin tilvist því fólkið sem hún mætir er jafn óvíst um tilveru sína og hún og freistast því til að spegla sig um leið og konan gengur hjá. Allt er með miklum endemum í borginni: Strætisvagninn sem konan tekur sér far með ferðast afturábak og farþegar vagnsins eru meira eða minna bæklaðir. Á einn vantar hönd, annar þarf „þriðja fótinn til að ganga á“,28 og stúlka sem við fyrstu sýn virðist fullkomlega heil og ólemstruð getur þegar allt kemur til alls snúið höfði sínu í marga hringi.

Lýsingar Svövu eru í hæsta máta gróteskar. Allir eru dregnir niður á sama plan þar sem enginn er öðrum meiri. Meira að segja bílstjórinn sem trónir yfir alla hina og nýtur þeirra forréttinda að ráða ferðum vagnsins er aflimaður:

 

Um leið og hann rétti henni miðann sá hún að hann vantaði fingur; stubbur af vísifingri vísaði beint á hana þótt hinir fingurnir héldu um miðann. Ekki þurfti mikla skarpskyggni til að sjá að aldrei grípi þessi fingur um stýri; það var eftir öðru í þessu bæjarfélagi að öryggi manns var komið undir fingri sem vantaði og guð mátti vita hvar var.29

 

Það er líkt og fólk finni ekki fyrir líkama sínum og sé vitundarlaust með öllu: „Andlitin voru tóm, svipbrigðalaus. Hvergi brá fyrir leiftri í auga, hvergi glampa af áhuga. Augun horfðu í gegnum hana; þau sáu hana alls ekki.“30 Það er líkt og fólk viti ekkert á hvaða leið það er eða hvaða hlutverki það gegnir í samfélaginu og allir fara út úr vagninum á sama stað – niður við torg:

 

Vagninn renndi inn á endastæði og stanzaði. Farþegar tóku að ryðjast út, haltir og skakkir og lemstraðir. Hún stóð í miðri þvögunni með spegilinn og vissi ekki gerla hvernig það atvikaðist að hún varð ein eftir í vagninum, síðust út þrátt fyrir heila limi.31

 

Í textanum birtist ákveðin uppreisn gegn valdi en líkt og Bakhtin bendir á þá rennur fólk saman í einn líkama á hinu karnivalíska torgi, þar fær enginn að skara fram úr. Á torgi Svövu Jakobsdóttur ríkir öngþveiti og upplausn og jafnvel lögreglan fær háðulega útreið hjá höfundi. Verðir laganna skera sig á engan hátt úr og virðast engu sérstöku hlutverki gegna öðru en því að aka heim konum sem eru á „flakkinu“. Því aka þeir konunni frá húsi til húss, himinlifandi yfir því að geta loksins orðið einhverjum að liði.32

Sagan Kona með spegil myndar nokkurs konar hringferli. Hún hefst á heimili konunnar og endar á sama stað. Í upphafi ríkir hlutlaust ástand, konan býr sig undir að loka sig af. Spegillinn ýtir hinsvegar við henni og fær hana til að endurskoða afstöðu sína en um leið og hún er komin út úr húsi, út fyrir hina forboðnu línu Bakhtins, verður nokkkurs konar vitundarvakning hjá sögukonu. Hún gerir sér grein fyrir að hún er „ … dæmd til endalausrar göngu með þennan spegil“[33] og á torginu, miðpunkti sögunnar, er henni endanlega ljóst að þar er enga hjálp að fá. Það er engin leið nema leiðin heim og hún veit ekki einu sinni hvar hún á heima því til þess „ … að forðast allan ágang samborgara sinna hafði hún varazt að leggja heimilisfang sitt á minnið“.[34] Lögreglan kemur henni að vísu til hjálpar, ekur henni heim, brýtur upp dyrnar og þiggur að endingu spegilinn að launum. En konan er engu bættari þótt henni hafi tekist upphaflegt ætlunarverk sitt, þ.e. að losna við spegilinn. Þar með hefur hún tapað því litla sem hún hafði því núna sér hún ekkert, ekki einu sinni nefbroddinn á sjálfri sér. Þó leiðin út sé opin er konunni horfin öll dáð því hún veit að samfélagið speglar einungis hennar eigið umkomuleysi.

Það karnivalíska andrúmsloft sem ríkir í Konu með spegil afhjúpar ófrelsi, höft og skerðingu og innra borðið sem hér snýr út birtir konu í leit að ásættanlegri sjálfsmynd. Um leið og konan lætur í ljós ósk um að vera lokuð inni að eilífu vinnur textinn gegn þeirri fullyrðingu. Ferðin út sýnir ákveðna andstöðu við áðurnefnda ósk. Konan getur ekki sætt sig við brenglaða ímynd sína og hefur leit sem felur um leið í sér draum um frelsi. Þegar yfir forboðnu línuna er stigið tekur hinsvegar við fullkomin ringulreið karnivalsins sem í þessu tilviki leiðir til glötunar eins og lokaorð sögunnar gefa glöggt til kynna:

 

Svo fann hún einkennilegan núning á hálsi og hún þreifaði fyrir sér: hálsinn var að styttast, þrýstist saman, var horfinn. Höfuðið sat á bolnum milliliðalaust og engin leið að snúa því hvorki til hægri né vinstri.35

 

TILVÍSANIR
[1] Svava Jakobsdóttir 1980:226. Sjá bls. 65.
[2] Sama rit:227.
[3] Sama rit:228.
[4] Sama rit: 228.
[5] Jackson 1981:91.
[6] Svava Jakobsdóttir1982:45.
[7] Sama rit:48.
[8] Sama rit:43.
[9] Sama rit:48.
[10] Sama rit:51.
[11] Sama rit:9-10.
[12] Sama rit:13.
[13] Sama rit:14.
[14] Svava Jakobsdóttir 1987:85.
[15] Sama rit:92.
[16] Sem dæmi um verk af slíku tagi má benda á Dauðar sálir eftir Gogol og Bobok eftir Dostojevskí.
[17] Bakhtin 1984a:122
[18] Sama rit:121-127.
[19] Bakhtin 1984b:217-319
[20] Bakhtin 1984a:149-150
[21] Svava Jakobsdóttir 1982:14.
[22] Sama rit:46-47.
[23] Sama rit:51.
[24] Sama rit:47.
[25] Svava Jakobsdóttir 1987:138.
[26] Sama rit:139.
[27] Sama rit:141-142.
[28] Sama rit:140.
[29] Sama rit:140.
[30] Sama rit:141.
[31] Sama rit:144.
[32] Sama rit:146.
[33] Sama rit:145.
[34] Sama rit:146.
[35] Sama rit:148.
 
HEIMILDASKRÁ
Bakhtin, Mikael. 1984a. Problems of Dostoevsky's Poetics. Manchester University Press.
Bakhtin, Mikael. 1984b. Rabelais and His World. Indiana University Press.
Jackson, Rosemary. 1981. Fantasy, The Literature of Subversion. Methuen, London and New York.
Svava Jakobsdóttir. 1987. Smásögur. Tólf konur og Veisla undir grjótvegg. Vaka-Helgafell, Reykjavík.
Svava Jakobsdóttir. 1982. Gefið hvort öðru ... . Iðunn, Reykjavík.
Svava Jakobsdóttir. 1980. "Reynsla og raunveruleiki". Konur skrifa til heiðurs Önnu Sigurðardóttur. Sögufélag, Reykjavík.

 

 

Tengt efni