SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Magnea Þuríður Ingvarsdóttir 8. apríl 2025

Rósamál

Í ljóðabók sinni Rósamál fjallar Steinunn P. Hafstað um lífið og tilveruna. Glímuna við það að vera mannvera. Ljóðin eru rík af lífsvisku og dýpt eins og segir á bókarkápu.

Hvatning
 
Trausti vinur,
taktu til kosta
hest sem þér líkar
og lætur að stjórn.
 
Þá muntu finna
frið í hjarta
sem opnar þér sýn
inn á ófarinn veg
 
og fegurð sem brýst
úr brjósti fram,
lífstaktinn fangar
í faðmsins angan
 
og ástarljóð
 
Dansinn
 
Á grænu fjalli sköpunnar,
þar sem ekkert skyggir á birtu
og sterka lífsorku sólarinnar,
stígum við tvö
listrænan dans
undir regnboganum
 
og náttúran
 
Vetur
 
Í dag
reyndi ég
að létta á greinum trésins
sem ég ann svo mjög
 
má ekki til þess hugsa
að þær kikni 
undan þunganum.
 
Þegar ég snerti þær
fór um þær hríslan
 
eins og það væri að hlæja
að vitleysunni í mér.
 
 
Rósamál
 
Staulast áfram,
með staf í hendi,
getur ei lengur
leynt fötlun sinni.
Má sig vart hræra,
hástöfum hljóðar,
reiðin er orðin
rýtingi líkust

Ljóðið Rósamál sem eru allt 14 erindi tileinkar hún móður sinni, sem og allri bókinni en móðir höfundar lést snemma árs árið 2008, sama ár og bókin kom út. 

Forvitnilegur höfundur hér á ferð sem lítið hefur farið fyrir.

https://skald.is/skaldatal/562-steinunn-p-hafstad

Kveðja Magnea